Færsluflokkur: Bloggar

Hús við Aðalstræti

Aðalstræti er ein elsta og merkasta gata Akureyrar. Hún er ein helsta gata Innbæjarins, eða kannski réttara sagt Fjörunnar, og liggur undir snarbrattri Brekkunni sem nú er að mestu skógi vaxin. Ég hef tekið hana fyrir að stórum hluta en fáein hús á ég þar eftir og hjálpar þessi listi mér við að finna út úr því hver þau hús eru. Elstu pistlarnir mínir eru frá sumrinu 2009 en húsin við Aðalstrætið hef ég tekið jöfnum höndum við og við frá upphafi þessarar síðu. Elstu greinarnar eru stuttar og minna af upplýsingum sem koma fram þar en síðar fór ég að gerast kröfuharðari við sjálfan mig um umfang pistlana. Athugið einnig, að í einhverjum tilfellum getur byggingarár húsanna sem gefið er upp hér stangast á við það sem í pistlunum segir en í þessari upptalningu miða ég við þetta rit hér að mestu leiti. Þá miða ég byggingarár við það hvenær upprunalegu hlutar húsanna voru byggðir. 

Aðalstræti 2 (1850*)

Aðalstræti 3; Brynja (1946)

Aðalstræti 4; Gamla Apótekið (1859)

Aðalstræti 5 (1946) 

Aðalstræti 6 (1850)

Aðalstræti 8 (1929)

Aðalstræti 10; Berlín (1902)

Aðalstræti 12 (1958)

Aðalstræti 13 (1898)

Aðalstræti 14; Gamli Spítalinn (1835)

Aðalstræti 15 (1903)

Aðalstræti 16 (1900)

Aðalstræti 17 (1899)

Aðalstræti 19 (1905)

Aðalstræti 20 (1897)

Aðalstræti 21 (1921)

Aðalstræti 22 (1898)

Aðalstræti 24 (1903)

Aðalstræti 28 (1928)

Aðalstræti 30 (1929)

Aðalstræti 32 (1888)

Aðalstræti 34 (1877)

Aðalstræti 36 (1877)

Aðalstræti 38 (1892)

Aðalstræti 40 (1851)

Aðalstræti 42 (1852)

Aðalstræti 44 (1854)

Aðalstræti 46 (1849)

Aðalstræti 50 (1849)

Aðalstræti 52 (1840)

Aðalstræti 54; Nonnahús (1849)

Aðalstræti 54b (1896)

Aðalstræti 58; Kirkjuhvoll (1934)

Aðalstræti 62 (1846)

Aðalstræti 63 (1903)

Aðalstræti 66** (1843)

Aðalstræti 66b (1850)

Aðalstræti 68 (1953)

Aðalstræti 70 (1943)

Aðalstræti 72 (1933)

Aðalstræti 74 (1857)

Aðalstræti 80 (1914)

Aðalstræti 82 (1951)

* Fasteignaskrá segir Aðalstræti 2 byggt 1886 en hér miða ég við hvenær upprunalegu hlutar hússins voru byggðir. Hér er um að ræða hús byggt í mörgum áföngum.

**Ég segist fjalla um Aðalstræti 66 í færslunni sem helguð er 66b en mér finnst sú umfjöllun engan vegin fullnægjandi. Því mun ég taka A-66 fyrir sérstaklega í færslu seinna.

Heimildir (byggingarár húsa): Hjörleifur Stefánsson (2012). Húsakönnun 2012 Fjaran og Innbærinn. Óprentað en aðgengilegt á pdf-formi, sjá tengil hér að ofan.

Þetta eru þau hús sem ég hef fjallað um og mun fjalla um við Aðalstrætið. Fleiri hús standa við götuna en hér miða ég þau sem byggð voru fyrir miðja 20.öld eða svona hér um bil. Ekki það að ég telji nýrri hús neitt ómerkilegri eða slíkt en ég hef hér á þessari síðu einbeitt mér að eldri húsum með sögu er mest spenntur fyrir þeim hluta sögunnar sem enginn eða a.m.k. færri muna. Hér að neðan er listi yfir öll húsin við Aðalstræti, og þar kemur fram að meðalaldur húsanna við götuna er rétt tæp 111 ár ! 

(Ath. tvísmella þarf á mynd og skoða hana sér svo upplýsingar verði læsilegar). 
adalstraeti-excel

 

 

 

 

 

 


Hús við Spítalaveg

Ásamt því að skrifa nýjar greinar um hús og byggingar vinn ég jöfnum höndum að því að flokka færslurnar mínar niður þannig að hægt verði auðveldlega að fletta upp stökum húsagreinum hér á síðunni. Hér eru greinar sem ég hef skrifað um hús við Spítalaveg, þær elstu skrifaðar sumarið 2010, en ég tók einnig "skorpur" síðvetrar 2012 og í júlí 2013.

Spítalavegur 1 (1903)

Spítalavegur 8 (1903)

Spítalavegur 9 (1899)

Sóttvarnarhúsið og Litli Kleppur *(1905 og 1945)

Spítalavegur 13 (1920)

Spítalavegur 15 (1906)

Spítalavegur 17 (1907)

Spítalavegur 19 (1908)

Spítalavegur 21 (1945)

*Þessi fyrrum húsakostur Akureyrarsjúkrahúss taldist áður standa við Spítalaveg 11 en nú standa þau við Tónatröð. Sjúkrahúsið var reist 1898 á þessum stað en var tekið niður 1954 og byggt upp sem Skíðastaðir í Hlíðarfjalli 1955-57. 

Ekki standa hús svo ég viti til sem bera númerin 2-7 við Spítalaveg. Gatan byggðist að mestu á árunum 1903-08 og yngstu húsin standa á sjötugu í ár. Meðalaldur húsanna við Spítalaveg árið 2015 er  tæplega 101 ár. (Hér er útreikningurinn, fyrir þá sem gaman hafa af Excel-skjölum smile )

spitalavegur_excel


Ægisgata sunnanverð

Hér eru greinar sem ég hef skrifað um sunnanverða Ægisgötu, það er elsta hluta götunnar, neðan við Eyrarveg. Með þessari umfjöllun slæ ég botninn í hina skipulögðu umfjöllun um öll hús á Norðurgötu- Eiðsvallagötu- Ægisgötu reitnum en hann hef ég tekið fyrir frá nóvemberbyrjun eða í allan vetur, því nú er sumarið gengið í garð skv. almanakinu. Í þessari umfjöllun hef ég notað Eyrarveginn sem markalínu en byggingarárið 1940 hefur einnig verið viðmið, þó auðvitað hafi yngri hús fylgt með. Ég er ekki viss um að ég leggi í jafn "massíva" og skipulagða vinnu um heilar götur á þessum forsendum, frekar eitt og eitt hús eða fáein hús í sömu götu í röð. Svo er ég alltaf að reyna að koma einhverju skikki á þetta greinasafn mitt sem telur örugglega nálægt 500 greinum sem allar raðast í belg og biðu. Einn liður í þessu "skikki" er að útbúa tenglafærslur á borð við þessa hér. En ég skal bara viðurkenna að þetta er alveg djöfulleg vinna að reyna eitthvað að eiga við þetta pistlasafn mitt og oft gefst ég upp á að reyna. Enda passa ég mig alltaf á því að þetta skemmtilega hobbý mitt snúist ekki upp í kvöð og leiðindi og ein leiðin er að leggja ekki meira á sig en maður nennir. En nóg um það, hér eru Ægisgata 1-14.

Ægisgata 1 (1939)

Ægisgata 2 (1936)

Ægisgata 3 (1939)

Ægisgata 4 (1936)

Ægisgata 5 (1939)

Ægisgata 6 (1937)

Ægisgata 7 (1939)

Ægisgata 8 (1936)

Ægisgata 10 (1937)

Ægisgata 11 (1937)

Ægisgata 12 (1936)

Ægisgata 13 (1937)

Ægisgata 14 (1936)*

*Þessa færslu skrifaði ég fyrir rúmum fjórum árum. Það sem ekki kemur fram í þeirri færslu en skal getið hér er að Jón Helgason skósmiður fékk árið 1936 lóð og húsbyggingarleyfi "við Ægisgötu hornlóðina að austan milli Ægisgötu og Eyrargötu" [innskot: hér er vitanlega átt við Eyrarveg, vera má nafninu hafi verið breytt síðar]. (Bygginganefnd Akureyrar: fundur nr. 784, 9-11-1936).

Eins og sjá má er öll röðin byggð á árabilinu 1936-39 og meðalaldurinn því um 77,5 ár. Húsaröðin við Ægisgötu þykir mér alveg einstaklega smekkleg og vel heppnuð götumynd. Þetta eru einföld og látlaus og lágreist  hús en í smæðinni og látleysinu felst ákveðinn glæsileiki, alls engu síðri en í skrauti hlöðnum stórhýsum. Ekki skemmir fyrir að flest eru í húsin í frábærri hirðu og lóðir smekklega frágengnar. Ég er ekki sérfróður um húsfriðun og varðveislumat enda aðeins leikmaður en ég get þess engu að síður hér mitt álit er, að húsaröðin við Ægisgötuna ætti að hafa ótvírætt varðveislugildi og njóta friðunar. Og hananú. smile

 

Síðastliðin vetur hef ég unnið að skrifum um Eiðsvallagötu- Ránargötu- Ægisgötu "blokkina" og auk þess hluta Norðurgötu sem liggur ofan fyrst töldu götunnar og samsíða hinum tveimur síðarnefndu. Hér var um nýbreytni að ræða hjá mér því yfirleitt hef ég látið nægja að leita fanga í prentuðum heimildum en nú lagðist í fundargerðarbækur og manntöl á Héraðskjalasafninu þar sem útgefnum bókum sleppti, en markalína Oddeyrarbókarinnar góðu er einmitt Eiðsvallagatan. Ég dró hinsvegar mörkin í minni umfjöllun við næstu samsíða "lang"-götu þ.e. Eyrarveg. 

Eiðsvallagatan (færslur að mestu frá nóv 2014- jan 2015)

Norðurgatan (hús 28-40 færslur á bilinu jan-feb 2015)

Ránargatan sunnanverð (feb-mars 2015)

 

 


Gleðilegt sumar

Óska öllum gleðilegs sumar með þökk fyrir veturinn. cool

Myndin sýnir skrúðgöngu Akureyrskra skáta í Síðuhverfi í morgun en þar var gengið til skátamessu í Glerárkirkju.

P4230009


Hús dagsins: Ægisgata 13

 Í ársbyrjun 1937 fékk Tryggvi Stefánsson skósmiður úthlutað lóð, þeirri ystu að vestan og 15.apríl sama ár fékk hann byggingarleyfið.P2150017 Hér er um að ræða sams konar hús og austan við götuna og líkt og öll húsin við Ægisgötuna er það byggt eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Húsið er mjög líkt húsum sem hann teiknaði sem “Einbýlishús fyrir SBA” árið 1936 og risu það ár og árið á eftir en á Ægisgötu 13 er ekki litla hornútskotið og lega þvottahúss og bakdyrainngangs er frábrugðin. Teikningar að húsinu eru dagsettar 2.feb 1937. Árið 1940 bjuggu í þessu húsi, sem telst 90 fermetrar að stærð 9 manns: Tryggvi Stefánsson og kona hans Sigrún Jónína (föðurnafn hennar illlæsilegt), 5 börn þeirra auk vandalausrar konu, Ingibjargar Gunnarsdóttur 76 ára, sem sögð er á framfæri húsbónda. Þá leigði þarna Ólafur Tryggvason 54 ára bóndi á Dagverðartungu. Þrjú herbergi hússins hafa dugað þeim níu sem þarna bjuggu 1940 líkt og öllum öðrum íbúum þau 78 ár sem húsið hefur staðið því húsið er óbreytt frá fyrstu gerð, herbergjaskipan að mestu sú sama og í upphafi og ekki hefur verið byggt við það. Einhverjar skúrabyggingar eru einnig á lóðinni. Húsið er einstaklega smekklegt og vel við haldið og lóðin sömuleiðis hirt af mikilli natni. Á sumrin og árið um kring að hluta er mikið safn allskonar skrautmuna í steinbeðum umhverfis húsið, vegfarendum til mikillar ánægju og yndisauka. Ein íbúð er í húsinu. Mynd tekin 15.feb. 2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41. (Fundir 9.jan og 15.aprí 1937)

Manntal á Akureyri 1940. 

Hér er um að ræða óprentaðar og óútgefnar heimildar sem varðveittar eru á Héraðskjalasafninu á Akureyri. Þess má geta að allar upplýsingar sem ég hef upp úr þeim ritum skrifa ég fyrst í litla minnisbók og færi þaðan inn í tölvu þegar heim er komið. Því er viss fyrirvari á að nöfn og dagsetningar eða annað slíkt skolist lítillega til þó yfirleitt gæti ég þess ítarlega að það hendi ekki. 


Hús dagsins: Ægisgata 12

 Á fundi Byggingarnefndar þann 6.október 1936 var Páli Jóhannssyni veitt leyfi til að reisa hús sitt næst norðan við lóðir Tryggva Jónatanssonar.P2150007 Húsið átti að vera 8x9m með útskoti 3,15x 1,50m. Er þetta þá sams konar hús og númer 2, 4, 10 og 14. Einkennandi fyrir þessi hús er lítill hlutfallslega breiður gluggi við hlið framdyra og útskotsins á horninu. Eins og gengur og gerist á tæpum átta áratugum hafa húsin öll tekið mis miklum breytingum að ytra byrði, þ.e. gluggapóstar, hurðir og klæðning og hafa hvert sitt svipmót hvað það varðar. Þessi hús eru með þeim elstu við Ægisgötuna en ljóst er að erfitt er að ákvarða hvert húsanna er elst, en fyrstu byggingarleyfin voru veitt fyrir númer 12 og 2 í október og nóvember 1936. Ljóst er að mörg húsanna hafa því verið samtímis í byggingu en gatan var fullbyggð norður að Eyrarvegi árið 1940. Ægisgata 12 er steinhús og reist eftir sömu teikningu og númer 2, 4, 10, 12 og 14 og ber öll sömu einkenni. Það er að einu leiti frábrugðið hinum húsunum að það er járnklætt og hefur að líkindum verið einangrað upp á nýtt um leið og klæðning kom á. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum. Húsið er til prýði í umhverfi sem og gróin lóð umhverfis húsið. Myndin er tekin 15.2.2015.

 


Hús dagsins: Ægisgata 11

Af einhverjum ástæðum er ekkert hús númer 9 við Ægisgötu. P2150016Norðan við hús númer 7 stendur Ægisgata 11 en það hús reisti Jón Þorsteinsson, sjálfstætt starfandi vélsmiður árið 1937. Húsið virðist byggt eftir sömu teikningu og næstu hús neðan við en hefur verið stækkað til vesturs. Húsið er einlyft steinhús með valmaþaki og einnig er bakálma með valmaþaki. Járn er á þaki og einfaldir póstar í gluggum. Á viðbyggingu er stór gluggi af þeirri gerð sem ég kalla einfaldlega “stofuglugga”. Á Landupplýsingakerfi Akureyrar má finna uppdrátt af viðbyggingu við húsið, dagsetta í maí 1958 og þá er eigandi Björgvin Júníusson. Í viðbyggingunni var stofa til viðbótar við þá sem fyrir var í suðvesturhorni og lítið herbergi. Húsið virðist í mjög góðu standi, gluggar nýlegir að sjá sem og þakjárn og ekki mörg ár síðan húsið var málað. Á lóðinni eru auk hússins geymsluskúrar og er ein íbúð í húsinu. Myndin er tekin 15.2.2015.

 


Hús dagsins: Ægisgata 10

  Björn Erlendur Sveinssonreisti þetta hús árið 1937. P2150009Í manntali 1940 er hann titlaður vörubílstjóri en þá var íbúafjöldi hússins alls sjö manns en það var raunar ekki óalgengt að 6-9 manns byggju í þessum húsum, sem flest voru og eru um 60-80 fermetrar. Fjölskyldur voru barnmargar og ósjaldan að foreldri eða foreldrar heimilisföður eða húsmóður byggju þar líka. Ægisgata 10 er einlyft steinhús með valmaþaki. Grunnflötur nær ferningslaga en lítið útskot á suðausturhorni.  Hér er um að ræða eitt þeirra hús sem byggt er eftir teikningunni með yfirskriftina “Einbýlishús fyrir SBA Akureyri”.Í gluggum eru krosspóstar en járn á þaki. Skúrar eru á baklóð. Húsið lítur vel út og er vel við haldið, í því eru nýlegir gluggapóstar og nýlegt járn virðist á þaki. Inngangar eru á framhlið og á bakhlið. Í öllum húsum Tryggva Jónatanssonar var sérstakt þvottahús með þvottapotti og inngangur í þvottahúsin og eru þetta líkast til með fyrstu húsum með slíku fyrirkomulagi. Í eldri húsum var ekki óalgengt að kyndiklefar væru innréttaðir sem þvottahús síðar meir. Líkt og nærliggjandi hús er það til prýði í húsaröðinni sem er heilsteypt röð einfaldra og látlausra funkishúsa. Í húsinu er ein íbúð. Myndin er tekin 15.feb 2015.

 


Hús dagsins: Ægisgata 8

Eiríkur V. Guðmundsson pylsugerðarmeistari á Kjötiðnaðarstöð KEA og kona hans Anna S. Sveinsdóttir byggðu Ægisgötu 8 árið 1936 skv. Fasteignaskrá, en byggingarleyfi fengu þau 19.febrúar 1937. P2150008Húsin tvö númer 6 og 8 eru nákvæmlega eins, byggð eftir sömu teikningu Tryggva Jónatanssonar og eru þau líklega minnstu einbýlishúsin á Akureyri. Hvort um sig eru óbreytt frá fyrstu gerð, ekki hefur verið byggt við þau og herbergjaskipan er lítið breytt. Húsin skiptust í litla forstofu og innaf henni herbergi vinstra megin og stofa til hægri en lítil snyrting í miðju. Úr stofu var annars vegar gengið inn í eldhús vinstra megin og herbergi eða dagstofu hægra megin en innaf eldhúsi var þvottahús og búr. Inngangar eru á framhlið og einnig þvottahúsinngangur á norðurhlið. Ægisgata 8 er einlyft r-steinhús á lágum grunni og með valmaþaki. Gluggapóstar eru nýlegir á að líta og eru þeir einfaldir lóðréttir. Húsið lítur vel út og virðist í góðri hirðu og lóð umhverfis vel hirt og smekkleg. Á henni eru einnig tveir litlir geymsluskúrar úr timbri og ýmis trjágróður, auk sólpalls við suðvesturhorn hússins. Þessi mynd er tekin 15.febrúar 2015 og sýnir norðurhlið hússins en myndin af Ægisgötu 6 í þeirri færslu sýnir suðurhlið þess húss. Þær hliðar húsana eru nákvæmlega eins enda húsin byggð eftir sömu teikningu.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41; fundur nr.789 þ. 19-2-1937.

Manntal á Akureyri 1940. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ægisgata 7

Haraldur Kr. Jónsson reisti Ægisgötu 7 árið 1939 eftir teikningum Tryggva Jónatansson en þær voru sams konar og teikningarnar að næsta húsi sunnan við, sem Ásmundur Elíasson byggði. P2150014Við götuna neðanverða standa nokkrar húsagerðir eftir Tryggva sem allar eru keimlíkar. Þrenningin 3-7 er öll byggð eftir sömu teikningu, og eins eru hús 2-4 og 10-14 eftir sömu teikningu og 6 og 8 eru nákvæmlega eins. Húsið er klætt grjótmulningi eða sk. perluákasti sem einnig er stundum ranglega nefnt skeljasandur. Ægisgata 7 er semsagt 8,8x7,2m að grunnfleti líkt og nr. 5 en grunnur hússins virðist eilítið hærri. Horngluggar eru á suðurhlið, inngangar á framhlið og norðurhlið og gluggi norðan við útidyr. Járn er á þaki og einfaldir, lóðréttir póstar í gluggum. Húsið er í góðri hirðu sem og umhverfi þess. Framan við húsið og raunar öll húsin neðan við er smekkleg steypt girðing með skrautlegum járnrimlum. Þessar girðingar eru mjög einkennandi fyrir byggðina á Oddeyrinni frá árunum 1935-55. Lóðin er einnig vel gróin og “verkleg” birkitré og fánastöng þar í forgrunni. Myndin er tekin þann 15.febrúar 2015.

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P6220002
  • IMG_3739
  • IMG_3753
  • IMG_3712
  • IMG_3713

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 87
  • Sl. viku: 399
  • Frá upphafi: 454900

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 213
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband