Færsluflokkur: Bloggar
15.8.2015 | 17:14
Hús dagsins: Fjólugata 5
Síðla hausts 1933 fékk Friðgeir H. Berg leyfi til að reisa hús á leigulóð sinni við Fjólugötu.
Friðgeir vildi fá að reisa timburhús á steinsteyptum kjallara, 7,2x7,6m að stærð með valmaþaki en nefndin leyfði ekki slíkt þak heldur verði stafnar byggðir upp eins og venjulega, ennfremur að útitröppur séu jafnháar kjallara. Þá vildi bygginganefnd ekki leyfa Friðgeiri að stjórna byggingu hússins sjálfur þar eð hann gat ekki framvísað skilríkjum þess efnis að hann hefði til þess heimild.
Í íbúaskrám Akureyrar frá 4. áratug 20.aldar er Friðgeir ekki skráður til heimilis í Fjólugötu 5, heldur bjó hann sunnar á Eyrinni, á Strandgötu 27. Þarna er hins vegar skráður maður að nafni Arnaldur Guttormsson, en hann kemur hvergi fyrir í bókun bygginganefndar. Þetta þótti þeim sem þetta ritar ástæða til að gaumgæfa nánar. Friðgeir H. Berg var kvæntur Valgerði Guttormsdóttur frá Ósi í Hörgárdal en áðurnefndur Arnaldur var bróðir hennar. Líklegt er, að Friðgeir hafi byggt þetta hús til handa mági sínum, Arnaldi Guttormssyni. Árið 1940 er þríbýlt í húsinu, annars vegar Friðrik Tryggvi Jónsson og Margrét Halldórsdóttir og hins vegar þau Þórir Guðjónsson og Margrét Halldórsdóttir. Þá eru tveir leigjendur, mæðgurnar Stefanía Pétursdóttir og Vigdís K.P. Stefánsdóttir. Þá bjuggu allt í allt 12 manns í húsinu- sem er sem áður segir 7,2x7,6 á grunnfleti eða um 54 fermetrar. Þess má þó geta að það var alls ekki óalgengt að tvær til þrjár fjölskyldur byggju í húsum af þessari stærð og oftar en ekki voru einhverjir leigjendur í herbergjum. En Fjólugata 5 er einlyft timburhús á háum steyptum kjallara. Inngangar eru á framhlið á kjallara en á austurstafni eru steyptar tröppur og þar inngangur á hæð. Líkt og á næstu húsum eru tveir gluggar beggja vegna framdyra sem og á efri hæð á framhlið. Bárujárn er á þaki hússins en húsið en veggir eru plötum með grjótmulningi (perluákasti). Húsið er í mjög góðu standi, klæðning, gluggar og þak virðast nýleg. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þ. 12.júní 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1930-35, Fundur 711, 2.nóv 1933.
Manntal á Akureyri 1940. Þessi rit eru óutgefin en eru varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 16.8.2015 kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2015 | 10:35
Hús dagsins: Fjólugata 4
Ólafur Ágústsson reisti Fjólugötu 4 árið 1932, en hann fékk þá leyfi til að reisa tvö sams konar timburhús við Fjólugötu. Húsin, sem voru númer 2 og 4 voru einlyft á steyptum kjallara og með lágu risi, járnvarin, 7,2 x 7,8 m að grunnfleti þ.e. rétt um 50 fermetrar. Þessi húsagerð virðist hafa verið einkar vinsæl á Eyrinni á fyrri hluta fjórða áratugarins.
Bæði þessi hús voru byggð sem íbúðarhús, var þá búið á hæð og geymslur og þvottahús í kjallara en ekki er ólíklegt að einhvern tíma hafi kjallarar þessara húsa verið nýttir sem íbúðarrými. Enda þótt húsið sé teiknað sem einbýlishús voru einstök herbergi leigð út, en slíkt var ekki óalgengt á þessum árum. Lengst af voru þessi hús, númer 2 og 4 mjög svipuð en um 2005 var húsið allt endurnýjað og byggt við það. Húsið er nú allt klætt bárujárni, bæði þak og veggir. Það er, sem áður segir, timburhús á háum kjallara og með lágu risi. Á austurstafni er inngönguskúr og tröppur upp að honum. Einfaldir, lóðréttir póstar eru í gluggum. Húsið er allt sem nýtt eftir endurbætur fyrir áratug og lítur stórglæsilega út. Þessi mynd er tekin þ. 12.6.2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1930-35, Fundur nr. 685, 7.nóv. 1932 Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2015 | 13:32
Hús dagsins: Fjólugata 3
Árið 1933 fékk Þorgrímur Þorsteinsson lóð og byggingarleyfi á Fjólugötu sunnan götu ámóta húsi Óskar Jóhannesdóttur (þ.e. Fjólugötu 8). Sótti Tryggvi Jónatansson um leyfið í hans umboði og líklegt þykir mér að hann hafi gert teikningarnar að húsinu, sem var íbúðarhús úr steinsteypu, 8,8x8,6m, 1 hæð á kjallara".
Fjólugata 3 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu risi. Bárujárn er á þaki og einfaldir póstar í gluggum og er húsið allt klætt bárujárni eða stálklæðningu. Áfastur húsinu er bílskúr, byggður um 2004. Stendur hann fast við suðvesturhorn hússins. Ef litið er til grunnflatartölu hússins sést að hún er sú nákvæmlega sama og fyrir nr. 1 enda virðast húsin um margt svipuð, þó gluggasetning sé eilítið frábrugðin. Á báðum húsum er t.d. inngangur fyrir miðju og tveir gluggar sitt hvoru megin við dyr. Á nr. 1 er einn gluggi í miðju á hæð- beint ofan við dyr en á 3 er minni gluggi fast við dyrnar. Sameiginlegt einkenni húsanna tveggja eru bogadregnir toppar á stöfnum, en svipað skraut er á t.d. Norðurgötu 32 og 33. Fjólugata 3 er líkt og nærliggjandi hús einfalt og látlaust og gerð. Það er greinilega ný upptekið eins og gjarnan er sagt um bíla- á því er nýleg klæðning og gluggar. Þessi mynd er tekin 12.júní 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1930-35, Fundur 703 27.júlí 1933 og nr. 704, 1.ágúst s.á. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2015 | 14:33
Hús dagsins: Fjólugata 2
Síðla árs 1932 fékk Ólafur Ágústsson byggingameistari þrjár lóðir vestast við Fjólugötu norðanverða. Hann fékk leyfi til að reisa þar tvö timburhús steyptum kjallara, járnvarin 7,2x7,8m að grunnfleti, ein hæð með lágu risi. Nefndin setti þau skilyrði að útitröppur væru ekki að götu og gerði einnig kröfu um það að húsin yrðu búin vatnssalerni ! Á þessum árum var nefnilega mikil áhersla lögð á að útrýma slæmum og heilsuspillandi húsakosti og sá sem flettir fundargerðum Bygginganefndar frá þessum árum rekst oftar en ekki á upptalningar á íbúðum sem úrskurðaðar voru óíbúðarhæfar og ekki leyfilegt að búa þar. Það fylgir hins vegar ekki sögunni hvernig þessum úrskurðum var fylgt eftir.
Árið 1933 risu þessi hús Ólafs og urðu þau númer 2 og 4 við Fjólugötu. Hús númer 2 stendur á horni Fjólugötu og Norðurgötu og stendur stafninn við gangstéttarbrún þeirrar síðarnefndu. Fjólugata 2 er einfalt og látlaust hús, einlyft með lágu risi, klætt bárujárni á veggjum og þaki og hefur verið svo frá upphafi því á þessum var sú krafa gerð að timburhús væru járnvarin. Stendur húsið á háum steyptum kjallara og í gluggum eru einfaldir, lóðréttir póstar. Meðal fyrstu íbúa hússins voru þau Bjarni Vilmundarson verkstjóri og Margrét Sigurðardóttir en þau bjuggu þarna á 5. og 6.áratug 20.aldar. Hún var árið 1957 elsta konan til að ganga í svokallaðri Landsgöngu á skíðum, en þar var um að ræða mikla skíðagöngu fyrir almenning. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út. Það myndar skemmtilega tvennd í götumyndinni ásamt systurhúsi sínu númer 4. Og jafnvel þótt síðarnefnda húsinu hafi nokkuð verið breytt eru húsin tvö sláandi lík- svona fljótt á litið. Ein íbúð er í húsinu. Þessi mynd er tekin í byrjun ársins, þann 4.janúar 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundur nr. 685, 7.nóv. 1932. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 11.8.2015 kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2015 | 17:36
Hús dagsins: Fjólugata 1
Árið 1933 fékk Haraldur Kr. Jónsson lóð og byggingarleyfi við Fjólugötu, næst vestan húss Sigurðar Björnssonar og Kristjáns Jakobssonar (Norðurgötu 33). Haraldur fékk leyfi til að reisa hús, 8,6x8,8m að stærð, steypt en innrétting úr timbri. Þannig eru útveggir hússins steyptir en innveggir og milliloft úr timbri. Það var sjaldgæfara en hitt á þessum árum, að innveggir eða plötur milli hæða væru steyptar.
Húsið er einlyft hús á háum kjallara og með lágu risi og bogadregnum toppum á stöfnum til skrauts. Járn er á þaki en svalir til suðurs á annarri hæð og einfaldir póstar eru í gluggum. Múrhúð á veggjum er með sérstakri áferð sem ég viðurkenni að ég kann ekki að nefna en nærtækast þykir mér að líkja pússningunni við krem á gulrótartertu eða djöflatertu. (Þ.e.a.s áferðinni ekki bragðinu ) Árið 1935 auglýsti Haraldur hús sitt til leigu og tveimur árum síðar er auglýst stofa með sér inngang og aðgang að baði í Fjólugötu. Þarna bjó einnig lengi vel Jakob Ó. Pétursson, ristjóri og ábyrgðarmaður Íslendings. Hvort blaðið var afgreitt af heimili hans fyrstu árin er mér ókunnugt um en síðar var afgreiðsla Íslendings og skrifstofa í Hafnarstræti 81. Þegar húsinu er flett upp á Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar eru ekki gefnar upp upprunalegar teikningar að húsinu en þar má finna upplýsingar um bílskúr og svalir. Bílskúr á lóðinni teiknaði Jónas Vigfússon árið 1980 en svalir hannaði Mikael Jóhannsson árið 1987. Að öðru leiti er húsið líkast til að mestu leyti óbreytt frá upphaflegri gerð.
Árin 1932-34 má segja að lóðir og bygginarleyfi á Fjólugötu hafi verið afgreidd á færibandi en gatan kemur býsna oft fyrir í fundargerðum Byggingarnefndar á þessu bili. Húsið er eitt margra svipaðra húsa við götuna og raunar eru þau þó nokkur á svipuðum aldri með þessu lagi í nágrenninu. Ein íbúð er í Fjólugötu 1. Húsið lítur vel og er til mikillar prýði í mjög heillegri og samstæðri götumynd. Þessi mynd er tekin þann 12.júní 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1930-35, Fundur 703 27.júlí 1933 og nr. 704, 1.ágúst s.á. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2015 | 19:53
Næst á dagskrá: Fjólugata á Oddeyri
Síðastliðin vetur lagðist ég í nokkuð stórt grúskverkefni. En þar tók ég skipulega fyrir hús við nokkrar götur á Oddeyri og miðaði umfjöllunina við göturnar Eiðsvallagötu, Norðurgötu, Ránargötu og Ægisgötu sunnan Eyrarvegar. Í stórum dráttum fjallaði ég um þann hluta Oddeyrar sem byggðist upp á 4.áratug síðustu aldar. En fyrst ég á annað borð var byrjaður á þessu sá ég fram á, að ein gata þyrfti að vera með í þessari umfjöllun, svo jafnræðis yrði nú örugglega gætt. Nefnilega Fjólugata.
Fjólugata er heldur stutt gata sem liggur milli Glerárgötu og Norðurgötu. Hún liggur því A-V, líkt og Strandgata, Gránufélagsgata og Eiðsvallagata. Gatan er einstefnugata og er ekin frá Glerárgötu í austur, þar sem beygt er inn á Norðurgötu til móts við Norðurgötu 36. Við Fjólugötu er m.a. mjög heilsteypt þyrping einlyftra húsa með lágu risi og á háum kjallara, sem byggð voru árin 1932-35- sjá mynd hér að neðan.
Hér er horft til austurs niður Fjólugötu. Næst er Fjólugata 9, grænt hús og þá 7,5,3 og 1. Fjær sér í ris og kvist Norðurgötu 36 og þar vinstra megin er Fjólugata 2. Myndin er tekin þ. 12.júní sl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tvö mikil gil skera brekkuna ofan Miðbæjar. Sunnar er Grófargil eða "Gilið" (Listagilið) en nyrðra gilið kallast Skátagil og skilur um 100 m breið brekkutunga þau að. Á barmi Grófargils liggur gatan Gilsbakkavegur en á barmi Skátagils er Oddagata. Gegnt Oddagötu, á norðurbarmi Skátagils liggur gatan Bjarmastígur. Gaman er að segja frá því, af því ég er nú skáti, að Skátagilið er mér vitanlega eina náttúrufyrirbærið hér á landi sem kennt er við skáta. Upphaf þessarar nafngiftar má rekja til ársins 1935 en í ársbyrjun það ár sótti Skátasveitin Fálkar um ræktun og umhirðu þessarar skákar fyrir bæinn. Á móti fékk skátasveitin, sem Jón Norðfjörð veitti forystu, að reisa þarna tjaldbúðir. Í bókun bygginganefndar er þetta gilið ekki nefnt, heldur talað um spilduna milli Oddagötu og Bjarmastígs. Húsin við Gilsbakkaveg og Oddagötu eru flest steinhús byggð á árabilinu 1925-40 en þar lúra einnig tvö geðþekk timburhús frá árunum 1905-06. Hús þessi, sem ein sátu að tungunni milli giljana í um tvo áratugi kallast Melshús. Það ytra eða nyrðra stendur við baklóð við Oddagötu en það syðra stendur við Gilsbakkaveg.
Oddagata 3b
Oddagata 3b eða Ytra Melshús er einlyft timburhús með háu risi og á steyptum kjallara. Tvö bíslög eða litlir inngönguskúrar eru á húsinu norðan- og vestanverðu. Í gluggum eru sexrúðupóstar og bárujárn á þaki en veggir eru klæddir steinblikki. Samkvæmt Steindóri Steindórrsyni (1993: 169) er Oddagata 3b byggð 1905 en Fasteignaskrá segir húsið byggt 1915. Ekki fylgir sögunni hver byggði húsið en árið 1910 bjuggu tvenn hjón í húsinu, Maron Sigursteinn Sölvason og Helga Grímhildur Helgadóttir og Hallgrímur Helgason og Matthildur Grímsdóttir. (Maron byggði síðar Ránargötu 5 á Oddeyri). Á þessum tíma voru karlarnir oftast titlaðir húsbændur en þarna eru þær tvær skráðar húsmæður en þeir leigjendur. Maron og Helga áttu árið 1910 þrjú börn og sama gilti um Hallgrím og Matthildi, en auk fjölskyldnanna tveggja bjuggu í húsinu ein lausakona og einn leigjandi. Alls bjuggu því 12 manns í húsinu árið 1918.
Árið 1918 var húsið virt og þá sagt einlyft með porti og háu risi, þak pappaklætt og húsið 8,3x5,7m, alls 7 herbergi auk geymslu. Húsið er þá metið á 3000 kr. og lóð á kr. 600. Eigandi er sagður Ásgeir Pétursson en íbúar sagðir Guðjón Jónsson verkamaður o.fl. Eins og gengur gerist og með hús á þessum aldri hefur margt heiðursfólk búið þarna. Meðal íbúa hússins voru Eðvarð Sólnes, formaður hjá Ásgeiri og Lilja Daníelsdóttir Sólnes, en fóstursonur þeirra var Jón G. Sólnes (1910-1986) alþingismaður með meiru. Jón G. flutti í húsið 9 ára gamall með foreldrum sínum, þ.e. 1919.
Líklegt þykir mér að húsið hafi fengið númerið 3b við Oddagötu þegar byggð tók að myndast við götuna skömmu fyrir 1930. Í dag er húsið einbýli og hefur verið síðustu áratugi. Húsið virðist ekki mikið breytt frá upprunalegri gerð. Húsið er til mikillar prýði, lítið og látlaust timburhús og er það í góðu standi. Gluggar og þakklæðning virðist nýleg og lóð er vel gróin og hirt. Á suðurmæni hússins er vindhani í fiskslíki (vindfiskur) sem setur mjög skemmtilegan svip á húsið. Þessi mynd er tekin 15.júlí 2015.
Gilsbakkavegur 3
Gilsbakkavegur 3 eða Syðra Melshús er byggt 1906, en ekki fylgir sögunni hver byggði húsið. Árið 1910 er Una Kristín Sigþrúður Hálfdánardóttir skráð þarna húsmóðir en Stefán Nikulásson er þar leigjandi en þau búa þarna ásamt þremur börnum sínum. Ekki er hægt að fullyrða að þau hafi byggt húsið. Árið 1918 er Ásgeir Pétursson útgerðarmaður eigandi hússins, sem og Ytra Melshúss en vel gæti verið að hann hafi reist bæði húsin. Gilsbakkavegur 3 er einlyft timburhús með lágu, aflíðandi risi og stendur húsið á lágum steyptum kjallara. Á vesturhlið er inngönguskúr með aflíðandi þaki en á austurhlið er lítið bíslag þar sem áður hefur verið gengið inn á hæð en þar eru kjallaradyr. Þá er viðbygging við kjallara á norðausturhorni. Húsið er klætt steinblikki og bárujárn á þaki en krosspóstar eru í gluggum. Á austurbíslagi er nokkuð skrautlegur gluggi til suðurs, með margskiptum rúðum en hann hefur lengi vel verið forstofugluggi.
Árið 1918 er húsið virt og sagt einlyft timburhús með pappaklæddu þaki, 6,3x5,7m að stærð og geymsluskúr við bakhlið. Þar er líklega átt við kjallaraskúrinn. Húsið var virt á kr. 2500 en lóð talin 600 kr. virði. Þarna virðast forstofubyggingar ekki vera komnar en árið 1923, þegar rafmagn var lagt í húsið eru viðbyggingarnar sýndar á raflagnateikningu. Þá hefur húsið líklega verið komið með það útlit sem það nú hefur, og líklegt má telja að húsið hafi verið járnvarið á svipuðum tíma. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús. Melshúsin tvö hafa staðið stök í um tvo áratugi á 3.áratug 20.aldar tóku göturnar tvær á gilbörmunum að byggjast, og á teikningunni frá 1923 er húsið skrifað sem Gilsbakkavegur 3. Húsið er til mikillar prýði í umhverfi sínu og mynda Melshúsin tvö ansi hreint skemmtilega tvennd í hverfinu a.m.k. að dómi þess sem þetta ritar. Lóðina prýða mörg og stórgerð tré og ber kannski hvað mest á tveimur miklum silfurreynitrjám fast fyrir framan húsið. Þau hljóta að vera margra áratuga gömul. Ein íbúð er í húsinu. Þessa mynd tók ég á leið frá Sundlaug Akureyrar, mánudagskvöldið 22.júní 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 735 14.febrúar 1935. [Á þessum fundi samþykkti Bygginganefnd að heimila skátasveitinni Fálkum að annast ræktun og umhirðu blettsins milli Oddagötu og Bjarmastígs, síðar þekktum sem Skátagil.]
Fasteignamat á Akureyri 1918. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Halldór Halldórsson (1984) Jón G. Sólnes; segir frá viðburðaríkri og stormasamri ævi. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2015 | 13:17
Snjóalög við Fálkafell 2014-15
Eitt er það sem ég hef alveg sérstaklega ánægju af, nefnilega að fylgjast með snjóalögum til fjalla. Vekur þá sérstaka athygli ef óvenju lítið eða mikið er af snjó á hinum og þessum stöðum miðað við tíma árs og oft reyni ég að mynda það sem mér þykir óvenjulegt. Fálkafell er skátaskáli ofan Akureyrar. Stendur hann í um 380 m hæð yfir sjó á norðausturbrún Súlumýra. Bak við hann er brekka sem oftar en ekki nýtist skátum í útilegum til "rennerís" hvort heldur er á sleðum eða skíðum eða bara til almennra leikja og útivistar. Þessi brekka hefur oftast nær síðastliðin nokkur ár verið orðin auð í sumarbyrjun en í fyrrasumar var enn talsverður snjór þar 18.júní.
Réttilega kveinkuðu menn sér undan seinagangi vorkomunnar núna í maí en hitastig náði vart tveggja stafa tölu mest allan mánuðinn og snjór yfir. Auk þess voru kaldar norðanáttir ríkjandi langt fram í júní. En veturinn var svosem heldur ekki að flýta sér í fyrra. Þessa mynd tók ég í 13 stiga hita þann 15.nóvember 2014. Þarna er raunar minni snjór í brekkunni heldur en 18.júní, því þarna er aðeins um föl að ræða en á hinni myndinni er þykkt fannarstál frá vetrinum á undan. Ég hygg það ekki vera algengt að minni snjór sé í brekkunni um miðjan nóvember en um miðjan júní.
Vorið og fyrri hluti sumars 2015 verða sennilega ekki færð í annála fyrir óvenju mikil hlýindi. Bráðnun vetrarsnævar hefur þannig,eðlilega, ekki gengið hratt. Svona var staðan á brekkunni fyrir réttum mánuði, 26.júní. Þarna má sjá nokkuð greinilega snjórönd neðst.
Klaufin kallast gildrag nokkurt suðvestan Fálkafells.Í norðurhlíðinni er enn dálítil fönn þann 26.júlí ! Það verður að teljast nokkuð árangur hjá vetrarsnjónum, a.m.k. miðað við tíðarfar allra seinustu ára.
Bloggar | Breytt 30.7.2015 kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2015 | 14:35
Hafnarstræti: Miðbær
Ég er alltaf í og með að reyna að koma einhverju skipulagi á þessa ritræpu mína um eldri hús. Því röðin er að mestu tilviljanakennd og ekki endilega auðvelt að fletta upp hér. Ég birti fyrir hálfum öðrum mánuði síðan tengla á pistla um hús við þann hluta Hafnarstrætis sem ég tel til Innbæjar. Minn persónulegi skilningur er sá, að merki Innbæjar og Miðbæjar liggi við Skjaldborg, þar sem gatan hækkar á parti og hangir framan í brekkunni. Eflaust eru einhverjir ósammála þessari skiptingu. Hér er semsagt sá hluti Hafnarstrætis sem ég tel til Miðbæjar.
Hafnarstræti 81
Hafnarstræti 83
Hafnarstræti 95
Hafnarstræti 97
Hafnarstræti 99-101
Hafnarstræti 107
Hafnarstræti 107b (einnig 100b, Turninn (1927) og nokkur önnur hús)
Hér eru einnig hús á lista sem ég hef enn ekki tekið fyrir en hyggst gera. Hér miða ég umfjöllunina við hús byggð fyrir miðja 20.öld, með nokkrum skekkjumörkum og undantekningum.
En fyrir þá sem vilja ítarlega og fræðilega umfjöllun um húsin í Miðbæ Akureyrar skal bent á þetta öndvegisrit, Húsakönnun í miðbæ Akureyrar eftir Hönnu Rósu Sveinsdóttur og Hjörleif Stefánsson (2009).
Og hér eru tenglar á þau hús við Hafnarstræti sem í mínum huga teljast til Innbæjar.
Bloggar | Breytt 14.8.2020 kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2015 | 10:38
Hús dagsins: Byggðavegur 142
Byggðavegur er nokkuð löng gata á Brekkunni. Hún sveigir til vesturs frá neðanverðu Þórunnarstræti , gegnt Lögreglustöðinni og sveigir í mjúkum boga ofan Gleráreyra upp grunnt gil eða lægð til suðurs upp á Brekku. Gatan liggur samsíða og mitt á milli Þórunnarstrætis og Mýrarvegar og hefur eflaust verið ætlað hlutverk stofnbrautar fyrir Byggðahverfi, sbr. nafnið. Byggðavegur er sú gata bæjarins þar sem númer verða hæst, 154, en númerin hefjast hins vegar í 84- hver svo sem ástæðan er fyrir því. Byggðavegur er að stórum hluta skipuð stórbrotnum og glæstum steinsteypuhúsum frá 1950-70 en neðarlega við götuna á nr. 142 stendur hús sem mig hefur lengi grunað að ætti sér lengri sögu en nærliggjandi byggð. Húsið er ekki ósvipað að gerð og dæmigert timburhús frá aldamótum 1900. Er þetta gamall bær? Var húsið flutt á þennan stað og hvar stóð það áður ? Með hjálp Landupplýsingakerfis Akureyrarbæjar á vefnum og Bygginganefndarfundargerða Akureyrarbæjar fékk ég svör við þessu.
Byggðavegur 142 er einlyft, múrhúðað timburhús með portbyggðu risi á steyptum kjallara. Í gluggum eru T-póstar með þrískiptum efri rúðum en á framhlið er hár og mjór, margskiptur gluggi. Á þaki er bárað stál n.k. steinskífu-eftirlíking. Ég hefði kalla þessa klæðningu skífustál en sjálfsagt heitir þetta eitthvað allt annað á fagmáli. Á suðurstafni er inngönguskúr með valmaþaki og þá er einnig lítil útbygging á bakhlið. Þak slúttir yfir veggi og þar má sjá útskorna sperruenda. Húsið hefur staðið á þessum stað í 60 ár en er tæplega tvöfalt eldra. Árið 1956 fékk Guðmundur St. Jacobsen leyfi fyrir hönd föður síns, Johan Jacobsens að flytja á lóð nr. 142 gamla íbúðarhúsið við Gefjun. En þar hófst iðnaðarstarfsemi Tóvélanna (síðar Gefjun) á Gleráreyrum árið 1897 og var þetta hús reist skömmu eftir það sem íbúðarhús forstjóra. Landupplýsingakerfi segir húsið byggt 1898 en Jón Hjaltason segir í Sögu Akureyrar (1994:287) húsið byggt 1900 af Aðalsteini Halldórssyni frá Litla- Hamri en hann gegndi stöðu forstjóra Tóvélaverksmiðjana. Stóð húsið skammt ofan athafnasvæðisins á Gleráreyrum, líklega nærri 200 m neðan við núverandi stað.
Í Fasteignamati árið 1918 er húsinu lýst sem einlyftu með porti og risi, á kjallara með pappaklæddu þaki. Húsið er sagt 8,8x7,5m að stærð auk skúra með 2,6x1,1m við norðurstafn og 2,1x1,3m við suðurstafn og í húsinu eru talin 9 herbergi auk geymslu. Húsið er sagt leigt Steindóri Jóhannessyni, en eigandi er væntanlega Gefjun. Verðmat hússins árið 1918 voru kr. 6000, en ég ætla ekki einu sinni að reyna að snara þeirri upphæð til núvirðis. Á þessari ljósmynd hér, sem birtist á forsíðu Minningarrits Verksmiðjufélagsins á Akureyri má sjá húsið í forgrunni, en í baksýn eru verksmiðjuhús og vörugeymsla. Allur er þessi húsakostur horfinn, utan þetta eina hús, og verksmiðjuhúsið mikla frá 1907 var illu heilli rifið í ársbyrjun 2007. En sem áður segir var íbúðarhúsið flutt upp í Byggðaveginn um 1956, en teikningar að húsinu er dagsettar síðsumars 1957. Húsið hefur væntanlega verið múrhúðað á sama tíma og það var flutt og einnig hefur stór gluggi verið settur á miðja framhlið, en þar er gert ráð fyrir stiga upp í ris. Húsið er í góðri hirðu, virðist nýlega málað og með nýrri þakklæðningu og lóð er gróin og vel hirt. Eftir því sem ég kemst næst telst húsið sjálfkrafa friðað vegna aldurs. Ég myndi segja að húsið ætti að hafa sérstakt varðveislugildi vegna sögulegs gildis í atvinnusögu Akureyrar; þetta er eina húsið sem eftir stendur frá upphafi Tóvélanna á Gleráreyrum. Enda þótt staðsetning hússins sé önnur en í upphafi er saga hússins samt sem áður sú sama. Mér reiknast til að húsið sé annað til þriðja elsta húsið á gjörvallri Brekkunni, aðeins Eyrarlandsstofa er eldri en Spítalavegur 9 er byggður 1899- mitt á milli þeirra tveggja byggingarára sem mínar heimildir hér gefa upp sem byggingarár Byggðavegar 142. Þessi mynd er tekin 29.júní 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1951-58. Fundur nr. 1252, 3.ágúst 1956.
Fasteignamat á Akureyri 1918.
Óútgefin rit, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Jón Hjaltason (1994). Saga Akureyrar II.bindi. Akureyri: Akureyrarkaupstaður.
Bloggar | Breytt 30.7.2015 kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 61
- Sl. sólarhring: 70
- Sl. viku: 461
- Frá upphafi: 454873
Annað
- Innlit í dag: 34
- Innlit sl. viku: 257
- Gestir í dag: 33
- IP-tölur í dag: 31
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar