5.4.2020 | 10:50
Hús dagsins: Ráðhústorg 9
Konráð Kristjánsson og Vigfús Jónsson munu hafa hafið byggingu Ráðhústorgs 9 árið 1929. Þann 16. maí 1929 fengu þeir að reisa hús skv. framlagðri teikningu (hönnuður ókunnur) á hornlóðinni austan Ráðhústorgs og sunnan Strandgötu. Fengu þeir leyfi til að reisa fyrstu hæð hússins til að byrja með, en það var í samræmi við byggingarleyfi sem Axel Kristjánsson hafði fengið fyrir Ráðhústorg. Skildi hús þeirra vera a.m.k. 11 metrar á breidd. En samkvæmt skipulagi áttu þarna að rísa þriggja hæða randbyggingar. Áskildi bæjarstjórn sér rétt til þess að krefjast þess [...] að byggt verði ofan á húsið jafn skjótt og full hæð er byggð til annarrar hvorrar handar (Bygg.nefnd. Ak. 1929: nr. 629). Þar er líklega átt við samliggjandi hús. Á mynd sem sést í bók Steindórs Steindórssonar (1993: 182), Akureyri Höfuðborg hins bjarta norðurs, má sjá að fyrsta hæð Ráðhústorgs 7 og 9 eru risin. Þar er myndin sögð tekin á sumardaginn fyrsta 1929. Það kom hins vegar í hlut Guðríðar Norðfjörð að ljúka við byggingu hússins, en 20. mars 1930 birtist auglýsing í Degi um útboð í byggingu hússins, eftir framlagðri teikningu og lýsingu. Mánuði síðar, eða 22. apríl 1930 birtist auglýsing í Norðlingi, frá Verslun G. Norðfjörð,sem selur hreinlætisvörur, tóbaks- og sælgætisvörur. Sama dag heimilaði Byggingarnefnd Guðríði að breyta gluggaskipan hússins.
Guðríður Norðfjörð, sem fædd var á Laugabóli við Arnarfjörð, var hárgreiðslukona og starfrækti hárgreiðslu- og snyrtistofu í Hafnarstræti 35 áður en hún byggði Ráðhústorg 9 og opnaði verslun. Hún stofnaði fyrstu kvenskátasveit á Akureyrar, Valkyrjuna , árið 1923. Starfaði hún aðeins skamman tíma en var endurvakin 1932 og hófst þá áratuga öflugt kvenskátastarf, allt þar til skátastarf kvenna og karla á Akureyri sameinaðist undir nafni Klakks árið 1987.
Ráðhústorg 9 er tvílyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Húsið er áfast Ráðhústorgi 7 að sunnanverðu og Strandgötu 4, Nýja Bíó, austanmegin. Snýr framhlið hússins þannig í vestur og norður, og er grunnflötur þess líkt og tveir samliggjandi fleygar í horninu milli Ráðhústorgs 7 og Nýja Bíós. Á efri hæð eru þverpóstar í gluggum en síðir verslunargluggar að götu á neðri hæð. Gluggar efri hæðar eru eilítið inndregnir og mynda gluggabil eins konar stöpla á milli, sem gefur byggingunni ákveðinn svip.
Líkt og flest hús í Miðbænum hefur húsið verið verslunar- og þjónustuhúsnæði frá upphafi, auk þess sem búið hefur verið í því. Ef heimilisfanginu Ráðhústorgi 9 er flett upp í gagnasafninu timarit.is, koma upp 623 niðurstöður. Guðríður Norðfjörð, rak sem áður segir verslun sína frá 1930 og eitthvað fram á 4. áratuginn, en árið 1937 er Hornbúðin í Ráðhústorgi 9 auglýst til leigu með vorinu, og er Jón Sveinsson skrifaður fyrir henni. Þá hafði Bifreiðastöð Oddeyrar aðstöðu sína á neðri hæð. Þá var Sparisjóður Akureyrar þarna til húsa í tæpa tvo áratugi, frá því um 1940 fram undir 1960. Þá hafa verið þarna rakarastofa, skrifstofa blaðsins Íslendings, og tískuvöruverslanir. Svo fátt eitt sé nefnt. Síðastliðin áratugi hefur húsið hýst veitinga- og skemmtistaði, Uppann, Ráðhúscafé og síðastliðin ár hefur þarna verið veitinga- og dansstaðurinn Café Amor.
Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi sem hluti húsaraðar, sem er [...]einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins (Landslag arktitektastofa 2014: 48). Þessi húsaröð er hluti fyrirhugaðar randbyggðar samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi bæjarins árið 1927, og ein af fáum minnisvörðum þetta fyrsta skipulag. Húsið er nokkurn veginn óbreytt frá upprunalegri gerð að ytra byrði og er í mjög góðri hirðu. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1921-1930. Fundur nr. 629, 16. maí 1929. Fundur nr. 645, 22. apríl 1930. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Breytt 6.4.2020 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.4.2020 | 11:41
Hús dagsins: Ráðhústorg 7
Ráðhústorg 7 reisti Axel Kristjánsson kaupmaður frá Sauðárkróki árin 1929-35. Snemma árs 1929 fékk hann lóð vestast á SA- horni byggingarreits nr. 40. Lóðin er 12x16m og veitt á bráðabirgða, en rúmum tveimur árum síðar er honum leyft að reisa íbúðar- og verslunarhús, þrílyft með kvisti á framhlið, 10+12,15x11m að stærð, byggt úr steinsteypu og steinlofti. Fylgir sögunni, að Axel þurfi ekki að ljúka við allt húsið það sumarið (1931) nema þann sem snýr að Ráðhústorgi en verði að ljúka við húsið um leið og þess yrði krafist. Teikningar að húsinu gerði Halldór Halldórsson. Var fyrsta hæð hússins þá þegar risin, en á mynd sem tekin er á sumardaginn fyrsta 1929 (Steindór Steindórsson 1993:182) má sjá, að neðri hæðir Ráðhústorgs 7 og 9 eru risnar Húsið varð raunar aldrei nema tveggja hæða, en fullbyggt mun húsið hafa verið 1935., en húsunum var frá upphafi ætlað, að mynda randbyggingu meðfram torginu, í samræmi við Aðalskipulag frá 1927. Þessi röð, sem byggðist á árunum 1929-1942 samanstendur raunar af alls fimm húsum, því sunnan Ráðhústorgs 7 standa Skipagata 1,5 og 7. (Af einhverjum ástæðum er engin Skipagata 3). Árið 1998 bættist síðan en við þessa röð þegar Skipagata 9 reis, en það hús er nokkuð frábrugðið hinum eldri.
Ráðhústorg 7 er tvílyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Grunnflötur hússins er fimmhyrningslaga, framhlið meðfram götu snýr til vesturs og norðvesturs, og aðliggjandi hús áföst norðaustanvið og sunnan við. Á efri hæð eru þverpóstar í gluggum en síðir verslunargluggar að götu á neðri hæð. Gluggar efri hæðar eru eilítið inndregnir og mynda gluggabil eins konar stöpla á milli, sem gefur byggingunni ákveðinn svip.
Ráðhústorg 7 hefur alla tíð verið verslunar- og skrifstofuhús, en einnig hefur verið búið þar. Síðla árs 1931 fluttist útibú Landsbankans hingað og var hér í rúma tvo áratugi. til húsa, (sjá mynd hér). Þá var Bifreiðastöð Oddeyrar, BSO einnig með aðsetur í húsinu. Annaðist bifreiðastöðin akstur m.a. til Dalvíkur og Húsavíkur auk lengri og skemmri ferða. Sumarið 1933 lögðu áætlunarferðir Bifreiðastöðvar Steindórs til Reykjavíkur upp frá BSO. Á stríðsárunum var Breska hernámsliðið með skrifstofu í Ráðhústorgi 7, Hirings and complaints office. Þeirri skrifstofu var ætlað að annast kvartanir, skaðabótakröfur eða samningamál um leigu varðandi setuliðið. Fór þriggja manna nefnd fyrir þessari skrifstofu, dr. Kristinn Guðmundsson (síðar utanríkisráðherra), Stokes major og captain Clive Morris. Það yrði nokkuð langt mál að telja allar þær verslanir og skrifstofur sem verið hafa í húsinu, en þó skal hér tæpt á nokkrum þeirra. Margir muna eflaust eftir húsgagnaverslun Jóhanns Ingimarssonar, Örkinni hans Nóa, en Jóhann var ævinlega kallaður Nói. Þá var Saumastofa Gefjunar í húsinu á 6. og 7. áratugnum. Var hún opnuð skömmu fyrir jólin 1955, og starfrækt þarna í rúman áratug. Aftur hófst verslun með fatnað í Ráðhústorgi 7 þegar þar var opnuð verslunin Perfect, og hafa hér verið tískuverslanir síðustu árin. Á 1. áratug 20. aldar var starfræktur í Ráðhústorgi 7, sportbarinn Ali.
Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi sem hluti húsaraðar, sem er [...]einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins (Landslag arktitektastofa 2014: 48). Þessi húsaröð er hluti fyrirhugaðar randbyggðar samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi bæjarins árið 1927, og ein af fáum minnisvörðum þetta fyrsta skipulag. Húsið er nokkurn veginn óbreytt frá upprunalegri gerð að ytra byrði og er í mjög góðri hirðu. Nú eru tvö rými á götuhæð, í nyrðra rými er tískuvöruverslunin Didda Nóa en í syðra rými veitingastaðurinn Serrano. Á efri hæðum eru skrifstofur. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1921-1930. Fundur nr. 624, 31. jan. 1929. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 668, 6. ágúst 1931. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Breytt 5.4.2020 kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2020 | 21:15
Næst á dagskrá í húsaumfjölluninni: Miðbærinn
Af Syðri Brekkunni færum við okkur niður að Ráðhústorgi. Þar tek ég fyrir hús nr. 7 og 9, og því næst nokkur við Skipagötu og birtist grein um Ráðhústorg 7 á allra næstu dögum. Við höldum því niður í miðbæ, eða "DOWNTOWN", líkt og Petula Clark söng fyrir rúmri hálfri öld. (Ólíklegt hlýtur að teljast, að í laginu sé átt við miðbæ Akureyrar, en miðbær er það engu að síður ).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2020 | 10:58
Hús dagsins: Hrafnagilsstræti 14
Vorið 1935 hugðust þeir félagar og samkennarar við Barnaskóla Akureyrar, Hannes Magnússon og Eiríkur Sigurðsson, fá lóð við Möðruvallastræti. Ekki höfðu þeir erindi sem erfiði , þar eð ekki var ekki ákveðið að leggja götuna. Þeir fengu hins vegar skömmu síðar samliggjandi lóðir, spölkorn vestar og ofar, það er við Páls Briemsgötu 20 og Hrafnagilsstræti 12. Fyrrnefnda lóðin varð síðar Hrafnagilsstræti 12, og númer 12 varð 14. En Eiríkur fékk leyfi til að reisa íbúðarhús úr steinsteypu, 8,80x8,30m að grunnfleti, ein hæð á ofanjarðarkjallara skv. teikningu og lýsingu. Svo virðist, sem húsið sé byggt eftir sömu teikningu og Hrafnagilsstræti 12 (Páls Briemsgata 20), en á teikningum Guðmundar Gunnarssonar fyrir fyrrgreint húsið er talað um hús Eiríks Sigurðssonar og Hannesar Magnússonar. Þar kemur glögglega fram afstaða húsanna, annað þeirra merkt HM, við Páls Briemsgötu en hitt, á horni Hrafnagilsstrætis og Skólastígs merkt ES.
Hrafnagilsstræti 14 er tvílyft steinsteypuhús með einhalla, aflíðandi þaki. Horngluggar í funkisstíl á suðausturhorni en vestanmegin á suðurhlið er sólskáli úr timbri og gleri. Á norðurhlið er viðbygging frá 1964 og þar innbyggður bílskúr. Í flestum gluggum eru einfaldir, lóðréttir póstar, bárujárn á þaki og veggir múrsléttaðir.
Skráð byggingarár hússins er 1946. Engu að síður eru þau Eiríkur Sigurðsson og Jónína Kristín Steinþórsdóttir skráð þarna til heimilis í Manntali árið 1940, og húsið þar sagt 5 ára, þ.e. byggt 1935. Þá er elsta heimildin um Hrafnagilsstræti 12 (síðar 14) sem finna má á timarit.is frá árinu 1936. Þannig er ljóst að hús hefur verið risið þarna 1935, þó e.t.v. hafi það ekki verið fullbyggt fyrr en áratug síðar. Eiríkur Sigurðsson (1903- 1980) var fæddur og uppalinn í Geithellnahreppi í Suður-Múlasýslu. Hann kenndi og var skólastjóri á Seyðisfirði og Neskaupsstað á árunum 1927-30, eftir námsdvöl í Kaupmannahöfn. Hann fluttist til Akureyrar árið 1933, er hann lauk prófi frá Kennaraháskólanum og kenndi við Barnaskóla Akureyrar. Þar varð hann yfirkennari árið 1949. Eiríkur var fyrsti skólastjóri Oddeyrarskóla, en hann var stofnaður árið 1957. Var þá löngu orðið aðkallandi að stofna barnaskóla á Oddeyri, sem þá var orðin fjölmennt og barnmargt hverfi. Eiríkur var skólastjóri Oddeyrarskóla í 10 ár, en hann fór á eftirlaun 1967. (Þess má að sjálfsögðu geta hér, að sá sem þetta ritar var löngu síðar nemandi í Oddeyrarskóla í þrjá vetur og starfsmaður þar í átta ár. Það voru svo sannarlega ánægjuleg ár) Eiríkur Sigurðsson var auk þess afkastamikill rithöfundur, og var ásamt nágranna sínum og félaga, Hannesi J. Magnússyni, eigandi og útgefandi Vorsins, barnablaðsins góðkunna. Líkt og Hannes birti Eiríkur fjölda greina og smásagna í Vorinu. Eiríkur seldi húsið árið 1959 og hingað fluttu þau Jón Eðvaldsson og Jakobína Guðbjartsdóttir. Jón og Jakobína bjuggu hér til æviloka, 1974 og 1976. Hafa síðan ýmsir búið í þessu ágæta húsi. Öfugt við systurhúsið austan við, hefur Hrafnagilsstræti 14 tekið nokkrum breytingum gegnum tíðina. Árið 1964 byggðu þau Jón og Jakobína við húsið til norðurs, eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar. Á sama tíma var einnig byggt á húsið einhalla þak, en það var flatt í upphafi. Síðar var innréttaður bílskúr á neðri hæð viðbyggingar. Árið 1990 var byggður sólskáli á svölum efri hæðar, og fékk húsið þá það lag, sem það nú hefur. Ekki er hægt að segja annað, en að þessar breytingar hafi verið til góðs og fari húsinu vel. Það er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði á nokkuð fjölförnu horni. Í Húsakönnun 2016 er það sagt með 3. stigs varðveislugildi, og helst sem hluti götumyndar. Það er dálítið gaman að bera saman húsin tvö við Hrafnagilsstræti 12 og 14, sem næsta öruggt er, að séu byggð eftir sömu teikningu, en eru við fyrstu sýn næsta ólík. En það er nú aldeilis ekki allt sem sýnist.
Það er ekki aðeins húsið sem er til prýði í vinalegu og geðþekku umhverfi Syðri Brekkunnar. Lóðin er bæði vel hirt og gróskumikil og ber þar nokkuð á ýmsum trjá- og runnagróðri. Á suðausturhorni lóðar er stórvaxið, á að giska um 15m hátt, og gróskumikið lerkitré og er það til mikillar prýði og setur skemmtilegan svip á umhverfið. Það skartaði gulbrúnum haustlitum þegar undirritaður var á ferðinni um Hrafnagilsstrætið með myndavélina þann 27. október 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 742, 4. maí 1935. Fundur nr. 747, 14. júní 1935. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Manntal 1940.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2020 | 15:30
Hús dagsins: Hrafnagilsstræti 12
Árið 1935 fékk Hannes Magnússon lóð við vestanverða Páls Briemsgötu. Þeirri götu var ætlað að liggja skáhallt (til suðvesturs) frá suðurbakka Grófargils að Hrafnagilsstrætis, eilítið vestar en Laugargata, sem var raunar lögð nokkuð síðar. Í Manntali 1940 er húsið skráð sem Páls Briemsgata 20, og er þá eina húsið við götuna. Þau munu ekki hafa orðið fleiri. Hannes fékk umrædda lóð og leyfi til að byggja þar hús. Nánar tiltekið íbúðarhús úr steinsteypu, á einni hæð á ofanjarðarkjallara skv. meðfylgjandi teikningu og lýsingu, en ekki kemur nánar fram hver sú lýsing er. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson. Á þeim teikningum er einnig sýnd lega hússins og hvernig Páls Briemsgötu var ætlað að liggja.
Hrafnagilsstræti 12 er tvílyft steinsteypuhús í funkisstíl, með flötu þaki og horngluggum mót suðri. Á suðurhlið er útskot og svalir á efri hæð. Þak er pappaklætt, sléttur múr á veggjum og krosspóstar í gluggum. Undir þakkanti er tannstafur, nokkurs konar steyptir ferkantaður hnappar í röð, til skrauts.
Hannes J. Magnússon, sem byggði húsið var Skagfirðingur, fæddur og uppalin á Torfmýri. Hann lauk prófi frá Kennaraskólanum árið 1923, og kenndi næstu árin m.a. á Fáskrúðsfirði. Árið 1930 fluttist hann til Akureyrar og hóf kennslu við Barnaskólann, þar sem hann var skólastjóri árin 1947-´65. Hann hóf útgáfu barnablaðsins Vorsins árið 1932 og ritstýrði því um áratugaskeið. Hann var einnig ritstjóri tímaritsins Heimilis og skóla í tæpa þrjá áratugi. Þá var hann mikilvirkur barnabókahöfundur og þýddi einnig margar bækur, auk þess sem hann birti fjölmargar sögur í Vorinu. Hannes lést árið 1972. Hann var kvæntur Sólveigu Einarsdóttur frá Seyðisfirði. Bjuggu þau hér fram á miðjan sjöunda áratug, eða í um 30 ár uns þau fluttu til Reykjavíkur. Húsið taldist lengi vel standa við Páls Briemsgötu, enda þótt ljóst væri, að sú gata yrði ekki lögð. Raunar var fyrirhuguð götulína löngu komin undir hús og lóðir haustið 1961, þegar húsið varð formlega Hrafnagilsstræti 12 á fundi Byggingarnefndar.
Hrafnagilsstræti 12 er reisulegt hús og í mjög góðri hirðu. Það er nánast óbreytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Það stendur nokkuð innarlega á stórri og gróinni lóðinni og eilítið skástætt miðað við húsalínu Hrafnagilsstrætisins. Kemur það til af staðsetningu hússins við hina fyrirhuguðu götu, áðurnefndri Páls Briemsgötu. Húsið er á meðal elstu funkishúsa á Akureyri, en nokkur slík risu árin 1931-35, en á síðari hluta fjórða áratugarins varð hann svo til alls ráðandi í gerð íbúðarhúsa. Síðar varð til svokallaður byggingarmeistarafunkis og var þar um að ræða funksjonalisma, aðlagaðan að íslenskum aðstæðum. Slík hús standa við Skólastíg, Möðruvallastræti og Laugargötu. Húsið er sagt í Húsakönnun Minjasafnsins árið 2016, frumherjaverk, þar sem hönnuðurinn var að reyna sig við nýjan byggingarstíl, þ.e. funksjonalisma (fúnkís). (sbr. Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016: 68). Þar er húsið metið með hátt, eða 7. stigs varðveislugildi vegna byggingarsögu og menningarsögu. Þá má kannski segja, að húsið og afstaða þess miðað við önnur hús götunnar, sé eins konar minnisvarði um götuna, sem aldrei varð. Það er, Páls Briemsgötu. Í húsinu er ein íbúð. Myndin er tekin 27. október 2019.
Páls Briemsgata. Hér er gróf rissmynd (hlutföll, áttir og mælikvarðar engan veginn rétt) undirritaðs af mögulegri, fyrirhugaðri Páls Briemsgötu. Gatan átti að ná alla leið að Grófargili og greinilega gert ráð fyrir a.m.k. 20 húsum, tíu hvoru megin, (sbr. Páls Briemsgata 20).
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 747, 14. júní 1935. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Manntal 1940.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Breytt 26.3.2020 kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2020 | 14:02
Hús við Skólastíg
Síðastliðnar vikur hef ég tekið fyrir húsin við sunnanverðan Skólastíg á Syðri Brekkunni. Hér eru þær umfjallanir, allar á einu bretti.
Skólastígur 1 | 1942 |
Skólastígur 3 | 1943 |
Skólastígur 5 | 1946 |
Skólastígur 7 | 1943 |
Skólastígur 9 | 1949 |
Skólastígur 11 | 1947 |
Skólastígur 13 | 1948 |
Íbúðarhúsin við Skólastíg eru byggð 1942-49. Meðalaldur þeirra árið 2020 er þannig 75 ár.
Norðanmegin götunnar eru byggingar:
Rósenborg (b.1930) fyrrum Barnaskóli Íslands, Skólastígur 2.
Skólalóð Brekkuskóla, Sundlaugarsvæðið og Íþróttahöllin telst vera Skólastígur 4.
Brekkuskóli (áður Gagnfræðaskóli Akureyrar) b. 1943, viðb. 2005
Sundhöllin fullbyggð 1956, viðb. 2000
Íþróttahöllin (b. 1980) og Átak heilsurækt, norðan Íþróttahallar (b. 2008) og Íþróttahúsið, löngum kennt við Laugargötu (b.1943)
Ef við tökum allar þessar byggingar með í reikninginn, er meðalaldur húsa við Skólastíg, árið 2020 um 68 ár.
Íþróttahúsið við Laugargötu, telst samkvæmt Fasteignaskráningum standa við Skólastíg. Sama á við um Sundlaugarbygginguna. Myndirnar eru teknar 7. des. 2019 og 8. apríl 2018, menn geta giskað, út frá sólarhæð og snjóalögum, hvor mynd er tekin hvenær Ekki er ólíklegt, að ég taki þessarar byggingar fyrir í greinum hér...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2020 | 10:02
Hús dagsins: Skólastígur 13
Skólastíg 13, sem er efsta hús við götuna, reistu þeir og Brynjólfur Sveinsson menntaskólakennari og Þorsteinn Stefánsson bæjarritari árið 1948. Í júlí 1947 fengu þeir lóðina og byggingarleyfi en húsi þeirra er ekki lýst í bókun byggingarnefndar. Hins vegar er tekið fram, að þeir skuli skila fullnaðarteikningum svo fljótt sem auðið er. Þær teikningar gerði Tryggvi Jónatansson, en þær eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfi.
Skólastígur 13 er tvílyft steinsteypuhús á kjallara og með lágu valmaþaki. Bárujárn er þaki og veggir múrsléttaðir og lóðréttir póstar í gluggum. Bogadregið útskot á vesturhlið, með svölum ofan á, setur nokkuð skemmtilegan svip á húsið.
Brynjólfur Sveinsson menntaskólakennari var fæddur í Viðvíkurhreppi í Skagafirði. Hann kenndi við Menntaskólann á Akureyri í tæpa fjóra áratugi, 1930-68 og má nærri geta, að stutt hefur verið fyrir hann í vinnuna héðan. Eiginkona Brynjólfs var Þórdís Haraldsdóttir frá Rangalóni á Jökuldalsheiði. Þau bjuggu hér til ársins 1974, en fluttust þá til Reykjavíkur. Þorsteinn Stefánsson frá Stekkjarflötum í Saurbæjarhreppi og Steingerður Eiðsdóttir frá Þúfnavöllum í Hörgárdal bjuggu hér einnig um langt skeið eftir að þau byggðu húsið, í félagið við Brynjólf og Þórdísi. Steingerður var ljósmóðir að mennt, var starfaði lengst af sem talsímavörður á Landssímanum. Þorsteinn var sem áður segir, bæjarritari Akureyrarkaupstaðar um nokkurt árabil. Steindór Steindórsson segir lítillega frá kynnum sínum við Þorstein á námsárum beggja, fyrir réttri öld. Voru þeir nágrannar, leigðu báðir í Lækjargötu, og hófu að lesa saman og voru saman á heimavist veturinn eftir. Hófst þá vinátta okkar, sem haldist hefir síðan og segir jafnframt að Steini [Þorsteinn] hafi verið góður námsmaður og [...]hefir reynst farsæll í öðrum öðrum störfum[...] (Steindór Steindórsson 1982: 96).
Skólastígur 13 er að mestu leyti óbreytt frá upprunalegri gerð. Í mars 2004 skemmdist neðri hæð hússins nokkuð í bruna, en var öll endurbyggð og er þannig sem ný. Húsið og lóðin, sem er m.a. prýdd gróskumiklum birkitrjám eru hvort tveggja í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði á nokkuð fjölförnu horni. En drjúgur hluti gesta Sundlaugar Akureyrar og líkamsræktarstöðvarinnar Átaks, sem þangað koma akandi, eiga leið fram hjá húsinu. Myndin er tekin þann 7. desember 2019
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur 4. júlí 1947, nr. 1080, 21. júlí 1947 Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Steindór Steindórsson. (1982). Sól ég sá; sjálfsævisaga. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2020 | 12:23
Hús dagsins: Skólastígur 11
Árið 1946 fékk Sigurður Jónsson lóð, sem í bókunum Byggingarnefndar kallast einfaldlega önnur lóð norðan við Jónas Kristjánsson, auk byggingarleyfis fyrir steinsteyptu húsi á tveimur hæðum á kjallara, með valmaþaki að stærð 12x10,8m. Teikningarnar að húsinu gerði Þórður S. Aðalsteinsson.
Skólastígur 11 er tvílyft steinsteypuhús á kjallara, með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í flestum gluggum.
Sigurður Jóhann Jónsson og Þórunn Björnsdóttir, sem byggðu húsið bjuggu hér um áratugaskeið. Hann var Ísfirðingur en hún úr Svarfaðardal. Sigurður var lengst af kaupmaður, rak m.a. verslunina Vísi um langt árabil eða frá 1951 til 1973. Sigurður og Þórunn bjuggu hér bæði til æviloka, hann lést 1988 en hún 1993. Bjuggu þau þannig hér hátt á fimmta áratug, en ýmsir hafa búið í húsinu eftir þeirra tíð. Húsið var frá upphafi tvíbýli, ein íbúð á hvorri hæð. Húsið er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð en engu að síður í afbragðs góðri hirðu. Skólastígur 11 hlýtur í Húsakönnun 2016 miðlungs (eða 5. stigs) varðveislugildi, sem hluti hinnar áhugaverðu húsaraðar 5-13 við Skólastíg. Lóðin er vel hirt og gróin og ber þar mikið á gróskumiklum birkitrjám. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki og er hann einnig í góðri hirðu. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin 7. desember 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur 1046, 8. mars 1946, nr. 1052, 3. maí 1947 Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2020 | 17:45
Hús dagsins: Skólastígur 9
Árið 1946 fékk Höskuldur Steinsson bakari lóð við Skólastíg, norðan við Jónas Kristjánsson, samlagsstjóra. Fékk hann einnig byggingarleyfi, en aldrei þessu vant bókar byggingarnefnd hvorki lýsingu húss eða mál, en tekur hins vegar fram, að leyfið sé háð því að gluggasetning á norðurhlið verði breytt í samráði við byggingarfulltrúa. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson.
Skólastígur 9 er tvílyft steinsteypuhús á lágum kjallara, með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar eru í gluggum. Á austurhlið eru inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim og á suðurhlið svalir til SV á báðum hæðum.
Höskuldur Steinsson og kona hans, Hulda Sigurborg Ólafsdóttir sem byggðu Skólastíg 9, var Vestfirðingar, hann fæddur á Þingeyri og hún á Ísafirði. Höskuldur nam bakaraiðn af föður sínum, Steini Ólafssyni á Þingeyri Hann starfaði við Brauðgerð KEA á þeim 15 árum sem hann var búsettur í hér í bæ eða til ársins 1952. Þá tók hann við rekstrinum á Þingeyrarbakaríi föður síns á Þingeyri en fluttist síðar til Reykjavíkur þar sem hann rak um tíma Hverfisbakarí við Hverfisgötu. Höskuldur lést árið 1968, aðeins 55 ára að aldri. Ýmsir hafa búið hér eftir tíð þeirra Höskulds og Huldu, en húsið var teiknað sem tvíbýli, með einni íbúð á hvorri hæð. Síðar var innréttuð þriðja íbúðin í kjallaranum.
Skólastígur 9 er reisulegt og glæst hús af algengri gerð steinsteyptra funkishúsa frá fimmta áratugnum. Það hlýtur í Húsakönnun 2016 miðlungs (eða 5. Stigs) varðveislugildi, sem hluti hinnar áhugaverðu húsaraðar 5-13 við Skólastíg. Húsið er í mjög góðri hirðu og lítur vel út og sama á við um lóð, sem er gróin og prýdd hinum ýmsa trjágróðri. Á norðausturhorni lóðarinnar stendur t.a.m. gróskumikið furutré. Það er ekki hátt, líklega nokkuð ungt tré og á eflaust mikið inni eins og sagt er, og verður eflaust enn meiri prýði með auknum vexti. Myndin er tekin 7. desember 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur 1058, 9. júní 1946 Fundur nr. 1061. 6. sept. 1946. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2020 | 12:01
Hús dagsins: Skólastígur 7
Skólastíg 7 reisti Jónas Kristjánsson mjólkursamlagsstjóri árið 1942. Hann fékk leyfi til að reisa hús á tveimur hæðum með kjallara, 60 cm upp úr jörð, byggt úr steinsteypu með flötu þaki úr steini. Stærð hússins 8,8x9,6m auk útskots (stærð ekki tilgreind). Teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson. Þess má geta, að við úthlutun byggingarleyfis bókar byggingarnefnd einnig, að hún feli byggingarfulltrúa að sjá til þess, að lóð sé ekki hækkuð með uppgrefti, heldur sé hann keyrður burtu.
Skólastígur 7 er tvílyft steinsteypuhús á kjallara, með lágu valmaþaki og útbyggingu með svölum á suðurhlið. Einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í flestum gluggum hússins, bárujárn á þaki og veggir múrsléttaðir.
Jónas Kristjánsson mjólkursamlagsstjóri, sem byggði Skólastíg 7 var fæddur að Víðigerði í Hrafnagilshreppi. Hann nam mjólkuriðnfræði í Danmörku árin 1924-27 og tók þátt í stofnun Mjólkursamlags KEA árið 1928 og gegndi þar forstöðu allt til sjötugs (1965). Hann var auk þess mjög virkur í hinum ýmsu störfum sem lutu að landbúnaði, m.a. Ræktunarfélags Norðurlands og Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Þá var hann einn af forvígismönnum um stofnun Minjasafns Akureyri. Hann hlaut riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu árið 1958. Jónas var kvæntur Sigríði Guðmundsdóttur. Bjuggu þau Jónas og Sigríður hér um árabil, hún lést 1958 en hann árið 1975. Húsið er teiknað sem einbýlishús og hefur líkast til verið það alla þeirra tíð. Vorið 1975 fluttist Geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri að Skólastíg 7 og var hér til húsa í um átta ár, en um 1983 fluttist deildin inn á sjúkrahúsið sjálft. Áfram þjónaði húsið þó hlutverki sjúkrastofnunar, því þarna var starfrækt iðjuþjálfun á vegum geðdeildarinnar fram yfir aldamót. Ríkið seldi húsið árið 2009 og er það síðan einbýlishús, líkt og í upphafi. Húsinu hefur alla tíð verið vel við haldið og lítur vel út, og er næsta óbreytt frá upprunalega gerð að ytra byrði.
Skólastígur 7 er reisulegt og glæst steinhús í mjög góðri hirðu. Skrautlegt svalahandrið, tveir kringlóttir gluggar á vesturhlið (sem snýr að Laugargötu) og margskipt rúða á norðurhlið setja skrautlegan svip á húsið. Steyptur veggur með járnavirki á lóðarmörkum er til mikillar prýði. Þá er lóðin mjög gróin, líkt og gengur og víða á Brekkunni og ber þar mikið stæðilegum birkitrjám. Ekki er ólíklegt, að einhver þeirra trjáa lóðina prýða hafi Jónas Kristjánsson samlagsstjóri gróðursett á sínum tíma. Í Húsakönnun 2016 hlýtur húsið miðlungs, eða 6. stigs varðveislugildi, vegna götumyndar og byggingagerðar. Myndin er tekin þann 7. desember 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur 917, 3. júlí 1942. Fundur nr. 918 10. júlí 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Breytt 11.3.2020 kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 33
- Sl. sólarhring: 61
- Sl. viku: 467
- Frá upphafi: 446121
Annað
- Innlit í dag: 25
- Innlit sl. viku: 344
- Gestir í dag: 25
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar