3.7.2020 | 17:08
Hús dagsins: Skipagata 12
Skráð byggingarár Skipagötu 12 er 1949. Engu að síður er það svo, að eina bókun Byggingarnefndar sem greinarhöfundur -sem er aldeilis ekki óskeikull- fann um húsið er frá árinu 1952. En þá fengu Kaupfélag Eyfirðinga og Tómas Björnsson að reisa norðurhluta fyrirhugaðrar bygginga á sameiginlegum lóðum. Í Húsakönnun 2014 er hönnuður hússins sagður ókunnur en á Landupplýsingakerfinu má finna þessar teikningar, gerðar af Mikael Jóhannessyni. Á þessum teikningum Loga Más Einarsson af endurbótum hússins. Upprunalegar teikningar virðast ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu en þar eru hins vegar teikningar af innra skipulagi hússins, eftir Mikael Jóhannesson. Húsið, Verslunarhús KEA, átti að skiptast í nokkur rými fyrir léttan iðnað eða skrifstofur og áformuð lengd skv. teikningum nærri 26m en lengd hússins meðfram götu er um 12m. Þannig má ætla, miðað við upplýsingar frá Bygginganefnd og teikningar, að aðeins um téðan norðurhluta að ræða. Suðurhlutinn reis ekki í fyrirhugaðri mynd, en rúmum þremur áratugum síðar reis hins vegar mikið stórhýsi á Skipagötu 14, áfast nr. 12 (sjálfsagt halda einhverjir, að um sé að ræða eitt og sama húsið). Reis það ofan á jarðhæð byggingar, sem þegar var áföst.
Skipagata 12 er fjórlyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Efsta hæð er inndregin frá austurhlið og eru þar svalir eftir endilöngu. Veggir eru múrsléttaðir og þakpappi á þaki. Gluggar með einföldum þverpóstum með þrískiptu efri fögum, en verslunargluggar á jarðhæð. Á norðurhlið er kringlóttur gluggi ofarlega, sem gefur húsinu ákveðinn svip, en þessi gafl hefur löngum verið skreyttur flennistórum auglýsingamyndum.
Skipagata 12 hefur frá upphafi hýst hina ýmsa verslun og þjónustu, líkt og húsin öll við Skipagötuna. Meðal annars má nefna afgreiðslu hins valinkunna póst- og flutningabáts Drangs, Ferðafélag Akureyrar og Sjómannafélag Eyjafjarðar. Að ógleymdri Gufupressun fatahreinsun. Á níunda áratugnum var opnaður hér kjúklingastaðurinn Crown Chicken og um árabil prýddi nokkurs konar táknmynd staðarins: reffilegur hani, norðurhlið hússins. Hefur síðan verið veitingarekstur á jarðhæð, nú er þar starfræktur Akureyri Fish and chips. Á efri hæðum eru skrifstofurými og íbúð á efstu hæð.
Ekki er talið að gildi hússins sé verulegt umfram önnur hús við Skipagötu, en húsaröðin hefur nokkuð gildi sem slík. Húsið er, líkt og húsin utar við Skipagötu, byggt í anda skipulagsins frá 1927. Húsið er í mjög góðri hirðu og mun að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1948-1957. Fundur nr. 1159, 1. ágúst 1952. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Breytt 6.7.2020 kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.7.2020 | 20:11
Vesturbrú vígð í gær
Þann 15. september 2019 var ég á ferðinni á hjóli um Vaðlaheiði. Á bakaleiðinni gerði sunnan slagveður (í kaldara lagi af sunnanvindi að vera) og hugðist ég fara svokallaða Þverbraut, gömlu brýrnar þrjár yfir óshólma Eyjafjarðarár. Þegar komið var að vestursporð vestustu brúarinnar blasti við heldur óskemmtileg sjón. Þar hafði verið komið fyrir girðingargrind, sömu gerðar og notuð er til afmörkunar byggingarsvæða og annarri í vinkil. Heldur þótti okkur félögunum þetta súrt og töldum það hefði verið lágmarks kurteisi, að láta vita hinu megin, að leiðin væri lokuð í annan endann. Því urðum við að snúa við þarna í slagviðrinu og halda út Eyjafjarðarbraut eystri og yfir Leiruveginn. Ég hefði ekki boðið í það, að reka þarna hrossastóð og þurfa að snúa því á punktinum.
Nokkru síðar var upplýst í fjölmiðlum, að brúin hefði lent inn á stækkuðu öryggissvæði Akureyrarflugvallar. Óhjákvæmilega var klippt á ansi skemmtilega göngu- og hjólaleið en auðvitað hljóta öryggismál flugvallar að vega þyngra en útivistarleið. Í september í fyrra gat maður allt eins ímyndað sér, að þessi skemmtilega göngu- hjóla- og reiðleið heyrði sögunni til. Varla yrði ráðist í margra milljóna framkvæmd við nýja brú þarna? Og hvar myndi hún vera; hversu sunnarlega ? Yrði hún Eyjafjarðarsveitar- eða Akureyrarmegin sveitarfélagamarkanna ? Og hvenær kæmi hún ? Líklega yrði maður að sætta sig við orðinn hlut. Gönguleiðir eru líka víða um Akureyri og nærsveitir og lítið mál er að hjóla fram að Miðbraut milli Laugalands og Hrafnagils, vilji maður bregða sér á þessar stuttan hring frameftir. Öðru máli gegnir hins vegar um hestamenn. Þverbrautin var eina leið Akureyrskra hestamanna að högum og aðstöðu í Hólmunum og reiðvegi frameftir. Því var þeim mikið kappsmál að fá nýja brú og munu þeir hafa haft mestan veg og vanda af því, að ráðist var í smíði nýrrar brúar.
Í gær, 1. júlí, var komið að vígslu nýrrar brúar. Var það hátíðleg og skemmtileg stund í sólríku og góðu veðri, þó tæki að blása nokkuð úr norðri þegar á leið. Karlakór Akureyrar flutti nokkur lög og ávarp flutti Guðmundur Baldvin Guðmundsson bæjarfulltrúi. Kynntar voru niðurstöður úr nafnasamkeppni fyrir nýju brúna og var nafnið Vesturbrú fyrir valinu. Er það vel viðeigandi, þar eð brúin er yfir vestustu kvísl Eyjafjarðarár. Það var svo Sigurður Ingi Jóhannsson sem klippti á borðann ásamt ungri hestakonu úr Létti. Það voru einmitt félagar í Létti sem riðu hópreið yfir brúna og í kjölfarið fylgdu skokkarar, þá hjólreiðamenn (þ.m.t. sá sem þetta ritar) og gangandi. Austanmegin var síðan boðið upp á léttar veitingar. Hér eru nokkrar myndir:
Til fróðleiks má nefna, að Vesturbrú mun vera fyrsta brúin sem rís yfir Eyjafjarðará á 21. öld og með henni telst mér til, að ellefu brýr séu á Eyjafjarðará.
Og hverjar eru þessar ellefu brýr ? Þær eru, eftir því sem ég kemst næst, talið frá suðri (fremst) til norðurs:
1. Brú við Halldórsstaði
2. Brú við Vatnsenda/Leyning
3. Hringmelsbrú (Bogabrú við Sandhóla)
4. Brú á móts við Möðruvelli
5. Reiðbrú við Melgerðismela
6. Brú á Miðbraut (Hrafnagil-Laugaland)
7. Vesturbrú
8.-10. Brýrnar á Þverbrautinni yfir Hólmana
11. Brúin á Leiruvegi (er eiginlega eins utarlega og hægt er á ánni, liggur eiginlega yfir Pollinn).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.6.2020 | 16:04
"Hús dagsins" 11 ára
"Ég hef í nokkrar vikur birt myndir sem ég á af húsum á Akureyri og stutta umfjöllun um þau á Facebook. Hérna mun halda áfram með það. Eru þetta yfirleitt gömul hús á Oddeyri eða Innbænum en ég á orðið ágætis myndasafn af þeim. Heimildir um byggingarár og sögu húsanna eru fengnar úr öllum mögulegum bókum um byggingarsögu Akureyrar auk þess sem ég hef sótt a.m.k. eina sögugöngu Minjasafnsins um þessi eldri hverfi á hverju sumri síðan 1997"
Svona hófst fyrsti pistillinn, undir yfirskriftinni "Hús dagsins" hér á þessum vef fyrir réttum 11 árum, 25. júní 2009. Hann var um Norðurgötu 17, Steinhúsið eða Gömlu Prentsmiðjuna. Pistillinn var aðeins fáeinar línur, enda var ætlunin fyrst og fremst að birta myndir og fáeina punkta um húsin. En svona var pistillinn í heild sinni:
Hús dagsins er Norðurgata 17, einnig kallað Steinhúsið eða Gamla Prentsmiðjan. Húsið er það eina á Akureyri sem hlaðið er úr blágrýti svipað og Alþingishúsið og Hegningarhúsið. Byggingarár mun vera 1880 og er þetta hús í 3.-4.sæti yfir elstu hús á Oddeyri. Í þessu húsi var lengst af starfandi prentsmiðja en ýmis önnur starfsemi hefur einnig verið stunduð í húsinu á 130 árum.
Svo mörg voru þau orð. Ekki ætla ég að rekja sögu þessara pistla í smáatriðum að þessu sinni en tenglarnir hér til hliðar segja svosem sína sögu. Ég reiknaði í upphafi ekki með að nenna þessu lengur en nokkra mánuði, en nú eru árin orðin ellefu og nóg eftir, þannig séð. Almennt hef ég þó það viðmið í umfjölluninni að "Hús dagsins" séu frá fyrri hluta 20. aldar eða eldri, eða standi í eldri byggðum Akureyrar. Þessar reglur eru hins vegar engan veginn algildar, svo sem sjá má á pistlum liðinna ára.
En í tilefni 11 ára afmælis "Húsa dagsins" birti ég tengla á 11 pistla, einn frá hverju ári, um hús nr. 11. (Ath. Við yfirlit á pistlunum komst ég þó að því, að á hverju einasta ári frá 2009 var að finna a.m.k. eina grein um hús nr.11 nema frá einu ári. Og svo vill nú til, að eina árið, sem enginn pistill um hús nr. 11 birtist, var einmitt...2011!)
Norðurgata 11 (Birtist 26. júní 2009, annar "Hús dagsins" pistillinn.
Lundargata 11 (Birtist 5. mars 2010)
Silfurgata 11 á Ísafirði. (Birtist 22. ágúst 2012. Ég skrifa ekki eingöngu um Akureyrarhús...)
Brekkugata 11 (Birtist 13. jan. 2013)
Lækjargata 11 (Birtist 30. sept. 2014)
Ægisgata 11 (Birtist 21. apríl 2015)
Bjarmastígur 11 (Birtist 29. maí 2016)
Oddeyrargata 11 (Birtist 3. okt. 2016)
Munkaþverárstræti 11 (Birtist 28. júní 2017)
Fjólugata 11 (Birtist 11. jan. 2018)
Helgamagrastræti 11 (Birtist 20. júní 2019)
Skólastígur 11 (Birtist 17. mars 2020)
Í þeirri viðleitni, að hér birtist færsla frá hverju ári frá 2009, er hér er ein færsla frá árinu 2011. Árinu sem ég tók ekkert hús nr. 11 fyrir. En 24. janúar það ár tók ég fyrir skátaskálann Fálkafell.
PS. Þess má geta, að ég skrifa líka húsagreinar í Vikudag...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.6.2020 | 13:30
Hús dagsins: Skipagata 9
Yngsta húsið við Skipagötu er stórhýsið Skipagata 9. Hér er um að ræða hús, árin 1996-97, áfast Skipagötu 7, sem lengst af var útvörður eystri Ráðhústorgs-Skipagötusamstæðunnar í suðri. Þarna stóð áður vöruskemma í eigu KEA, en hún var fjarlægð á níunda áratugnum. Stóð lóðin auð í tæpan áratug og vakti nokkrar umræður á tímabili en árið 1996 hófst bygging stórhýsis Sparisjóðs Norðlendinga. Skipagata 9 er steinhús á fjórum hæðum með flötu þaki. Stendur það á horni Skipagötu og Hofsbótar, og er suðurhliðin bogadregin meðfram síðarnefndu götunni. Húsið er að mestu álklætt og þakdúkur á þaki, en efsta hæð er að mestu glerjuð. Efsta hæðin er inndregin að vestan og sunnan og þannig myndast svalarými þar meðfram.
Teikningarnar að Skipagötu 9 gerði Ágúst Hafsteinsson bygginguna annaðist SS Byggir. Sparisjóður Norðlendinga kom sér fyrir á jarðhæð og var þarna til húsa fram undir 2015, en rann í millitíðinni inn í BYR. Á efri hæðum eru upphafi skrifstofurými og hin ýmsu fyrirtæki (m.a. lögmannsstofur, fasteignasölur, verðbréfafyrirtæki o.fl.) haft þar aðstöðu. Þá eru fjórar íbúðir á efstu hæð. Síðustu ár hefur verslun 66°N verið á jarðhæð hússins, þar sem Sparisjóðurinn var áður.
Þegar byggðar eru nýbyggingar inn í rótgrónar götumyndir er oft mesta þrautin sú, að hin nýja bygging falli nokkuð þokkalega að þeirri byggð sem fyrir er. Í tilfelli Skipagötu 9 hefur þetta heppnast býsna vel. Húsið fellur ágætlega inn í götumynd Skipagötu og Hofsbótar, er hvorki of hátt né frábrugðið að gerð. Hönnun hússins virðist að mörgu leyti taka mið af húsaröðinni við Skipagötu. Skipagata 9 er hið glæstasta stórhýsi og frágangur þessa allur hinn snyrtilegasti. Húsið stendur á horninu við Hofsbót og tekur þátt í götumynd beggja gatna. Um þetta horn liggur hinn valinkunni rúnthringur Miðbæjarins og kallast og ekki óalgengt að rúntarar tali sín á milli um BYR-planið (áður Sparisjóðsplanið). Þar hefur síðustu árin ríkt sú hefð, að stoppa og eiga saman tal á milli bíla. Húsakönnun 2014 telur húsið hafa gildi fyrir götumynd beggja gatna en metur húsið ekki með verulegt varðveislugildi, enda á slíkt að öllu jöfnu frekar við um eldri hús. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1935-1941. Fundur nr. 828, 12. jan 1939. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2020 | 09:59
Hús dagsins: Skipagata 8
Í ársbyrjun 1939 var Konráð Kristjánssyni heimilað að reisa verslunarhús við Skipagötu á lóð sem honum hafði verið leigð. En Konráð fékk að reisa hús 9x11m að stærð, tvær hæðir á lágum grunni, veggir, loft og gólf úr járnbentri steinsteypu. Konráð sótti um að fá að byggja íbúðarhús og verslunarhús, en vegna skipulagsmála var ekki heimilt að byggja íbúðarhús á þessum stað. Húsið mátti hins vegar vera verslunar- og skrifstofuhús. Teikningar, sem ekki eru aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu, mun Tryggvi Jónatansson hafa gert. Öfugt við öll hin húsin, nyrst við vestanverða Skipagötu, var ekki gerð sú krafa, að húsið þyrfti að vera hærra en þessar tvær hæðir. Kemur það líklega til af því, að húsið var byggt frístandandi, þ.e. það tengdist ekki Ráðhústorgs- Skipagötusamstæðunni fyrr en Eyþór Tómasson byggði Skipagötu 6. Síðarnefnda húsið var hins byggt með skilyrðum, um að það gæti orðið þrjár hæðir. (Þriðja hæð þess húss er þó enn ekki risin, 80 árum síðar).
Skipagata 8 er tvílyft steinsteypuhús með einhalla, aflíðandi þaki undir háum þakkanti, stölluðum á gafli. Gluggar eru með einföldum þverpóstum og verslunargluggar á jarðhæð. Fjórar gluggar á efri hæð eru rammaðir inn að ofan og neðan með steyptum böndum ofan og neðan við. Þak er pappaklætt, steiningarmúr á framhlið en sléttur múr á gafli. (Gafl er aðeins einn, að sunnanverðu, þar eð húsið er áfast öðru húsi að norðan) Húsið er útvörður sambyggðrar húsaraðar við sunnanvert Ráðhústorg og vestanverða Skipagötu 8.
Konráð Kristjánsson, sem byggði húsið, var frá Stóru- Gröf í Skagafirði. Hann var járnsmiður og kaupmaður og fékkst m.a. við reiðhjólaviðgerðir og starfrækti þarna Reiðhjólaverkstæði Akureyrar. Hann hafði tæpum áratug fyrr byggt Skipagötu 1. Konráð flutti verkstæði sitt hingað á neðri hæð og bjó efri hæðinni ásamt konu sinni, Láru Sigfúsdóttur, og börnum. Lára var úr Öxnadalnum, uppalin á Steinsstöðum. Bjuggu þau hér um áratugaskeið. Árið 1940 kom sér fyrir í húsinu Lt. De Couter. Var hann skipaður af stjórn breska setuliðsins, og honum ætlað að taka til athugunar kvartanir, sem fram kunna að koma í sambandi við veru þess [setuliðsins] hér Hafði téður lautitant skrifstofu á Skipagötu 8 og auglýsti viðtalstíma á þriðjudögum milli kl. 10 og 12. Vorið 1942 hóf Sigtryggur Helgason rekstur gullsmíðastofu sinnar hér og var hún hér til húsa um árabil og lengst af í félagi við Eyjólf Arnarson. Árið 1953 byggðu þau Konráð og Lára bílskúr á baklóðinni, eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Síðustu áratugina hefur hin valinkunna Ljósmyndastofa Páls A. Pálssonar verið til húsa á neðri hæð hússins og enn er íbúð á efri hæð.
Umfjöllun um hús nr. 4-8 virðist ekki að finna í Húsakönnun 2014, en húsin yst við Skipagötu hljóta þar ótvírætt varðveislugildi sem mikilvæg heild. Fullkomlega eðlilegt þætti síðuhafa, að álykta að sama hljóti að gilda um Skipagötu 8. Húsið er líklega að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði og í góðri hirðu. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1935-1941. Fundur nr. 828, 12. jan 1939. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Breytt 9.7.2020 kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2020 | 21:19
Hús dagsins: Skipagata 7
Skipagata 7 var um áratugaskeið útvörður eystri Ráðhústorgs- Skipagötu húsasamstæðunnar í suðri, eða allt þar til Skipagata 9 reis af grunni 1998. En Skipagötu 7 reisti Kaupfélag Eyfirðinga, KEA, árið 1942. Það var 13. febrúar það ár, að Jakob Frímannsson forstjóri félagsins fékk byggingarleyfi næst norðan við Benedikt Ólafsson [Skipagötu 5], hús byggt úr járnbentri steinsteypu 10,65x11m. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Skipagata 7 er þrílyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Á jarðhæð eru verslunargluggar en þverpóstar í gluggum efri hæða. Veggir eru múrsléttaðir en pappi á þaki.
Þann 8. maí 1942 ákvað Byggingarnefnd Akureyrar að breyta númerum við Skipagötu. Skyldi þau öll lækka um 2, þ.e. að Skipagata 3 yrði 1 og nr. 5 yrði 3. Skipagata 7, sem þá hefur væntanlega verið í byggingu, yrði þá nr. 5. Benedikt Ólafsson málarameistari í Skipagötu 5 var alls ekki sáttur við þessar breytingu og hélt gamla númerinu ætíð til streitu. Hins vegar virðist þetta hús almennt vera talið nr. 5, sbr. auglýsingu frá 3. maí 1945 þar sem segir að rakarastofa Jóns Eðvarðssonar sé [...] flutt í ný, vistleg húsakynni í Skipagötu 5, hið nýja hús KEA.
Ef Skipagötu 7 er flett upp á timarit.is finnast aðeins tvær auglýsingar um heimilisfangið á Akureyri (Skipagata 7 er einnig á Ísafirði) frá 5. áratugnum, Þær eru frá júlí 1943 þar sem Ásgrímur Stefánsson auglýsir eftir starfsstúlkum á prjónastofu sína. En svo virðast númerin smám saman festast í sessi eftir því sem árin og áratugirnir líða. Það er hins vegar ekki gott að átta sig á því, þegar heimildir á fyrrnefndum gagnagrunni, timarit.is, eru skoðaðar um hvora Skipagötu 5 er að ræða. Sjálfsagt muna margir lesendur eftir valinkunna veiðarfæraverslun Gránu í Skipagötu 7 en hún var stofnuð í ársbyrjun 1956. Grána er raunar ýmist auglýst í Skipagötu 5 eða Skipagötu 7 fyrsta áratuginn eða svo, en eftir 1965 er hún aðeins sögð í nr. 7. Það segir hins vegar haft orðrétt úr Ársskýrslu Kaupfélags Eyfirðinga, í Degi í júní 1957, að kaupfélagið hafi í félagið við Slippstöðina opnað nýja verslun með útgerðarvörur í húsnæði félagsins við Skipagötu 7. Þannig að a.m.k. innan raða Kaupfélagsins hefur númer hússins verið kýrskýrt. Húsið hefur alla tíð verið í senn verslunar- og þjónustuhúsnæði og íbúðir á efri hæðum. Um árabil var í húsinu téð verslun Grána og verslunarstjóri lengi vel Herluf Ryel. Einhvern tíma heyrði greinarhöfundur sögu af einum (jafnvel fleirum) sem fór inn í Gránu og spurði hvort til væru herlúffur. Fylgdi sögunni, að Herluf mun ekki hafa haft húmor fyrir því.
Líkt og flest húsin við Skipagötu hefur Skipagata 7 hýst margs konar verslun og þjónustu gegn um tíðina og á efri hæðum skrifstofurými Árið 1978 keyptu Verkalýðsfélagið Eining og Lífeyrissjóðurinn Sameining húsið og höfðu þar aðsetur um nokkurra skeið. Nú er á jarðhæð hússins Gleraugnaþjónustan, lögmannsstofur á annarri hæð og íbúð á þriðju hæð.
Húsið er látlaust og einfalt stórhýsi og setur svip sinn á umhverfið, sem hluti hinnar löngu húsasamstæðu sem teygir sig frá Ráðhústorgi og meðfram Skipagötu austanmegin. Raunar nær þessi röð á Strandgötu, þar sem hið valinkunna Nýja Bíó er áfast þessari sömu röð. Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi sem hluti húsaraðar, sem er [...]einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins (Landslag arkitektastofa 2014: 54) Þessi húsaröð er hluti fyrirhugaðar randbyggðar samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi bæjarins árið 1927, og ein af fáum minnisvörðum þetta fyrsta skipulag. Húsið er í stórum dráttum óbreytt frá upphafi að ytra byrði og er í mjög góðri hirðu. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 897, 13. feb. 1942. Fundur nr. 909, 8. maí 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Breytt 16.6.2020 kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.6.2020 | 19:57
Hús dagsins: Skipagata 6
Skipagötu 6 reisti Eyþór Tómasson forstjóri og athafnamaður,löngum kenndur við súkkulaðiverksmiðjuna Lindu, árin 1939-40. En í maí 1939 fær hann næstu lóð norðan við Konráð Kristjánsson [Skipagata 8] og tæpu ári sækir hann um að reisa þar hús, og er það heimilað. Húsið yrði tvær hæðir úr steinsteypu með skúrþaki en bygginganefnd setur það skilyrði, að húsið [...]þarf að geta verið 3 hæðir. Sú krafa var gerð á öll hús við vestanverða Skipagötu, sem tengdust sambyggingunni við Ráðhústorg-Skipagötu. Hins vegar er það svo, að 80 árum síðar er Skipagata 6 enn tveggja hæða. Vorið 1941 fær Eyþór að breyta útliti hússins, m.a. gluggaskipan á framhlið og byggja svalir að vestan. Teikningar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson.
Skipagata 2 er tvílyft steinsteypuhús með aflíðandi, einhalla þaki undir kanti sem hæstur er götumegin (þak virðist þannig flatt, séð frá götu). Á veggjum er steiningarmúr, þak er pappaklætt en einfaldir þverpóstar í gluggum en verslunargluggar á götuhæð. Port eða undirgöng liggja gegn um húsið syðst á mörkum þess og Skipagötu 8.
Líkt og flest hús við Skipagötu hefur Skipagata 6 verið frá upphafi þjónustu- og íbúðarhús. Þegar heimilisfanginu er flett upp á timarit.is birtast 1126 niðurstöður þar sem heimilisfangið hefur komið fyrir á prentmiðlum. Elsta niðurstaðan er frá 14. september 1939, þar sem Torfi Maronsson auglýsir opnun nýrrar nuddstofu í Skipagötu 6. En hins vegar er það í júlí 1941 sem Eyþór Tómasson flytur smíðaverkstæði sitt hingað en hann smíðaði m.a. líkkistur. Og skömmu síðar, eða 1. ágúst 1941 er auglýst í Íslendingi, að Gufupressun Akureyrar sé flutt hingað. Síðar á sama ári auglýsir Eyþór opnun verslunar sinnar við Skipagötu 6 þar sem hann verslar m.a. með Hreinlætis- og vefnaðarvöru, tóbaks og sælgætisvörur og margt fleira. Hlaut verslun Eyþórs nafnið London. Árið 1956 auglýsir Eyþór hann verslunina London til sölu eða leigu. Mögulega hafði hann í hyggju að einbeita sér að öðrum rekstri, en átta árum áður hafði hann stofnað súkkulaðiverslunina Lindu. Síðan hafa margir verslað hér í lengri eða skemmri tíma. Á sjöunda áratugnum var Verslunin Rún þarna til húsa, skóverslun og á 9. Og 10. áratugnum var verslunin Heilsuhornið þarna til húsa. En hún sérhæfði sig, eins og nafnið gefur til kynna, í verslun með hinar ýmsu heilsuvörur og hollar matvörur (er enn starfrækt á Glerártorgi undir nafni Heilsuhússins). Svo fátt eitt sé nefnt. Nú er starfrækt í Skipagötu 6 verslunin Sirka og íbúð á efri hæð.
Skipagata 6 er mikið lægra en næstu hús norðan við í Skipagötu-Ráðhústorgs samstæðunni en engu að síður reisulegt og glæst hús. Í Húsakönnun frá 2014 er húsið ekki tekið sérstaklega tekið fyrir; en nærliggjandi hús og húsin handan Skipagötu metin með ótvírætt varðveislugildi. Ekki væri óeðlilegt að álykta, að slík eigi einnig við um Skipagötu 6. Húsið mun nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og er í góðri hirðu og er í mjög góðri hirðu og er til mikillar prýði í umhverfinu, sem beinlínis mótast af húsunum. Litasamsetning götuhæðar (hvítur/ljósgrænn) gefur húsinu gefur húsinu skemmtilegan svip. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1935-1941. Fundur nr. 833, 5. maí 1939. Fundur nr. 848, 13. apríl 1940. Fundur nr. 872, 26. apríl 1941. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2020 | 14:30
Hús dagsins: Skipagata 4
Af Hólabrautinni færum við okkur spölkorn til suðurs og tökum upp þráðinn í Skipagötu, við steinsteypt stórhýsi á níræðisaldri sem um áratugaskeið hýsti valinkunna kjörbúð...
Árið 1933 fékk Jónas Stefánsson leyfi til að reisa hús næst sunnan við Guðmund Tómasson (Skipagata 2) 10x9,5m, þrjár hæðir með háu risi. Hugðist hann aðeins reisa tvær hæðir í þessum fyrsta áfanga en það gilti um flest stórhýsin sem risu við Skipagötu og Ráðhústorg áratuginn 1930-40, að þau voru reist í áföngum, oftar en ekki aðeins fyrsta hæð eða tvær hæðir af fjórum. Hönnuður hússins er ókunnur en freistandi að giska á Halldór Halldórsson eða Tryggva Jónatansson.
Skipagata 2 er fjögurra hæða steinsteypuhús með einhalla, aflíðandi þaki. Efsta hæð er inndregin að framan, og eru þar svalir endilangri hliðinni. Á bakhlið eru svalir fyrir miðju á 2.- 4. hæð. Á þaki er þakpappi og veggir múrsléttaðir en skiptir þverpóstar í gluggum. Á jarðhæð eru götusíðir verslunargluggar. Húsið er inni í miðri sambyggðri húsaröð, á milli húsa nr. 2 og 6 við Skipagötu og er syðst í fjögurra hæða hluta þessarar húsaraðar, en Skipagata 6 er á tveimur hæðum. Fljótt á litið er e.t.v. ekki greinilegt hvar Skipagata 2 endar og Skipagata 4 byrjar en á meðfylgjandi mynd er það líklega greinilegast á þakbrúninni, sem er eilítið hærri á nr. 2 (t.h. á myndinni).
Jónas Stefánsson opnaði innrömmunarverkstæði í húsinu árið 1934, þegar það var nýbyggt og starfrækti það í nokkur ár og auk þess var þarna rakarastofa Sigtryggs Júlíussonar. Jónas og kona hans Bjarnveig Magnúsdóttir bjuggu hér um áratugaskeið og Jónas allt til dánardægurs, 1969. Lengst af, eða frá 1945 og fram yfir 2010 var starfrækt í Skipagötu verslunin Hafnarbúðin sem síðar hét Hólabúðin. (Strangt til tekið var ekki um sömu búð að ræða, þar eð sú fyrrnefnda varð gjaldþrota árið 1983 og Hólabúðin stofnuð í sama húsnæði. Í hugum flestra eru þessar tvær verslanir hins vegar sem eitt). En Hafnarbúðina opnaði Páll A. Pálsson í lok júní 1945. Hafnarbúðin/Hólabúðin var smá matvöruverslun eða kjörbúð eða bara einfaldlega kaupmaðurinn á horninu og hafði mjög sterkan karakter og sjarma. Síðustu árin var Hólabúðin að mestu sérsverslun með víngerðarvörur, en þó mátti grípa þar mjólkurlítra og sælgæti fram á síðasta dag. Margir eiga ljúfar og góðar minningar um Hafnarbúðina/Hólabúðina og kaupmanninn geðþekka Yngva Loftsson, sem þarna stóð vaktina í meira en hálfa öld. Hólabúðin var starfrækt allt til haustsins 2013. Nú er á jarðhæðinni starfrækt kaffihúsið Berlín en efri hæðirnar eru gistirými.
Skipagata 4 er reisulegt og glæst hús, líkt og húsasamstæðan öll við Skipagötu og Ráðhústorg, sem eru dæmi um stílhrein og glæst, steinsteypt stórhýsi. Í Húsakönnun frá 2014 er húsið ekki tekið sérstaklega tekið fyrir; en birtist þar á mynd með Skipagötu 2. Þar er Skipagata 2 metið með ótvírætt varðveislugildi og trúlega óhætt að draga þá ályktun, að það hljóti líka að eiga við Skipagötu 4. Eru húsin enda næsta áþekk og sambyggð. Húsið er nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og er í góðri hirðu, ekki langt síðan það var málað. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir:
Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1930-1935. Fundur nr. 705, 17. ágúst 1933. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2020 | 18:06
Hús dagsins: Hólabraut 16
Hólabraut 16 er íbúðar- og verslunarhúsnæði, byggt í áföngum 1945-53 af þeim Eyþóri og Guðmundi Tómassonum. Þá var byggt við húsið 1986 og 2014. En árið 1945 fékk Guðmundur Tómasson leyfi til að reisa íbúðarhús á lóð sinni við Hólabraut. Um var að ræða hús úr steinsteypu með steingólfum og járnklæddu valmaþaki úr timbri, tvær hæðir á lágum kjallara, 15x8,8m að grunnfleti auk útbyggingar að austan 8x6,3m. Bygginganefnd setti hins vegar ófrávíkjanlegt skilyrði, að steinþak væri á húsinu. Og árið 1948 mun húsið hafa verið fullbyggt, þ.e. elsti hluti þess. Guðmundur gerði sjálfur teikningarnar að fyrsta áfanga hússins. Það var hins vegar í júlí 1953 sem Eyþór fær, fyrir hönd súkkulaðiverksmiðjunnar Lindu leyfi til að reisa 2 hæða álmu að stærð 14x8m á austur og suðurtakmörkum lóðarinnar Hólabrautar 16. Árið 1949 hafði Eyþór nefnilega stofnað hina valinkunnu súkkulaðiverksmiðju í húsinu og eðlilega þurfti starfsemin að stækka við sig. Var þá byggt við húsið til austurs og suðurs, líkt og fram kemur í byggingalýsingum og var sá hluti hússins með háu valmaþaki. Teikningarnar að þeirri álmu gerði Snorri Guðmundsson.
Hólabraut 16 er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki og háu valmaþaki að hluta. Syðst og vestast er einlyft útbygging með svölum á þekju. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki. Einfaldir póstar eru í gluggum en verslunargluggar á suðurhluta neðri hæðar.
Súkkulaðiverksmiðjan Linda var starfrækt hér allt til ársins 1962 að hún flutti í nýbyggt stórhýsi utar á Oddeyrinni þ.e. við Hvannavelli (sjá mynd hér að neðan) sem síðan er þekkt sem Linduhúsið. En þeir bræður frá Bústöðum í Austurdal í Skagafirði, Eyþór og Guðmundur Tómasson starfræktu á tímabili hvor sína verksmiðju, þ.e. kexverksmiðjuna Lorelei og Súkkulaðiverksmiðjuna Lindu. Eyþór Tómasson (1906-1988) var ævinlega kallaður Eyþór í Lindu og var hann mikils metinn athafnamaður hér í bæ. Líkt og oft vill verða með slíka heiðursmenn var hann einnig mikill karakter og mörg fleyg orð eftir honum höfð. Hann mun t.d. hafa fullyrt að ekki væru allir peningar til fjár og inntur eftir hvað hann hafði fengið í hádegismat mun hann hafa svarað af bragði þetta voru bölvaðar sellur [gellur]. Árið 2009 kom út bókin Kvistagöt og tréhestar eftir Jón Hjaltason (sjá heimildaskrá), en hún er safn af kímni- og gamansögum af hinum ýmsu nafntoguðu heiðursmönnum á Eyjafjarðarsvæðinu. Þar er m.a. að finna kafla um Eyþór í Lindu. Mælir greinarhöfundur eindregið með þeirri lesningu- og raunar téðri bók í heild sinni. Sælgætisgerðina Lindu þarf vart að kynna fyrir lesendum, eða Lindubuffin, Ískexið og Lindukonfektið sem landsmenn hafa maulað sl. áratugi við mörg tækifæri. Enn eru mörg vörumerki Lindu framleidd en verksmiðjan sameinaðist Góu í Hafnarfirði árið 1993. Linda er nefnd í hinu sígilda Vor Akureyri, texta Kristjáns frá Djúpalæk við erlent lag, sem Hljómsveit Ingimars Eydal gerði ódauðlegt árið 1968.
Við höfum Lindu/ Við höfum KEA
Og heilsudrykkinn Thule, Amaro og SÍS.
Síðastliðna áratugi hefur verslun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins eða í daglegu tali manna Ríkið verið starfrækt á neðri hæð hússins en íbúð er á efri hæð. Árið 1986 var byggt við húsið til suðurs, anddyri verslunar og svalir ofan á og um 2014 var byggt við verslunarhúsnæðið til austurs. Húsið sem slíkt er ekki talið hafa varðveislugildi en tekur þátt í götumynd Hólabrautar sem talin er varðveisluverð. Hólabraut 16 er í mjög góðri hirðu, enda hefur tiltölulega nýlega verið byggt við húsið. Hlaut húsið um leið hinar ýmsu endurbætur, auk þess sem því hefur líkast til alla tíð verið vel við haldið. Myndin af Hólabraut 16 er tekin þann 19. janúar 2020 en myndin af Linduhúsinu við Hvannavelli 14, er tekin fyrr í dag, 28. maí 2020.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1172, 17. júlí 1953.
Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Guðjón Ingi Eiríksson. 2018. Ekki misskilja mig vitlaust; misskilningur og ambögur. Reykjavík: Hólar.
Jón Hjaltason. 2009. Kvistagöt og tréhestar. Akureyri: Völuspá.
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2020 | 13:29
Hús dagsins: Hólabraut 22
Hólabraut 22 munu þau Eiríkur Einarsson og Rut Ófeigsdóttir hafa reist árið 1947. Við yfirferð á bókunum bygginganefndar fann sá sem þetta ritar hvergi bókun sem átt gæti við Hólabraut 22. En húsið er byggt árið 1947 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar og það sama ár eru íbúar hússins skráðir téð Eiríkur og Rut.
Hólabraut 22 er steinsteypuhús af þeirri gerð sem algeng var um miðja 20. öld, tvílyft með lágu valmaþaki og horngluggum í anda funkisstefnunar. Útskot er á suðurhlið með áföstum svölum á efri hæð.
Þau Eiríkur og Rut höfðu áður verið bændur að Sveinsstöðum, Breiðagerði og Lýtingsstöðum áður en þau fluttu til Akureyrar. Þau byggðu fáeinum árum húsið að Laxagötu 7 en fluttu svo yfir bakgarðinn, ef svo mætti segja, því það hús stendur næst austan við Hólabraut 22. Eiríkur hafði um tíma umsjón með auglýsingum og afgreiðslu fyrir blaðið Íslending. Þannig birtast margir tugir niðurstaða á timarit.is fyrir heimilisfangið Hólabraut 22 á timarit.is, þar eð heimilisfangi Eiríks var getið í hverju blaði árin 1950-52. Eiríkur Einarsson mun hafa verið mikill hagyrðingur og hér má sjá nokkrar vísur eftir hann. Eiríkur lést langt fyrir aldur fram árið 1952, en Rut bjó áfram allt til dánardægurs, 1981. Hún mun hafa selt mönnum fæði heima m.a. námsmönnum. Slíkt var raunar ekki á óalgengt á áratugunum um og eftir miðja 20. öld, að húsmæður seldu mönnum fæði á matmálstímum; kostgöngurum sem kallaðir voru. Var enda lítið, svo ekki sé meira sagt, um skyndibitastaði eða hádegishlaðborð á þeim tíma. Margir hafa búið hér og átt húsið eftir tíð Eiríks og Rutar, en húsið hefur líkast alla tíð verið tvíbýli.
Hólabraut 22 er reisulegt og traustlegt hús í mjög góðri hirðu. Líkt og húsin austan Hólabrautar er það ekki talið hafa afgerandi varðveislugildi eitt og sér, en hluti heildar sem hefur nokkurt varðveislugildi. Tvær í búðir eru á húsinu, ein á hvorri hæð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir:
Manntal á Akureyri (spjaldskrá) 1941-50. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 9
- Sl. sólarhring: 111
- Sl. viku: 443
- Frá upphafi: 446097
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 327
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar