Hús dagsins: Holtagata 7

Við Holtagötu standa alls 12 hús, og eru 7 þeirra PA090827byggð eftir teikningum Stefáns Reykjalín. Þar á meðal hús nr. 7 sem Stefán teiknaði og byggði árið 1940 og bjó alla tíð síðan ásamt fjölskyldu sinni. Stefán fékk haustið 1939 lóð nr. 7 við Holtagötu ásamt byggingarleyfi sem hljóðaði uppá steinsteypt íbúðarhús á einni hæð á kjallara undir þriðjungi húss og með „höllu“ þaki. Stærð hússins 8,3x11,6m. Holtagata 7 er einlyft steinsteypuhús með háu risi og á lágum kjallara. Norðurhluti hússins, sem skagar eilítið fram fyrir framhlið er með stafn (eða burst) í austur-vestur en suðurhluti hússins er stafn til suðurs. Í kverkinni á milli álma eru inngöngudyr og tröppur upp að þeim að götu. Þá er bíslag á norðurhlið auk kvists, en á framhlið er einnig kvistur með hallandi á miðri þekju og tveir kvistir á bakhlið, annar þeirra svalakvistur. Bárujárn er á þaki hússins, gróf múrhúð á veggjum og lóðréttir póstar í gluggum og horngluggar til suðurs.  Í upphafi var húsið með flötu þaki; eða einhalla aflíðandi þaki undir háum kanti. Mörg funkishús höfðu eilítinn þakhalla en kant sem náði upp fyrir þekju þannig að þakið leit út fyrir að vera flatt. Flöt þök funkisstefnunnar fara nefnilega ekkert sérstaklega vel saman við íslenska vetur. Á bls. 130 í Húsakönnun 2015 (sjá tengil í heimildaskrá) má sjá húsið eins og það leit út fyrir breytingu. En það var árið 1952 sem Stefán byggði rishæð á húsið, vitaskuld eftir eigin teikningum og fékk húsið þá núverandi útlit. 

Stefán Reykjalín byggingameistari var fæddur árið 1913, lauk stúdentsprófi frá MA árið 1938 og öðlaðist meistararéttindi í húsasmíði 1943. Hann hafði þó fengist við þá iðn frá unga aldri, undir handleiðslu föður síns, Guðmundar Ólafssonar. Guðmundur var einnig byggingameistari, byggði m.a. Brekkugötu 29 árið 1926  stýrði m.a. smíði Samkomuhússins við Hafnarstræti 57 ásamt Guðbirni Björnssyni árið 1906. Þá má nefna Munkaþverárstræti 44 sem Guðmundur byggði en Stefán teiknaði árið 1943. Fyrstu húsateikningar Stefáns eru dagsettar um tveimur mánuðum fyrir tvítugsafmæli hans eða 11. ágúst 1933. Þar var um að ræða Klapparstíg 3 sem þeir Jón Ingimarsson og Aðalstein Tryggvason reistu. Stefán Reykjalín starfaði alla tíð við húsasmíðar og mun hafa byggt á annað hundrað raðhúsaíbúðir á starfsferlinum og segir Ingi R. Helgason í minningargrein í Morgunblaðinu (150. Tbl. 25. nóv 1990: C25)  [...]skilaði Stefán vel fullu ævistarfi sem húsasmiður á Akureyri með þeim hætti, að sum reisulegustu húsin, sem þann bæ prýða, eru handaverkin hans, sem og fjöldi íbúðarhúsa.  Stefán fékkst auk þess við ýmis félags- og embættisstörf, var m.a. bæjarfulltrúi Framsóknar um tveggja áratuga skeið. Eiginkona Stefáns var Guðbjörg Bjarnadóttir frá Leifsstöðum í Kaupangssveit. Sem áður segir, bjuggu þau Stefán og Guðbjörg hér alla tíð eftir byggingu hússins, eða í um hálfa öld, en hún lést 1987 og hann 1990.

Viðbyggingar og breytingar á húsum segja oft merkilega sögu. Breytingasaga Holtagötu 7 er raunar ekki ósvipuð tveimur húsum við ofanverða Brekkugötu, þ.e. nr. 39 og 41 en þar er um að ræða hús sem reist voru með flötu þaki á snemma á 4. áratugnum og í upphafi þess fimmta en fengu rishæðir á þeim sjötta. Sá sem þetta ritar þykir þessi hús ekki ólík að þessu leyti, enda vill svo til, að Stefán Reykjalín teiknaði breytingar  beggja Brekkugötuhúsanna. Eru þessi hús raunar ekki svo óáþekk í útliti (á Brekkugötuhúsum er burstin reyndar fyrir miðju en á norðurenda á Holtagötu 7). Og Húsakönnun 2015 metur það sem svo að breytingin fari húsinu vel enda þótt það sé mikið breytt frá upphafi; „form og útlit góðu jafnvægi“ og fær húsið varðveislugildi 1. Húsið er í góðri hirðu; þegar höfundur var á ferð um Holtagötu með myndavélina þann 9. október 2018 stóðu einmitt yfir endurnýjun á þaki. Lóðin,sem skartar fjölbreyttu og gróskumiklu blóma- og runnabeði framan húss, er einnig í góðri og til mikillar prýði í umhverfinu. Ein íbúð er í húsinu.

P1100322  P1100323

Brekkugata 39 og 41 í janúar 2016. Líkt og Holtagata 7 eru þessi hús upprunalega funkishús með flötum þökum, en byggð á þau rishæðir um og upp úr miðri 20. öld. Stefán Reykjalín teiknaði breytingarnar á húsunum, á 39 í samvinnu við Sigurð Högurð.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 842, þ. 18. sept. 1939. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Holtagata 6

Holtagötu 6 reistu þau Guðrún Sigurðardóttir og PA090825Guðbjartur Snæbjörnsson skipstjóri árið 1942. Guðrún sótti um byggingarleyfi, f.h. Guðbjarts, en hann hafði áður fengið lóðina í september 1941. Húsið skyldi byggt úr steinsteypu, útveggir og þak klætt að inn með sementshúðuðu timbri, og húsið að stærð 8x8m. Leyfisveitingu var hins vegar frestað af hálfu byggingarnefndar vegna áforma um íbúð í niðurgröfnum kjallara. En um vorið 1942 sótti hönnuður hússins, Stefán Reykjaklín um að breyta húsinu, þ.e. að reist yrði útbygging til norðurs 1,5x4,9m. Nefnd minnti þá á frestun byggingarleyfis frá haustinu áður...en 77 árum síðar stendur Holtagata 6 með glæsibrag. Margir hafa átt hér á þeim 77 árum. Guðbjartur og Guðrún bjuggu  hér  til æviloka, hann lést 1967 en hún 1984. Guðbjartur Snæbjörnsson var um áraraðir skipstjóri á hinum valinkunna flóabáti Drangi sem sigldi m.a. út með Eyjafirði til Hríseyjar og Grímseyjar.

Holtagata 6 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki, lóðréttum póstum í gluggum og bárujárni á þaki og grófri múrhúð á veggjum. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs, og á norðurhlið er forstofuálma með steyptum tröppum að götu, að inngangi efri hæðar. Á suðurhlið eru miklar svalir úr timbri sem standa á stólpum. Þær eru seinni tíma viðbót við húsið, ásamt núverandi valmaþaki með háum kanti, en að öðru leyti mun húsið lítið breytt frá upphafi að ytra byrði.  Í Húsakönnun 2015 fær húsið varðveislugildi 1, eða 1-, mínusinn vegna „óviðeigandi þakkants“ svo sem þar segir (Ak. bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 129). En hvað sem því líður er Holtagata 6 stórglæsilegt og vel hirt hús og til prýði í skemmtilegri götumynd. Lóðin er einnig vel hirt og gróskumikil, þar er m.a. stæðilegt grenitré suðaustan við húsið. Ein íbúð mun í húsinu. Myndin er tekin þann 9. október 2018.   

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 885, þ. 19. sept. 1941. Fundur nr. 911, 22. maí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Holtagata 5

Holtagötu 5 reisti Snorri Pálsson múrarameistari eftir teikningum Stefáns Reykjalín PA090824árið 1939. Hann fékk lóð við vestanverða Holtagötu, aðra lóð norðan við hús Hauks Stefánssonar (þ.e. Holtagötu 1). Snorra var leyft að byggja húsið eftir framlögðum teikningum en var leyfið háð nokkrum skilyrðum þ.á.m. að „reykháfseftirlíking“ yrði felld burt og smávægilegar útlitsbreytingar yrðu gerðar í samráði við byggingarfulltrúa. Húsið er, einlyft steinsteypuhús með aflíðandi einhalla þaki undir háum þakkanti, stölluðum á hliðum. Að framan eða austan er útskot og inngangur í kverkinni á milli og einnig er lágt útskot, geymsla að norðan.  Suðvestan á húsinu er bogadregið útskot og tröppur að inngangi einnig bogadregnar. Einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í gluggum og bárujárn á þaki. Húsið er sagt „sérstakt funkis“ í Húsakönnun 2015 og má það sem sannarlega má  segja nokkuð sérstakt fyrir funkishús er hið mikla og áberandi skraut sem einkennir húsið. Ber þar helst að nefna steinhlaðinn turn á framhlið, sem er væntanlega reykháfseftirlíkingin sem Byggingarnefnd vildi burt, steinhleðslumunstur á bogadregnu útskotinu og steypt bönd ofarlega á sömu hlið.

Snorri Pálsson  sem byggði húsið, var fæddur árið 1904 á Staðarhóli í Eyjafirði (nánar tiltekið Öngulsstaðahreppi, nú Eyjafjarðarsveit) Hann bjó ekki mörg ár á Holtagötu 5, en haustið 1944 auglýsir hann húsið til sölu. Kona Snorra var Hólmfríður Ásbjarnardóttir frá Litla Hóli í Eyjafirði. Þau fluttust síðar, eða 1953, til New York þar sem Snorri vann við iðn sína. Þannig eru eflaust þó nokkur hús vestan hafs sem Snorri Pálsson hefur komið að.  Snorri lést á Akureyri árið 1983.  Ýmsir hafa búið í húsinu á eftir Snorra og Hólmfríði en húsið mun alla tíð hafa verið einbýlishús.

Holtagata 5 er í einstaklega góðri hirðu og mun nýlega hafa hlotið endurbætur. Húsið er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Það er sérlega skrautlegt og glæst og setur hleðslan, steyptu skrautlínurnar og falski skorsteinninn sérstæðan og einstakan svip á húsið. Í Húsakönnun 2015  er húsið einmitt sagt „mjög sérstakt funkishús með bogaformi, skrautlínum og hleðsluformi í múrnum“ (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 128) og hlýtur fyrir vikið + „í kladdann“ ásamt varðveislugildi 1. Lóðin er einnig vel hirt og aðlaðandi, hún er að hluta á klöpp sem aftur kallast skemmtilega á við húsið sjálft og steyptan vegg á lóðarmörkum. Hlaðin varða undir fánastöng á klöppinni sunnan við húsið er einnig til prýði. Holtagata 5 og lóðin í kring er svo sannarlega til mikillar prýði í umhverfinu og að áliti undirritaðs ein af helstu perlum Ytri Brekkunnar. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018.

 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 829, þ. 21. febr. 1939. Fundur nr. 832, 18. apríl 1939. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Holtagata 4

Á meðal þess sem Bygginarnefnd Akureyrar tók fyrir á síðasta fundi sínum PA090823á árinu 1941, 29. des., var að úthluta Stefáni Reykjalín lóðina Holtagötu 4. Hálfu ári síðar, eða 3. júlí 1942 tók nefndin fyrir afsal Stefáns á lóðinni til Björns Guðmundssonar. Birni var jafnframt veitt leyfi til að reisa hús, eftir teikningum Stefáns, á lóðinni; húsið á einni hæð á lágum kjallara og með valmaþaki, byggt úr steinsteypu og með steinlofti yfir kjallara. Stærð hússins 9,3x7,8m auk útskots, 4,0x1,0m að vestan. Húsið hefur væntanlega verið risið árið 1943, en það er a.m.k. skráð byggingarár þess.

Holtagata 4 er steinhús, einlyft á háum kjallara og með valmaþaki. Hluti framhliðar skagar fram og í kverkinni er bogadregið útskot; anddyri og steyptar tröppur upp að því. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum og horngluggar í anda funkisstefnunnar til suðurs, en sexrúðugluggar (franskir gluggar) á andyrisskála. Veggir eru múrhúðaðir og bárujárn á þaki. Anddyrisbyggingin er svo að segja nýleg, eða ríflega 20 ára gömul, byggð 1997 eftir teikningum Aðalsteins Viðars Júlíussonar.   

Björn Guðmundsson, heilbrigðisfulltrúi, sá er byggði húsið og kona hans, Ragnheiður Brynjólfsdóttir bjuggu hér bæði til æviloka, hann lést 1979 og hún 1993. Þannig bjó sama fjölskyldan hér í hálfa öld og líkast til hefur húsinu alla tíð verið vel við haldið. Húsið er að mestu leyti óbreytt frá upphafi að ytra byrði, að undanskilinni forstofubyggingu sem setur ákveðinn svip á húsið, sem er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í skemmtilegri götumynd Holtagötu. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 897, þ. 29. des. 1941. Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Holtagata 3

Árið 1941 fékk Jónas nokkur Hallgrímsson lóð og byggingarleyfi fyrir húsi byggðu úr r-steini, 10x9,25m að stærð, eina hæð með „höllu“ þaki með kjallara undir hálfu húsinu. PA090822Húsið er byggt eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar en hann hafði einmitt fengið lóðina snemma árs 1940 en samþykkti ári síðar að yfirfæra hana til Jónasar.

Holtagata 3 er einlyft steinhús með aflíðandi einhalla þaki. Á veggjum eru steníplötur og bárujárn á þaki en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Hluti framhliðar skagar eilítið fram og í kverkinni á milli eru inngöngudyr og hallandi skýlisþak yfir tröppum. Húsið er að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð, ekki hefur verið byggt við það, en árið 1990 var þaki breytt og húsið klætt svokölluð steníplötum. Þær breytingar voru gerðar eftir teikningum Birgis Ágústssonar.   

Jónas Hallgrímsson, sem heiðurinn á af byggingu Holtagötu 3, þekkja flestir betur sem Jónas H. Traustason, framkvæmdastjóra skipafgreiðslu ríkisins og Eimskipa um árabil. Jónas var frá Hóli í Svarfaðardal og svo vill til, að pistill þessi birtist á afmælisdegi hans, en hann var fæddur 11. mars 1915, látinn 1996) Kona Jónasar var Guðný Jakobsdóttir og bjuggu þau ásamt börnum sínum hér um árabil en byggðu síðar hús á Ásvegi 29, nokkuð ofar og norðar á Brekkunni. Margir hafa búið hér á eftir þeim Jónasi og Guðnýju, og mun húsið alla tíð hafa verið einbýlishús. Húsið er í mjög góðu standi og hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald. Lóðin er einnig gróin og vel hirt og á lóðarmörkum er upprunalegur steyptur veggur með járnavirki. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 847, 1. mars. 1940. Fundur nr. 869, 17. mars 1941. Fundur nr. 871, 18. apríl 1941. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Vetrardagar

Hér eru nokkrar myndir sem ég hef tekið á göngutúrum, löngum jafnt sem stuttum síðastliðna mánuði. 

Sunnudaginn 27. jan. brá ég mér upp í Naustaborgir sem segja má, að skilji að Hamrasvæðið og efstu byggðir Naustahverfis. Þessar sérlegu geðþekku klettaborgir undir Hamraklettum eru mikið unaðsland á sumrin með sinn gróður og fuglalíf. Og ekki eru Naustaborgirnar síðri á köldum janúardögum í 13°frosti. Hér er horft til suðurs yfir svokallaðan Naustaflóa. Fyrir miðri mynd má sjá klettana Arnarklett (ofan Kjarnaskógar) og Krossklett (ofan Hamra) og vinstra megin miðju sjást efstu brúnir Staðarbyggðarfjalls, sem ná hæst 1060 m y.s. (u.þ.b. hálf hæð Öræfajökuls)

P1270886

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svona lítur Kaldbakur (1167m) út gegn um aðdráttarlinsu frá Naustaborgum

P1270891

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

F.v.Súlutindur (Ytri Súla) sem er skv. ýmsum kortum nákvæmlega jafn hár Kaldbaki (1167m).Ysti og hæsti hluti Eyrarlandsháls, Hamrahaus og Háubrekkur eða Fagrahlíð séð efstu byggðum Naustahverfis, við hliðið að útivistarsvæðinu í Naustaborgum.

P1270882

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fálkafell má greina á myndinni að ofan sem örlitla þúst hægra megin á mynd (hægt að stækka mynd með því að smella á hana). Ég átti leið þangað fyrr í vetur eða 9. des. Þá var útlitið svona:

PC090854

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það getur orðið nokkuð snjóþungt þarna uppfrá...svona var það 10. febrúar sl.

 

P2100898

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

2.mars hafði hlánað...

P3020891

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er horft af flatanum sunnan Fálkafell til SA, framundan er Garðsárdalur og Öngulstaðaöxl en nær Lönguklettar eða Hamrahamrar.

P3020890

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er aldeilis engin hláka heldur er frostið um 10 stig, sunnudaginn 3. febrúar. Hrímþoka stígur upp úr Pollinum, myndin tekin skammt sunnan við Torfunef.

P2030881


Hús dagsins: Holtagata 2

Holtagata 2 er byggð 1938 og stendur á horni Holtagötu og Lögbergsgötu og raunar er aðkoman að húsinu við síðarnefndu götuna. Í september 1937 fékk Halldór Halldórsson f.h.PA090821 Byggingafélags Akureyrar lóðir fyrir hús félagsins, annars vegar þrjár lóðir við Fjólugötu á Oddeyri og hins vegar staka lóð á horninu norðan Lögbergsgötu og austan Holtagötu. Húsið á síðarnefnda staðnum skyldi vera steinsteypuhús, ein hæð með valmaþaki að stærð 6,6x8,6m + 7,2x7,2m (tvær álmur). Í janúar 1938 fengu þeir Jóhannes Jóhannesson og Jón Sigurjónsson lóð Byggingafélagsins, væntanlega með byggingarleyfi inniföldu þó ekki sé það tekið fram í bókun byggingarnefndar. Reistu þeir húsið og þann 14. maí 1938 fluttu þau Jón Sigurjónsson og Birna Finnsdóttir á Holtagötu 2. Í Manntali 1940 kemur fram, að í húsinu búi 12 manns, þ.e. fjölskyldur þeirra Jóns og Jóhannesar og einnig er tekið fram sérstaklega, að það sé vikurklætt að innan.  

Holtagata 2 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Austurhluti hússins skagar eilítið til suðurs frá þeim vestari og í kverkinni er inngöngudyr og svalir. Þar er aðkoma að húsinu, sem snýr að Lögbergsgötu. Á austurálmu er einnig útskot, viðbygging til austurs með inngöngudyrum og steyptum tröppum og þar eru svalir sem liggja í boga fyrir SA horn.  Í gluggum eru krosspóstar með opnanlegum neðri hornfögum og stórir gluggar til suðurs á viðbyggingu. Glugga af því tagi hefur sá sem þetta ritar kallað „stofuglugga“ einfaldlega vegna þess að gluggar af þeirri gerð eru oftar en ekki í stofum íbúðarhúsa. Veggir hússins eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki.

Jóhannes og kona hans Karolína Jósefsdóttir og þau Jón og Birna bjuggu um áratugaskeið í húsinu, Jón allt til dánardægurs árið 1986. Árið 1953 var byggt við húsið til austurs, álma jafn há húsinu stofa á efri hæð og geymsla (bílskúr) á þeirri neðri. Hönnuður að viðbyggingunni var , líkt og að húsinu í upphafi, Guðmundur Gunnarsson. Fellur enda viðbygging vel að upprunalegu húsi, svo sem segir í Húsakönnun 2015.  Margir hafa átt heima í húsinu um lengri eða skemmri tíma þau 80 ár sem það hefur staðið. Húsið er í sérlega góðri hirðu, þak og gluggar virðast t.d. nokkuð nýlegir. Húsið tekur sem hornhús þátt í götumyndum tveggja gatna og er til mikillar prýði í mikilli og heilsteyptri  torfu funkishúsa á Norðurbrekkunni. Í áðurnefndri Húsakönnun er húsið metið til varðveislugildis 1 og „sómir sér ágætlega við Lögbergsgötu“ (Ak. bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 125). Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin í haustblíðunni þann 9. okt. 2018.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 804, þ. 4. sept. 1937. Fundur nr. 810, 25. jan. 1938. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Manntal á Akureyri 1940.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2019
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 28
  • Sl. sólarhring: 29
  • Sl. viku: 601
  • Frá upphafi: 420854

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 489
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband