Hús dagsins: Hólabraut 20

Árið 1944 fékk Hallur Helgason leyfi til að reisa hús við Hólabraut, P1190966á tveimur hæðum með valmaþaki. Stærð hússins að grunnfleti 10x8,5m auk útskots að sunnanverðu 7,6x1,5m. Í bókunum bygginganefndar kemur fram, að Hallur hafi lagt fram uppdrátt frá Sverri Ragnars, en í Húsakönnun 2011 er hönnuður hússins sagður Guðmundur Gunnarsson. (Ómar Ívarsson 2011: án bls.) Upprunalegar teikningar eru hins vegar ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu, en þar má hins vegar finna burðarvirkisteikningar, dagsettar í júní 1944 og undirritaðar af H. Halldórssyni. (Sem er líklega Halldór Halldórsson, byggingafulltrúi).

Hólabraut 20 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Á suðurhlið er útskot og svalir á efri hæð og inngöngudyr og stétt í kverkinni á milli. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki.

Þegar þetta birtist eru rétt 75 ár síðan Hólabrautar 20 var fyrst getið á prenti, en það var þann 15. maí 1945, að Hallur Helgason auglýsti eftir stúlkum til starfa við síldarsöltun á Siglufirði það sumarið. Hallur Helgason, sem byggði Hólabraut 20, var fæddur hér í bæ árið 1900. Hann lauk prófi frá Vélstjórnarskólanum árið 1925 og starfaði alla tíð sem vélstjóri og yfirvélstjóri á hinum ýmsu skipum. Lengst af starfaði hann hjá Útgerðarfélagi Akureyrar en áður var hann hjá Síldaverksmiðju ríkisins. Hallur lést langt fyrir aldur fram árið 1956. Hann var kvæntur Guðbjörgu Sigurlín Bjarnadóttur (1905-1993) frá Vestmannaeyjum. Árið 1957 hefur neðri hæð hússins verið tveir eignarhlutar, en þá kemur fram í Viðskiptatíðindum að Grímur Stefánsson selji Sigríði Guðmundsdóttur norðurenda neðri hæðar. Margir hafa átt hér heima síðan bæði um lengri og skemmri tíma. Á meðal þeirra má nefna Jónas Rafnar lækni, sem var yfirlæknir á Kristneshæli í Eyjafirði frá stofnun og um áratugaskeið eftir það.

Hólabraut 20 er látlaust en reisulegt og glæst hús. Það er í afbragðs góðri hirðu og hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald, a.m.k. á síðustu árum. Lóðin er einnig vel gróin og vel hirt. Líkt og húsin austan Hólabrautar er það ekki talið hafa afgerandi varðveislugildi eitt og sér, en hluti heildar sem hefur nokkurt varðveislugildi. Tvær í búðir eru á húsinu, ein á hvorri hæð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.  

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 981, 30. júní 1944.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

 


Samgöngur og samskipti

Ein helsta samgöngubót síðari ára fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur á Akureyrarsvæðinu er stígur sem liggur frá Torfunefi meðfram Drottningarbraut. Stígurinn, sem lagður var í áföngum árin 2014-18, liggur meðfram brautinni fram að Flugvelli og Kjarnaskógsafleggjara og raunar alveg fram að Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit.

Það var einhverju sinni fyrir fáeinum árum, að ég var á ferð hjólandi um á umræddum stíg. Einu sinni sem oftar. Ákvað, eins og lög gera ráð fyrir, að hringja bjöllu þar sem ég nálgaðist fólk, sem var gangandi í sömu átt. Skemmst er frá því að segja, að fólkið brást vægast sagt illa við og hreytti á eftir mér ónotum um "helvítis frekju í hjólafólki sem léti eins og það ætti stíginn". Tók væntanlega bjölluhringingunni sem skilyrðislausri skipun um að víkja strax, svo ég gæti nú þeyst áfram.


Svo var það öðru sinni, að ég var á göngu á sama stíg. Skyndilega ruddist fram úr mér a.m.k. 20 manna hjólahópur (líklega á 30km hraða). Margir öskruðu og görguðu eitthvað á þá leið að ég skyldi víkja (enginn hringdi bjöllu). Fáeinir þeirra sendu mér gneistandi illskusvip, að því er virtist fyrir það, að ég skyldi hreinlega ekki hafa vikið niður í fjöruborð með nægum fyrirvara. Þannig hefðu þeir, fyrir kæruleysið í mér, þurft að lækka hraðann niður að hámarkshraða í íbúðagötum. Það er stundum vandlifað
 wink

Rétt er að geta þess, að um er að ræða tvö algjör undantekningatilvik; að þessum tilvikum undanskildum hef ég ALDREI, hvorki fyrr né síðar, lent í svona uppákomum, hvorki á þessum stíg né öðrum. Nær allir sem eiga leið þarna um, sem og um aðra stíga Akureyrar sýna gagnkvæma tillitssemi- það er a.m.k. mín reynsla. 

 


Hús dagsins: Hólabraut 19

Kannski mætti orða það svo, að húsin vestan Hólabrautar standi „þar sem Oddeyrin mæti Brekkunni“. Alltént er það svo, að vestan götunnar tekur landi að halla nokkuð skarpt upp á við, áleiðis á Ytri Brekkuna. Ysta húsið vestan Hólabrautar er nr. 19.

Það var árið 1944 sem Björgvin Magnússon fékk lóð og byggingarleyfi á Hólabraut 19. P1190961Fékk hann leyfi til að reisa hús, byggt úr steinsteypu með járnbentu steinlofti og lágu valmaþaki. Stærð að grunnfleti 11x7,95m auk útskota; 1,20x6,20m að austan og 1,50x4,25m að sunnanverðu. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Tómasson byggingameistari.

 

Hólabraut 19 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Húsið myndi líklega flokkast sem svokallað „byggingameistarafunkis“ en það skartar horngluggum til suðurs. Svalir eru á efri hæð til suðvesturs. Bárujárn er á þaki, lóðréttir póstar í gluggum og gróf steining eða steinmulningur á veggjum.

 

Þegar heimilisfanginu Hólabraut 19 er flett upp á gagnagrunninum timarit.is koma upp 118 niðurstöður. Sú elsta er úr Degi 28. febrúar 1946 og þar segir „Þú sem tókst rauð rennilásstígvél nr. 39 og skildir eftir önnur minn, á skautaísnum á þriðjudaginn, gjörðu svo vel að skipta í Hólabraut 19“. Undir skrifar Ragna á Gefjun. Umrædd Ragna á Gefjun hét fullu nafni Ragnheiður Hannesdóttir, frá Syðri Ey á Skagaströnd. Ragna starfaði við afgreiðslu á Gefjun hér í bæ í tæpa tvo áratugi eða frá 1935. Hún fluttist til Reykjavíkur árið 1954 en hélt þar áfram störfum á Gefjun-Iðunn. Líkast til hefur húsið verið tvíbýli frá upphafi og ein íbúð á hvorri hæð, og margir átt hér heima á þremur aldarfjórðungum. Í húsinu var einnig um tíma, á fyrri hluta 6. áratugarins, starfrækt reiðhjólaverkstæði Hannesar Halldórssonar. 

Hólabraut 19 er reisulegt og traustlegt hús. Lóðin er einnig gróin og til mikillar prýði íP8180238 umhverfinu. En næsta umhverfi Hólabrautar 19 er  hvanngræn brekka, sem skilur að Hólabraut og Brekkugötu. Brekka þessi er þéttingsbrött upp við Brekkugötu og nýtist börnum sem sleðabrekka á vetrum. Er það álit undirritaðs, að varðveita ætti brekku þessa sem útivistarsvæði og jafnvel mætti koma þar fyrir stökkpöllum o.þ.h. leiktækjum fyrir sleða, skíði og snjóbretti. En nóg um það. Hólabraut 19 er snyrtilegt og glæst hús í góðri hirðu og til mikillar prýði í götumyndinni. Það mun að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð. Hólabraut 19 svipar nokkuð til húsanna handan götunnar, sem byggð eru svipuðum tíma. Næstu hús sunnan við, Hólabraut 15 og 17 bera annað svipmót en þau eru líka ívið eldri, byggð snemma á 4. áratugnum.  Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð. Myndin af Hólabraut 19 er tekin þann 19. janúar 2020, en myndin hér til hliðar sem sýnir brekkuna vestan Hólabrautar er tekin 18. ágúst 2015. Húsin á myndinni eru nr. 25 - 31 við Brekkugötu.

                                                     

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 971, 14. apríl 1944. Fundur nr. 991, 15. sept. 1944.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf


Hús dagsins: Hólabraut 18

Við bregðum okkur af "rúntinum" svokallaða við Skipagötu út á sunnan- og ofanverða Oddeyri en þar, undir brekkurótum liggur Hólabrautin frá Gránufélagsgötu að Akureyrarvelli. Í hugum margra telst sá hluti Oddeyrar sem liggur ofan (vestan) Glerárgötu, þ.m.t. Hólabrautin, til Miðbæjarins. 

Hólabraut 18 reisti Guðmundur Tómasson byggingameistari árið 1944.P1190962 Hann fékk aðra lóð austanmegin Hólabrautar, norðan Gránufélagsgötu auk byggingarleyfis snemma árs 1943. Fékk hann að reisa hús úr steinsteypu, tvær hæðir á lágum grunni með valmaþaki, 10,4x7,85m, auk útskots að vestan, 4,7x1,2m. Hann óskaði jafnframt eftir að fá leyfi til að reisa 7x11m skúr á baklóð. Það fylgir raunar sögunni, að hann hafði þegar hafið byggingu skúrsins, og hefði þurft leyfi fyrir honum fyrirfram. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson, en viðbyggingu teiknaði Guðmundur Gunnarsson.

Hólabraut 18 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki en einfaldir þver- eða lóðréttir póstar í flestum gluggum. Byggt var við húsið 1955 og er sú viðbygging samliggjandi næsta húsi, Hólabraut 16, þar sem ÁTVR („Ríkið“) er til húsa. Á efri hæð, sunnanmegin eru voldugar steyptar svalir, sem standa á stólpum og mynda þar með skýli við inngang neðri hæðar.

 

Skagfirski trésmiðurinn og kexsmiðjuforstjórinn Guðmundur Tómasson er sjálfsagt orðinn lesendum þessarar vefsíðu að góðu kunnur. Að ekki sé minnst á þá lesendur sem e.t.v. þekktu hann persónulega. Guðmundur teiknaði og byggði þó nokkur hús á Akureyri áratugina 1930-50, og starfrækti verkstæði og smíðaði m.a. líkkistur. Á meðal annarra húsa Guðmundar má nefna Helgamagrastræti 23 og Skipagötu 2, sem var einmitt umfjöllunarefni þar síðasta pistils hér. Þeir bræður Eyþór (löngum kenndur við Lindu) og Guðmundur Tómassynir starfræktu á Hólabraut 18 trésmíðaverkstæði. Í Degi þann 19. mars 1947 mátti einmitt sjá auglýsingu þess efnis, að líkkistuvinnustofa þeirra væri flutt í Hólabraut 18. En fleira var smíðað á Hólabraut 18 um miðja 20. öld. Eflaust kannast einhverjir við hin sígildu Leifsleikföng. Þau voru smíðuð og framleidd á Hólabraut 18 en Baldvin Leifur Ásgeirsson frá Gautstöðum á Svalbarðsströnd bjó hér um árabil og starfrækti fram til 1960 leikfangasmiðju sína, téð Leifsleikföng. Leikföngin voru afar vinsæl og sannkölluð barnagull, en á þessum árum var innflutningur á slíkum gripum smár í sniðum, svo ekki sé meira sagt. Þá rak Baldvin hér síðar þvottahúsið Mjallhvíti. Einnig var hér starfrækt fyrir Olivetti ritvélar og reiknivélar á áttunda áratugnum. Þá hafa margir átt og búið í Hólabraut 18 um lengri og skemmri tíma. Nú eru í húsinu þrjár íbúðir.

 

Hólabraut 18 er reisulegt og glæst hús og í mjög góðri hirðu. Húsakönnun fyrir reit þann er afmarkast af Hólabraut í vestri, Gránufélagsgötu í suðri, Laxagötu í austri og Smáragötu í norðri var unnin árið 2011. Þar telst húsið ekki hafa sérstakt varðveislugildi umfram önnur, en götumynd Hólabrautar talin hafa nokkurt gildi. Ekki er annað hægt en að taka undir það, enda Hólabrautin skemmtileg og áhugaverð götumynd, enda þótt stutt sé. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 945, 23. jan. 1943.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

 


Hús dagsins: Skipagata 5

Áfast Skipagötu 1 sunnanmegin er Skipagata 5.P1190971 En hvers vegna ekki númer 3 ? Fyrst ber að nefna, að lóðirnar og byggingarleyfin fyrir þessum húsum voru afgreidd samhliða í águstmánuði 1931. Þá fengu þeir Konráð Kristjánsson og Benedikt Ólafsson lóðir austan Skipagötu, í framhaldi af lóð Axel Kristjánssonar, 9m meðfram götu. Fengu þeir að reisa hús, þrílyft, 9x11m, byggð úr járnbentri steinsteypu með járnbentum steinloftum. Hús þessi voru- og eru sambyggð- og reisti Konráð Skipagötu 1 en Benedikt hús nr. 3. Benedikt hins vegar, hafði fengið lóð nr. 5 og vildi halda sig við það, enda þótt í opinberum gögnum sé talað um númer 3. Ástæðan fyrir þessu mun hafa verið sú, að upprunalega átti Ráðhústorg 7 að vera Skipagata 1, en þáverandi eigandi fékk því breytt. Í millitíðinni mun Benedikt hafa fest kaup á lóð nr. 5. Einhvern tíma mun hafa staðið til að breyta þessu og mannskapur mætt til að skipta um húsnúmer, en Benedikt fengið því hnekkt. (Heimild: María Elínar Arnfinnsdóttir, 2020).

Í heimildum á timarit.is birtast auglýsingar um verslun og starfsemi ýmist á Skipagötu 3 og 5 en fyrrnefnda heimilisfangið er sjaldséð í heimildum eftir 1965. Þá er valinkunn veiðarfæraverslun Grána, ýmist sögð á Skipagötu 5 eða 7, en hún mun alla tíð í Skipagötu 7. Þannig hafa númerin verið „flöktandi“ á húsum 5 og 7, sem urðu þá 3 og 5. Flest húsin í röðinni Ráðhústorgs- og Skipagöturöðinni austan megin voru reist í áföngum. Það á við um Skipagötu 5, fyrst byggði Benedikt jarðhæðina og lengst af var húsið tvær hæðir en 3. og 4. hæð hússins reistar árið 2014. Teikningarnar að húsinu gerði Halldór Halldórsson.

Skipagata 5 er fjögurra hæða steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Á efstu hæð eru svalir til vesturs með sólskála og á bakhlið, sem snýr að porti við Hofsbót. Á efri hæðum eru sexrúðupóstar í gluggum en síðir verslunargluggar að götu á neðri hæð. Gluggar efri hæða eru eilítið inndregnir og mynda gluggabil eins konar stöpla á milli, og er þessi hönnun nokkurn veginn í samræmi við næstu aðliggjandi hús.

Skipagata 5 hefur frá upphafi verið þjónustu- og verslunarhús, líkt og flest húsin í Miðbænum, en íbúðir á hæðum. Sem áður segir, er það lengi vel talið nr. 3, en „fimman“ virðist festast í sessi eftir 1960-65. Benedikt Jón Ólafsson, sem byggði húsið var málarameistari og rak þarna málningarvöruverslun um langt skeið og bjó í húsinu ásamt fjölskyldu sinni. Á meðal hinna ýmsu verslana á Skipagötu 5 gegn um áratugina má nefna Cesar, tískuvöruverslun unga fólksins , skóbúðina Skótískuna auk verslunarinnar Sirku. Sem áður segir var húsið lengst af tveggja hæða en árið 2014 voru byggðar ofan á húsið tvær hæðir, eftir teikningum Fanneyjar Hauksdóttur, og þannig orðið jafnhátt næsta húsi norðan við, Skipagötu 1.

Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi sem hluti húsaraðar, sem er „[...]einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins“ (Landslag arkitektastofa 2014: 53) Þessi húsaröð er hluti fyrirhugaðar randbyggðar samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi bæjarins árið 1927, og ein af fáum minnisvörðum þetta fyrsta skipulag. Með byggingu efri hæða Skipagötu 5 má eiginlega segja, að húsið falli enn betur inn í götumyndina, þar sem orðið er samræmi í hæð samliggjandi húsa. Húsið er eins og gefur að skilja í mjög góðu standi, enda stutt frá endurbyggingu. Þrjár íbúðir eru á efri hæðum hússins en Cintamani verslun á jarðhæð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

 

Heimildir:

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1930-1935. Fundur nr. 669, 24. ágúst 1931. Fundur nr. 670, 21. sept. 1931. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

María Elínar Arnfinnsdóttir. 2020. Munnleg heimild; svar („comment“) við innleggi undirritaðs á Facebook hópnum Miðbærinn 26. apríl. https://www.facebook.com/groups/208295845947836/?multi_permalinks=2675557199221676&notif_id=1587831911412786&notif_t=feedback_reaction_generic


Sumardagurinn fyrsti í Eyjafirði

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. Síðastliðinn vetur hefur verið nokkuð illviðrasamur og snjóþungur, svona miðað við allra síðustu ár. Því eru eflaust langflestir fegnir, að sumarið sé gengið í garð, samkvæmt almanakinu. Í gær, sumardaginn fyrsta, skrapp ég svokallaðan stóra Eyjafjarðarhring í gærmorgun og að sjálfsögðu var myndavélin með í för. Eins og sjá má skein sól í heiði. Svona var sumardagurinn fyrsti í Eyjafirði:

P4230959

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hvassafellsfjall er býsna tilkomumikið fjall. Fremsti hluti fjallsins nefnist Hestur, 1207 m hár. Dalirnir Skjóldalur (hægra megin)og Djúpidalur hvor sínum megin við fjallið. 

P4230966

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er horft fram Djúpadal. Fjöllin f.v. Hleiðargarðsfjall, Mælifell, Hvassafellshnjúkur (ath. Hvassafellsfjall, sjá mynd hér að ofan og Hvassafellshnjúkur er ekki sama fjallið) og Litladalsfjall. Vetrarsnjórinn á undanhaldi, en Djúpidalurinn mun almennt ekki snjóþungt svæði. 

P4230964

 

 

 

 

 

 

 

 

  

Hér er horft yfir Eyjafjarðará, nærri eyðibýlinu Guðrúnarstöðum, að Melgerðismelum, höfuðvígi hestamanna, auk sviflugs- og flugmódelasmiða í Eyjafjarðarsveit og nágrenni. Á Melgerðismelum var flugvöllur frá hernámsárunum til ársins 1954, að Akureyrarflugvöllur var reistur.  

P4230963

 

 

 

 

 

 

 

 

  

Fremsti hluti (segi og skrifa FREMSTI samkvæmt Eyfirskri málvenju) Eyjafjarðar. Lengst til vinstri ber Hólafjall við brekkuna ofan við veginn, Eyjafjarðarbraut eystri. Um Hólafjall lá vegur áleiðis upp í Laugafell og náði sá vegur yfir 1000m hæð. Núverandi vegur fram Eyjafjarðardal leysti hann hins vegar af hólmi um 1975. Fjærst, örlítið hægra megin við miðja mynd má einmitt sjá Torfufellshnjúk (Torfufell). Austan Torfufellsins rennur Eyjafjarðará frá upptökum niður téðan Eyjafjarðardal, en vestan þess er Villingadalur. (Á þessari mynd er vestur til vinstri en austur til hægri). Tröllshöfði er nokkurn veginn fyrir mynd og lengst til hægri Hleiðargarðsfjall

P4230977

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Rauðhús, skammt ofan við Melgerðismela. Nú sumarhús. Litladalsfjall lengst til hægri. Sjálfsagt kannast einhverjir við frásögnina af kindinni Fannar-Höttu frá Rauðhúsum, en hún mun hafa lifað á kafi í fönn í 18 vikur (um 4 mánuði), snemma á 18. öld. 

P4230984

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er horft til norðurs frá göngu/hjólastígnum, sem tengir saman Akureyri og Hrafnagil. Myndin tekin við ytri afleggjara að Kristnesi. Vaðlaheiðin nánast alhvít og fróðlegt að bera snjóalögin þar saman við fjöllin á myndunum hér að ofan, um 30-40km framar í firðinum. Þau fjöll eru flest á bilinu 1100-1300m, en hæstu brúnir Vaðlaheiðar nærri 700m. 


Hús dagsins: Skipagata 2

Fyrsta Aðalskipulag Akureyrar, samþykkt árið 1927, P1190973gerði ráð fyrir svokölluðum randbyggingum á Miðbæjarsvæðinu og Oddeyrinni. Húsaraðirnar austan og sunnan Ráðhústorgs, og áfram suður Skipagötu eru byggðar í anda þessa skipulags. Á Eyrinni varð hins vegar minna úr þessum áformum og standa þar raunar aðeins ein slík „sambygging“ við Gránufélagsgötuna, auk tveggja stakra húsa við þá götu og Strandgötu. (Það er e.t.v. lán í óláni, að ekki varð meira úr byggingaráformum í anda skipulagsins á sunnanverðri Oddeyrinni; líkast til hefðu ófá timburhús frá síðari hluta 19. aldar fengið að fjúka fyrir nýbyggingum). En húsaraðirnar við Ráðhústorg og nyrst við Skipagötu eru samliggjandi; austanmegin er Skipagata 1-9 er áföst Ráðhústorgi 7-9 en vestan megin eru Skipagata 2-8 áföst Ráðhústorgi 1-5.

Það var sumarið 1933 að Guðmundur Tómasson fékk lóð sunnan við hús Ólafs Ágústssonar (Ráðhústorg 5). Lóðin var 13m meðfram götu, og hugðist Guðmundur reisa þarna verkstæðisbyggingu. Fékk hann byggingarleyfi fyrir húsi, 10,3x9,5m, þriggja hæða með háu risi. Fékk hann leyfi til að reisa fyrst jarðhæðina, en fullbyggt skyldi húsið vera innan fimm ára. Þ.e.a.s. fyrir sumarið 1938. Fyrsti áfangi hússins var risinn 1934, en líklega hefur húsið verið fullbyggt 1938, svo sem skilyrðið kvað á um, en það er alltént skráð byggingarár hússins.

Skipagata 2 er fjögurra hæða steinsteypuhús með einhalla, aflíðandi þaki. Efsta hæð er inndregin að framan, og eru þar svalir endilangri hliðinni. Á bakhlið eru svalir fyrir miðju á 2.- 4. hæð. Á þaki er þakpappi og veggir múrsléttaðir en skiptir þverpóstar í gluggum. Á jarðhæð eru „götusíðir“ verslunargluggar. Húsið er inni í miðri sambyggðri húsaröð, áfast Ráðhústorgi 5 að norðan og Skipagötu 4 að sunnan.  

Guðmundur Tómasson rak þarna trésmíðaverkstæði og smíðaði m.a. líkkistur. Hann söðlaði síðar um og stofnaði hina valinkunnu kexverksmiðju Lórelei.  Bróðir Guðmundar, Eyþór, var einnig forstjóri og löngum kenndur við sælgætisgerðina Lindu. Guðmundur var Skagfirðingar að uppruna, frá  Bústöðum í Goðdalasókn. Það er sammerkt með flestöllum eldri húsum Miðbæjarins, að ekki er unnt að telja upp alla þá verslun og þjónustu sem þar hefur verið starfrækt í tiltölulega stuttum pistlum. Þar er Skipagata 2 engin undantekning. Breska hernámsliðið hafði hér skrifstofu sem sá um og hafði eftirlit með skipaumferð og sjóflutningum, Sea Transport Office. Í ársbyrjun 1941 birtist auglýsing um, að ekkert fyrirtæki bæjarins megi eiga viðskipti við norsk skip, án skriflegrar beiðni frá téðri Sea Transport Office. Þann 2. júní 1944 opnaði Loftur Einarsson verslun sína Ásbyrgi í Skipagötu 2 og var þar seldur hinn ýmsi varningur, sem sjá mátti í auglýsingu í Nýjum kvöldvökum. Var sú verslun til húsa hér fram yfir 1960, og á sjöunda áratugnum var Bókabúðin Edda þarna til húsa. Svo fátt eitt sé nefnt. Auk fjölmargra verslana og fyrirtækja sem átt hafa heimili að Skipagötu hafa einnig fjölmargir búið á efri hæðum hússins.

Skipagata 2 og samliggjandi hús eru virkilega reisuleg og glæst stórhýsi. Þau eru ekki aðeins til prýði í Miðbænum heldur beinlínis móta þau umhverfið. Mörgum þykir há og mikil steinhús oft til óprýði (talað um steinkumbalda) en það er aldeilis ekki svo, að svo þurfi alltaf vera. Húsaröðin við Skipagötu og Ráðhústorg eru einmitt dæmi um stílhrein og glæst, steinsteypt stórhýsi. Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi í Húsakönnun 2014. Það er nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og er í góðri hirðu.   Nú eru gistirými á efri hæðum en sl ár hafa verið veitingastaðir á jarðhæð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

Heimildir:

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1930-1935. Fundur nr. 702, 29. júní 1933. Fundur nr. 706, 26. ágúst. 1933. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Gleðilega páska

Óska öllum, nær og fjær, gleðilegra páska. laughing 

Páskamyndirnar eru tvær að þessu sinni, teknar um hálf ellefu í morgun, á páskadag, og eru þær teknar á Oddeyrartanga, neðarlega við Strandgötu. Önnur myndin er tekin fram fjörðinn, og sýnir Kaupangssveitina, Staðarbyggðarfjall og Tungnafjall, böðuð í páskasól. Á hinni er horft til Hlíðarfjalls og í forgrunni virðuleg húsaröðin við Strandgötu, ofar neðri Ytri Brekku. cool

P4120956

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P4120959  


Hús dagsins: Skipagata 1

Síðsumars 1931 fengu þeir Konráð Kristjánsson og Benedikt Ólafsson lóðir austan Skipagötu,P1190970 í framhaldi af lóð Axel Kristjánssonar, 9m meðfram götu. Fengu þeir að reisa hús, þrílyft, 9x11m, byggð úr járnbentri steinsteypu með járnbentum steinloftum. Hús þessi voru- og eru sambyggð- og reisti Konráð Skipagötu 1 en Benedikt hús nr. 3. Skráð byggingarár hússins er 1939 og hefur það líkast til verið fullbyggt þá, en það er sammerkt með flestum stórhýsa miðbæjarins, að þau eru byggð í áföngum. Teikningarnar að húsinu gerði Sigtryggur Jónsson.

    Skipagata 1 er fjögurra hæða steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Á efstu hæð eru svalir til vesturs með sólskála og á bakhlið, sem snýr að porti við Hofsbót. Á efri hæðum eru þverpóstar í gluggum en síðir verslunargluggar að götu á neðri hæð. Gluggar efri hæðar eru eilítið inndregnir og mynda gluggabil eins konar stöpla á milli, og er þessi hönnun nokkurn veginn í samræmi við næstu aðliggjandi hús. Á bakhlið er einlyft viðbygging, vörugeymsla, byggð 1963. 

    Það yrði nokkuð langt mál að telja upp alla þá verslun og þjónustu sem Skipagata 1 hefur hýst í tæpa níu áratugi. Ef heimilisfanginu er flett upp í þágufalli koma upp nákvæmlega 600 niðurstöður þegar þetta er ritað um páskaleyti 2020. Konráð S. Kristjánsson, sem byggði húsið, var járnsmiður og starfrækti þarna Reiðhjólaverkstæði Akureyrar á fjórða áratug sl. aldar. Þá rak Þorsteinn M. Jónsson bóksali og bókaútgefandi forlag sitt þarna. Á fimmta áratugnum er þarna til húsa Verslun Guðjóns Bernharðssonar og  var hinn valinkunna skóverslun M.H. Lyngdal einnig þarna til húsa um tíma. Frá því snemma á  6. áratugnum rak Brynjólfur Sveinsson verslun eða vöruhús. Sú verslun var þarna starfrækt um árabil og þar fengust m.a. leikföng, heimilistæki og sportvörur, svo fátt eitt sé nefnt. Sem áður segir hefur húsið hýst hinar ýmsu verslun, þjónustu og skrifstofur en efri hæðir löngum verið íbúðir. Þá var gistiheimili hér á efri hæðum um árabil. Nú er Fasteignasala Akureyrar á götuhæð, snyrtistofa á annarri hæð, tvær íbúðir á 3. Og 4. hæð, ein á hvorri hæð fyrir sig.  

   Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi sem hluti húsaraðar, sem er „[...]einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins“ (Landslag arkitektastofa 2014: 51) Þessi húsaröð er hluti fyrirhugaðar randbyggðar samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi bæjarins árið 1927, og ein af fáum minnisvörðum þetta fyrsta skipulag. Húsið er í stórum dráttum óbreytt frá upphafi að ytra byrði, þó byggt hafi verið það bakatil og er í mjög góðri hirðu. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020. 

Heimildir

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1930-1935. Fundur nr. 669, 24. ágúst 1931. Fundur nr. 670, 21. sept. 1931. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Hús við Ráðhústorg

Ráðhústorg í miðbæ Akureyrar kalla margir einfaldlega "Torgið". Ráðhústorg er líka heiti á stuttri götu sem liggur sunnan og austan megin torgsins. Liggur hún frá norðurenda Hafnarstrætis að Strandgötu í austri,og þar sem Ráðhústorg sveigir til norðurs gengur Skipagata til suðurs. En hvaða götur aðrar afmarka Ráðhústorgið? Það eru Strandgata í norðri, Brekkugata í norðvestri og Hafnarstræti í suðvestri.

Samkvæmt grófri mælingu á kortavef ja.is er gatan Ráðhústorg rúmir 60m að lengd. 

Við Ráðhústorg teljast standa fimm hús og hef ég tekið þau öll fyrir hér.

Ráðhústorg 1  (1939)

Ráðhústorg 3  (1930)

Ráðhústorg 5  (1938) Hús 1-5 sambyggð. Tók þau fyrir í örstuttu máli sumarið 2012.

Ráðhústorg 7 (1931)

Ráðhústorg 9 (1930)

Öll eru húsin byggð í áföngum á fjórða áratugnum og eru því öll á níræðisaldri þegar þetta er ritað (tvö elstu níræð í ár), meðalaldur árið 2020 er 86,4 ár.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 23
  • Sl. sólarhring: 71
  • Sl. viku: 457
  • Frá upphafi: 446111

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 339
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband