30.6.2021 | 17:04
Hús dagsins: Norðurgata 51
Norðurgötu 51 reistu þeir Ármann og Sverrir Magnússynir árið 1946, eftir teikningum þess fyrrnefnda. Í bókunum Bygginganefndar eru ekki höfð fleiri orð um það, en að þeir bræður fái lóðina og byggingaleyfi. Engin lýsing fylgir eða slíkt.
Húsið, sem stendur á suðvesturhorni gatnanna Norðurgötu og Grenivalla er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki, á lágum grunni. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum. Á norðanverðri framhlið (austurhlið) er útskot og svalir til suðurs áfast því.
Ármann Tryggvi og Sverrir Magnússynir voru Akureyringar, nánar tiltekið Oddeyringar, en árið 1920 eru þeir skráðir til heimilis að Strandgötu 9 og voru mögulega fæddir þar (?). Sverrir var fæddur 1916 en Ármann 1919. Ármann, sem starfaði sem húsasmiður var kvæntur Maríönnu Valtýsdóttur, frá Selárbakka á Árskógsströnd, og bjuggu þau hér um langt árabil. Ármann lést árið 1963 en Maríanna og börn bjuggu áfram hér eftir það. Sverrir Magnússon, sem kvæntur var Guðbjörgu Ingimundardóttur var blikksmiður. Hann lést árið 1984, þá búsettur hér. Guðbjörg Jóhanna Ingimundardóttir, sem fædd var og uppalin á Norðfirði, bjó einnig hér til æviloka, 1994. Húsið hefur alla tíð verið tvíbýli, ein íbúð á hvorri hæð. Þó stök herbergi og stofur hafi verið leigðar út á einhverjum tímapunktum hefur formleg íbúðaskipting ætíð verið sú sama. Þegar heimilisfanginu Norðurgötu 51 er flett upp á timarit.is koma upp um 60 niðurstöður, sem er ekkert óalgengt þegar í hlut eiga 75 ára gömul hús, sem alla tíð hafa verið íbúðarhús. Elsta heimildin er frá 1947, en hvorki Ármann né Maríanna, Sverrir né Guðbjörg eru skráð fyrir henni. En þar auglýsir Falur nokkur Friðjónsson hest og kú til sölu. Hefur hann líkast til leigt hjá þeim bræðrum á þeim tíma.
Norðurgata 51 er reisulegt og traustlegt hús í ágætu standi. Það er líkast til nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Það er hluti mikillar og heildstæðrar þyrpingar tveggja hæða steinhúsa frá miðri 20. öld, þyrpingar sem nær yfir mestalla Norðurgötu norðan Eyrarvegar- og raunar eru sams konar hús við göturnar Reynivelli í vestri, Grenivelli í norðri og Ránargötu í austri. Sem hornhús tekur húsið þátt í götumynd tveggja gatna, Norðurgötu og Grenivalla. Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. Öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1054, 20. maí 1946. Fundur nr. 1055, 7. júní 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 27.7.2021 kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2021 | 16:53
12 ár af "Húsum dagsins"
25. júní 2009 minnist líklega drjúgur hluti hinnar vestrænu heimsbyggðar, sem dánardægurs Michael Jackson. Þau sorgartíðindi bárust um öldur ljósvakans og alnetsins um kvöldið, en á ellefta tímanum fyrir hádegi þann dag settist ég hins vegar niður og skrifaði inn fáeinar línur um Gömlu Prentsmiðjuna eða Steinhúsið við Norðurgötu 17. Hugðist ég "henda inn" þeim húsamyndum sem ég átti þá (um 80 stk.) ásamt einhverjum stuttum textum næstu vikurnar þar á eftir....
Ég held ég hafi rakið það sem eftir kom á hverju einasta ári síðan, svo ekki hef ég mörg orð um það.
Á 12 ára afmæli "Húsa dagsins" er ég einmitt staddur við Norðurgötu, fjalla um yngsta og ysta hluta götunnar (þessi yngsti hluti er að mestu skipaður húsum á aldrinum 70-75 ára).
Ég íhuga reglulega hina ýmsa möguleika, t.d. að færa þetta á eitthvert annað vefsvæði eða gagnagrunn. Það sem kannski helst aftrar mér í því er einfaldlega gríðarlegt umfang, ætli það láti ekki nærri að pistlarnir séu á áttunda hundrað. Það yrði heljarinnar streð að afrita allt heila klabbið inn á annan vef.
Þá hefur það oft verið nefnt, að ég þurfi endilega að koma þessu út á bók. Hvort ég er rétti maðurinn til þess, svona í ljósi þess, að ég er aðeins áhugamaður og hef enga fag- eða sérfræðiþekkingu á viðfangsefninu. En það myndi ekki standa á mér, að koma einhverjum hluta þessara skrifa hér á vefnum á bókarform. Þess má reyndar geta, að allar mínar greinar sem birtast hér sl. misseri eru skrifaðar með það í huga, að þær geti farið nánar óbreyttar á bók (Lesendur tekið eftir því, að sl. misseri hef ég ævinlega talað um mig, s.s. höfundur, sá sem þetta ritar o.s.frv.). Hins vegar er það gríðarmikið fyrirtæki sem krefst óheyrilegs fjármagns og vinnu; prentun á "húsabók" yrði afar kostnaðarsöm þar sem um yrði að ræða fleiri hundruð stórra litmynda. Raunar gerði ég tilraun vorið 2018, til þess að safna fyrir prentun og útgáfu bókar um elsta hluta Ytri Brekku á Karolina Fund en það gekk ekki sem skildi.
En hvað sem því öllu líður hef ég svosem ákveðnar hugmyndir um hvernig ég myndi koma "Húsum dagsins" í bókarform, skapist tækifæri til þess. Sé ég fyrir mér sex til sjö bindi t.d. í þessari röð, eftir aldri og landfræðilegri legu hverfana:
Fyrsta bindi myndi fjalla um Innbæinn og stök býli þar í grennd.
Annað bindi myndi fjalla um eldri hluta Syðri Brekku (sunnan Þingvallastrætis, neðan Þórunnarstrætis auk gamalla býla á Brekku),
Þriðja bindi fjallaði um Ytri Brekku (yrði nokkurn vegin sama bók og ég hugðist gefa út 2018, nema nú hafa Helgamagrastræti, Holtagata, Hlíðargata og Lögbergsgata bæst við)
Fjórða bindi myndi fjalla um Miðbæjarsvæðið. Hugsanlega myndi Oddeyrin skiptast í tvö bindi, þar sem markalína yrði dregin t.d. um Eiðsvallagötu og þá myndi eitt bindið fjalla um gömlu býlin í Glerárþorpi. Svo væri auðvitað ein leiðin að pakka öllum þessum skrifum í einn doðrant, en sá yrði eitthvað yfir 1000 blaðsíður. En nóg af draumórum og pælingum um rithöfundarferil síðuhafa.
Þannig mun þetta ágæta vefsvæði verða minn vettvangur til þessara skrifa hér eftir sem hingað til -síðustu 12 árin. Sem fyrr segir, er ég staddur í Norðurgötu í umfjölluninni þessar vikurnar. Reyndar stóð alltaf til, að láta staðar numið í umfjöllun um Oddeyrina við Eyrarveg. Taka þá aðeins fyrir syðri hluta Norðurgötu, svo og Ránargötu og Ægisgötu. En svo vindur það auðvitað upp á sig: Fyrst ég fjalla um alla Norðurgötu hlýtur það sama að eiga að ganga yfir Ránargötu og Ægisgötu. Og ekki er mér stætt á því að fjalla um þennan hluta Eyrarinnar án þess að taka fyrir Eyrarveg. Þá eru þó nokkur fyrrum býli í Glerárþorpi sem verðskulda lengri umfjöllun en það sem komið hefur hér. Því má ljóst vera, að enn er af nægu að taka hvað varðar "Hús dagsins" á næstu mánuðum. Sl. þriðjudag, 22. júní, var ég einmitt á ferð um Eyrarveg á Oddeyrinni og ljósmyndaði húsin þar. Þá ljósmyndaði ég ytri hluta Ránargötu og Ægisgötu í vor. Hér eru nokkrar svipmyndir. Þessi verða "Hús dagsins" einhvern tíma á næstu mánuðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2021 | 13:44
Hús dagsins: Norðurgata 50
Árið 1946 fékk Sigfús Grímsson fimmtu lóð norðan við Kristján Jakobsson og byggingarleyfi. Hann fékk að reisa hús á tveimur hæðum byggt úr steinsteypu með valmaþaki, 11x11m að stærð með viðbyggðum bílskúr, 5,30x3,75m. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson.
Norðurgata 50 er tvílyft steinhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Þá er bílskúr áfastur á norðurhlið og er hann með flötu þaki. Grunnflötur þess er nokkurn veginn ferningslaga að viðbættu útskoti norðanmegin á framhlið (vesturhlið). Sunnan úr framskoti eru svalir til suður og eru þar einnig inngöngudyr á neðri hæð. Steiningarmúr er á veggjum og var hann endurnýjaður fyrir ekki margt löngu og bárujárn er á þaki. Breiðir, skiptir krosspóstar eru í flestum gluggum.
Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, með einni íbúð á hvorri hæð en einnig voru stök herbergi og stofur leigðar út. Elstu heimildir sem timarit.is finnur um Norðurgötu eru frá 1947, þar sem Sigfús Grímsson auglýsir stofu og herbergi til leigu í húsinu og árið 1952 auglýsir hann neðri hæðina til sölu. Sigfús Grímsson (d. 1978) , sem reisti húsið, var fæddur árið 1893 í Tunguseli í Sauðanessókn, N-Þing. Hann var húsasmíðameistari en stundaði framan af ævi búskap á Ærlækjarseli en fluttist til Akureyrar um 1930 en 1931 byggði hann húsið Laxagötu 4. Sigfús fluttist á efri árum til Reykjavíkur. Margir hafa búið í húsinu um lengri eða skemmri tíma og á tímabili var KB bólstrun til húsa í Norðurgötu 50. Tvær íbúðir eru í húsinu og hefur svo verið frá upphafi, sem fyrr segir.
Norðurgata 50 er reisulegt og stæðilegt steinhús í mjög góðri hirðu. Það hefur nýlega fengið gagngerar endurbætur, m.a. nýjan múr og veggi og er sem nýtt að sjá. Allur er frágangur húss og lóðar, þ.m.t. steypts veggjar og járnavirkis á lóðarmörkum, hinn snyrtilegasti og til fyrirmyndar. Húsið er þó næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1044, 8. mars 1946. Fundur nr. 1050, 12. apríl 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2021 | 13:18
Hús dagsins: Norðurgata 49
Norðurgata 49, sem byggð er 1956-57 er eitt af yngstu húsum götunnar og eitt örfárra sem byggt er eftir 1950. (Raunar eru þó nokkur hús við götuna byggð fyrir 1900). Norðurgötu 49 reistu þeir Árni og Jóhann Böðvarssynir. Húsi þeirra er ekki lýst í bókun bygginganefndar þann 29. júní 1956 er þeim var veitt byggingarleyfið. Teikningarnar að húsinu gerði Mikael Jóhannsson.
Norðurgata 49 er tvílyft steinhús á lágum grunni og með valmaþaki. Á suðurhlið er útskot með áföstum svölum til vesturs en austast eru tröppur ásamt inngöngudyrum á efri hæð. Lóðréttir póstar eru í flestum gluggum, bárujárn á þaki og veggir múrsléttaðir.
Þeir bræður Árni og Jóhann Böðvarssynir voru fæddir á Akureyri en ólust upp á Melum sunnan Nausta. Árni hafði áður stundað búskap á Melum en einnig á Brunná. Þar byggði hann hús árið 1946, sem hann bjó í uns hann fluttist hingað árið 1957. Árni var einnig lengi vel verkstjóri hjá Vegagerðinni. Þegar Norðurgötu 49 er flett upp á timarit.is birtast, þegar þetta er ritað, 87 niðurstöður, langflestar frá 7. áratugnum en þá var Árni Böðvarsson um afgreiðslu og auglýsingar fyrir Íslending. Þeir bræður bjuggu ásamt fjölskyldum sínum í húsinu um árabil, Jóhann til æviloka, 1983.
Norðurgata 49 er reisulegt og glæst hús og í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði. Líkt og við flest nærliggjandi hús er steyptur veggur með járnavirki á lóðarmörkum. Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1248, 29. júní 1956. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2021 | 19:58
Hús dagsins: Norðurgata 48
Árið 1946 fékk Jón Guðnason lóð við Norðurgötu, fjórðu lóð norðan við Kristján Jakobsson (Eyrarvegur 29). Þá fékk hann leyfi til að reisa hús, tveggja hæða á lágum grunni, byggt úr steinsteypu með valmaþaki, 10x9,75m að grunnfleti. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Magnússon.
Húsið er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Útskot er á húsinu til norðausturs og þar inngöngudyr á neðri hæð og svalir á efri hæð til suðurs. Bárujárn er á þaki, steiningarmúr á veggjum og lóðréttir póstar með þverfögum í flestum gluggum.
Jón Guðnason, sem reisti húsið, var fæddur og uppalin á Veisu í Fnjóskadal. Hann starfaði m.a. við bílaviðgerðir og mun hafa verið mikill hagleiksmaður og þúsundþjalasmiður. Hann var kvæntur Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Garðshorni í Kræklingahlíð. Bjuggu þau í húsinu í tæpan áratug uns þau fluttust til Reykjavíkur, 1954. Í Norðurgötu 48 bjó lengi vel Árni Bjarnason bókaútgefandi frá Pálsgerði í Dalsmynni. Hann keypti bókabúðina Eddu árið 1939 og rak hana í tugi ára og var afkastamikill í bókaútgáfu. Muna margir lesendur eflaust eftir bókabúðinni Eddu, hin síðari ár Í Hafnarstræti 100 en áður í Skipagötu 2. Árni var mjög áhugasamur um Íslendingabyggðir í Vesturheimi og tengsl þeirra og samskipti milli þeirra og Íslands. Hann heimsótti þessar slóðir oft og vann ötullega að því, að greiða fyrir samskiptum milli Íslands og Íslendingabyggða í N-Ameríku. Hann tók saman viðamikið ritverk um æviskrár Vestur-Íslendinga og hér í bæ annaðist hann útgáfu Lögbergs-Heimskringlu, nokkurs konar vestur-íslensks dagblaðs í Winnipeg.
Norðurgata 48 er líkast til lítið breytt frá upphaflegri gerð. Frá upphafi hafa verið tvær íbúðir í húsinu, ein á hvorri hæð og hefur húsið líkast til hlotið fyrirtaks viðhald alla tíð, en það er í mjög góðri hirðu. Það er til mikillar prýði í langri og skemmtilegri götumynd áþekkra húsi ytri hluta Norðurgötu. Lóðin er einnig snyrtileg og vel frágengin. Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1045, 1. mars 1946. Fundur nr. 1051, 26. apríl 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2021 | 10:33
Hús dagsins: Norðurgata 47
Norðurgötu 47 reisti Gestur Halldórsson árið 1946. Hann fékk þriðju lóð frá reit Byggingafélagsins (Norðurgötu 39-41) og leyfi til byggingar steinsteypts húss á tveimur hæðum, 11x10m að grunnfleti með steyptu lofti og timburþaki. Bygginganefnd setti honum það skilyrði, að undir húsinu yrði 40 cm sökkull, miðaður við götuhæð. Á kortavef Akureyrar má finna járnateikningar eftir Halldór Halldórsson en ekki ljóst þar, hvort hann sé hönnuður hússins.
Norðurgata 47 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Steining er á veggjum, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnunar til suðurs.
Gestur Halldórsson, sem reisti húsið, var húsasmiður, fæddur að Vöglum í Miklabæjarsókn í Skagafirði. Ef Norðurgötu 47 er flett upp á timarit.is í þgf. koma upp rúmlega 50 niðurstöður, sú elsta frá janúar 1950. Þar auglýsir Rögnvaldur Rögnvaldsson, búsettur í húsinu, að hann taki að sér hreingerningar. Sex árum síðar auglýsir Gestur Halldórsson, sem byggði húsið, neðri hæðina til sölu. Svo vill, til að á sömu opnu í Degi þann 9. ágúst 1956 þar sem auglýsing Gests birtist, auglýsir Jón Sigtryggsson efri hæðina til sölu. Þannig má ætla að húsið eigendaskipti hafi verið á báðum hæðum síðsumars eða haustið 1956. Á sömu opnu er einnig áhugaverð grein, með fyrirsögninni Yngstu bændurnir kunna ekki að slá, þar sem bornir eru saman sláttuhættir þess tíma og fyrri. Sjálfsagt hafa hæðirnar skipt þó nokkrum sinnum um eigendur og íbúa síðan en öllum auðnast að halda húsinu vel við í hvívetna. Tvær íbúðir eru í húsinu, á sinni hæð hvor.
Norðurgata 47 er reisulegt en látlaust hús í góðri hirðu og er líkast til að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Það er hluti af langri og heilsteyptri röð sviplíkra steinhúsa og til prýði sem slíkt. Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Allt frá 19. aldar timburhúsunum í suðri til og með langrar heilsteyptar raðar steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. Öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1045, 1. mars 1946. Fundur nr. 1049, 12. apríl 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2021 | 12:48
Hús dagsins: Norðurgata 46
Haustið 1946 fékk Þórólfur Sigurðsson lóðina og byggingarleyfi skv. teikningu. Ekki var um frekari lýsingu að ræða en bygginganefnd krafðist hins vegar breytinga á teikningu. Teikningar að húsinu eru ekki aðgengilegar á kortagrunni Akureyrarbæjar, en elstu teikningar sem þar eru að finna eru raflagnateikningar eftir Sig. Þorgrímsson frá 1946. Þar finnast einnig teikningar Jóns Geirs Ágústssonar frá 1962 af breytingum á neðri hæð, en ekki tekið fram í hverju þær breytingar felast.
Norðurgata 46 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og þrískiptir, lóðréttir póstar í gluggum. Á suðvesturhorni eru síðir og breiðir horngluggar og á miðri framhlið eru svalir með skrautlegu járnavirki.
Þórólfur Sigurðsson, sem byggði húsið var fæddur árið 1902 í Syðra- Dalsgerði í Saurbæjarhreppi. Hann var bóndi þar og einnig á Saurbæ árin 1931-33 en starfaði lengst af sem húsasmiður. Bjó hann hér og seinni kona hans, Sigurpálína Jónsdóttir frá Hauganesi, um árabil. Margir hafa búið hér um lengri og skemmri tíma. Ef húsinu er flett upp á timarit.is koma upp 44 niðurstöður, sú elsta frá október 1950, þar sem Aðalsteinn Þórólfsson auglýsir barnavagn til sölu. Árið 2017 þjónaði húsið sem kvikmyndasett fyrir stuttmyndina Saman og saman með þeim stórleikkonum Sunnu Borg og Sögu Jónsdóttur í aðalhlutverkum. Leikstjóri var Hreiðar Júlíusson.
Húsið er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfinu og þegar þetta er ritað skartar húsið skemmtilegum gulbrúnum lit. Líkt og við flest hús við ytri hluta Norðurgötu er steyptur veggur með járnavirki á lóðarmörkum. Ein íbúð er í húsinu.
Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1064, 20. sept. 1946. Fundur nr. 1067, 25. okt. 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.7.): 21
- Sl. sólarhring: 59
- Sl. viku: 299
- Frá upphafi: 451430
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 205
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar