23.8.2020 | 10:39
Hús dagsins: Glerárgata 14
Úr Miðbænum færum við okkur spottakorn út á Oddeyrina, en við Glerárgötu standa nokkur steinhús frá miðri 20. öld. Þess má reyndar að geta, að landfræðilega tilheyrir ytri hluti Miðbæjar Akureyrar Oddeyrinni. En syðst í þessari steinhúsaröð við Glerárgötuna er Glerárgata 14.
Glerárgötu 14 munu feðgarnir Georg Karlsson og Sverrir, sonur hans, hafa reist ásamt Sigurði Hannessyni, eftir teikningum þess síðastnefnda. Var það sumarið 1949, þeir að Georg og Sigurður sóttu um þessa tilteknu lóð sem þá var ekki sögð tilbúin til byggingar. Hvers vegna lóðin telst ekki byggingarhæf er ekki tilgreint, en geta má þess, að á þessum tíma voru næstu hús norðan (Glerárgata 16 og 18) og sunnan við (Fjólugata 20) þegar risin. En tveimur árum síðar, vorið 1951, er þeim feðgum og Sigurði veitt byggingarleyfi fyrir húsinu, samkvæmt fyrirliggjandi teikningu og um haustið er þeim leyft að hækka úr 1,5 í 2 metra. Skráð byggingarár hússins er 1954 og hefur húsið þá væntanlega verið fullbyggt.
Glerárgata 14 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki. Útskot er norðanmegin á framhlið og svalir sunnanmegin á milli. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og sléttur múr á veggjum.
Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og fjölmargir búið í því um lengri eða skemmri tíma. Sé heimilisfanginu flett upp á timarit.is eru hins vegar nokkuð áberandi auglýsingar frá sjöunda og áttunda áratug sl. aldar, þar sem Iðnaðarbanki Íslands er sagður með útibú í Glerárgötu 14. Árið 1995 er raftækjabúðin Radíónaust sögð til húsa á Glerárgötu 14. Þar er raunar á ferð e.k. ruglingur með götuheiti, en Radíónaust var til húsa á neðstu hæð Sjallans valinkunna, sem stendur við GEISLAGÖTU 14. En svo vill til, að austurstafn Sjallans liggur að Glerárgötu, enda taldist hann í upphafi standa við Glerárgötu 7.
Húsakönnun fyrir þetta svæði hefur ekki verið unnin, svo höfundur viti til, og því liggur ekki fyrir hvort húsið eða húsaröðin hafi varðveislugildi. Húsið tilheyrir hins vegar stuttri og heillegri röð samstæðra húsa, steinhúsa frá miðbiki 20. aldar, og gæti höfundur vel séð fyrir sér að sú röð hafi nokkurt gildi. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð. Glerárgata 14 er reisulegt hús í góðri hirðu og til mikillar prýði við fjölförnustu götu bæjarins; Þjóðveg 1 um Akureyri. Lóðin er gróskumikil og vel hirt og römmuð inn af vönduðum steyptum vegg með járnavirki. Gróskan er eðlilega ekki áberandi á meðfylgjandi mynd, sem tekin er um hávetur, eða þann 19. janúar 2020.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1948-1957. Fundur nr. 1112, 29. júlí 1949. Fundur nr. 1137, 18. maí 1951. Fundur nr. 1144, 26. okt. 1951. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 25.8.2020 kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2020 | 20:22
Hús dagsins: Strandgata 1; Landsbankinn
Útvörður Ráðhústorgs (eða Torgsins) í norðri er hin reisulega bygging Landsbankans. En húsið stendur raunar ekki við götuna Ráðhústorg heldur við Strandgötu og er efst húsa við hana. Torgið afmarkast nefnilega af Strandgötu í norðri og Brekkugötu í suðri, en samnefnd gatan liggur meðfram torginu sunnan- og austanverðu. Hugmyndin um byggingu ráðhúss á þessum stað hefur líkast til komið fram með fyrsta Aðalskipulagi Akureyrar árið 1927. Stóðu við Brekkugötu 2 og Strandgötu 1, hús frá fyrri hluta 20. aldar, sem væntanlega hafa átt að víkja. Sem þau og gerðu, þegar Landsbankahúsið var reist og byggt við það. Ekkert varð þó úr byggingu ráðhúss, en torgið hlaut þetta nafn árið 1928. Ár og áratugir liðu og ekkert bólaði á Ráðhúsi, en á meðan hafði Landsbankinn eignast lóðirnar tvær. Forveri Landsbankahússins á Strandgötu 1 var reisulegt timburhús frá 1904, Hótel Oddeyri, þar sem rekið var hótel fram undir 1930 og síðar verslanir.
Haustið 1947 voru áform Landsbankans um byggingu stórhýsis á lóðunum gerð opinber. Gerði þá skipulag enn ráð fyrir ráðhúsi þarna og bera þurfti bygginguna undir skipulagsráð. Það var síðan snemma sumars 1949 að Landsbankinn falaðist eftir því við bygginganefnd að fá að reisa hús á lóðum sínum við Strandgötu 1 og Brekkugötu 2. Byggingin var leyfð með fyrirvara um samráð við Skipulagsnefnd. Hvorki kemur fram nein lýsing byggingar né getið um teikningar í bókun bygginganefndar. Sama ár var fyrrgreint timburhús, áður Hótel Oddeyri, rifið. Árið 1950 setti Bygginganefnd fram skilyrði um 3,14m færslu frá Brekkugötu og snemma árs 1952 sækja þeir Ólafur Thorarensen og Jón Sólnes, fyrir hönd Landsbankans, um leyfi til lækkunar á fyrirhugaðri byggingu. Þó kemur ekki fram, hve hátt húsið hafi átt að vera í upphafi. Skráð byggingarár hússins er 1953 og mun byggingin þá hafa verið fullbyggð. Teikningarnar að húsinu gerði Guðjón Samúelsson.
Landsbankahúsið er þrílyft steinsteypuhús á háum grunni og með háu risi. Grunnflötur er L-laga og styttri álma, fjögur gluggabil til norðurs meðfram Brekkugötu en álman meðfram Strandgötu eða torginu er sex gluggabil. Þá er sneiðingur á SV-horni byggingarinnar og þar eru inngöngudyr, sem áður var aðalinngangur bankans. Norðanmegin er viðbygging, álma á einni hæð með flötu þaki. Gluggar eru með margskiptum póstum og voldugir rammar utan um þá, og horn hússins og þakkantar prýddir hinu ýmsu steyptu skrauti, m.a. sperruendum undir þakskeggi. Gluggar neðri hæðar og dyr eru bogadregnir og gefur það húsinu sérstakan svip, ásamt láréttu munstri í múrhúð. Á norðurálmu eru stórir verslunargluggar, veggir í raun glerjaðir. Austurhlið er nokkuð áberandi íburðarlítil, aðeins múrsléttaður veggur með einum smáum glugga á þriðju hæð. Kemur það til af því, að upprunalega átti húsið að vera stærra og gert var ráð fyrir, að byggt yrði lengra til austurs. Það hlýtur þó að teljast nokkuð ólíklegt, að byggt verði við húsið til austurs héðan af, en aldrei að vita...
Skemmst er frá því að segja, að þessi 70 ár sem Landsbankahúsið hefur staðið, hefur það hýst Landsbankann. Er afgreiðsla hans og skrifstofur á jarðhæð, og lengst af var gengið inn frá torginu. Frá því um aldamót er aðalinngangurinn hins vegar austan megin á norðurálmu. Um 1975 var byggt við húsið til norðurs, sem áður segir, eftir teikningum sem unnar voru á verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns. Enda þótt húsið hafi fyrst og fremst verið byggt sem höfuðstöðvar Landsbankans fremur en ráðhús, fór það svo að, skrifstofur bæjarins fluttust þangað inn haustið 1953 og voru um langt árabil. Þannig hefur Ráðhústorgið í raun borið nafn með rentu á því tímabili. Auk skrifstofa bæjarins og bæjarstjóra voru m.a. vinnumiðlun bæjarins og Skattstofan í húsinu á 6. og 7. áratugnum. Þá hafa hin ýmsu fyrirtæki og skrifstofur einnig haft aðsetur á efri hæðum hússins. Hvort nokkurn tíma hafi verið búið í Landsbankahúsinu er höfundi ekki kunnugt um.
Landsbankahúsið er eitt af helstu kennileitum Ráðhústorgsins og Miðbæjarins og skapar glæsilega umgjörð um Ráðhústorgið. Líkt og útibú Landsbankans á Selfossi og Ísafirði (einnig eftir Guðjón Samúelsson) er útlit hússins undir áhrifum frá Landsbankahúsinu við Austurstræti í Reykjavík. Síðustu áratugi hefur það ætíð verið í bakgrunni þegar fram fara skemmtanir á torginu, en hefð hefur verið fyrir því, að svið standi norðanmegin við torgið. Landsbankahúsið er mikil prýði í umhverfinu, húsið er í afar góðu ástandi og hefur skv. Húsakönnun 2014 mikið mikið varðveislugildi staðsett á þessum áberandi stað í miðbæ Akureyrar. (Landslag Arkitektastofa 2014:43). Myndin er tekin þann 15. september 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1109, 10. júní 1949. Fundur nr. 1121, 2. júní 1950. Fundur nr. 1149. 22. feb. 1952. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Ýmsar heimildir af timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt 13.10.2022 kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.8.2020 | 19:56
Fjarlægðarmörk...
Á þessari mynd (tekin 25. feb. 2018) má sjá Lækjargötu 4 (t.v.) og Lækjargötu 6. Þau eru orðin 150 og 134 ára, en Stefán Thorarensen byggði Lækjargötu 4 árið 1870 en þeir Þórður Thorarensen og Kristján Gíslason byggðu Lækjargötu 6 árið 1886. Húsin mynda nokkurs konar vinalegt "hlið" inn í Innbæinn um Spítalaveginn, sem tengist Lækjargötunni á milli stafna hinna geðþekku öldunga. Spítalavegurinn er örmjór á milli húsgaflanna, rétt um fimm metrar. Ef bilið milli þessara tveggja húsa væri hins vegar innan við tveir metrar, er jafnvel óvíst að þau stæðu enn: Það hefur nefnilega kviknað í báðum húsunum; annars vegar í febrúar 1936 og hins vegar í janúar 1998. Hefði bilið milli þeirra verið innan við 2 metrar hefðu þau e.t.v. bæði eyðilagst- ef ekki í fyrra skiptið þá mögulega það seinna. Væntanlega skilst meiningin með þessari "dæmisögu"- enda þótt tenging sé e.t.v. langsótt.....Virðum 2 metra regluna.
![]() |
Ekki tímabært að herða aðgerðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 6.8.2020 kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.8.2020 | 19:20
Hús dagsins: Geislagata 12
Geislagötu 12 reisti Grímur Valdimarsson trésmiður og bílasmiður árið 1942-1945. Hann fékk 1942 Grímur Valdimarsson trésmiður og bílasmiður að reisa íbúðarhús við Geislagötu, næst norðan við geymsluhús Sverris Ragnars. Húsið byggt úr steinsteypu með steinsteyptu þaki, 12,6x9,5m að stærð. Það hús, sem snýr að götu, var fullbyggt 1943. Tveimur árum síðar, eða 1945, fékk Grímur að reisa viðbótarbyggingu , 13x8,50m að stærð, steinsteypta með steinþaki. Teikningarnar að húsinu, sem og viðbyggingunni, gerði Guðmundur Gunnarsson.
Geislagata 12 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Bakálma er einlyft með aflíðandi risi. Bárujárn er á þaki og háum þakkanti og múrhúð á veggjum og ýmis konar póstar í gluggum; verslunargluggar á jarðhæð.
Húsið var í senn íbúðar- og atvinnuhúsnæði; Grímur bjó á efri hæð ásamt fjölskyldu sinni en starfrækti trésmíðaverkstæði þar. Eiginkona Gríms var Jónína Ásgerður Jakobsdóttir, frá Miðgerði í Saurbæjarhreppi. Grímur var hins vegar fæddur og uppalin á Stokkhólma í Skagafirði. Hann var, sem áður segir, bifreiðasmiður og var sá fyrsti á Norðurlandi sem lagði þá iðngrein fyrir sig. Hann hafði áður numið trésmíði og fólst bifreiðasmíðin m.a. í því, að smíða yfirbyggingar yfir bíla. Fór sú starfsemi hans einmitt fram á verkstæði hans í Geislagötu 12. Sjálfsagt hafa þó nokkrir þeirra bíla sem Grímur smíðaði varðveist og verið gerðir upp. Í fjórða bindi bókaflokksins Aldnir hafa orðið birtast endurminningar Gríms og ekki er annað hægt hér, en að mæla með þeirri lesningu. Þar kemur m.a. fram, að Grímur gangi enn til vinnu sinnar á verkstæði sitt í Geislagötu, en þá (1975) var hann 77 ára gamall. Grímur og Jónína létust 1985 (Jónína) og 1986. Arfleiddu þau hjúkrunarheimilið Sel annars vegar og Kristneshæli öllum eigum sínum, þ.á.m. húseigninni Geislagötu 12, ásamt verkstæðishúsinu.
Auk verkstæða Gríms hefur Geislagata 12 hýst hina ýmsu starfsemi. Byggingavöruverzlun Akureyrar var rekin hér á fimmta og sjötta áratug 20. aldar og um tíma, árið 1946 var Úthlutunarskrifstofan þarna til húsa. Það er hugtak sem kann að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir, en um miðja 20. öld var skömmtun á hinum ýmsu vörum. Þá má nefna raftækjaverslunina RAF sf. og Leikfanga- og gjafaverslun Tómstundaverzlunarinnar, sem opnuð var í húsinu haustið 1965.
Árin 1986-87 voru gerðar á húsinu miklar breytingar og endurbætur, m.a. var þak hækkað og fékk húsið þá núverandi útlit. Teikningarnar að þeim endurbótum gerði Haukur Haraldsson. Ekki voru menn á eitt sáttir með endurbæturnar á húsinu, en til stóð að byggingarnar vikju. Þá var opnuð í vesturálmu hússins sólbaðsstofan Stjörnusól, sem enn er starfrækt í húsinu og hefur meira að segja stækkað við sig; nú er afgreiðslan í vesturálmunni (framhúsinu). Þar voru áður, þar til um 2015, skrifstofur happdrætta (Fjölumboð) og spilakassasalur (Gullnáman). Á efri hæð hússins er gistirými á vegum Hótels Norðurlands, en aðalbygging þess er einmitt handan götunnar. Húsið er í mjög góðri hirðu og til prýði á fjölfarinni götu í Miðbænum. Það er ekki talið hafa varðveislugildi í Húsakönnun 2014 en sagt hafa gildi fyrir götumynd Geislagötu. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 905, 10. apríl 1942. Fundur nr. 1011, 20. apríl 1945. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Erlingur Davíðsson 1975. Aldnir hafa orðið, IV bindi. Akureyri: Skjaldborg.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2020 | 16:41
Hús dagsins: Hólabraut 12; Borgarbíó
Hólabraut 12, eða Borgarbíó var reist árið 1986 sem viðbygging við Geislagötu 7, Hótel Varðborg. Borgarbíó hafði þá verið starfrækt í áratugi í vesturálmu hótelsins, sem upphaflega var samkomusalur hótelsins. Þegar nýbygging kvikmyndahússins var risin, varð aðkoman að bíóinu frá Hólabraut og telst Borgarbíó standa við Hólabraut 12. Teikningar að húsinu gerði Birgir Ágústsson, en húsið er viðbygging við vesturálmu Geislagötu 7, sem Stefán Reykjalín teiknaði.
Hólabraut 12 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki, þ.e.a.s. vesturálman, sem hýsi afgreiðslu, anddyri og skrifstofur. Sýningarsalir eru áfastir austan og sunnanmegin og eru þeir með aflíðandi risþökum. Bárujárn er á þaki og múr á veggjum. Hugtakið einlyft, tvílyft orka kannski nokkuð tvímælis þegar í hlut eiga salir kvikmyndahúsa. Þetta er þó nokkuð einfalt: Sýningarsalir Borgarbíós eru einfaldlega einlyftir, enda þótt hæðin jafnist á við a.m.k. tvær staðlaðar lofthæðir (250cm). Þeir eru nefnilega bara ein hæð, þó lofthæðin sé u.þ.b. tvöföld. En nóg af orðhengilshætti.
Borgarbíó hóf fyrst starfsemi sína í janúar 1956 og fóru sýningar þá fram í vesturálmu Geislagötu 7, þar sem áður var samkomusalur Hótels Norðurlands. Framkvæmdastjóri kvikmyndahússins var Stefán Ágúst Kristjánsson. Templarar höfðu þá staðið fyrir kvikmyndasýningum í um áratug og fóru þær fram í Hafnarstræti 67. Kallast það hús Skjaldborg og kallaðist það Skjaldborgarbíó. Voru það áðurnefndur Stefán Ágúst Kristjánsson og Guðbjörn Björnsson sem hófu starfsemi þess, en Guðbjörn lést um svipað leyti. Þannig mætti draga þá ályktun, að hugtakið Borgarbíó vísi fremur til Varðborgar en Skjaldborgar- eða einfaldlega borganna beggja. Lesendur mega endilega senda mér ábendingar hvað þetta varðar. (Akureyri hefur löngum verið rík af hinum ýmsu borgum; Varðborg, Skjaldborg, Hamborg, Rósinborg o.fl.).
Það var síðan árið 1986 að ráðist var í byggingu núverandi húsakynna, sem eru í raun viðbygging við upprunalega salinn í Varðborg. Sá salur er enn í fullri notkun og er nú A-salur, en nýrri salurinn, sá sem snýr til suðurs, er B-salur. Borgarbíó hefur verið starfrækt óslitið í þessum húsakynnum frá 1987. Um árabil var Borgarbíó eina starfandi kvikmyndahús bæjarins, eða þar til að sýningar hófust aftur í Nýja Bíó (nú Sambíó) árið 1998. Ýmsar breytingar hafa þó verið gerðar á innra skipulagi, sölum og búnaði kvikmyndahússins gegn um tíðina, svo sem vænta má, en húsið er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð að ytra byrði. Svo sem vænta má, þegar í hlut á ríflega þrítug bygging, er húsið ekki talið hafa varðveislugildi í Húsakönnun 2014 en gildi þess fyrir götumynd Hólabrautar og umhverfi er talið nokkuð. Borgarbíó er látlaus en glæst bygging og í mjög góðri hirðu. Þessi mynd er tekin 19. janúar 2020.
Svo mælir sá sem þetta ritar auðvitað með því (þegar um hægist í veirufaraldri- annars með ýtrustu varúð) að skella sér á góða mynd í Borgarbíó
Heimildir: Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2020 | 22:08
Hús dagsins: Geislagata 7; Hótel Norðurland, Hótel Varðborg.
Að reisa fjögurra hæða hótel á Akureyri hafa eflaust þótt stórhuga áform á árum síðari heimstyrjaldar. En það var í september 1942 sem Karl Friðriksson, útgerðarmaður og veitingamaður, lagði fram leyfi fyrir slíkri byggingu við Geislagötu til Bygginganefndar. Nefndin synjaði umsókn Karls að svo stöddu og bætti auk þess við, að engin skólpveita væri á þessu svæði og skildi hann kosta hana sjálfur (!) Hálfum öðrum mánuði síðar, 23. október 1942 fjallar Bygginganefnd aftur um fyrirhugaða hótelbyggingu Karls. Fellst nefndin á að leyfa bygginguna en frestar fullnaðarleyfi, þar eð hafa þurfi samráð við skipulagsnefnd. Þann 11. desember veitti Bygginganefnd fullnaðarleyfi fyrir hótelbyggingu. Hafði byggingin lækkað um eina hæð í ferlinu, því leyfið var fyrir byggingu á þremur hæðum, 33x10m auk útbyggingar, 10x12m. Skyldi byggingunni lokið á sex árum. Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín.
Geislagata 7 er þriggja hæða steinsteypuhús með flötu þaki. Norðausturhorn hússins er hvasst og húsið þannig hornskakkt en norðurhlið þess er samsíða Gránufélagsgötu. Vesturálma hússins er einni hæð lægri, en hún hýsir sýningarsal með mikilli lofthæð og þannig ekki hægt að kalla hana tveggja hæða. Gluggar eru flestir með einföldum lóðréttum póstum og veggir múrhúðaðir, en dúkur á þaki. Svalir eru nokkrar á húsinu, á framhlið og suðurhlið.
Það var hins vegar réttu ári síðar, eða í desember 1943 að Karl auglýsti eftirfarandi í Morgunblaðinu: Hefi opnað nýtt gistihús við Geislagötu 7 Akureyri undir nafninu Hótel Norðurland. Kemur þar jafnframt fram, að þar komnir í notkun stórir og rúmgóðir veitingasalir en herbergi verði ekki tilbúin fyrr en síðar um veturinn. Svo skemmtilega vildi til, að salir hótelsins voru tilbúnir í tæka tíð fyrir þrítugsafmæli Karls, 22. desember 1943. Þannig gat hann slegið saman reisugildi hússins og afmælisveislu. Nokkrum dögum áður, 11. desember, réttu ári eftir að Karl hafði fullnaðarleyfi fyrir byggingu hótelsins, hafði Karlakórinn Geysir haldið þar afmælishátíð. Mikið var skrifað í blöðin um jólaleytið og árslok 1943 um opnun hins veglega hótels. Enda var það aldeilis ekki á hverjum degi sem ný hótel voru tekin í notkun. Í Alþýðumanninum (sjá tengilinum Karlakórinn Geysi) segir t.d. eftirfarandi: Neðri hæð hússins er nú fullger og tekin í notkun, en það er stór samkomusalur, um 200 fermetrar að stærð, tvær rúmgóðar kaffistofur, eldhús, fatageymsla, 2 snyrtiherbergi og stórt anddyri. Á efri hæð eiga að verða gistiherbergi, en sú hæð er í smíðum.
En hver var hinn dugmikli og eljusami Karl Friðriksson sem, fyrir þrítugsafmæli sitt, tókst að reisa eitt af stærstu og veglegri hótelum bæjarins ? Hótel, sem státaði m.a. stærsta samkomusal landsins og er enn þann í dag fullburðug hótelbygging, nærri áttatíu árum síðar. Karl Friðriksson var fæddur á Akureyri árið 1913. Hann var sonur Friðriks Einarssonar, útgerðarmanns frá Fáskrúðsfirði og Halldóra Jónsdóttur sem var frá Sandgerði í Glerárþorpi. Karl var fyrst og fremst útgerðarmaður og hóf þann feril ansi ungur; ellefu ára gamall reri hann til fiskjar á árabát og 13 ára var hann kominn á trillu. (Líkt og alkunna er, tíðkaðist raunar almennt á þessum árum að börn til sjávar og sveita færu ung að vinna). Útgerðin og störf henni tengd var hans aðalstarf alla tíð, en meðfram þeim stundaði hann veitingamennsku og hótelrekstur. Þegar hann reisti Hótel Norðurland hafði hann um skeið rekið Hressingarskálann, veitingaskála sem starfræktur var í bakhúsi við Strandgötu 13. Karl seldi Hótel Norðurland árið 1952 og yfirgaf þá hótel- og veitingareksturinn. Í bili- því, síðar hann rak hann farfuglaheimili ásamt konu sinni, Guðrúnu Fabricius. Karl var yfirverkstjóri hjá Útgerðarfélagi Akureyrar frá 1956- 68 en þá tók hann við stöðu yfirfiskmatsmanns Norðurlands eystra. Karl Friðriksson lést árið 1979.
Árið 1952 keyptu Templarar hótelbygginguna og hugðust koma sér þar upp félagsheimili. Breyttu þeir nafni hótelsins í Hótel Varðborg. Var það rekið undir því nafni vel á fjórða tug ára, en árið 1989 keyptu Ferðaskrifstofa Akureyrar og Flugfélag Norðurlands bygginguna af Templurum. Var nafninu þá breytt í Hótel Norðurland, líkt og það hét í upphafi á árum Karls Friðrikssonar. Í stuttu máli sagt, hefur húsið verið hótel óslitið í 77 ár. Syðst á jarðhæð voru lengi vel veitingastaðir, t.d. Pizza 67 og Bing Dao á 10. áratugnum, síðar aðrir staðir en um 2010 var það rými tekið undir gistirými. Skömmu eftir að Templarar keyptu húsið breyttu þeir samkomusal hússins í sýningarsal og hófu þar að sýna þar kvikmyndir. Kallaðist það Borgarbíó. Borgarbíó var formlega tekið í notkun 22. janúar 1956. Nafnið er líklega dregið af Varðborg (?), en um nokkurra ára skeið höfðu templarar rekið bíó í annarri borg á Akureyri, þ.e. Skjaldborg við Hafnarstræti 67. Kallaðist það Skjaldborgarbíó. Sýningarsalurinn var í vesturálmu hússins, þar sem áður var samkomusalur hótelsins. Um miðjan níunda áratuginn var byggt við sýningarsalinn, og sýningarsalirnir þannig orðnir tveir. Í nýbyggingunni, sem snýr að Hólabraut, og telst nr. 12 við þá götu, var einnig anddyri og afgreiðsla kvikmyndahússins. Enn er Borgarbíó starfandi í þessum húsakynnum, og eldri salurinn A-salur en sá yngri er B-salur. Teikningarnar að þeirri byggingu gerði Birgir Ágústsson. Nánar um bíóhúsið í næsta pistli.
Hótel Norðurland er látlaus en glæst og reisuleg bygging og eitt kennileita á svæðinu. Í stórum dráttum er það lítt breytt að ytra byrði en hefur að sjálfsögðu tekið hinum ýmsu breytingum að innan. Í Húsakönnun 2014 er húsið sagt hafa gildi fyrir götumynd Geislagötu en ekki talið að varðveislugildi hússins sé verulegt. Hins vegar gefur auga leið, að hótel og samkomuhús til tæpra 80 ára hljóti að skipa stóran sess í hugum margra, Akureyringa sem og ferðamanna gegnum tíðina, og hafa þó nokkurt gildi þess vegna. Húsið er í mjög góðri hirðu og hefur alla tíð hlotið afbragð viðhald. Sem áður segir er enn hótelrekstur í húsinu, undir hinu upprunalega nafni, Hótel Norðurland og er rekið af Keahótelum. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 924, 4. sept. 1942. Fundur nr. 930, 23. okt. 1942. Fundur nr. 933, 11. des. 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Breytt 26.7.2020 kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.7.2020 | 13:40
Hús við Skipagötuna
Hér eru hús við Skipagötuna, sem ég hef tekið fyrir á þessari síðu:
Skipagata 1 1931
Skipagata 2 1933
Skipagata 4 1933
Skipagata 5 1931
Skipagata 6 1942
Skipagata 7 1942
Skipagata 8 1939
Skipagata 9 1996
Skipagata 12 1949
Skipagata 14 1952/1984
Skipagata 16 1992
Skipagata 18 1935
Að venju birti ég upplýsingar um meðalaldur húsa við götuna. Menn geta velt fyrir sér tilgangingum með þessum útreikningum en hann er raunar sá eini, að ég hef gaman af honum. Við Skipagötu standa 12 hús (fjórar "sambyggingar") á aldrinum 24-89 ára (2020). Meðaltal byggingára Skipagötuhúsa er 1950,7 og þannig er meðalaldur þeirra árið 2020 um 70 ár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2020 | 13:18
Hús dagsins: Skipagata 16
Skipagötu 16 reistu þau Friðrik Vestmann og Guðrún Hjaltadóttir árið 1992 eftir teikningum Fanneyjar Hauksdóttur. Þau höfðu um árabil rekið ljósmyndafyrirtækið Pedrómyndir og var húsið reist undir starfsemi þess en íbúð þeirra hjóna var á efstu hæð hússins.
Skipagata 16 er reisulegt og svipmikið stórhýsi, steinsteypt á fjórum hæðum. Gluggar á fyrstu og annarri hæð eru stórir og víðir (verslunargluggar) og á efstu hæð eru miklar bogadregnar svalir áberandi. Efri hæðir hússins eru nokkuð minni að grunnfleti, og því er breið sylla norðanmegin á húsinu. Húsið er mjög prýtt hinum ýmsu formum, smáum tíglum og hringlaga gluggum og sívalar súlur eru áberandi á framhlið og norðurhlið. Helsta sérkenni hússins er þó óneitanlega mikill hringlaga turn norðvestanmegin á húsinu. Í júní 1992 var nýtt húsnæði Pedrómynda tekið í notkun og enn er fyrirtækið starfrækt á jarðhæðinni. Enn er íbúð á efstu hæð en samkomusalir, skrifstofurými og fasteignasala á annarri og þriðju hæð.
Skipagata 16 er reisulegt og skrautlegt hús og ágætt kennileiti í Miðbænum og kallast nokkuð skemmtilega á við Alþýðuhúsið. Turninn gefur húsinu einmitt sérstakan og skemmtilegan svip, en löng hefð er fyrir turnum á Akureyrskum stórhýsum, sbr. Samkomuhúsið (1906) og húsið vestan við Skipagötu 16, þ.e. Hafnarstræti 96, París, bárujárnsklætt timburhús frá 1913. Í Húsakönnun 2014 er húsið sagt hafa mikið gildi fyrir götumynd- og það réttilega. Ekki er hins vegar talið að varðveislugildi hússins sé verulegt, enda á það sjaldnast við um svo ungar byggingar. En kannski öðlast Skipagata 16 varðveislugildi - eða jafnvel friðun - síðar á þessari öld. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2020 | 14:57
Hús dagsins: Skipagata 14; Alþýðuhúsið.
Skipagata 14 er eitt af tilkomumestu stórhýsum Miðbæjarins og nokkuð áberandi kennileiti, t.d. séð frá þjóðveginum, Torfunefi og Hofi. Húsið er að mestu byggt árin 1983-84 en elsti hluti hússins, neðsta hæðin, var byggður um 1952. Þá stóð til að reisa mikla byggingu KEA. Norðurhluti byggingarinnar reis að fullu, fjórar hæðir, og varð Skipagata 12. Skipagata 14 var hins vegar lengi vel aðeins ein hæð. Bygging efri hæða Skipagötu 14 var samvinnuverkefni verkalýðsfélaganna á Akureyri og var ætlað að verða sameiginlegt aðsetur þeirra. Kallast húsið Alþýðuhúsið. Teikningarnar að húsinu gerði Aðalsteinn Júlíusson á Teiknistofunni Sf. vorið 1983. Nyrðri hluti neðri hæðar var hins vegar byggður eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar; Verzlunarhús KEA og T.B. sem dagsettar eru 22. júlí 1952.
Skipagata 14 er fimm hæða steinsteypuhús með valmaþaki. Efsta hæðin er eilítið smærri að grunnfleti, eða með svokölluðu penthouse lagi. Járn og þakdúkur er á þaki og múrhúð, ýmist slétt eða hömruð á veggjum.
Fyrstu árin eftir að neðsta hæð Skipagötu 14 reis hýsti hún afgreiðslu KEA, en í október 1959 innréttaði kaupfélagið veglegt þvottahús þarna. Nánar tiltekið Þvottahúsið Mjöll og var það starfrækt í húsnæðinu um árabil. Á suðurhluta lóðarinnar stóð einnig timburhús, sem flutt hafði verið á lóðina frá Svalbarðseyri, svonefnt Rauða hús. Þar var um að ræða timburhús, byggt um aldamótin 1900 og stóð upprunalega á Svalbarðsströnd, en flutt á þennan stað árið 1911. Þar voru á seinni árum afgreiðslur flutningafyrirtækja, m.a. Péturs og Valdimars. Rauða hús var fjarlægt í júní 1983, og flutt fram að Botni í Hrafnagilshreppi. Skömmu síðar hófst bygging Alþýðuhússins
Hið nýja Alþýðuhús var formlega tekið í notkun 26. júlí 1984. Á neðstu hæð hefur alla tíð verið útibú Íslandsbanka (Glitnis meðan hann var og hét) en veitingastaðir á efstu hæð. Enn er húsið aðsetur fjölmargra verkalýðsfélaga og einnig hefur Vinnumálastofnun aðsetur á annarri hæð. Þá eru hinar ýmsar skrifstofur og samkomusalir í húsinu. Kröfuganga Akureyringa á verkalýðsdaginn, 1. maí, leggur ævinlega af stað frá húsinu. Þá hefur efsta hæðin (penthouse hæðin) alla tíð hýst veitingastaði. Lengi vel var þar veitingastaður sem hét Fiðlarinn- væntanlega vísun í Fiðlarann á þakinu. Enn er veitingarekstur á efstu hæð, veitingahúsið Strikið. Útsýnið frá veitingasölunum er hreint og klárt stórkostlegt, yfir Pollinn, Eyrina, út eftir og fram eftir. sem KEA Skipagata 14 er ekki talin hafa varðveislugildi, enda á það yfirleitt við um eldri hús.
Skipagata 14, Alþýðuhúsið, fellur vel inn í götumynd Skipagötu og umhverfið, hönnun þess hefur að mörgu leyti tekið mið að nærliggjandi byggingum. Húsið er, í Húsakönnun 2014, ekki talið hafa verulegt varðveislugildi (enda á það yfirleitt ekki við um þetta nýleg hús) en talið hafa gildi fyrir götumynd Skipagötu. Enda er um að ræða áberandi og glæst kennileiti í Miðbænum. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.7.2020 | 23:35
Mislangur kílómetri ;)
Á umhverfinu má sjá hinar ýmsu hliðar og sumar athyglisverðar og spaugilegar. Hér eru tvær myndir, af sjónarhornum sem flestir þeir sem eiga leið um Þjóðveg 1 (Leiruveg) inn á Akureyri eða á Akureyrarflugvöll, kannast við. Þetta eru semsagt skiltin við vegamót Hringvegar og Eyjafjarðarbrautar vestri annars vegar og við afleggjarann að Akureyrarflugvelli hins vegar. Á flugvallarafleggjaraskiltunum stendur, svo sem sjá má, Hrafnagil 10- Akureyri 3 (Hrafnagil í suðurátt). Á skiltunum við vegamótin við Leiruveg stendur Hrafnagil 10-Akureyri 2. Þegar farið er á milli þessara tveggja skilta, í norðurátt eða úteftir, hefur vegfarandi semsagt færst 1km nær miðbæ Akureyrar en ekki náð að færast kílómetra lengra frá Hrafnagili. Hið sama er uppi á teningnum á leiðinni frameftir, vegfarandi færist 1km frá miðbæ Akureyrar, en nær ekki sömu vegalend í átt að Hrafnagili. Af þessu má ráða, að þessi vegalengd hljóti að vera 1km í aðra áttina en eitthvað rétt innan við 1 km í hina.
Bloggar | Breytt 14.7.2020 kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 2
- Sl. sólarhring: 132
- Sl. viku: 436
- Frá upphafi: 446090
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 321
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar