4.3.2020 | 18:17
Hús dagsins: Skólastígur 5
Árið 1944 fékk Gunnar Larsen lóð og byggingarleyfi við Skólastíg. Fékk hann að reisa hús á tveimur hæðum á kjallara, byggt úr steinsteypu með steingólfi og valmaþaki úr timbri. Stærð hússins 11,5x10m auk útskots, 7,1x3,6m, að austan. Teikningar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson, og fullbyggt var húsið 1946 (skráð byggingarár). Gunnar Larsen, sem var framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyrar, lést um vorið sama ár.
Skólastígur 5 er tvílyft steinsteypuhús á kjallara og með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í flestum gluggum. Aðaldyr eru vesturhlið, sem snýr að Laugargötu, og svalir ofan við þær.
Húsið var upprunalega reist sem íbúðarhús, tvíbýli og hafa ýmsir búið þarna gegn um tíðina, en hefur hýst hina ýmsu starfsemi. Á sjötta áratugnum var starfrækt þarna verslun; mjólkurbúð, síðar raflagnavinnustofa, og þá var þarna rekin fatahreinsun, Hraðhreinsunin Framtíð um 1968. Um tíma átti Rauði Krossinn húsið og starfrækti þarna sjúkrahótel um skamma hríð. Þá var húsið sambýli fyrir aldraða um árabil en nú er rekið þarna gistiheimili, Amma Guesthouse.
Í Húsakönnun 2016 hlýtur Skólastígur 5 miðlungs, eða fimmta stigs varðveislugildi sem stakt hús en húsaröðin 5-13 samfelld húsaröð áþekkra húsa. Er húsið þar sagt „Stæðilegt steinhús byggt undir áhrifum af funksjónalisma.“ (Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2016:75). Húsið mun næsta lítið breytt að ytra byrði en innra skipulagi hefur eðlilega oftsinnis verið breytt, eftir því hvaða starfsemi hefur þarna farið fram. Húsið er í afbragðs góðri hirðu, lóðin prýdd gróskumiklum trjám og lóðin römmuð inn með steyptum kanti. Sem áður segir, er Skólastígur 5 nú gistiheimili og eflaust svíkur það engan ferðalanginn, að gista þetta geðþekka steinhús. Myndin er tekin þann 7. desember 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur 967, 10. mars 1944 Fundur nr. 992. 22. sept. 1944. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2020 | 16:12
Hús dagsins: Skólastígur 3
Fyrstu lóðum við Skólastíg var úthlutað á fundi Byggingarnefndar Akureyrar þann 27. febrúar 1942(fyrir réttum 78 árum þegar þessi skrif eru birt hér) og voru það lóðir nr. 1 og 3. Lóð nr.1 fékk Kári Johansen, lengi forstjóri vefnaðarvörudeildar KEA en hina lóðina, nr. 3 fengu þeir Kristján Mikaelsson og Arinbjörn Steindórsson. Nokkrum mánuðum síðar, eða um sumarið fengu þeir leyfi til húsbyggingar á lóðinni. Fengu þeir að byggja hús á einni hæð á háum kjallara, með valmaþaki, byggt úr steinsteypu með steinlofti yfir kjallara. Stærð að grunnfleti 9,5x8,6m auk útskota 4,6x1,0m að vestan og 6,2x1,2m að norðan. Teikningar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson. Þær teikningar, sem aðgengilegar eru á Landupplýsingakerfinu, eru raunar dagsettar tveimur áratugum eftir byggingu hússins. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1943.
Skólastígur 3 er tveggja hæða steinsteypuhús með lágu valmaþaki, bárujárni á þaki, einföldum, lóðréttum póstum í gluggum og steiningu á veggjum. Austurhluti framhliðar skagar eilítið fram og í kverkinni á milli eru tröppur og inngöngudyr á efri hæð. Á vesturhlið er einnig útskot og svalir til SV. Þær voru stækkaðir árið 1991 eftir teikningum Bjarna Reykjalín.
Þeir Arinbjörn Steindórsson og Kristján Mikaelsson, sem byggðu húsið, voru báðir frumkvöðlar í svifflugi og tveir af þremur fyrstu hér í bæ, sem luku fullnaðarprófi í svifflugi, árið 1940. (Sá þriðji var Jóhannes Snorrason). Arinbjörn var fæddur í Reykjavík en bjó hér í bæ um nokkurt árabil en fluttist aftur suður og rak þar Efnagerðina Sælkerann en seinna og lengst af við byggingarvinnu. Kristján Mikaelsson, sem var fæddur var á Akureyri var lengi vel búsettur í Bandaríkjunum og starfaði sem flugmaður, en hann var einnig múrarameistari að mennt. Margir hafa búið að Skólastíg 3, sem alla tíð hefur verið tvíbýlishús. Á fimmta áratugnum bjó hér, dr. Sveinn Þórðarson eðlisfræðingur sem þá ritstýrði tímaritinu Náttúrufræðingnum og kenndi við Menntaskólann á Akureyri. Hann varð síðar skólameistari Menntaskólans á Laugarvatni og prófessor við háskólann í Red Deer í Alberta í Kanada.
Skólastígur 3 er reisulegt og traustlegt hús og í góðri hirðu. Umhverfis norðausturhorn hússins er verkleg timburverönd og vesturhluti lóðar prýddur gróskumiklum trjá- og runnagróðri. Húsið hlýtur miðlungs- eða fjórða stigs varðveislugildi í Húsakönnun 2016 og sagt mynda heild ásamt húsi nr. 1, sem fulltrúar einfaldra funkishúsa. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð og hefur svo verið frá upphafi. Myndin er tekin þann 7. desember 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 899, 27. feb 1942. Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.2.2020 | 19:51
Hús dagsins: Skólastígur 1
Skólastígur liggur í vinkil til norðurs frá Hrafnagilsstræti í átt að Íþróttahöllinni og Sundlaugarsvæðinu en sveigir til austurs niður að Rósenborg (fyrrum Barnaskóla Íslands) og framhjá Brekkuskóla (áður Gagnfræðaskólanum). Við götuna standa sjö hús, öll sunnanmegin en norðanmegin eru bílastæði fyrir íþróttamannvirkin og Brekkuskóla og neðst Rósenborg. Neðsti og austasti hluti götunnar er nokkuð brattur og er gatan lokuð í þann enda fyrir bílaumferð. Strangt til tekið nær Skólastígur þó niður að Eyrarlandsvegi en er gegnt milli bílastæðis Rósenborgar og plans á milli húsa nr. 8 og 12 við Eyrarlandsveg. Á milli Skólastígs og Hrafnagilstrætis liggja Möðruvallastræti og Laugargata. Alls er Skólastígur um 360m langur frá Eyrarlandsvegi en frá planinu við Rósenborg að Hrafnagilsstræti eru um 330m.
Skólastígur 1.
Skólastíg 1 reisti Kári S. Johansen árið 1942. Fékk hann lóðina og leyfi til byggingar húss á einni hæð á kjallara, með steyptum gólfum og loftum 12x10,30m að stærð. Teikningarnar að húsinu gerði Adam Magnússon.
Skólastígur er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara, með lágu valmaþaki, steiningarmúr á veggjum og bárujárni á þaki. Gluggapóstar eru einfaldir, lóðréttir og gluggasetning í anda funkisstíls. Útskot að framan og steyptar tröppur í kverkinni á milli. Áfast húsinu að vestan er bílskúr og ofan á honum svalir. Bílskúrinn er byggður árið 1957 eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar. Húsið er að mestu óbreytt frá upphafi, en þaki hefur hins vegar verið breytt, úr flötu þaki í valmaþak.
Húsið hefur frá upphafi verið tvíbýlishús, en þarna var einnig starfrækt verslun um skamma hríð á fimmta áratug 20. Aldar. Í desember 1945 var auglýst hér opnun Verslunarinnar Bárunnar, þar sem fengust matvörur, gos, sælgæti, hreinlætisvörur og ýmislegt annað. Kári S. Johansen sem byggði húsið var fæddur og uppalin í Noregi. Hann starfaði áratugum saman hjá KEA, lengi vel sem forstjóri vefnaðarvörudeildar félagsins. Hann var kvæntur Sigríði Laufeyju Árnadóttur, sem fædd var á Gröf í Öngulstaðahreppi og bjuggu þér hér um langt árabil. Á fimmta áratug 20. aldar bjó hér Sesselja nokkur Eldjárn, frá Tjörn í Svarfaðardal, en hún var valinkunn fyrir ötult starf í þágu slysavarnarmála, stofnaði m.a. kvennadeild Slysavarnarfélagsins árið 1935. Margir muna sjálfsagt eftir Sesseljubúð, neyðarskýli á Öxnadalsheiði sem nefnt var eftir henni.
Skólastígur 1 er reisulegt og traustlegt hús og í góðri hirðu. Í Húsakönnun 2016 hlýtur það miðlungs varðveislugildi (4. stig af 8) og sagt hafa gildi fyrir götumynd Skólastígs. Götumynd með húsaröð er aðeins öðru megin Skólastígs, þ.e. sunnanmegin. Norðanmegin eru skólalóð og byggingar Brekkuskóla, ásamt bílastæðum fyrir skólann, Sundlaugina og Íþróttahöllina. Lóðin er vel gróin og snyrtileg, þar ber mikið á gróskumiklum birkitrjám, og á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki. Sem áður segir eru tvær íbúðir í húsinu. Myndin er tekin þann 7. desember 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 899, 27. feb 1942. Fundur nr. 904, 27. mars 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/hus akonnun_ma.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2020 | 12:10
Hús dagsins: Hamarstígur 12
Hamarstígur 12 stendur á norðausturhorni götunnar og Þórunnarstrætis. Húsið byggði Pétur Jónsson læknir árið 1939. En það var 10. mars það ár sem Bygginganefnd tók fyrir erindi hans um byggingalóð við Hamarstíg, ofan við Halldór Halldórsson (þ.e. Hamarstíg 10). Stóð erindi hans nokkuð í Bygginganefnd sem bundin var af þágildandi skipulagi en það gerði ráð fyrir, að Hamarstígur endaði við Helgamagrastræti. Bókar nefndin því í kjölfarið að hún hyggist leggja það til við bæjarstjórn að gatan verði framlengd að Þórunnarstræti og hún lögð samsíða Helgamagrastræti (líklega þar átt við Þórunnarstræti). Þessi tillaga þurfti að hljóta blessun, ekki aðeins bæjarstjórnar, heldur líka skipulagsnefndar og Stjórnarráðs; hvorki meira né minna. Yrði það svo, fengi Pétur lóðina.
Um vorið, eða 23. maí lá niðurstaðan fyrir og eftir ítrekun Péturs á erindi sínu var honum veitt lóðin og byggingarleyfi. Þannig er ljóst, að það hafði fengist í gegn að framlengja Hamarstíginn að Þórunnarstræti og síðarnefnda gatan lögð samsíða Helgamagrastræti. Blasir það enda við hverjum þeim, sem leið á þarna um. Hamarstígur var síðar lagður enn lengra upp á Brekkuna,samhliða uppbyggingu þéttbýlis um miðja 20. öld, m.a. Mýrahverfis. Árið 1939 voru þéttbýlismörk Akureyrar hins vegar nokkurn veginn við Helgamagrastrætið, allt þar ofan við var „uppi í sveit“. En byggingarleyfi Péturs var fyrir húsi, 11,5x9,5m að grunnfleti. Húsið byggt úr steini á einni hæð með flötu þaki og kjallara undir hálfu húsinu. Teikningarnar, sem ekki eru aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu, gerði Snorri Guðmundsson.
Hamarstígur 12 er einlyft steinsteypuhús á nokkuð háum kjallara, með háu, sveigðu „mansard“ risi. Á framhlið er stór miðjukvistir og tveir smærri hvor sínu megin við hann. Í gluggum eru krosspóstar með mjóum fögum, veggir múrsléttaðir og bárujárn á þaki. Á bakhlið er inngönguskúr eða stigahús.
Húsið var upprunalega, svo sem fram kemur í byggingarleyfi, ein hæð með flötu þaki; nokkuð dæmigert funkishús, ekki ósvipað nærliggjandi húsum við Helgamagrastrætið. Árið 1951 var byggð rishæð og mun Pétur Jónsson, sem byggði húsið, hafa staðið fyrir þeim framkvæmdum en teikningarnar gerði Stefán Reykjalín. Fékk húsið þá það útlit sem það síðan hefur í stórum dráttum, en síðar (1969) var byggt við húsið bakatil. Pétur Stefán Jónsson, sem byggði Hamarstíg 12, var Húnvetningur, fæddur að Syðri- Þverá í Vesturhópi. Hann nam læknisfræði við Háskóla Íslands og var m.a. héraðslæknir (staðgengill) í Vestmannaeyjum og Siglufirði áður en hann settist að Akureyri 1928. Hann starfaði fyrstu árin sem aðstoðarmaður Steingríms Matthíassonar og síðar sjálfstætt við sjúkrahúsið. Bjó Pétur hér til æviloka, en hann lést árið 1968. Hann var kvæntur Ástu Sigvaldadóttur, sem tók upp föðurnafn hans, Jónsson og bjó hún hér áfram til dánardægurs, eða 1988. Ásta var frá Stykkishólmi á Snæfellsnesi. Í hennar tíð, eða 1969 var byggð við húsið stigahús bakatil, eftir teikningum Guðmundar Kristinssonar. Ásta bjó hér til dánardægurs, eða 1988. Á áttunda áratugnum bjuggu hér einnig þau Gunnlaugur P. Kristinsson fræðslufulltrúi KEA og Iris Gunborg Kristinsson. Gunnlaugur var stofnandi Samtaka sykursjúkra á Akureyri, en hann glímdi við insúlínháða sykursýki frá barnsaldri. Margir hafa búið hér eftir tíð þeirra Péturs og Ástu, en síðastliðna áratugi hafa tvær íbúðir verið í húsinu, ein á hvorri hæð.
Öllum eigendum og íbúum Hamarstígs 12 gegnum tíðina hefur auðnast að halda húsi og lóð vel við, svo prýði er af. Lóðin er vel gróin og ber þar mikið á gróskumiklum birkitrjám. E.t.v. hafa þau Pétur og Ásta Jónsson gróðursett þau á sínum tíma. Húsið er stórbrotið, reisulegt og skrautlegt og gerir mansardrisið það sérlega svipmikið. Í Húsakönnun 2015 hlýtur það miðlungs eða 1. stigs varðveislugildi, á skalanum 0 til 2, þar sem 2 er hátt varðveislugildi, og sagt „óvenjulegt hús með blönduðum byggingastílum“. (Ak.bær, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015: 65) Húsið er sem áður segir, í mjög góðu standi og lítur vel út. Á lóðarmörkum er upprunalegur, steyptur veggur með járnavirki, sem einnig er mjög vel við haldið. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.
Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 831, þ. 10. mars 1939. Fundur nr. 835, 23. maí 1939. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2020 | 18:28
Hús dagsins: Þingvallastræti 18
Áður en haldið er af Laugargötu á Skólastíg skulum við bregða okkur yfir Sundlaugarsvæðið á norðausturhorn Þingvallastrætis og Þórunnarstrætis, en þar stendur reisulegt steinhús frá miðjum fjórða áratug 20. aldar...
Þingvallastræti 18 reistu þeir Sigurður O. Björnsson prentsmiðjustjóri og bróðir hans, Þór O. Björnsson árið 1935. Þeir fengu byggingaleyfi fyrir húsi á tveimur hæðum á kjallara, byggðu úr steinsteypu 11,2x8,85m að stærð. Í júní 1936 fær Sigurður leyfi til að sleppa „falskri hurð“ og breyta gluggum. Teikningarnar að húsinu gerði Gunnar R. Pálsson.
Þingvallastræti 18 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Á bakhlið (norðurhlið) er viðbygging sem skagar til vesturs og eru þar svalir. Krosspóstar með skiptum þverfögum eru í flestum gluggum hússins, bárujárn á þaki og steiningarmúr á veggjum. Byggt var við húsið í áföngum árin 1942-47 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar og Guðmundar Gunnarssonar. Árið 1958 var þaki breytt úr flötu í valmaþaki og fékk húsið þá það lag sem það síðan hefur.
Þeir bræður, Sigurður og Þór O. voru synir Odds Björnssonar, sem stofnsetti hið valinkunna Prentverk Odds Björnssonar (POB), eitt af helstu stórfyrirtækjum Akureyrar á 20. öld. Sigurður O. tók við rekstri föður síns á prentsmiðjunni og stýrði henni um árabil en hann var einnig mjög virkur í hinum ýmsu félagsstarfi, m.a. kórsöng og skógrækt. Seinni eiginkona Sigurðar var Kristín Bjarnadóttir og bjuggu þau hér um áratugaskeið. Sigurður lést í ársbyrjun 1975 og Kristín áratug síðar. Þór O. Björnsson starfaði um áratugaskeið hjá KEA og var lengst af forstjóri Véla- og varahlutadeild félagsins. Húsið var frá upphafi tvíbýli með íbúð á hvorri hæð. Margir hafa búið í húsinu en þarna var einnig félagsheimili Skákfélags Akureyrar í rúman áratug. En Skákfélagið festi kaup á efri hæð hússins árið 1986 og hafði þar aðsetur fram undir aldamót. Nú eru í húsinu þrjár íbúðir, ein á efri hæð og tvær á þeirri neðri. Þingvallastræti 18 er stórbrotið og reisulegt hús, stórt funkishús með seinni tíma viðbótum í góðri hirðu og sómir sér vel á fjölförnum gatnamótum. Lóðin er vel gróin og í góðri hirðu og hana prýða m.a. birki- og reynitré. Ekki fer þó mikið fyrir gróanda á þessari mynd, þar sem hún er tekin þann 10. febrúar 2019- fyrir réttu og sléttu ári þegar þetta er ritað og birt.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr.760, 3. okt 1935. Fundur nr. 776, 20. júní 1936. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2020 | 17:39
Stórkostlegt! Til hamingju Hildur Guðnadóttir
Dagurinn í dag, 10. febrúar 2020, fer svo sannarlega á spjöld Íslandssögunnar; Hildur Guðnadóttir fyrst íslendinga til þess að hljóta þessi æðstu verðlaun kvikmyndaiðnaðarins. (Ætli Óskarsverðlaun séu ekki hreinlega á pari við Nóbelsverðlaun). Hefur hún sópað til sín verðlaunum fyrir kvikmyndatónlist sína og er svo sannarlega er vel að öllum þessum verðlaunum komin. Full ástæða til þess að óska Hildi Guðnadóttur og aðstandendum hennar til hamingju með þetta sögulega afrek
.
PS. Mæli með hinni stórkostlegu kvikmynd Joker (líklega komin á VOD eða aðrar efnisveitur), en hér er "epískt" atriði úr þeirri mynd og undir hljómar Óskarsverðlaunatónlist Hildar Guðnadóttur. Þarna er einnig um að ræða Óskarsverðlaunaleik, en Joaquin Phoenix hlaut Óskarsverðlaun fyrir túlkun sína á hinum valinkunna erkióvini Leðurblökumannsins.
![]() |
Hildur Guðnadóttir hlaut Óskarinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2020 | 19:46
Hús dagsins: Laugargata 3
Haustið 1944 fékk Hreinn Pálsson frá Hrísey, forstjóri og söngvari, lóðina á milli Guðmundar Gunnarssonar í Laugargötu 1 og Hermanns Stefánssonar í Hrafnagilsstræti. Fékk Hreinn einnig byggingarleyfi fyrir húsi úr steinsteypu, með steingólfum og járnklæddu timburþaki að stæð 10,5x8,1m, auk útskots að vestan 5,7x1,9m. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson.
Laugargata er tveggja hæða steinsteypuhús, neðri hæð eilítið niðurgrafin, með lágu valmaþaki. Viðbygging til austurs er úr holsteini. Á framhlið er útskot og inngöngudyr í kverkinni á milli, auk svala til suðurs, meðfram syðri hluta vesturhliðar og vestasta hluta suðurhliðar. Bárujárn er á þaki og skiptir póstar í gluggum. Á framhlið er hár og mjór margskiptur gluggi. Húsinu svipar að mörgu leyti til næsta húss, Laugargötu 1 en bæði húsin eru höfundarverk Guðmundar Gunnarssonar.
Hreinn Pálsson sem byggði húsið, var Hríseyingur, fæddur árið 1901. Hann stundaði stundaði sjómennsku og útgerð og var útibústjóri KEA í Hrísey. En frá 1948 var hann forstjóri Olíuverslunar Íslands (BP, síðar Olís). Hreinn var líka annálaður söngvari, og er líklega þekktastur fyrir Dalakofann, sem hann söng inn á plötu 1930. Mun það fyrsta hljóðritun á dægurlagi hérlendis. Hreinn Pálsson bjó líkast til ekki lengi í húsinu, en hér bjó Hreinn, sonur hans ásamt konu sinni, Önnu Þóreyju Sveinsdóttur. Húsið var líklega tvíbýli frá upphafi og þarna bjuggu einnig þau Sveinn Pálsson og Helga Gunnlaugsdóttir. Hreinn Hreinsson seldi árið 1958 Sveini Tómassyni eignarhluta sinn í húsinu og bjuggu þau hér um áratugaskeið, eða fram um 1993 að þau fluttu á Dvalarheimilið Hlíð. Sveinn Tómasson, sem fæddur var að Bústöðum í Skagafirði gegndi um árabil stöðu slökkviliðsstjóra hér í bæ.
Laugargata 3 er reisulegt hús og í góðu standi. Það mun dæmi um svokallaðan byggingarmeistarafunkis; funksjónalismi aðlagaður að íslenskum aðstæðum. Í Húsakönnun 2016 hlýtur það miðlungs, eða 5. Stigs varðveislugildi en það myndar skemmtilega heild með Laugargötu, en húsin eru eftir sama höfund um og byggð um svipað leyti. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð. Myndin er tekin þann 7. desember 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 992. 22. sept. 1944 Fundur nr. 993, 29. sept 1944. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2020 | 18:25
Hús dagsins: Laugargata 2
Vorið 1944 fékk Vernharður Sveinsson „lóðina á milli Snorra Sigfússonar og Jónasar Kristjánssonar“ . Þar var um að ræða Hrafnagilsstræti 8 og Skólastíg 7. Rúmu ári síðar, í júlí 1945 var honum leyft að reisa hús: 2 hæðir á lágum grunni,byggt úr steinsteypu, loft og þak steinsteypt. Stærð hússins að grunnfleti 11,0x10,3m að viðbættu útskoti að sunnan 0,9x6,57m. Snemma sumars 1946 var Vernharði síðan leyft að færa norðurvegg einum metra sunnar, og fullbyggt var húsið 1947. Teikningarnar að húsinu gerði Þórir Baldvinsson.
Húsið er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir og þakpappi á þaki og margskiptir póstar í gluggum. Útskot er á suðurhlið með svölum til austurs. Vernharður Sveinsson sem byggði húsið var fæddur að Nesi í Höfðahverfi. Hann var kvæntur Maríu Sveinlaugsdóttur, sem fædd var á Mjóafirði. Vernharður var samlagsstjóri Mjólkursamlags KEA um áratugi en hann vann hjá samlaginu í ein 62 ár, eða frá 15 til 77 ára aldurs og átti þar starfsaldursmet. Bjuggu þau Vernharður og María hér um áratugasakeið, en hann bjó hér til æviloka 1991. María Sveinlaugsdóttir lést 1996. Húsið mun alla tíð hafa verið einbýli og hefur líkast til alltaf fengið gott viðhald. Það mun að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð.
Laugargata 2 er sérlega reisulegt og glæst funkishús. Það er í mjög góðri hirðu, í því nýlegir gluggar sem eru í samræmi við upprunalega hönnun hússins og frágangur hússins allur hinn snyrtilegasti. Lóðin er nokkuð víðlend, enda er húsið það eina vestan Laugargötu. Lóðina prýða mörg gróskumikil tré, m.a. reynitré. Steyptur kantur á lóðarmörkum myndar skemmtilega heild með húsinu. Norðan við húsið er steyptur bílskúr, byggður árið 2000 eftir teikningum Fanneyjar Hauksdóttir. Hann fellur vel inn í umhverfið. Hús og næsta umhverfi er allt í afbragðs góðri og frágangur allur hinn snyrtilegasti. Húsið hlýtur 6. Stigs varðveislugildi í Húsakönnun 2016. Myndin er tekin þann 7. desember 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 971. 14. apríl 1944. Fundur nr. 1025, 27. júlí 1945. Fundur nr. 1055, 7. júní 1946. óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.1.2020 | 18:15
Svipmyndir af Þorbirni
Þorbjörn eða Þorbjarnarfell er nokkuð í fréttum þessi dægrin: Jarðhræringar, hugsanleg kvikusöfnun sem mögulega gæti leitt til goss. Þessir atburðir eru að vísu ekki í fjallinu sjálfu heldur næsta nágrenni þess, og getur fjallið virkað sem varnargarður fyrir Grindavík gjósi á vissum stöðum. En það er að sjálfsögðu ómetanlegt að til staðar sé svo öflugt vöktunarkerfi eldstöðva sem raun ber vitni og varað getur við hugsanlegum hættum neðan úr jörð. En að Þorbirni sjálfum. Fjallið er móbergsstapi frá ísöld og er 243m á hæð. Það þykir svosem ekki hátt, en útsýni af honum er stórkostlegt yfir vestanvert Reykjanes, Miðnes, Faxaflóa og Atlantshafið til suðurs. Nokkrar gönguleiðir eru á fjallið og ein þeirra liggur hringinn um fjallið, með viðkomu á toppnum. Hér eru nokkrar svipmyndir sem ég tók þegar ég gekk á fjallið þann 22. júlí 2018.
Hér er horft af göngustígnum austanmegin, horft til Grindavíkur. Á göngustígnum var svartsnigill að spóka sig.
Norðanmegin í Þorbjarnarfelli má finna leifar bandarískrar hernaðarmannvirkja frá síðari heimstyrjöld.
Útsýn yfir Reykjanes, á myndinni vinstra megin má sjá Bláa lónið.
Kynjamyndir hrauns og burnirót í vesturhlíðum Þorbjarnar.
![]() |
Nokkrir litlir skjálftar í morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2020 | 20:12
Hús dagsins: Laugargata 1
Laugargata er tiltölulega stutt sem liggur í N-S samsíða Möðruvallastræti, milli Skólastígs í norðri og Hrafnagilsstrætis í suðri. Við hana standa aðeins þrjú hús, eitt vestanmegin og tvö austanmegin og eru þau byggð 1944-47. Laugargata er um 90m að lengd skv. grófri mælingu á kortavef ja.is.
Laugargötu 1 reisti Guðmundur Gunnarsson byggingarmeistari árið 1944 eftir eigin teikningum. Honum var úthlutað lóð næst sunnan Gunnars Larsens (þ.e. Skólastíg 5) og leyfi til að byggja hús úr steinsteypu, eina hæð á háum kjallara með valmaþaki, að stærð 9,5x9,5m, og taldist þessi lóð við Skólastíg. Það var ekki fyrr en í nóvemberlok 1944 sem heitið Laugargata var samþykkt á þvergötunni frá Hrafnagilsstræti að Grófargilil, austan Gagnfræðaskólans, en Guðmundur fékk lóðina og byggingarleyfi 30. júní það ár.
Sú lýsing sem gefin er upp fyrir Laugargötu 1 í byggingarleyfinu á að mestu leyti við það enn, það er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara, eða jarðhæð, með lágu valmaþaki. Steining er á veggjum, bárujárn á þaki og skiptir póstar í gluggum, og á framhlið síður, margskiptur gluggi sem setur vissan svip á húsið. Nyrsti hluti framhlið skagar lítið eitt fram og í kverkinni á milli steyptar tröppur á hæð með skrautlegu steyptu handriði.
Guðmundur Gunnarsson, sem byggði húsið, var fæddur á Þinganesi í Hornafirði. Hann starfaði sem byggingameistari, teiknaði fjölmörg hús á Akureyri og kenndi fagteikningu við Iðnskólann á Akureyri. Svo fátt eitt sé nefnt. Hann var einnig lengi vel einn af helstu máttarstólpum Leikfélags Akureyrar, þar sem lék í fjölmörgum sýningum og fékks einnig við leikstjórn. Guðmundur var kvæntur Önnu Tryggvadóttur. Þau bjuggu hér um áratugaskeið, en íbúar hússins og eigendur eru væntanlega orðnir þó nokkrir eftir þeirra tíð.
Húsið hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald, virkar traustlegt og í góðu standi. Steyptir „pilar“ á handriði og síður gluggi á framhlið setja á það skemmtilegan svip. Þá er á lóðarmörkum steypt girðing með járnavirki, einnig í góðri hirðu. Í Húsakönnun 2016 er húsið metið með miðlungs, eða 5. stigs varðveislugildi og flokkast undir svokallað byggingameistarafunkis; funkisstíll aðlagaður að íslenskum aðstæðum. Myndin er tekin þann 7. desember 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 981, 30. júní 1944. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.5.): 25
- Sl. sólarhring: 35
- Sl. viku: 368
- Frá upphafi: 446684
Annað
- Innlit í dag: 17
- Innlit sl. viku: 197
- Gestir í dag: 17
- IP-tölur í dag: 17
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar