Hús dagsins: Lögbergsgata 9

Á fundi sínum þann 26. ágúst 1938 veitti PA090817Byggingarnefnd Akureyrar Bjarna Kristjánssyni efstu lóðina við sunnanverða Lögbergsgötu. Svo vildi til, að á sama fundi var einnig tekin fyrir umsókn Marinós L. Stefánssonar um sömu lóð en Bjarna veitt lóðin. Ekki er að sjá annað en að Bjarni hafði hreppt hnossið einfaldlega vegna þess, að erindi hans var tekið fyrr fyrir á fundinum; fyrstur kemur fyrstur fær. En í því samhengi má nefna, að svo vildi til, að Bjarni og Marinó höfðu skrifað umsóknarbréf sín sama dag, þ.e. 20. ágúst. En Bjarni fékk lóðina á þessum fundi ásamt byggingarleyfi (oftast fengu menn lóðirnar fyrst og svo gátu liðið vikur eða mánuðir þar til menn fengu byggingarleyfi). Bjarni fékk að byggja íbúðarhús, eina hæð á kjallara, 9x8,2m að grunnfleti, með flötu þaki, kjallari úr steinsteypu og þak úr timbri. Teikningarnar gerði Guðmundur Magnússon og var húsið fullbyggt 1939.

Lögbergsgata 9 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með flötu þaki. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru á þremur hornum, NV, SV og SA og á suðurhlið eru steyptar tröppur og inngöngudyr. Krosspóstar eru í gluggum, þakpappi á þaki og veggir múrsléttaðir.

Skömmu eftir byggingu hússins eða 1940 eignuðust húsið þau Jón Eðvarð Jónsson rakarameistari og Ingibjörg Sigurðardóttir og bjuggu þau þarna í rúma hálfa öld eða til æviloka. Hann lést 1993 en hún 1996. Húsið var einbýli í upphafi en síðar var innréttað íbúðarrými í kjallara. Húsið hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald en húsið er að mestu óbreytt frá upphafi og hefur varðveislugildi 1 skv. Húsakönnun 2015. Árið 1989 kviknaði í á neðri hæð hússins og varð þá töluvert tjón en allt var endurbyggt með glæsibrag.  Húsið er í mjög góðri hirðu og lítur vel út, gluggapóstar virðast t.d. nýlegir. Á lóðinni stendur einnig bílskúr, byggður árið 2005 eftir teikningum Haraldar Árnasonar.  Lóðin er einnig vel hirt og gróin, á lóðarmörkum er steyptur veggur með timburverki á milli stöpla. Ein

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 821, þ. 26. ágúst 1938. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Lögbergsgata 7

Árið 1945 fékk Skarphéðinn Ásgeirsson,  kenndur við Amaro, PA090818leyfi til að byggja steinhús með steinlofti og timburþaki, ein hæð á „ofanjarðarkjallara“, 11,55x8,8m auk útskots að vestan, 4,95x3,6m. Hann hafði fengið lóðina tveimur árum fyrr. Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín.

Lögbergsgata 7 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með háu valmaþaki með kvisti til vesturs. Á vesturhlið eru inngöngudyr, steyptar tröppur og svalir. Veggir eru múrhúðaðir, bárujárn á þaki og einfaldir póstar í gluggum. 

Skarphéðinn Ásgeirsson, sem reisti Lögbergsgötu 7 var einn af helstu máttarstólpum í verslunar- og iðnaðarsögu Akureyrar á 20. Öld. Hann var fæddur árið 1907 að Gautsstöðum á Svalbarðsströnd og hóf um 1930 framleiðslu leikfanga á Akureyri. Klæðagerðina Amaro stofnaði hann árið 1940, og árið 1947 fluttist hún hingað í Lögbergsgötu 7. Fyrirtækið Amaro óx og dafnaði og árin 1959-60 stóð Skarphéðinn fyrir byggingu eins stærsta verslunarhúss á Akureyri og líklega einni stærstu byggingu bæjarins á þeim tíma, Amaro-hússins í Hafnarstræti 99-101. Kona Skarphéðins var Laufey Tryggvadóttir frá Meyjarhóli á Svalbarðsströnd. Húsið er lítið breytt frá upphafi og er í mjög góðri hirðu. Lóðin er einnig gróin og vel hirt, og suðaustan megin á henni stendur garðskáli, byggður árið 1991, en teikningar að honum gerði Bergur Steingrímsson. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki, sem er í stíl við handrið á svölum. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018, en þann dag var ég á vappi með myndavélina um Hlíðargötu, Holtagötu og Lögbergsgötu. Fyrst ljósmyndaði ég hliðargöturnar og því næst Lögbergsgötu, ofan frá. En þegar ég átti aðeins tvö hús eftir „ómynduð“ varð rafhlaðan algjörlega hleðslulaus. Þannig að hús nr. 1 og 3 varð ég að ljósmynda síðar og það gerði ég í febrúar 2019.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 950, þ. 23. júlí 1943. Fundur nr. 1019, 1. júní 1945. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Gleðilegt sumar

Óska ykkur öllum gleðilegs sumars með þökkum veturinn cool.

Hér eru nokkrar svipmyndir frá Akureyri og Eyjafirði í dag; svona heilsaði sumarið, sól og blíðviðri, um 14° hiti og létt sunnangola.

P4250886

P4250889

 

P4250913 P4250896

P4250898

   


Hús dagsins: Lögbergsgata 5

Árið 1939 fékk Geir Þormar lóð við sunnanverða Lögbergsgötu, PA090819 þá næstu vestan við Gunnar Eiríksson [Lögbergsgata 3]. Þá fékk Geir einnig byggingarleyfi fyrir íbúðarhús úr steinsteypu, einni hæð á kjallara 7,5x8m, ekki fylgir frekari lýsing á húsinu. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Tómasson.

Lögbergsgata 5 er einlyft steinsteypuhús með lágu risi á háum kjallara, eða jarðhæð, eða byggt á pöllum, því svo virðist sem vestari hluti hússins standi eilítið hærra en sá eystri. Þannig er risið „mishátt“ þ.e. hærra og brattara austan megin. Á framhlið eru inngöngudyr og tröppur auk bílskúrsdyra, en kjallari vesturhluta er að hluta til innbyggður bílskúr. Á bakhlið eru svalir til suðurs. Lóðréttir póstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og veggir múrsléttaðir.

Í upphafi var Lögbergsgata 5 einfalt funkishús með flötu þaki, ekki ósvipað næsta húsi nr. 3. Árið 1961 var byggt við húsið eftir teikningum Guðlaugs Friðþjófssonar. Var þá byggt við húsið til vesturs, íbúðarrými á efri hæð og bílskúr á jarðhæð. Yfir öllu húsinu var risþak, brattara austan megin enda vesturhluti hærri. Segir í Húsakönnun 2015 að húsið hafi þá fengið „[...] módernískt yfirbragð í samræmi við húsatísku þess tíma“ (Ak. bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 148). Horngluggar funkisstefnunnar eru enn til staðar austan megin á húsinu. Ýmsir hafa átt húsið og búið í gegn um tíðina. Geir Guttormsson Þormar, sá er byggði húsið, var tréskurðarmeistari og kennari við Gagnfræðaskólann hér í bæ þar sem hann kenndi m.a. teikningu og „handavinnu pilta“. Hann lést árið 1951, aðeins 53 ára að aldri. Á 10. áratug 20. aldar hafði Kranaleiga Benedikts Leóssonar aðsetur í húsinu. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út og er til mikillar prýði í götumynd Lögbergsgötu. Lóðin er einnig vel hirt og gróin, t.d. er nokkuð gróskumikið reynitré framan við húsið, austarlega á lóð. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 9. Október 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 830, þ. 14. mars 1939. Fundur nr. 837, 13. júní 1939. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Gleðilega páska

Óska ykkur öllum, nær og fjær, gleðilegra páska.laughing

P4190905

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Páskamyndin er tekin við Brimketil á SV-verðu Reykjanesi á föstudaginn langa, 19. apríl sl.)


Hús dagsins: Lögbergsgata 3

Það var í febrúar 1938 að Gunnar Eiríksson leigðaP2100882 byggingarlóð sunnan „Lögbergsstrætis“ sem nefnt er svo í bókunum Byggingarnefndar, aðra lóð neðan frá. Þess má hins vegar geta, í þessu samhengi, að heitið Lögbergsgata er frá maí 1928, en veganefnd gaf þá fjölmörgum götum skv. nýju skipulagi nöfn. Lögbergsstræti finnst hins vegar ekki á timarit.is. Gunnar fékk í kjölfarið að byggja íbúðarhús úr steinsteypu á kjallara undir austurhluta, útveggir úr r-steini og stærð hússins 10,6x8,5m. Teikningarnar að húsinu gerði Friðjón Axfjörð. Þær teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfi en þar má hins vegar finna teikningar Mikaels Jóhannssonar af breytingum á þaki hússins frá 1960.  Ekki virðast þær breytingar hafa verið stórvægilegar.

Lögbergsgata 3 er dæmi um látlaust og einfalt funkishús, einlyft steinsteypuhús á kjallara með einhalla, aflíðandi þak. Veggir eru múrsléttaðir og pappi á þaki en einfaldir þverpóstar að neðanverðu í gluggum. Horngluggar eru til SV og NA. Á framhlið, í kverkinni milli útskots til norðurs eru inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim.  

Margir hafa átt húsið og búið svo sem gengur og gerist með 80 ára gömul hús. Á fimmta áratugnum stundaði Þorvaldur Jónsson bókbindari iðn sína þarna og auglýsti t.d. gyllingar á innbundnar bækur. En í húsinu bjuggu lengi vel þau Erlingur Davíðsson frá Stóru - Hámundarstöðum á Árskógsströnd og Katrín Kristjánsdóttir frá Eyvík á Tjörnesi. Erlingur var lengi vel ritstjóri Dags en einnig mjög afkastamikill rithöfundur og eftir hann liggja fjölmargar bækur, ævisögur og æviágrip og ber þar helst að nefna bókaflokkinn Aldnir hafa orðið. En þær bækur,  komu út hjá bókaútgáfunni Skjaldborg frá upphafi 8. áratugarins  til loka þess 9. og geyma frásagnir á annað hundrað karla og kvenna, sem flest voru fædd áratugina í kring um aldamótin 1900. Þar sögðu frá bændur, sjómenn, forstjórar, verkamenn, kennarar, hannyrðakonur, alþingismenn, húsmæður o.fl, valinkunnir, óþekktir og víðfrægir; einfaldlega fólk úr öllum stéttum og lögum samfélagsins. Má nærri geta, hversu dýrmætur heimildasjóður þessar bækur eru orðnar öllum þessum árum síðar. Hefur síðuhafi ósjaldan flett upp í Öldnum hafa orðið við vinnslu pistlanna hér, og mæli ég svo sannarlega með þessum bókum.

Lögbergsgata 3 er dæmi um einfalt funkishús, látlaust og smekklegt og svo til óbreytt frá upphafi en engu að síður í góðri hirðu. Húsið er í góðri hirðu, sem og lóðin og fær húsið varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015. Myndin er tekin sunnudaginn 10. febrúar 2019.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 811, þ. 22. feb. 1938. Fundur nr. 815, 23. apríl 1938. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Lögbergsgata 1

Lögbergsgata er stutt og nokkuð brött gata sem liggur til vesturs og upp frá Oddeyrargötu upp að Helgamagrastræti. Neðri og eystri endi götunnar liggur nokkurn veginn beint upp af Oddagötu, á milli húsa nr. 36 og 38 við Oddeyrargötu. Gatan liggur samsíða Þingvallastræti og liggja baklóðir gatnanna saman. Húsin við götuna eru byggð á árunum 1938-46 og  standa  þau öll sunnan megin við götuna og bera oddatölunúmer en norðan götunnar eru hornhús við Hlíðargötu og Holtagötu. En þær götur liggja á milli Lögbergsgötu í suðri og Hamarstígs í norðri. Lögbergsgata er um 150 metrar að lengd.

Lögbergsgata 1

Árið 1938 fær Steingrímur Kristjánsson austustu lóð P2100881sunnan Lögbergsgötu og byggingarleyfi fyrir steinsteyptu húsi með flötu þaki. Það varð reyndar svo, eftir því sem hverfið milli Þingvallastrætis og Hamarstígs byggðist upp, að öll hús við Lögbergsgötu stóðu sunnan hennar, en norðanmegin voru hornlóðir Hlíðargötu og Holtagötu. Árið 1939 var hús Steingríms risið af grunni, en teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson.

 Lögbergsgata 1 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara, jafnvel mætti kalla húsið tvílyft með lágu valmaþaki, bárujárni á þaki og múrhúð á veggjum. Lóðréttir póstar eru í gluggum og á austurhlið eru tröppur upp að inngöngudyrum á hæð og dyraskýli yfir þeim. Horngluggar í anda funkisstefnunnar, sem alls ráðandi var undir lok fjórða áratugar 20. aldar, eru til SV á húsinu.

Steingrímur Kristjánsson, sá er byggði húsið, var lengst af bílstjóri og bifvélavirki, og var með þeim fyrstu hér í bæ sem tóku bifreiðapróf en síðar sneri hann sér að húsgagnabólstrun. Eiginkona Steingríms var Guðrún P. Hansen.  Stundaði Steingrímur iðn sína hér og árið 1952 auglýsir hann framleiðslu á rúllugardínum hér. Um miðja 20. öld var þannig hægt að verða sér út um m.a. bólstrun, rúllugardínur o.fl. á efri hæð og kjóla, blússur og kvenhatta á neðri hæð Lögbergsgötu 1. En á neðri hæð bjó tengdamóðir Steingríms, Sesselja Stefánsdóttir Hansen ásamt dætrum sínum Soffíu og Mörtu Nielsen.  Sú síðarnefnda tók að sér kjóla-   blússusaum og fékkst auk þess við kvenhatta. Steingrímur bjó hér til æviloka, en hann lést langt fyrir aldur fram í ársbyrjun 1962, fæddur 1899. Síðan hafa fjölmargir búið í húsinu. Húsið var upprunalega með flötu þaki, en árið 1999 var byggt á það valmaþak með 14° halla eftir teikningum Árna Gunnars Kristjánssonar og rúmum áratug síðar dyraskýli á austurhlið, eftir teikningum Águsts Hafsteinssonar. Að öðru leyti er húsið lítið breytt frá upphafi og er í góðri hirðu. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 10. febrúar 2019.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 823, þ. 19. sept 1938. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

 


Hús dagsins: Nótastöðin, Norðurtanga 1

Áður en við höldum af Holtagötunni suður á Lögbergsgötu skulum við bregða okkur niður á utanverða Oddeyri eða kannski öllu heldur neðarlega á Gleráreyrar. Það var alla vega kýrskýrt í bókunum Byggingarnefndar að þessi staður væri á Gleráreyrum. Mér er ekki kunnugt um, hvar mörk Oddeyrar og Gleráreyra liggja (ef þau liggja nokkurs staðar „formlega“ ) en einhvern veginn hef ég bitið í mig þá (rang)hugmynd að Gleráreyrum hljóti að sleppa þegar komið er fram fyrir Mylluklöpp; það heiti Oddeyri að bökkum Glerár þar austan við. Það er hins vegar rökrétt að álíta, að ósar Glerár nyrst á Oddeyri hljóti að kallast Gleráreyrar. (Svo er spurning hvort ein eyri þurfi að útiloka aðrar; að ysti hluti Oddeyrar heiti einfaldlega Gleráreyrar). En á þessum slóðum, neðst á Gleráreyrum skammt frá athafnasvæði Slippsins stendur háreist iðnaðarhús sem sjá má á mörgum gömlum myndum (frá miðri 20. öld) af Oddeyrinni sem lengst úti í buskanum og er þannig greinilega eitt elsta húsið á þessu svæði. En þarna er um að ræða Nótastöðina, en hún er byggð árið 1945. Þá var þessi staður um hálfum kílómetra frá ystu byggðum Oddeyrar.

Vorið 1945 sótti Óli Konráðsson um lóð á Gleráreyrum, 2500- 3000m2. PB150014Jafnframt sótti hann um leyfi til að reisa byggingu á lóðinni „sem á að vera stöð til hreinsa, lita og þurrka snurpunætur (6 þurrkhjallar, litunar- og suðuker), nótageymsla og nótavinnustofa“. (Bygg.nefnd. Ak. 1945: nr.1011). en Óli fær lóð neðarlega á Gleráreyrum, norður af iðnaðarplássi sem fyrirhugað er á skipulagsuppdrætti frá 28. febrúar 1944. Lóðarstærð átti að ákvarðast af síðari mælingum. Óli fékk einnig leyfi til að reisa hús á lóðinni, skv. uppdrætti í febrúar 1945, 28,2x11,5m að stærð auk skúrbyggingar sunnan úr húsinu 5x5m. Vorið 1946 var húsið risið, en þá var lóðin ákvörðuð 3000 fermetrar, enda lá húsið við suðurmörk lóðar. Þar er um að ræða húsið, sem æ síðan er þekkt sem Nótastöðin, eða Nótastöðin Oddi en stöðin var rekin undir því nafni áratugum saman. Nótastöðin er háreist (3-4 hæðir) steinsteypuhús, með háu risi og kvistútskoti til suðurs. Sunnan á er einnig þrílyft viðbygging með lágu einhalla þaki. Í húsinu er netagerðarsalur ásamt skrifstofum. Bárujárn er á þaki en veggir múrhúðaðir.

Óli Konráðsson, útgerðarmaður, sem fæddur var á Fáskrúðsfirði árið 1900 starfrækti P9080001netagerð á neðri hæð í húsi sínu Eiðsvallagötu 4, uns hann reisti Nótastöðina sem var ein sú fullkomnasta á landinu á sinni tíð. Nærri má geta, hvílík bylting það hefur verið að flytjast með starfsemina í nýbyggðu Nótastöðina á Gleráreyrum  ef húsið er borið saman við neðri hæð Eiðsvallagötu 4 (sjá mynd t.h.), sem er ca. 8x10m að grunnfleti. Óli Konráðsson lést úr krabbameini, aðeins 48 ára að aldri,  þremur árum síðar eða 1948.  Árið 1953 eða fimm árum síðar keypti hlutafélagið Nótastöðin hf. í nótastöðina ásamt öllum búnaði. Félagið var í  eigu Útgerðarfélags KEA, Gjögurs hf, og útgerðarmannanna Valtýs Þorsteinssonar, Leós Sigurðarsonar, Guðmundar Jörundssonar og Egils Júlíussonar (sá síðast taldi á Dalvík, en allir hinir á Akureyri). Elstu heimildir um Netagerðina Odda eru einmitt frá 1953, en „Nótastöðin Oddi“  birtist fyrst á prenti skv. timarit.is í september 1966. Síðar voru lagðar göturnar Tangar um athafnasvæðin neðst á Oddeyri og Gleráreyrum, og fékk húsið númerið 1 við götuna Norðurtanga, það heimilisfang kemur fyrst fyrir á prenti árið 1990. Skemmst er frá því að segja, að í húsinu hafa verið framleidd net og veiðarfæri h.u.b. óslitið  þessi 74 ár sem húsið hefur staðið, nokkur síðustu ár undir merkjum Fjarðanets.  Þarna hefur fjöldi manns stundað atvinnu, margir árum saman og þannig mikil saga að baki þessu reisulega húsi. Ekki er höfundi kunnugt um, að nokkurn tíma hafi verið búið í Nótastöðinni.

Það er álit þess sem þetta ritar, að þegar eldri hverfi og hús eru skoðuð og metin til varðveislugildis eða friðunar verði einnig að huga að iðnaðar- og atvinnuhúsnæði sem margt hvert hefur mikið sögulegt gildi, þótt e.t.v sé það ekki alltaf augnayndi. En það á nú reyndar aldeilis ekki við um Nótastöðina við Norðurtanga að hún sé ekkert augnayndi því stílhreint og glæsilegt er húsið og þar að auki í góðri hirðu. Myndin er tekin þann 15. nóvember 2014.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1027, 20. apríl 1945. Fundur nr. 1054, 20. maí 1946. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafniu á Akureyri.


Hús við Holtagötu

Hér eru umfjallanir um húsin tólf sem standa við Holtagötu, birt frá febrúarlokum til aprílbyrjunar 2019.

Holtagata 1         1938

Holtagata 2         1938

Holtagata 3         1941

Holtagata 4         1943

Holtagata 5         1939

Holtagata 6         1942

Holtagata 7         1941

Holtagata 8         1942

Holtagata 9         1939

Holtagata 10       1947

Holtagata 11       1939

Holtagata 12      1949

Meðaltal byggingarára við Hlíðargötu er 1941,5 þannig að meðalaldur húsa við Holtagötu er u.þ.b. 78 ár árið 2019.


Hús við Hlíðargötu

Hér eru húsin ellefu við Hlíðargötu, sem ég tók fyrir hér á síðunni á fyrstu vikum ársins 2019, á einu bretti.

Hlíðargata 1       (1939)

Hlíðargata 3       (1944)

Hlíðargata 4       (1942)

Hlíðargata 5       (1942)

Hlíðargata 6       (1948)

Hlíðargata 7       (1939)

Hlíðargata 8       (1939)

Hlíðargata 9       (1939)

Hlíðargata 10     (1944)

Hlíðargata 11     (1946)

Meðaltal byggingarára við Hlíðargötu er 1942,2 þ.e. meðalaldur Hlíðargötuhúsa árið 2019 er 77 ár.


Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2019
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 24
  • Sl. viku: 541
  • Frá upphafi: 420858

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 452
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband