Færsluflokkur: Bloggar

Hús dagsins: Helgamagrastræti 46

Árið 1942 fengu feðgarnir Kári Karlsson og Karl Sigfússon lóðP5030889 við Helgamagrastræti 46 ásamt byggingarleyfi fyrir húsi 13,7x8,0m að stærð, ein hæð á háum kjallara, byggt úr steinsteypu með timburgólfum og járnklæddu timburþaki. Teikningarnar að húsinu gerði Páll Friðfinnsson, en hann á heiðurinn af þó nokkrum húsum við Helgamagrastrætið, þ.á.m. húsum nr. 42, 44, 45. Upprunalegar teikningar að Helgamagrastræti 46 eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu.

Helgamagrastræti 46 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir en einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í gluggum. Húsið er parhús og nokkuð stærra að grunnfleti en nærliggjandi hús. Á norðurhlið er forstofubygging með flötu þaki, byggð árið 2003.

Karl Sigfússon sem var frá Víðiseli í Reykjadal og kona hans Vigfúsína Vigfúsdóttir frá Hvammi í Þistilfirði bjuggu hér, ásamt stórfjölskyldu, til dánardægurs, Karl  lést 1962 en Vigfúsína 1967. Karl var rokkasmiður en sú iðngrein hefur vafalítið átt nokkuð undir högg að sækja þegar leið á 20. öldina. Kári Karlsson bjó einnig hér um áratugaskeið ásamt fjölskyldu sinni, en kona hans var Alda Rannveig Þorsteinsdóttir. Kári, sem fæddur var á Rauðá í Bárðardal starfaði lengst af hjá Gefjun en varð síðar yfirbréfberi hjá Póstinum á Akureyri.  Sonur Karls og bróðir Kára var Þráinn (1939-2016), einn af ástsælustu leikurum þjóðarinnar. Þráinn var einn helstu máttarstólpa Akureyrskrar leiklistar í hálfa öld og tók þátt í flestum sýningum Leikfélags Akureyrar á því tímabili. Hann fór einnig með hlutverk í kvikmyndum á borð Útlagann, Hrafninn flýgur og Stellu í Orlofi.

 Helgamagrastræti 46 var, í hluta eða í heild, í eigu sömu fjölskyldu fram undir aldamót en síðan hafa ýmsir átt hér og búið. Húsið er að mestu leyti óbreytt frá upphafi, að undanskilinni forstofubyggingu á norðurhlið og sólpalli úr timbri á suðurhlið.  Húsið er í góðu standi og traustlegt og hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald. Sömu sögu er að segja af lóð, sem er vel gróin og hirt og enn stendur hluti af steyptum vegg með stöplum framan við húsið. Helgamagrastræti 46 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 907, 30. apríl 1942. Fundur nr. 913, 5. júní 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Helgamagrastræti 45

Páll Friðfinnsson, byggingameistari í Munkaþverárstræti 42, P5030891teiknaði og byggði árin 1943-45 tvö hús við neðanvert Helgamagrastrætið, númer 44 og 45. Í febrúar 1944 sótti Páll Friðfinnsson og fékk lóð nr.35 við Helgamagrastræti en bygginganefnd upplýsir á sama fundi að lóðin sé nr. 45. Páll fékk að byggja íbúðarhús á einni hæð á kjallara og með lágu valmaþaki. Húsið byggt úr steinsteypu með steinlofti, stærð að grunnfleti 9,5x7,5m auk útskots að austan 5x1,5m. Tekið er fram að kjallari megi ekki vera niðurgrafinn meira en 0,8m.  Teikningarnar að húsinu gerði Páll Friðfinnsson, svo sem áður hefur komið fram. Fullbyggt var húsið 1945, þannig að svo skemmtilega vill til, að Helgamagrastræti 45 er byggt ´45 wink.

Helgamagrastræti 45 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki, sléttum múr á veggjum, bárujárn á þaki og einföldum lóðréttum póstum í gluggum. Á framhlið er útskot og í kverkinni á milli inngöngudyr á efri hæð og tröppur upp að þeim.

Elsta heimildin sem timarit.is gefur upp um Helgamagrastræti 45 er frá 6. ágúst 1953 þar sem Sigurður Jóhannesson á Landsímastöðinni auglýsir húsið til sölu. Tólf árum síðar, eða í desember 1965 auglýsir Ottó Pálsson húsið til sölu. Húsið er teiknað sem einbýlishús og hefur væntanlega verið það fyrstu áratugina, en árið 1983 er efri hæðin hins vegar auglýst til sölu, þannig að einhvern tíma fyrir þann tíma hefur húsinu verið skipt upp. Margir hafa átt hér og búið um lengri og skemmri tíma og á tímabili var í húsinu orlofsíbúð Landssambands lögreglumanna.

Húsið er í mjög góðri hirðu og lóð vel gróin og hirt, gróskumikil birkitré auk smærri runna og trjáa. Húsið er nokkurn vegin óbreytt frá upprunalegri gerð og hlýtur það í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild, hluti af samfelldri röð funkishúsa. Helgamagrastræti er líklega ein lengsta samfellda röð funkishúsa á Akureyri, enda gatan töluvert löng á Akureyrskan mælikvarða íbúðagatna. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 965, 25. feb. 1944. Fundur nr. 975, 12. maí 1944.  Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 44

Helgamagrastræti 44 reisti Páll Friðfinnsson eftir eigin teikningum árið 1943. P5030893Hann fékk haustið 1942 leyfi til að reisa tveggja hæða hús með kjallara undir 2/5 af húsinu. Byggt úr steinsteypu með steinloftum og járnklæddu timburþaki, valmaþaki. Stærð 9,0x9,5m auk útskots [stærðar ekki getið] úr SV horni.

Helgamagrastræti 44 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Útskot er til vesturs og suðurs  og svalir til suðurs í kverkinni á milli, á efri hæð. Allt er húsið klætt bárujárni, bæði veggir og þak, einfaldir póstar í gluggum og horngluggar í anda funkisstefnu til suðausturs. 

 Páll mun líklega ekki hafa búið í húsinu, a.m.k. ekki um langa hríð en árið áður hafði hann reist húsið Munkaþverárstræti 42 og var þar búsettur um árabil. Páll, sem fæddur var að Skriðu í Hörgárdal, var annars ötull og mikilvirkur byggingameistari og teiknaði og byggði þó nokkur hús við m.a. við Helgamagrastrætið. Mögulega hafa fyrstu íbúar hússins, eða a.m.k. með þeim allra fyrstu þau síra Björn Stefánsson, prófastur á Auðkúlu og seinni kona hans, Valgerður Jóhannesdóttir. Þau mun hafa búið hér til ársins 1953, að þau fluttu til Reykjavíkur, að Karlagötu 5. Þá bjuggu hér um áratugaskeið þau Jóhannes Kristjánsson bifreiðastjóri frá Skjaldarvík og Ingibjörg G.J. Jónsdóttir frá Eyri í Mjóafirði við Ísafjarðardjúp. Að auki hafa margir búið hér um lengri eða skemmri tíma. Húsið hefur líkast til alla tíð verið tvíbýlishús. Árið 1980 fékk húsið ákveðna yfirhalningu og var þá klætt með bárujárni og nýr þakkantur settur á.  Teikningar að þeim breytingum gerði Björn Mikaelsson.

Helgamagrastræti 44 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Það er líkt og nærliggjandi hús, steinhús í funkisstíl frá fimmta áratug síðustu aldar, en er óneitanlega svolítið sérstakt í útliti með sína bárujárnsklæðningu á meðan flest hinna nærliggjandi húsa eru með steiningu. Það vill hins vegar svo til, að næsta hús sunnan við er ekki með steiningu heldur með steníplötum. E.t.v. mætti kalla húsið „bárujárnsfunkis“ jafnvel þótt bárujárnið sé síðari tíma viðbót. Húsið lítur vel út og er í góðu standi, og lóð vel hirt og gróin. Framan við húsið er stórt og gróskumikið reynitré og limgerði á lóðarmörkum. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 3. maí 2019 en þann sólríka vormorgun var sá sem þetta ritar á vappi um ytri Brekkuna með myndavélina og ljósmyndaði m.a. Helgamagrastrætið norðan Bjarkarstígs.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 905, 10. apríl 1942. Fundur nr. 929, 16. okt. 1942.  Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 43

Glöggir lesendur kunna að hafa tekið eftir því, að í þessari yfirferð síðuhafa um Helgamagrastræti hafa aðeins komið fyrir sléttar tölur síðustu vikur. Síðasta húsið með oddatölunúmeri var nr. 27, sem birtist í lok ágúst (reyndar brá ég mér aðeins niður á Eyri í millitíðinni). Eins og stundum, þegar mörg númer vantar inn í umfjöllunina er ástæðan einföld. Á bilinu 29-41 við Helgamagrastræti stendur nefnilega Leikskólinn Hólmasól og er næsta oddatöluhús norðan við Helgamagrastræti 43.  

Snemma árs 1946 sótti Guðmundur Guðmundsson  um lóð vestan Helgamagrastrætis,P5030895 næst norðan fyrirhugaðan leikvöll [nú leikskólinn Hólmasól]. Hann fékk einnig byggingaleyfi fyrir húsi á einni hæð með kjallara að stærð 11,85x10,60m. Loft skyldi úr steinsteypu og þak úr timbri. Teikningarnar að húsinu Guðmundur Gunnarsson

Helgamagrastræti 43 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Einfaldir póstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og steining á veggjum. Í kverk við útskot á framhlið eru tröppur upp að inngangi efri hæðar. Stórt gluggastykki, margskipt er á miðri framhlið og setur það vissan svip á húsið.

Þeim sem þetta ritar er ekki kunnugt um, hvort sá Guðmundur Guðmundsson sem reisti Helgamagrastræti 43 sé sami og var búsettur árið 1945 í húsinu handan götunnar, Helgamagrastræti 42 og auglýsti eftir síldarstúlkum á Sverrisbryggju . (Þekki einhverjir lesendur til væru þær upplýsingar að sjálfsögðu vel þegnar) Elsta heimildin sem timarit.is finnur, þar sem Helgamagrastræti 43 kemur fyrir er frá desember 1957, en þá hafði ratað þangað köttur, hvítur með dökkleitt skott og lýsti heimilisfólk eftir eiganda. Það fylgir svo ekki sögunni hvort kisi rataði til síns heima.

Helgamagrastræti 43 er að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð, en það er nokkuð dæmigerðri gerð  tvíbýlishúsa frá miðri síðustu öld. Því er vel við haldið og hefur líklega alla tíð verið. Lóðin er einnig vel gróin, gróskumikið limgerði á lóðarmörkum og stæðileg birki- og reynitré áberandi á lóðinni.

Helgamagrastræti 43 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild.  Gatan er að heita má órofin heild funkishúsa frá fjórða og fimmta áratug 20. aldar, nánast í aldursröð eftir því sem neðar og norðar dregur, sannarlega áhugaverð heild. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1044, 23. feb. 1946. Fundur nr. 1050, 12. apríl 1946.  Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 42

Árið 1942 Snorri Guðmundsson, iðnverkamaður hjá Iðunni, P5030894lóð og byggingarleyfi við Helgamagrastræti 42. (Þannig vill svo skemmtilega til, að hús nr. 42 er byggt ´42). Var honum leyft að byggja hús úr steinsteypu, byggt úr steinsteypu með tvöföldum veggjum með reiðing á milli, með timburgólfi og veggjum. Stærð hússins 8x9m auk útskots, 1,0x4,0m að sunnan. Bygginganefnd lét bóka, að ekki væri gert ráð fyrir miklu geymsluplássi í húsinu og þótti rétt að geta þess strax, að útigeymsla á lóð yrði ekki heimiluð síðar.  Teikningarnar að húsinu gerði Páll Friðfinnsson.

Helgamagrastræti 42 er tvílyft steinsteypuhús með bárujárnsklæddu valmaþaki, útskoti til suðurs, horngluggum á SV-horni og einföldum lóðréttum póstum í gluggum. Veggir eru klæddir með svoköllum steníplötum eða steiningarplötum, og er um tiltölulega nýlega klæðningu að ræða.

Elstu heimildir sem finna má á timarit.is eru frá mánaðamótum maí-júní 1945, en þá auglýsir Guðmundur Guðmundsson, í Helgamagrastræti 42, eftir 80 stúlkum til síldarsöltunar ánýjubryggju Sverris Ragnars á Oddeyrartanga“. Snorri Guðmundsson, sem byggði húsið, auglýsir árið 1953 litla íbúð til sölu í húsinu og var þar um að ræða neðri hæð hússins. Margir hafa búið í húsinu, bæði á efri og neðri hæð hússins. Það er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Helgamagrastræti 42 er, líkt og gjörvöll húsaröðin við Helgamagrastrætið að heita má, látlaust funkishús með valmaþaki. Það hefur hlotið algjörar endurbætur að ytra byrði, klæðningu, þakkant og þakjárn og er frágangur allur hinn snyrtilegasti. Sömu sögu er að segja af lóð hússins.

Helgamagrastræti 42 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 910, 15. Maí 1942. Fundur nr. 917, 3. júlí 1942.  Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Söguágrip Norðurgötu 3

Fréttir á borð við þessa eru ætíð skelfilegar,cry svo ekki sé meira sagt, en fyrir öllu er að allir sem inni voru björguðust. Hér að neðan er tengill á söguágrip sem ég ritaði um þetta ágæta hús, en það var Hús dagsins um mitt ár 2011.

NORÐURGATA 3   


mbl.is Eldur í íbúðarhúsi á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Helgamagrastræti 40

Helgamagrastræti 40 reistu þeir Páll Gunnarsson kennari og tengdafaðir hans, Hólmgeir P5030896Þorsteinsson, bóndi á Hrafnagili árið 1946. Síðla árs 1945 og vorið 1946 fékk  Hólmgeir annars vegar lóðina og hins vegar byggingarleyfi fyrir hönd Páls. Í bókunum bygginganefndar kemur ekkert fram um stærð og gerð hússins, aðeins að Hólmgeir fái byggingaleyfi samkvæmt teikningum Haraldar Þorvaldssonar. Engu að síður mun Guðmundur Gunnarsson hafa gert teikningarnar að húsinu, sem ekki eru aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu, en kemur fram hér á teikningum Ágústs Hafsteinssonar.

Helgamagrastræti 40 er tvílyft steinhús  með lágu valmaþaki. Útskot til vesturs á framhlið og í kverkinni á milli eru svalir sem skaga út fyrir suðurhlið og ná að útskoti til suðurs. Svalirnar voru stækkaðir í núverandi mynd árið 2002, eftir teikningum Bjarna Reykjalín Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum og bárujárn er á þaki en veggir eru múrhúðaðir.

Páll Gunnarsson og kona hans, Guðrún Margrét Hólmgeirsdóttir bjuggu hér um áratugaskeið, allt þar til hún lést árið 1983. Páll, sem  var fæddur í Garði í Fnjóskadal, kenndi um árabil við Barnaskóla Akureyrar, var þar skólastjóri og var einnig formaður Barnaverndarnefndar Akureyrar. Páll Gunnarsson lést árið 1991. Guðrún var fædd á Grund í Eyjafirði, en móðir hennar var Valgerður Magnúsdóttir, dóttir hins valinkunna athafnamanns og stórbónda Magnúsar á Grund. Þau Páll og Guðrún munu hafa haft mikið yndi af garðyrkju, og segir í minningargrein Ragnars Jónassonar um Pál að þau hafi ræktað fallegan gróðurreit úr grýttum og rýrum jarðvegi, og þar hafi Páll unað við ræktun trjáa og matjurta. Enn standa nokkur stæðilega reynitré á lóðinni, enda þótt fallegi gróðurreiturinn hafi vafalítið tekið þó nokkuð breytingum frá tíð Páls og Guðrúnar. Enda hafa margir átt hér heima síðan, en öllum eigendum auðnast að hirða vel um lóð og hús. Húsið er í mjög góðri hirðu og lítur vel út. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með stöplum að götu, líkt og tíðkast víða við Helgamagrastrætið.

Helgamagrastræti 40 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019, en svo vill til, að þann dag voru einmitt liðin rétt 73 ár frá því að Hólmgeiri Þorsteinssyni var veitt byggingaleyfi fyrir húsinu.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1039, 23. nóv. 1945. Fundur nr. 1052, 3. maí 1946. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 38

Í mars 1942 fékk Vilhjálmur Jónsson lóð við Helgamagrastræti að vestan, P5030897fimmtu lóð norðan Krabbastígs [sem ári síðar varð Bjarkarstígur]. Í júní sama ár var Vilhjálmi veitt byggingaleyfi: Íbúðarhús, ein hæð á kjallara með lágu valmaþaki. Útveggir úr r-steini og loft úr steinsteypu. Stærð hússins 9,3x8,5m auk útskota; 1,2x6,0m að norðan og 1,0x4,2m að sunnan. Teikningarnar að Helgamagrastræti 38 gerði Halldór Halldórsson.

Tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Útskot eða inngönguskúr er til norðurs en miklar steyptar tröppur upp að inngöngudyrum efri hæðar á framhlið. Steining er á veggjum, bárujárn á þaki en einfaldir póstar í gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnunnar til suðurs. Miklar tröppur liggja frá bílaplani neðst á lóð, og hafa þær nýlega verið endursteyptar.

Vilhjálmur var fæddur á Ystabæ í Hrísey, var vélvirki og bifvélavirki og stundaði auk þess ökukennslu. Hann fékkst einnig um árabil við öryggiseftirlit með vélknúnum ökutækjum  Vilhjálmur Jónsson og eiginkona hans, Magnea Daníelsdóttir bjuggu hér um árabil, eða þar til Vilhjálmur lést árið 1972. Þess má geta, að þau hjónin Vilhjálmur og Magnea voru bæði fædd sama dag, 15. janúar 1905.  Á fimmta áratugnum bjó hér einnig Gunnar Hallgrímsson tannlæknir frá Dalvík. Hann nam tannlækningar í Kaupmannahöfn  og lauk prófi þar 1936 en settist að á Akureyri 1938, þar sem starfrækti tannlæknastofu sína í Hafnarstræti 96, París. Gunnar fórst  í hinu skelfilega flugslysi í Héðinsfirði þann 29. maí 1947.  Helgamagrastræti 38 er stórglæsilegt hús og hefur nýlega hlotið miklar endurbætur, hvort tveggja hús og lóð  og er frágangur þess allur hinn snyrtilegasti. Útitröppur hafa m.a. verið endursteyptar, árið 2012 eftir teikningum Loga Más Einarssonar (núverandi formaður Samfylkingarinnar). Svo sem sjá má hafa endurbætur á hús og lóð heppnast stórkostlega og húsið og allt umhverfi þess til mikillar prýði.  Í Húsakönnun 2015 hlýtur Helgamagrastræti 38 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 901, 6. mars 1942. Fundur nr. 913, 5. júní 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 36

Árið 1944 fékk Þorsteinn Benediktsson þessa lóð og byggingarleyfiP5030898 fyrir steinsteyptu íbúðarhúsi, á einni hæð með kjallara undir hluta og járnklæddu valmaþaki úr timbri. Stærð hússins 10,65x8,6 auk útskots að vestan, 5x1,4m. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1945.  Teikningarnar að Helgamagrastræti 36 gerði Tryggvi Jónatansson, eins og að mörgum húsum á Akureyri á 4. og 5. áratug 20. aldar.

Helgamagrastræti 36 er einlyft steinsteypuhús á kjallara og með valmaþaki, útskoti til austurs á framhlið og inngangi í kverkinni á milli. Á suðurhlið er viðbygging, sólskáli úr gleri. Steining er á veggjum og bárujárn á þaki en einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum.

Þau Þorsteinn Benediktsson og Guðrún Jóhannsdóttir, sem byggðu húsið bjuggu þar um áratugaskeið eða allt til æviloka. Hann lést árið 1977 en hún 1981. Árið 1956 byggðu þau bílskúr á baklóð hússins og stendur hann enn, og er hann byggður eftir teikningum þeirra Gunnars Óskarssonar og Páls Friðfinnssonar. Ýmsir hafa átt húsið og búið þar eftir þeirra dag. Húsið mun alla tíð hafa verið einbýlishús og hefur ekki tekið stórvægilegum breytingum að ytra byrði. Sólskáli var byggður við suðurhlið hússins árið 2002 eftir teikningum Haraldar Árnasonar. Meðfram vesturhlið og að sólskálanum er grindverk eða veggur úr gleri. Lóðin er gróin og í góðri hirðu og á lóðarmörkum steyptur veggur sem líklega er frá svipuðum tíma og húsið var byggt.

Helgamagrastræti 36 er traustlegt hús og í góðri hirðu, það hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 983, þ. 21. júlí 1944. Fundur nr. 986, 18. ágúst 1944. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


"Stórafmælishús" á Akureyri

Ég haft ófá orð um það hér, að vefur þessi eigi 10 ára afmæli á þessu ári og birt ýmislegt til gagns og kannski ekki síst gamans af því tilefni. Meðal annars lista yfir 100 elstu hús Akureyrar og birt yfirlit yfir alla pistla frá upphafi. En það er ekki bara þessi vefur þessi sem á stórafmæli, heldur einnig mörg elstu hús Akureyrar. Hér eru hús, komin á annað hundraðið í aldursárum, sem eiga stórafmæli í ár. Að sjálfsögðu er ævinlega örlítill fyrirvari á byggingarárum elstu húsanna.

170 ára:

Þrjú hús, sem öll standa við Aðalstræti eru talin byggð 1849 og eru því 170 ára í ár. Þjóðskáldið Matthías Jochumsson (sem bjó einmitt í Aðalstræti 50) var um fermingu þegar þessi hús voru byggð og Thomas Edison, sem fann upp ljósaperuna og fleiri hagnýta hluti var tveggja ára. Þessi hús voru 69 ára þegar Ísland varð fullvalda og 95 ára þegar Lýðveldið Ísland var stofnað á Þingvöllum. Og fyrst minnst er á stofnun Lýðveldisins má koma því, að aldursár þessara húsa eru álíka mörg og fjöldi daga frá áramótum til 17. júní. 

Nonnahús, Aðalstræti 54.

p5230010.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Friðbjarnarhús, Aðalstræti 46.

P8150041

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Aðalstræti 50.

P8150042 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

160 ára:

Gamla apótekið, Aðalstræti 4, sem nýverið hlaut gagngerar endurbætur og er nú ein af perlum Innbæjarins er byggt 1859 og á því "tvöfalt áttræðisafmæli" í ár. Húsið er þremur árum eldra en Akureyrarkaupstaður, sem stofnaður var 1862.

P8070678

 

 

 

 

 

 

 

 

 

140 ára:

Lundargata 2, Háskenshús var byggt 1879 og er þannig jafnaldri Alberts Einstein.

 p2100007.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

120 ára:

Aðalstræti 17, Norðurgata 1, Norðurgata 3 og Spítalavegur 9 eru byggð 1899.

P6190009

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P6220121

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 

 

p6220122.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7310010

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

110 ára:

Hamborg, Hafnarstræti 94 er byggt 1909.

PC020866

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

100 ára:

Eftir því sem ég kemst næst eru þrjú hús innan þéttbýlismarka Akureyrar (Ath. þekki því miður ekki til varðandi Grímsey og Hrísey) sem byggð eru 1919 og bætast því í ár í hóp þeirra 150-200 Akureyrarhúsa sem náð hafa 100 árum. Húsin eru Oddeyrargata 8, Gránufélagsgata 21 og Hafnarstræti 82.

P5030002

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P5050001 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

p3060054.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að sjálfsögðu óska ég öllum hlutaðeigandi, íbúum og eigendum umræddra húsa sem og fyrirtækjum og stofnunum sem þar eiga aðsetur til hamingju með stórafmælin.smilecool 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_3323 - afrit
  • Leifshús
  • Skjámynd 2025-07-29 101559
  • Skanni 20250728 (3)
  • Skanni 20250728 (3)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.8.): 38
  • Sl. sólarhring: 39
  • Sl. viku: 351
  • Frá upphafi: 453539

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 214
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband