Hús dagsins: Möðrufell; eldra íbúðarhús

Sunnan við hæsta fjall Eyjafjarðar, Kerlingu, stendur öllu lægra fjall sem nefnist Möðrufellsfjall. Helstu sérkenni þess eru tvær „hillur“ framan í fjallinu en þar hefur einhvern tíma skriðið fram ægilegt jarðfall eða berghlaup sem sest hefur neðan í fjallinu sem mikil hólaþyrping, leiti og hæðir. Hólaþyrping þessi er alsett grettistökum og stórgrýti og kallast Möðrufellshraun. Ólafur Jónsson (1957:178-180) telur Möðrufellshraun myndað í tveimur framhlaupum, það síðara fyrir um 2500-3000 árum en óljóst með aldur hins fyrra. Þetta náttúrufyrirbæri er þannig ekki eiginlegt eldhraun, því við Eyjafjörð hefur ekki verið í eldvirkni í milljónir ára og það hraun sem þá rann, löngu orðið að jarðlögum og bergi. Fjallið og „hraunið“ eru kennd við bæinn Möðrufell, sem stendur hátt í brekkunum (um 150 m y.s.) neðan fjallsins. Bæjarstæðið er í víðum hvammi suðaustast í skriðufótum Möðrufellshrauns og þar stendur m.a. gamalt íbúðarhús, teiknað af engum öðrum en Guðjóni Samúelssyni, sem síðar varð Húsameistari ríkisins.P7030963 - afrit

                Saga jarðarinnar Möðrufells nær langt aftur í aldir. Þar var rekin holdsveikraspítali fyrir Norðurland frá miðri 17. öld til ársins 1848, eða í um 200 ár. Einhver annálaðasta sagan tengd Möðrufelli er raunar hálfgerð hryllingssaga, um systkini tvö er líflátin voru saklaus. Sögum ber raunar ekki saman, hvort þau voru líflátin eða földust í Möðrufellshrauni uns þau sultu í hel. Upp af jarðneskum leifum þeirra átti að hafa vaxið reynitré, Möðrufellsreynirinn og af honum komin mörg reynitré á Eyjafjarðarsvæðinu. Hvað varðar sannleiksgildi þjóðsögunnar um systkinin ólánssömu er það staðreynd, að frá fornu fari óx reyniviður í Möðrufellshrauni og út af honum mörg tré. Reynitré, m.a. í valinkunnum reynilundi á Skriðu í Hörgárdal á 19. öld og vafalítið mörg eldri reynitré Akureyrar, voru út af Möðrufellsreyninum. Sumar sögur segja, að öll reynitré í Eyjafirði séu komin  af Möðrufellsreyninum (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:444).  Möðrufellsreynirinn var felldur af ungum bónda á miðri 19. öld, og mun hann hafa smíðað úr henni klyfbera. Enn munu finnast reynihríslur í Möðrufellshrauni (Sbr. Hólmfríður Andersdóttir 2000:43). Meðfylgjandi mynd sýnir reynilund við Bjarmastíg 1 á Akureyri, hvort þau eru komin af Möðrufellsreyninum skal ósagt látið hér.P8180231

                Gamla íbúðarhúsið í Möðrufelli er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með miðjukvisti. Á bakhlið er einnig smár kvistur. Krosspóstar eru í flestum gluggum og bárujárn á þaki og veggir múrhúðaðir. Grunnflötur hússins mun 12,8x8,8m og í Byggðum Eyjafjarðar er húsið sagt 850 rúmmetrar. Þar kemur einnig fram, að húsið hafi að mestu verið endurbyggt á árunum 1966-68. Möðrufell stendur um 500 metra frá Finnastaðavegi og er heimreiðin um 3 km frá vegamótum þess vegar og Eyjafjarðarbrautar vestri. Frá miðbæ Akureyrar að hlaðinu á Möðrufelli gætu verið um 23 kílómetrar.

                Þegar minnst er á Guðjón Samúelsson koma eflaust stórar og glæstar kirkju- eða skólabyggingar og aðrar opinberar byggingar upp í huga margra. En hann teiknaði, sérstaklega í upphafi ferils síns, einnig mörg smærri og íburðarminni hús m.a. til sveita. Eitt þeirra var íbúðarhús fyrir Jón Jónsson, bónda í Möðrufelli, sem hann teiknaði í janúar 1920.  Þá var Guðjón nýkominn frá námi í Danmörku þar sem hann hafði m.a. kynnt sér byggingar á dönskum búgörðum. Guðjón var mjög áhugasamur um að bæta húsakost í íslenskum sveitum en sótti engu að síður í ákveðin sérkenni og byggingarlag fyrri tíma. Teiknaði hann t.a.m. margar byggingar með burstabæjarlagi. Og húsið í Möðrufelli teiknaði hann með torfþaki (!) en slíkt þak var þó aldrei sett á húsið, heldur var hefðbundið timburþak frá upphafi. Þá var gert ráð fyrir að húsið yrði gaflsneitt og kvisturinn með burstalagi (sbr. Pétur H. Ármannsson 2020:398). Jón Jónsson, sem reisti húsið var fæddur á Gilsbakka í Hrafnagilshreppi árið 1867. Hann og kona hans, Ólöf Bergrós Árnadóttir (1861-1936), fædd að Völlum í Saurbæjarhreppi, komu að Möðrufelli árið 1908, en þau höfðu áður verið í Hrafnagilshreppi m.a. á Dvergsstöðum, Reykhúsum og Syðra Laugalandi í Öngulsstaðahreppi. Þarna má segja, að Jón hafi verið kominn á heimaslóðir, því Möðrufell er næsti bær norðan við Gilsbakka, þar sem hann fæddist. Ólöf var heldur ekki langt frá sínum fæðingarstað, en hún var fædd á Völlum í Saurbæjarhreppi.P7030963

                Þegar Jón og Ólöf fluttu að Möðrufelli munu þar hafa staðið þar einhverjir torfskálar en torfbæinn sem þar stóð, og birtist í Bæjalýsingum og teikningum mun fyrri eigandi og ábúandi, Páll Hallgrímsson hafa rifið að miklu að leyti (sbr. Jónas Rafnar 1975:39). Það hefur verið umtalsvert stórvirki að ráðast í byggingu steinhússins á Möðrufelli á sinni tíð, en húsið er eitt af fyrstu slíkum sem risu í Hrafnagilshreppi og með þeim stærri og veglegri í hreppunum framan Akureyrar. Heimildum ber raunar ekki saman um hvort húsið er byggt 1919 eða 1920, en uppdráttur er dagsettur 1920. Hlýtur það að taka af öll tvímæli um byggingarár hússins, en þó ekki loku fyrir það skotið, að bygging hafi verið hafin á árinu 1919, enda þótt teikningar lægju ekki fyrir. Árið 1933 var nýja húsið metið til brunabóta og lýst svo: Íbúðarhús úr steinsteypu, ein hæð með kjallara og porti og kvisti. Á aðalhæð eru 6 herbergi og forstofa. Á lofti eru 5 herbergi og geymsla. Kjallari í 7 hólfum. Steinveggur eftir endilöngum kjallara og aðalhæð. Lengd 12,8m, breidd 8,8m og hæð 7,6m. (Brunabótafélag Íslands 1933:nr.13). Í brunabótamati kemur einnig fram, að húsið kjallaragólf sé steinsteypt en aðrir innviðir úr timbri og húsið kynt með kolaofnum og steinolía til ljósa.

                Árið 1924 tók dóttir þeirra Jóns og Ólafar, Árnína Hólmfríður og maðurP5201004 hennar Guðbrandur Ísberg Magnússon frá Snóksdal í Dalasýslu, við búskapnum. Árið 1931 tók bróðir Árnínu, Kristinn Óskar Jónsson, og kona hans Jóna Kristín Þorsteinsdóttir við búinu og munu afkomendur þeirra hafa búið hér allt til ársins 1988. Árið 1970 voru ábúendur hér þau Ingvar Kristinsson, sonur téðs Kristins Óskars og Ester Sigurðardóttir. Þá telur bústofn Möðrufells 41 kýr og 19 geldneyti og eitt hross en vegna hringskyrfis hafði allt fé verið skorið árið 1967. Þá er túnstærð 32,52 hektarar og töluvert af ræktanlegu, framræstu landi og töðufengur um 1750 hestar (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:292).

                Árið 1990 eru ábúendur þau Bjarni Rúnar Guðmundsson og Ragnheiður Austfjörð. Þá telur bústofninn alls 95 nautgripi, þar af 42 kýr, sauðfé, 18, 7 hross og 13 hænur. Ræktað land telst þá 39,5 hektarar.  Þá, 1990, hafði risið nýtt íbúðarhús norðan þess gamla en það var byggt árið 1985. Þá voru ábúendur Þorsteinn Ingvarsson og Edda Hrafnsdóttir (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:782). Þess má geta, að Þorsteinn er langafabarn Jóns Jónssonar. Þar með þjónaði gamla íbúðarhúsið sem geymsla. Þegar byggðum Eyjafjarðar voru gerð skil árið 2010 var Lífsval ehf. eigandi jarðar og mannvirkja og ábúandi Þorbjörn Hreinn Matthíasson. Þá eru einungis hross, 37 að tölu, á jörðinni. Auk íbúðarhúsanna frá 1919 (1920) og 1985 standa á jörðinni eftirfarandi byggingar: Hesthús, áður fjós, og hlaða, hvort tveggja byggð 1970, annað hesthús frá 1984 og geymslur byggðar 1935 og 1985 (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:444). Standa útihús sunnan og neðan íbúðarhúsa.  

                Gamla íbúðarhúsið á Möðrufelli glæsilegt hús að upplagi og sómir sér aldeilis vel á glæstu bæjarstæði. Það lítur mjög vel út og úr fjarlægð er ekki að sjá, að þar hafi ekki verið búið í tæp 40 ár. Jörðin fór vissulega ekki í eyði þegar flutt var úr gamla húsinu, svo líkast til hefur því verið haldið við að einhverju leyti.  Árið 2012 fór fram úttekt eða rannsókn á nokkrum eyðibýlum og yfirgefnum húsum á Norðurlandi, m.a. í Eyjafjarðarsýslu og afraksturinn gefinn út á bók; Eyðibýli á Íslandi. Af þeirri umfjöllun má ráða, að umgengni um húsið hafi ekki verið sérlega góð, þegar rannsóknin fór fram, 2012; eyðibýli og yfirgefin hús verða því miður oft fyrir barðinu á skemmdarvörgum. Þar kemur einnig fram, að herbergjaskipan sé að mestu óröskuð. Möðrufellshúsið gamla er væntanlega friðað vegna aldurs, þar sem það er byggt fyrir 1923 og í eyðibýlarannsókninni hlýtur húsið m.a. eftirfarandi umsögn: Húsið er glæsilegt og staðsetning þess mjög góð með tilliti ti útsýnis, náttúrufars og fallegs umhverfis. Að mati rannsakenda er húsið með reisulegri húsum í sveitarfélaginu. Viðgerð er því bæði raunhæf og æskileg áður en húsið skemmist meira (Axel Kaaber o.fl. 2012: 113). Það er svo sannarlega hægt að taka undir þessa umsögn.   

Meðfylgjandi myndir af Möðrufelli eru teknar þann 3. júlí 2020 og 20. maí 2022. Mynd, sem sýnir reynitré við Bjarmastíg er tekin 18. ágúst 2015.

P7030963 - afrit1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að ofan: Þegar íbúðarhúsið að Möðrufelli var teiknað var gert ráð fyrir torfþaki. Greinarhöfundur ákvað að leika sér aðeins með þá staðreynd í myndvinnsluforriti...

Heimildir:

Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012. Eyðibýli á Íslandi. Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Norður- Þingeyjarsýslu, Suður Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Reykjavík: Eyðibýli – áhugamannafélag.

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Hólmfríður Andersdóttir. 2000. „Í Eyjafirði aldinn stendur reynir“ í Bjarni Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar; Skógar að fornu og nýju. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga

Ólafur Jónsson. 1957. Skriðuföll og snjóflóð I. bindi. Akureyri: Bókaútgáfan Norðri.

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.


"Hús dagsins" 14 ára

Það var þann 25. júní árið 2009 að ég ákvað að birta mynd sem ég átti af Norðurgötu 17, Steinhúsinu, inn á þessa síðu hér, sem ég hafði tekið í notkun þremur dögum fyrr. Ekki lét sá pistill mikið yfir sér: 

P6050029

Hús dagsins er Norðurgata 17, einnig kallað Steinhúsið eða Gamla Prentsmiðjan. Húsið er það eina á Akureyri sem hlaðið er úr blágrýti svipað og Alþingishúsið og Hegningarhúsið. Byggingarár mun vera 1880 og er þetta hús í 3.-4.sæti yfir elstu hús á Oddeyri. Í þessu húsi var lengst af starfandi prentsmiðja en ýmis önnur starfsemi hefur einnig verið stunduð í húsinu á 130 árum.

(Að auki var einhver formáli eða lokaorð) 

Textinn var frekar ætlaður til að styðja við myndirnar. En allt vatt þetta upp á sig, greinarnar urðu lengri og ítarlegri eftir því sem ég komst í viðameiri heimildir. Árið 2009 hélt ég t.d. að Héraðsskjalasafnið væri ekki opið almenningi nema í einhverjum sérstökum tilfellum, timarit.is þekkti ég ekki (veit ekki hvort það var til þá) og vefur héraðsskjalasafnsins var eflaust ekki með sama hætti og nú. Auk margs annars sem nú eru mikilvægustu heimildir við þessi skrif. Þá hafa ótal nýjar bækur og húsakannanir komið út á þessum 14 árum.Þessa sögu hef ég eflaust rakið nokkrum sinnum hér. En venjan er sú, að gera eitthvað hér á vefnum á afmælinu. Að þessu sinni ætla ég að birta nokkur sýnishorn frá hverju ári fyrir sig. 

2009:

Hafnarstræti 96. Birtist 21. ágúst.

2010:

Lundargata 11. Birtist 5. mars. 

2011:

Aðalstræti 74. Birtist 9. janúar. 

2012:

Sláturhús KEA á Oddeyrartanga. Birtist 18. nóvember

2013:

Aðalstræti 72. Birtist 4. ágúst. 

2014:

Lækjargata 11a. Birtist 7. október.

2015:

Goðabyggð 7; áður Vesturgata 9 eða Silfrastaðir. Birtist 8. júlí. 

2016:

Oddeyrargata 38. Birtist 9. september.

2017:

Hamarstígur 8. Birtist 3. maí.

2018:

Hríseyjargata 15. Birtist 6. desember. 

2019:

Holtagata 11. Birtist 5. apríl. 

2020:

Skipagata 8. Birtist 19. júní 

2021:

Grímsstaðir í Glerárþorpi. Birtist 31. júlí. 

2022:

Eyrarvegur 17-19. Birtist 27. mars.

2023:

Grund II. Birtist 9. júní.

Þess má geta, að nýir og ítarlegri pistlar eru væntanlegir um flest þeirra húsa, sem ég tók fyrir hér á síðunni árin 2009-11. Þeir eldri fá að varðveitast hér, á öldum veraldarvefjarins, sem börn síns tíma. Frá vorinu 2022 hafa skrifin hér einnig birst á vefnum akureyri.net.  Og svo kannski stærstu tíðindin: Á næstu vikum eða jafnvel dögum er bók væntanleg í samvinnu við Kristínu Aðalsteinsdóttur, fv. prófessor.  Nánar síðar. 


Meðmæli: Eyðibýli á RÚV

Einn er sá sjónvarpsþáttur, sem sýndur hefur verið síðustu vikur á RÚV, og nokkur undangenginn sumur, sem ég finn mig knúinn til að hrósa. En það eru þættirnir Eyðibýli á RÚV. Þættirnir,í umsjá Guðna Kolbeinssonar, eru sérlega áhugaverðir, fræðandi og skemmtilegir. Umfjöllunin lágstemmd og afslöppuð. Myndatakan og sjónarhornin á myndefnið eru hreinlega óborganleg. Takk fyrir. laughing


Hús dagsins: Grund I

Á Grund standa tvö íbúðarhús, sem stórbóndinn og athafnamaðurinn Magnús Sigurðsson, kenndur við staðinn reisti, það eldra frá 1893 og það yngra byggt 1910. Magnús hafði á barnsaldri heillast af þessari fornu stórjörð og einsett sér að eignast hana, þegar hann yrði stór. Og af því lét hann verða árið 1873, þá 26 ára gamall. Hann keypti þá hálfa jörðina en síðar eignaðist hann allt Grundarland. Magnús bjó á Grund í ríflega hálfa öld, til æviloka, og stóð fyrir mikilli uppbyggingu á jörðinni og hafði þar mikil umsvif; verslunarrekstur, skólahald, auk þess sem ýmsar samkomur og fundir sveitarinnar fóru fram á Grund. Það var árið 1909 sem hann hóf að byggja hús sunnan við íbúðarhúsið, við vesturjaðar kirkjugarðsins. Snemmsumars 1910 sá fyrir endann á verkinu.  En daginn sem síðar varð þjóðhátíðardagur Íslands reið stóráfall yfir.IMG_0584

17. júní, sem löngum hefur verið tengdur miklum hátíðahöldum hjá íslensku þjóðinni, var aldeilis ekki hátíðlegur hjá Magnúsi á Grund og hans fólki árið 1910. Um hádegisbilið var nefnilega stórbruni á Grund: Nýjasta stórvirki Magnúsar, stórhýsi, sem þjóna átti sem sláturhús og samkomuhús brann til ösku á um tveimur klukkustundum. Eldsupptökum er lýst nákvæmlega í ævisögu Magnúsar: [...]Einn öðlingsmaður sem vann að smíðum við bygginguna, kveikti í pípu sinni og varpaði frá sér eldspýtunni. En neisti frá henni lenti í skraufþurri spónahrúgu, sem greip logann, þegar smiðurinn sneri baki að, og fyrr en varði á andartaki hafði spónahrúgan sogað logann í sig, svo að ekkert varð við ráðið – eldurinn læsti sig í þurrviðinn í þiljunum með heiftaráfergju. Heimilisfólk sótti vatn í lækinn og skvetti á og fólk af nálægum bæjum dreif einnig að og tók til við slökkvistarf Vatnsföturnar máttu sín hins vegar lítils: En brátt var ljóst að við ofurefli var að etja, þakið féll og síðan útveggir og þar sem fyrir hádegi var glæsileg bygging, var nú rúst með brennandi sprekum sem fallið höfðu á steingólfið. MenIMG_0590n voru hljóðir og ráðvana. Smiðurinn, sem hafði orðið fyrir því að missa neistann lausan, fékk taugaáfall  (Gunnar M. Magnúss 1972: 238-239).  Það fylgir þó ekki sögunni, hvort umræddur smiður hafi hætt pípureykingum. Ljóst var að tjónið var mikið og það sem verra var, húsið hafði ekki verið vátryggt. Skemmst er frá því að segja, að Magnús hóf endurbyggingu síðar um sumarið upp af steingrunninum. Og haustið 1910 var kjallarinn nýttur sem sláturhús og efri hæðin innréttuð. Nú var mestallt byggt úr steinsteypu, líklega eitt fyrsta stóra steinsteypuhús í hreppunum framan Akureyrar. Og hið endurbyggða hús stendur enn og nefnist Grund I.

       Grund I stendur lítið eitt sunnan við Grund II og um 65m sunnan við kirkjuna. Að Grund liggur um 170m löng heimreið frá Eyjafjarðarbraut vestri en frá miðbæ Akureyrar eru um 21 kílómetri að Grund.  Grund I er einlyft steinhús á háum steinkjallara og með háu valmaþaki. Lítið eitt norðan við miðja vesturhlið er kvistur og undir honum inngöngutröppur. Á austurhlið er einnig kvistur með einhalla, aflíðandi þaki. Veggir virðast klæddir múrplötum, svokölluðum „steníplötum“ en bárujárn er á þaki. Ónákvæm mæling á grunnfleti (map.is) er um 10x24m. Grund I var metið til brunabóta árið 1933 og var þá lýst á þennan hátt: Íbúðarhús, steinsteypt. Ein hæð á háum kjallara. Kvistur á þaki. Á aðalhæð 9 herbergi og tvær forstofur. Kjallari í 7 hólfum. Gólf yfir kjallara er steinsteypt. Einn steinveggur um þvert hús, á aðalhæð og kjallara  (Brunabótafélag Íslands 1933:nr.24). Mál hússins voru sögð 16,6x8,8m og 6,9m hátt en einnig er skúr við húsið 6,6x8,8m og hæð skúrsins sögð 2,7m. Mögulega er hér um að ræða syðsta hluta hússins, sem síðar hefur verið hækkaður en það kemur heim og saman við það, að húsið gæti verið 23,5m á lengd. Húsið var kynt með miðstöð í kjallara og steinolía til ljósa. ÖllP71520220715_150856 (26) skilrúm og veggir úr timbri nema steinveggur í miðju. Fram kemur, að loft yfir kjallara sé steinsteypt. Húsið er þannig með fyrstu húsum á Íslandi með steyptri plötu milli hæða en allt fram undir miðja 20. öld voru steinhús yfirleitt byggð þannig, að aðeins útveggir voru steyptir en veggir og loft milli hæða úr timbri.

       Upprunalega var húsið Grund I byggt sem fundahús eða samkomuhús með sláturhúsi, fjárrétt og vörugeymslu í kjallara. Mögulega var búið í húsinu frá upphafi en það var „tekið að fullu fyrir íbúðarhús 1926“ (Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:286).  Tíu árum fyrr hafði Aðalsteinn Magnússon tekið við jörðinni af foreldrum sínum og samkvæmt ábúendatali Byggða Eyjafjarðar 1990 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:771)  bjuggu Magnús Sigurðsson og Guðrún Þórey Jónsdóttir í þessu húsi síðustu æviár sín. Þau létust 1918 og 1925 (Aðalsteinn og ábúendur eftir hann munu hafa búið í eldra húsinu). Síðari kona Magnúsar var Margrét Sigurðardóttir, en hún hafði komið að Grund sem ráðskona og giftist Magnúsi árið 1924. Magnús Sigurðsson lést á Grund þann 18. júní 1925, tæplega 78 ára að aldri, en hann var fæddur 3. júlí 1847 á Torfufelli í Saurbæjarhreppi. Þá voru liðin 52 ár frá því að hann reið, í kapphlaupi við tímann, austur á Breiðumýri í S-Þingeyjarsýslu til Jakobs Péturssonar þeirra erinda, að kaupa af honum hálft Grundarland. Það hafðist, en aðeins fáeinum klukkustundum eftir að Jakob og Magnús hanIMG_0588dsöluðu kaupin reið annar ungur maður í hlað, Eggert Gunnarsson frá Laufási. Hann hugðist einnig kaupa Grund, en var fáeinum klukkustundum of seinn; Magnús hafði verið á undan og æskudraumur hans hafði ræst.

                Eftir lát Magnúsar bjó ekkja hans, Margrét hér áfram, ásamt seinni manni sínum, Ragnari Davíðssyni frá Kroppi. Þau bjuggu hér til ársins 1959 en frá 1950 bjuggu þau hér félagsbúi ásamt Aðalsteinu Magnúsdóttur og Gísla Björnssyni, en Aðalsteina var dóttir Margrétar og Magnúsar Sigurðssonar. Bróðir Margrétar, Snæbjörn Sigurðsson flutti á Grund árið 1948 og var jörðinni þá skipt, Grund I og Grund II. Snæbjörn átti Grund II og bjó í eldra íbúðarhúsinu og er þessi skipting enn í gildi. Eigenda- og íbúaskipti á Grundarjörðunum voru ekki tíð á 20. öld; árið 1990 eru téð Aðalsteina og Gísli eigendur jarðar.  Þá (1990) er fóstursonur þeirra, Bjarni Aðalsteinsson og kona hans Hildur Grétarsdóttur einnig ábúendur. Bústofninn árið 1990 telur IMG_0585alls 150 nautgripi, þar af 67 kýr og sex hross. Tuttugu árum fyrr voru kýrnar 46 og geldneyti 14, en allt sauðfé hafði verið skorið 1967. Hvort sauðfé hafi verið á Grund I frá þeim skurði er höfundi ókunnugt um, síðari árin hefur býlið fyrst og fremst verið kúabú. Og þegar Byggðir Eyjafjarðar voru teknar saman þriðja sinnið, árið 2010 voru kýrnar 117 og aðrir nautgripir 102 og ræktað land tæpir 180 hektarar. Árið 2010 var eigandi Grundar I, Holt ehf. en búið var rekið undir nafni Ljósaborgar ehf. undir stjórn þeirra Öddu Báru Hreiðarsdóttur og Víðis Ágústssonar (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013: 435).

                Af fleiri byggingum sem tilheyra Grund I má nefna fjós byggð 1947, 1983 og geldneytafjós frá 1972, sem áður var vélageymsla. Þá eru, steinsnar frá íbúðarhúsinu, byggingar frá tíð Magnúsar Sigurðssonar, fjós, fjárhús og hlöður frá árunum 1910-15. Þær byggingar eru nú nýttar sem geymslur en hljóta að hafa umtalsvert varðveislugildi vegna aldurs. Grund I er auðvitað aldursfriðað hús, byggt fyrir 1923. Þá er húsið í hópi elstu steinsteypuhúsa Eyjafjarðarsvæðisins.  Það er hluti skemmtilegrar heildar, sem Grundarhúsin, kirkjan mikla og aðrar byggingar staðarins myndar í grænu og búsældarlegu héraði. Grund blasir einmitt skemmtilega P71520220715_150856 (24)við þegar ekin er Eyjafjarðarbraut vestri niður hjalla mikinn sunnan Hólshúsa. (Kirkjuturninn sést raunar lengra að). Á hjalla þessum, vestanmegin vegarins, er enn eitt sköpunaverk Magnúsar Sigurðssonar, Grundarreitur. Var það árið 1900 sem Magnús girti þessa landsspildu af og réði danskan skógræktarmann, Christian Flensborg að nafni, til að standa fyrir skógrækt. Næstu sumur fór trjáplöntun fram og nú er Grundarreitur, sannkölluð græn perla og paradís, einn af helstu skógarreitum Eyjafjarðarsvæðisins. Skógarreiturinn var stækkaður um 1953 og er nú 3,3 ha. (Sbr. Sigurður Blöndal 2000:147). Það er svo sannarlega hægt að mæla með göngu um Grundarskóg, sem opnaður var almenningi árið 1994 og hér eru meðfylgjandi nokkrar svipmyndir. Hægt væri að skrifa langa grein um Grundarskóg en greinarhöfundur eftirlætur slík skrif „skógfróðari“ mönnum og lætur staðar numið hér.

Saga Grundar nær auðvitað mun lengra aftur en sem nemur sögu íbP71520220715_150856 (29)úðarhúsa þar og Magnúsar Sigurðssonar, raunar allt til landnámsaldar. Hér bjuggu löngum miklir höfðingjar og merkisfólk, m.a. Sighvatur Sturluson, bróðir Snorra Sturlusonar, árin 1217 til 1238. Á 16. öld bjó hér Þórunni ríka (um 1511-1593), dóttir Jóns biskups Arasonar, sem „ríkti af miklum skörungsskap á Grund í 60 ár“ (Gunnar M. Magnúss 1972:89). Ein sagan segir, að Þórunn hafi beðið af sér Svartadauða uppi í Laugafelli og þar má finna svokallaða Þórunnarlaug. Það setur eilítið strik í þann reikning, að svartadauðaplágan gekk um það bil 100 árum fyrir daga Þórunnar ríku en stundum er sagt, að góð saga megi ekki líða fyrir sannleikann. Á 14. öld bjó hér hin valinkunna Grundar-Helga, og neðarlega í Grundarreit er strýtuP71520220715_150856 (14)laga hóll, sem nefndur er Helguhóll, eftir henni. Helga hafa verið helsta driffjöðurin fyrir Grundarbardaga í júlí 1372, þar sem Smiður Andrésson hirðstjóri og fylgdarmenn hans voru ráðnir af dögum. Ginnti hún þá á Grund með því að bjóða til mikillar veislu. Þessi atburður var eyfirsku hljómsveitinni Helga og Hljóðfæraleikurum að yrkisefni. Ætli það sé ekki viðeigandi, að slá botninn í þessa Grundarumfjöllun með Veislunni á Grund í flutningi téðra Helga og Hljóðfæraleikarana.

 

P8121073

 

 

 

Meðfylgjandi myndir úr Grundarreit, ásamt myndinni af Grundarbæjunum, þar sem horft er af Helguhól í Grundarreit eru teknar 15. júlí 2022. Myndirnar af Grund I og þar sem horft er til Grundar frá Eyjafjarðarbraut eystri eru teknar 15. júní 2023. Myndin af Þórunnarlaug í Laugafelli er tekin 12. ágúst 2021.

 

 Heimildir: Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

 Gunnar M. Magnúss. 1972. Dagar Magnúsar á Grund. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Sigurður Blöndal. 2000. Grundarskógur. Í Bjarni Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar Skógar að fornu og nýju. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.


Hús dagsins: Grund II (eldra íbúðarhúsið á Grund)

Um miðja 19. öld átti heima á Öxnafelli í Saurbæjarhreppi ungur drengur, hjá afa sínum og ömmu, Magnúsi Árnasyni, þá hreppstjóra og konu hans Hólmfríði Jónsdóttur. Drengurinn var mjög áhugasamur um búskap afa síns, sem þótti sérlega hagsýnn búmaður, vandvirkur og nákvæmur. Drengurinn horfði oftar en ekki hugfanginn yfir Eyjafjarðarána á Kerlingu og hið forna höfuðból, Grund og hinar miklu lendur þess undir hæsta tindi Norðurlands. Hann hreifst af þessari stórjörð og kostum hennar. Það vakti athygli stráks, að á meðan jörð er alhvít á Öxnafelli sér ævinlega í jörð á Grundarlandi. (Gömul saga og ný, um grænna gras hinu megin). Átta ára gamall sagði drengurinn við afa sinn: „Ég ætla að kaupa Grund, þegar ég er orðin stór“  (Sbr. Gunnar M. Magnúss 1972:11). Það er skemmst frá því að segja að drengurinn stóð ekki bara við þessi orð, heldur reisti á Grund einhverjar veglegustu byggingar sveitarinnar á sinni tíð, bjó þar stórbúi og stundaði umsvifamikinn verslunarrekstur. En drengur þessi var auðvitað Magnús Sigurðsson (1847-1925) sem jafnan var kenndur við Grund.P5201027

Elst þeirra bygginga, sem standa á Grund, er eldra íbúðarhúsið, Grund II, en það reisti Magnús Sigurðsson sem íbúðar- og verslunarhús. Stendur það skammt suður og vestur af kirkjunni, um 170 metra austur af Eyjafjarðarbraut vestri. Húsið er 130 ára á þessu ári, fullbyggt árið 1893 og stendur skammt sunnan og vestan við kirkjuna.  Húsið er tvílyft timburhús á steinhlöðnum kjallara. Sunnarlega á vesturhlið er smár inngönguskúr („bíslag“) og timburverönd meðfram austurhlið. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir jafnt sem þak og þverpóstar í flestum gluggum. Grunnflötur hússins er nærri 10x17m og inngönguskúr um 2x2m (ónákvæm mæling af loftmyndum map.is). Tvær íbúðir eru í húsinu, önnur á neðri hæð og hin á efri hæð og risi.

      Frá því að Magnús Sigurðsson kom að Grund árið 1873 vakti alla tíð fyrir honum, að byggja staðinn upp, en jörðin hafði verið í fremur bágu ástandi. Auk mikilla jarðarbóta endurnýjaði hann húsakostinn svo um munaði. Árið 1883 byggði hann við gamla bæinn, sem var hefðbundinn torfbær, hafði þar smíðaverkstæði í viðbyggingunni. Magnús hafði frá unga aldri stundað ýmis viðskipti m.a. fengist við smíðavinnu fyrir bændur og búalið gegn greiðslum í peningum, búfé eða afurðum. Það var síðan árið 1885 að hann hóf skipulagðan verslunarrekstur í hinum nýju húsakynnum en fljótlega fór að þrengja að. Haustið 1890 hélt Magnús til Danmerkur og hugðist m.a. kynna sér það nýjasta í búskap, verslunarháttum, húsbyggingum auk þess að afla sér viðskiptamanna því hann hugði á útflutning og innflutning. (Í þessari dvöl hitti Magnús ungan íslenskan húsasmíðanema, Ásmund Stefánsson, sem síðar stýrði byggingu Grundarkirkju Magnúsar). Magnús var mikill áhugamaður um hvers kyns framfaramál og bættur húsakostur landsmanna var þar á meðal. Og það var einmitt í þessari Danmerkurdvöl  „[...] að nokkru fyrir jól [1890] pantaði Magnús tiltelgda grind í stórhýsi, sem hann ætlaði að reisa á Grund strax á næsta ári. Skyldi grindin og annað timbur í húsið sendast með vorskipum til Íslands“ (Gunnar M. Magnússon 1972:154). Af þessu má ráða, að grind hússins hafi komið tilsniðin til landsins frá Danmörku og hún hafi borist til landsins 1891.

     Það mun hafa verið vorið og sumarið 1891 að Magnús hóf undirbúning byggingaframkvæmda, uppgröft og niðurrif eldri bygginga. Kjallari hússins var hlaðinn úr steini og nokkuð djúpur, miðað við það sem tíðkaðist almennt. Á kreik komst sú þjóðsaga, að við þessar framkvæmdir hafi Magnús komið niður á kistil, fullan af gulli og gersemum. Eins og gefur að skilja var ekkert hæft í því, en ekkert útilokað að ýmsar leifar frá fyrri tíð hafi komið upp, þó ekki hafi verið um fjársjóð að ræða. Fullbyggt var húsið árið 1893 og var þá vafalítið stærsta timburhús í hreppunum framan Akureyrar. Það var raunar á pari við stærstu og veglegustu hús á Akureyri enda stóð Magnús á Grund athafnamönnum kaupstaðarins hvergi á sporði. Í ævisögu Magnúsar, eftir Gunnar M. Magnús, er svo sagt frá:

Þetta var stórt og snoturt hús, 24x14 álnir [u.þ.b.15x9m] að stærð, tvær stofuhæðir og rishæð. Á neðri stofuhæð hafði Magnús verslun sína. Eldhús var í suðvesturhorni á sömu hæð, og gestastofa að suðaustan. Á efri hæð voru svefnherbergi fólksins. Þar var líka skrifstofa verslunarinnar og í suðvesturhorni góð stofa, kölluð Jónínuherbergi. Að vestanverðu á hæðinni var stór stofa, sem notuð var til fundahalda í sveitinni. Þar fóru fram hreppaskil og manntalsþing. Þar kom og heimilisfólki stundum saman til að skemmta sér. Á þessari hæð var löng stofa að austanverðu, er kölluð var baðstofa. Þar hélt vinnufólkið til á kvöldin og þar sváfu vinnukonurnar. En vestur af uppgöngunni, sunnan við uppgönguna, var lítið herbergi, þar sem vinnumennirnir sváfu. Herbergi þeirra var nefnt Hrútakofinn. Í portbyggðri rishæð bjó venjulega húsfólk (Gunnar M. Magnúss 1972: 157).

Þarna má sjá, að verslunar- og íbúðarhúsið var einnig hálfgert „ráðhús“ hreppsins og félagsheimili, sbr.  vesturstofan á efri hæðinni, sem notuð var til fundahalda í sveitinni, hreppaskila og manntalsþinga. Árið 1899 bauð Magnús hreppsnefnd Hrafnagilshrepps, sem var á hálfgerðum hrakhólum, afnot af húsakosti sínum og það til næstu 50 ára! Um leið komu upp hugmyndir um byggingu sérstaks þinghúss, enda hefur það varla verið stefna hreppsnefndar að vera inni á gafli hjá Magnúsi eða afkomendum hans til eilífðarnóns. Það leið þó á löngu áður en Þinghúsið á Hrafnagili reis af grunni, en það var árið 1925.P5140999

     Verslun Magnúsar var að miklu leyti sambærileg, hvað varðaði vöruúrval og verð, við helstu verslanir kaupstaða og þótti jafnvel bera af þeim, hvað snyrtimennsku og frágang vara varðaði. Grundarverslun hefur í raun verið einstakt fyrirbæri, það var örugglega ekki algengt að slík verslun væri staðsett í sveit og raunar enn þann dag í dag. Miðað við umsvif og vöruúrval verslunar, var þetta e.t.v. svipað og ef fullburðug Bónus eða Krónuverslun væri staðsett í miðju landbúnaðarhéraði, 20 km frá kaupstað. Magnús lagði einnig áherslu á viðskipti við bændur, sem lögðu inn hjá honum kjöt og afurðir gegn úttektum.  Margir bændur í Saurbæjarhreppi skiptu nánast eingöngu við Magnús.  Þessum umsvifum fylgdi auðvitað mikill flutningur til og frá kaupstaðnum og þar auðvitað notast við hestakerrur og sleða á vetrum. Vegna þessara flutninga flutti Magnús inn bíl, annar manna á Íslandi og fyrstur manna á Norðurlandi, árið 1907. Hann reyndist hins vegar illa, of þungur og kraftlítill, erfitt að útvega varahluti og reyndist raunar verr, ef eitthvað var, heldur en kerrur og sleðar. Þess vegna var Grundarbíllinn ekki í þjónustu Magnúsar nema í hálft annað ár. Þá munaði í raun ekki miklu, að Grundarhúsin hefðu orðið fyrstu raflýstu húsin á Norðurlandi. Rafljós voru fyrst kveikt á Íslandi árið 1904, í Hafnarfirði, og um svipað leyti hafði Magnús samband við Jakob nokkurn Gunnlaugsson í Kaupmannahöfn. Skyldi hann leita tilboða til vátrygginga fyrir húsakost staðarins og auk þess, í raflýsingu á nýju kirkjunni og íbúðarhúsinu. Einhverra hluta vegna varð hvorki af tryggingunni né rafvæðingunni (Gunnar M. Magnúss 1972:228).  Hvers vegna fylgir þó ekki sögunni, mögulega hefur Magnúsi ekki þótt tilboðið hagstætt. (Hvort Magnús hefði fjárfest í rafmagnsbíl, skal hins vegar ósagt látið hér).  Auk þess að standa fyrir stórbúskap og verslun rak Magnús einnig skóla á Grund, á eigin kostnað, í tæpa tvo áratugi, frá 1889 til 1907 en eftir það tók við farkennsla, skv. Fræðslulögum frá 1907. Lengst af annaðist Árni Hólm Magnússon, frændi Magnúsar, kennsluna en Ingimar Eydal, síðar ritstjóri Dags og skólastjóri kom einnig að Grundarskóla síðar.  

     Magnús var kvæntur Guðrúnu Þóreyju Sigurðardóttur frá Gilsbakka. Bjuggu þau á Grund frá árinu 1874 til æviloka beggja, hún lést árið 1918 en hann árið 1925. Magnús kvæntist árið 1924 ráðskonu sinni, Margréti Sigurðardóttur, sem var eigandi hússins árið 1933, þegar það var metið til brunabótamats. Þar eru húsinu lýst svo: Íbúðarhús úr timbri, járnklætt, tvær hæðir á hlöðnum kjallara, 17x8,5m að grunnfleti og 7,5m hátt. Á stofuhæð voru sex herbergi og geymsla og tvær forstofur. Á efri hæð sjö herbergi, geymsla og gangur og í risi fimm hólf. Kjallari er sagður með steingólfi, með fjórum hólfum. Húsið er kynt með miðstöðvarkatli og steinolía til ljósa (munum, að ekkert varð af mögulegri raflýsingu Grundar tæpum 30 árum fyrr).  Þá eru einnig á staðnum hlóðaeldhús og gömul baðstofa, byggingar úr torfi og grjóti að mestu, árið 1933 (Sbr. Brunabótafélag Íslands 1933:nr. 25).IMG_0210

      Árið 1910 hafði risið nýtt og veglegt hús á Grund, sem verður umfjöllunarefni næstu greinar, en afkomendur Magnúsar og Guðrúnar bjuggu áfram í þessu húsi. Aðalsteinn, sonur þeirra, og kona hans, Rósa Pálsdóttir voru búsett hér 1916 til 1920, en Aðalsteinn lést árið 1919, aðeins þrítugur að aldri. Þá eru systir hans, Valgerður Magnúsdóttir  og hennar maður Hólmgeir Þorsteinsson sögð eigendur og ábúendur hér 1923- 1929 samhliða bræðrunum Þórhalli og Valdemar Antonssonum frá Finnastöðum, en þeir eru skráðir hér 1920-35, sá síðarnefndi milli 1920 og 23. Magnús Aðalsteinsson, sonarsonur Magnúsar og Guðrúnar er skráður ábúendi hér til ársins 1948 en þá var jörðinni skipt. Norðurhluti jarðarinnar, að mestu leyti, varð þá Grund II og taldist eldra íbúðarhús tilheyra þeirri jörð. Þá fluttust hingað þau Snæbjörn Sigurðsson frá Garðsá og Pálína Jónsdóttir frá Hrísey (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason og Kristján Sigfússon 1993:768-769). Þau voru búsett hér þegar byggða- og ábúendasaga Eyjafjarðar, Byggðir Eyjafjarðar, var tekin saman árið 1970. Þá er íbúðarhúsið sagt 800 rúmmetrar, fjós fyrir 60 kýr, fjárhús fyrir 150 fjár og hlöður fyrir allt að 3000 hesta, auk votheysturns, véla- og áhaldahúss. Túnstærð er sögð 60,41 hektarar og töðufengur 2800 hestar. Af bústofni er daprara að segja, en hann er enginn, vegna niðurskurðar árið 1967 (Sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:285). Árið 1990 hefur húsinu formlega verið skipt í tvær íbúðir, II og IIa  Það er fulllangt mál, að telja upp alla ábúendur Grundar hér, en ábúendatöl liggja fyrir í fyrrgreindum bókum. Þá eru eigendur þau Gunnar Egilson flugumferðarstjóri og Auður Birna Kjartansdóttir. Þá taldi bústofninn 18 hross og geldneytapláss í nýju fjósi (b. 1986) nýtt undir þau. Ræktað land var þá 23,8 hektarar. Land Grundar II var hins vegar að mestu í eigu ábúenda Grundar I (Sbr. Guðmundur, Jóhannes og Kristján 1993:768-769). Árið 2010 eru Gunnar og Auður búsett hér og eigandi ásamt þeim, og ábúandi, sonur þeirra Þorsteinn Egilson. Telur þá bústofninn 29 hross og 10 sauðkindur (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:434).

     Gamla íbúðarhúsið á Grund er sérlega reisulegt IMG_0213og glæst hús og í góðri hirðu, á húsinu er m.a. nýlegt þakjárn. Það er til mikillar prýði í fallegu umhverfi í grænu og búsældarlegu héraði og mynda íbúðarhúsin tvö skemmtilega heild ásamt kirkjunni miklu. Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað, eins og allar byggingar byggðar fyrir 1923. Þá hlýtur menningarlegt varðveislugildi hússins að vera verulegt í ljósi sögu staðarins, hvort sem er frá upphafi vega eða umsvifa Magnúsar Sigurðssonar. Húsið hefur í grófum dráttum haldið upprunalegu útliti sínu að ytra byrði. Að morgni 9. júní las greinarhöfundur á Facebook-hópnum Gömul hús á Íslandi að nú væri kominn nýr áhugasamur eigandi sem hyggði á endurbætur, m.a. lagfæra glugga og annað slíkt. Það verður fróðlegt að sjá þann afrakstur og rétt að óska nýjum eigendum til hamingju og góðs gengis. Verða þær endurbætur eflaust til að auka enn á prýði og virðuleika stórhýsis Magnúsar Sigurðssonar frá 1893, sem er svo sannarlega ein af perlum Eyjafjarðarsveitar. Meðfylgjandi myndir eru teknar 14. maí 2021, 20. maí 2022 og 15. apríl 2023.

Heimildir: Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

 Gunnar M. Magnúss. 1972. Dagar Magnúsar á Grund. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júní 2023
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 254
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 170
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband