Hús við Möðruvallastræti

Síðastliðnar vikur hef ég tekið fyrir við Möðruvallastræti á syðri Brekkunni. Möðruvallastræti 2 hafði ég tekið fyrir 2013 og 1a síðla árs 2017. Hér er Möðruvallastrætið: 

Möðruvallastræti 1 (1941)

Möðruvallastræti 1a (1919) 

Möðruvallastræti 2 (1936) 

Möðruvallastræti 3  (1942)

Möðruvallastræti 4  (1939)

Möðruvallastræti 5  (1946)

Möðruvallastræti 6  (1940)

Möðruvallastræti 7  (1942)

Möðruvallastræti 8   (1943)

Möðruvallastræti 9   (1946)

Möðruvallastræti 10  (1938)

Meðaltal byggingarára húsa við Möðruvallastrætið er 1939,9 og meðalaldur Möðruvallastrætishúsa því 81 ár árið 2020.

Næst á dagskrá eru göturnar Laugargata og Skólastígur, en þær eru næst ofan og norðan við Möðruvallastrætið. 

 


Hús dagsins: Möðruvallastræti 10

Möðruvallastræti reisti Páll Sigurgeirsson kaupmaður árið 1938. PA270982Hann fékk lóðina og byggingarleyfi fyrir hús úr steinsteypu, eina hæð á kjallara að stærð 8,5x9,5m. Teikningarnar gerði Halldór Halldórsson og var húsið einfalt funkishús með lágu þaki.

Möðruvallastræti 10 mætti líklega kalla tvílyft með lágu einhalla þaki en efri hæð er raunar uppbyggð þakhæð með útstæðum þakköntum á hæðarskilum. Þannig mætti eflaust einnig segja húsið einlyft með háu valma/einhallaþaki, en látum það liggja milli hluta. En húsið stendur á lágum kjallara. Veggir eru múrsléttaðir en bárujárn á þaki og einfaldir póstar í gluggum. Á neðri hæð eru horngluggar í anda funkisstefnunnar, en á efri hæð er sérstök gluggasetning í anda módernisma, enda er efri hæðin byggð tveimur áratugum síðar. Þar er nokkuð áberandi röð samliggjandi glugga í ramma með timburklæðningu.

Páll Sigurgeirsson, sem byggði húsið var fæddur á Stóruvöllum í Bárðardal. Hann var sonur þeirra Sigurgeirs Jónssonar organista og Júlíönu Friðriksdóttur, en þau fluttust til Akureyrar 1906 og byggðu þar Spítalaveg 15. Páll var bróðir þeirra Eðvarðs og Vigfúsar ljósmyndara, en sá fyrrnefndi bjó lengi vel á Möðruvallastræti 4. Páll var umsvifamikill verslunarmaður og rak um árabil hinna valinkunnu Brauns verslun, frá 1932 til 1956, en þaðan hafði hann ráðist til starfa 15 ára gamall árið 1911. Páll var kvæntur Sigríði Oddsdóttur frá Sámsstöðum í Fljótshlíð.  Þau Páll og Sigríður fluttust til Reykjavíkur árið 1961, er Páll hætti verslunarstörfum. Sonur þeirra, Sverrir og kona hans Ellen Pálsson bjuggu hér áfram um áratugaskeið. Ræktuðu þau þarna gróskumikinn skrúðgarð, sem hlaut m.a. viðurkenningu Fegrunarfélags Akureyrar sumarið 1961.  Sverrir Pálsson var skólastjóri Gagnfræðaskóla Akureyrar um langt skeið, eða frá 1963 til 1989 en hann hóf að kenna þar árið 1947.  Sverrir var einnig mikilvirkur rithöfundur, og eftir hann liggur m.a. hið veglega rit, Saga Akureyrarkirkju.  Árið 1958 byggðu þau Ellen og Sverrir upp aðra hæð hússins, eftir teikningum Jóns Geirs Ágútssonar. Fékk húsið þá það lag sem það hefur æ síðan. Húsinu hefur líkast til alla tíð verið vel við haldið, allavega virðist það í mjög góðu standi.

Möðruvallastræti 10 er látlaust en stórbrotið hús og gefur innrömmuð gluggaröð þakhæðar húsinu sinn sérstaka en jafnframt skemmtilega svip. Í Húsakönnun 2016 er það flokkað sem „einkennileg blanda“ funkisstíls og modernisma og hlýtur fyrir vikið lægra varðveislugildi en nærliggjandi hús (3. stigs). Þeim sem þetta ritar þykir húsið hins vegar áhugavert og sérstætt í útliti. Ekki skemmir fyrir að húsið er í mjög góðri hirðu og frágangur þess hinn snyrtilegasti. Lóðin er einnig gróskumikill og vel hirt og hún römmuð inn af steyptri stöplagirðingu með járnavirki. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 27. október 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 816, 25. maí 1938.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf


Hús dagsins: Möðruvallastræti 9

Árið 1945 var Eiríki Guðmundssyni leyft að reisa hús á lóð,PA270981 sem hann hafði fengið úthlutað við Möðruvallastræti. Húsið skyldi byggt úr steinsteypu með steingólfi og valmaþaki úr timbri. Ein hæð á háum kjallara, stærð 12,7x8,2m auk útskots að vestan, 1,5x6,3m. Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín.  

Möðruvallastræti 9 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki, af nokkuð algengri gerð funkishúsa hérlendis, með útskoti að framan og í kverk á milli steyptar tröppur upp að inngangi efri hæðar. Ekki eru þó horngluggar á húsinu, en í Húsakönnun 2016 segir að húsið sé af gerð funksjónalisma en     „[...]búið að einfalda og aðlaga  stílinn að  íslenskum  aðstæðum  með  valmaþaki, samhverfari gluggasetningu og steiningu.“ (Minjasafnið á Ak., Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016: 95) . Á veggjum er steining, bárujárn á þaki og einfaldir póstar í gluggum.

Þau Eiríkur Guðmundsson og kona hans, Anna Sigurveig Sveinsdóttir bjuggu hér um áratugaskeið. Eiríkur allt til dánardægurs, 1983, en Anna bjó hér til 1989. Þau ráku hér lengi vel matstofu og leigðu út herbergi fyrir nemendur Menntaskólans, en héðan eru um 150 metrar að skólahúsinu. Eiríkur, sem var kjötiðnaðarmeistari var frá Hróarsstöðum í Öxarfirði en Anna sem var matráðskona, var frá Eyvindarstöðum í Eiðaþinghá. Á 5. áratugnum var einnig búsett hér Einhildur Sveinsdóttir, systir Önnu, sem þarna stundaði matsölu, svo sjá má á auglýsingu frá haustinu 1946; „Sel fast fæði“ Um og fyrir miðja 20. öld var ekkert óalgengt að konur seldu fæði, stundum í eins konar áskrift og þá talað um kostgangara. Það var aldeilis ekki sama úrval af skyndibitastöðum um og fyrir miðja 20. öld og síðar varð, enda áratugir í að flestir skyndibitar þeirra tegunda sem neytt er í dag  kæmu til sögunnar hérlendis.

Húsið er að mestu óbreytt frá upphafi, á því mun upprunaleg steining en er þó snyrtilegt og í góðri hirðu. Á lóðarmörkum er girðing með steyptum stöplum og járnavirki og gróskumikil reynitré á lóð. Húsið hlýtur miðlungs eða fimmta stigs varðveislugildi í áðurnefndri Húsakönnun frá 2016. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð. Myndin er tekin sunnudaginn 27. október 2019, í fyrstu snjóum vetrarins 2019-20.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1007. 27. mars 1945 Fundur nr. 1010, 13. apríl 1945.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf


Hús dagsins: Möðruvallastræti 8

Möðruvallastræti 8 reisti Hallgrímur Jónsson skósmiður árið 1943. PA270983Byggingaleyfi hans hljóðaði upp á hús, 10x8m að stærð, auk 4,5x1,3m útskots að austan, á einni hæð með skúrþaki, kjallara undir hálfu húsinu. Húsið byggt úr r-steini og þak járnklætt timburþak. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson.

Möðruvallastræti 8 er einlyft steinsteypuhús á tiltölulega lágum grunni og með einhalla aflíðandi þaki; skúrþaki. Nyrsti hluti framhliðar  stendur eilítið framar (útskot 4,5x1,3m sem minnst er á í byggingarleyfi) og inngöngudyr og dyraskýli í kverkinni á milli. Veggir eru múrsléttaðir, pappi á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í gluggum. Horngluggi í anda funkisstefnu er á SA-horni hússins. Þegar þetta er ritað, í ársbyrjun 2020, standa yfir framkvæmdir við viðbyggingu á bakhlið hússins. Teikningarnar að þeim breytingum gerði Árni Gunnar Kristjánsson.

Hallgrímur Jónsson starfrækti um nokkurt skeið skóvinnustofu í húsinu, eða frá vorinu 1945. Skóverkstæðið hefur væntanlega verið í kjallaranum, en tekið er fram í auglýsingu að gengið sé inn að norðan. Ekki bjó hann eða starfaði hér lengi, því snemma árs 1947 auglýsir hann húsið til sölu. Þau Leonard Albertsson verkstjóri hjá Vegagerðinni og Ásta Friðriksdóttir eignuðust húsið á 6. Áratugnum og bjuggu þau hér um áratugaskeið, allt til dánardægra, Leonard lést 1976 en Ásta árið 1999. Þau ræktuðu hér mikinn skrúðgarð sem sem hlaut m.a. verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar árið 1956 og vakti garður þeirra ánægju og yndisauka hjá vegfarendum Möðruvallastrætis um árabil. Húsið hefur alla tíð verið einbýli og er líkast til lítt breytt frá upphaflegri gerð. Möðruvallastræti er látlaust en glæst funkishús og hlýtur í Húsakönnun 2016 miðlungs, eða 5. stigs varðveislugildi vegna byggingarlistar og umhverfis, og einnig sem hluti þeirrar áhugaverðu þrenningar sem húsin nr. 4,6,8 við Möðruvallastrætið mynda. Húsið er  í góðri hirðu og snyrtilegt  og hlaut miklar endurbætur fyrir fáeinum árum. Sem áður segir, standa yfir framkvæmdir við viðbyggingu hússins bakatil og ekki er annað að sjá, en að sú viðbót komi til með að falla vel að húsinu. Myndin er tekin þann 27. október 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 938, 26. mars 1943.  Fundur nr. 943, 28. maí 1943.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf


Hús dagsins: Möðruvallastræti 7

Möðruvallastræti 7 reisti Þorbjörg Einarsson árið 1942. PA270984Var það Ásgeir Austfjörð múrarameistari, sem reisti m.a. húsið á móti, Möðruvallastræti 6, sem sótti um byggingarleyfi fyrir hennar hönd. Fékk Þorbjörg að reisa hús á einni hæð á háum kjallara, byggt úr steinsteypu með steingólfi. Í bókunum  Bygginganefndar frá 1941-2 er þess sérstaklega getið, að Þorbjörg sé frá Siglufirði.  Teikningarnar gerði Guttormur Andrjesson.

Sú lýsing sem gefin er upp í bókunum bygginganefndar á að mestu leyti við húsið eins og það er í dag, enda lítið breytt frá upphafi, steinsteypuhús, ein hæð á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Bárujárna er á þaki og veggir múrsléttaðir og gluggar flestir með einu opnanlegu lóðréttu fagi, og sumir póstlausir.

Þorbjörg Ásmundsdóttir Einarsson var fædd að Brekkulæk í Miðfirði árið 1893. Hún nam hjúkrunarfræði í Kaupmannahöfn og starfaði við fag sitt í Danmörku um nokkurt skeið en heim fluttist hún 1923 en hún bjó á Siglufirði ásamt manni sínum, Steingrími Einarssyni, yfirlækni frá 1928 til 1941, að hann lést. Eftir lát hans fluttist hún til Akureyrar og reisti þetta veglega hús að Möðruvallastræti 7. Ef heimilisfanginu „Möðruvallastræti 7“ er flett upp í hinu stórkostlega gagnasafni prentmiðla, timarit.is birtast 21 niðurstöður. Ein af elstu niðurstöðunum eru frá október 1950 þar sem Þorbjörg Einarsson auglýsir „Ljós fyrir börn“ og að hún sé til viðtals milli 12-13. Þarna er svo sannarlega ekki um að ræða vasaljós heldur mun Þorbjörg hafa staðið fyrir ljósaböðum fyrir börn. Ljósin voru talin sérlega heilnæm fyrir börn um og eftir miðja 20. öld og ekki óalgengt að ljósalampar væru til staðar í barnaskólum. Þorbjörg fluttist héðan árið 1953 til Hafnarfjarðar þar sem hún tók við stöðu yfirhjúkrunarkonu hins nýreista hjúkrunarheimilis Sólvangs. Gegndi hún þeirri stöðu til dánardægurs, 1959. Margir hafa síðan búið hér um lengri eða skemmri tíma. Húsið mun að mestu óbreytt að ytra byrði frá upphafi og hefur líkast til alla tíð verið vel við haldið. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð, og hefur líkast til verið svo frá upphafi.

 Möðruvallastræti 7 er einfalt og látlaust, af dæmigerðri gerð íbúðarhúsa fimmta áratugs 20. aldar, eða eins og segir í Húsakönnun 2016 „Einfalt hús undir vægum einkennum funksjónalisma.“ (Minjasafnið, Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016: 92). Í sömu húsakönnun er húsið metið með miðlungs eða fjórða stigs varðveislugildi. Húsið er í mjög góðri hirðu og lóðin gróskumikil og vel hirt. Fremst á lóð ber mikið á stæðilegum reynitrjám. Myndin er tekin þann 27. október 2019

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 886, 3. okt 1941.  Fundur nr. 912, 29. maí 1942.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf


Hús dagsins: Möðruvallastræti 6

Það er eitthvað sérlega viðeigandi við það, að fyrsta "Hús dagsins" á nýju ári sé nr. 6 og birtist á 6. degi ársins wink.

Möðruvallastræti 6 reisti Ásgeir Austfjörð múrarameistari árið 1940.PA270986 Hann fékk lóðina haustið 1938 og rúmu ári síðar fékk hann að breyta húsinu, þ.e. að reisa 1,20x3,9m útskot til austurs á norðurenda. Húsið reisti Ásgeir eftir eigin teikningu, en á sama tíma reisti Jón Sigurðsson myndasmiður hús eftir sömu teikningu á Hlíðargötu 9. Sá er þó munur á húsunum, að á Möðruvallastræti 6 er útskot á framhlið, þ.e. nyrsti hluti framhliðar skagar 1,20m fram.  

Möðruvallastræti 6 er einlyft steinsteypuhús í funkisstíl með einhalla aflíðandi þaki, á lágum kjallara. Veggir eru klæddir steiningarmúr, þakpappi á þaki og lóðrétt fög í gluggum. Í kverk milli framhliðar og útskots eru inngöngudyr og steyptar, bogadregnar tröppur upp að þeim. Á suðurhlið er verönd úr timbri.

Ásgeir Vilhelm Austfjörð, sem fæddur var á Eskifirði 1905, starfaði sem múrarameistari og byggði mörg hús og teiknaði nokkur. Hann tók þátt í byggingu hinna ýmissa stórhýsa  á 3. -5. áratug 20. aldar, svo sem kjötbúð KEA í Hafnarstræti, veglegra skólabygginga að Hólum í Hjaltadal svo fátt eitt sé nefnt, auk byggingar og teikninga íbúðarhúsa.  Þá kom hann einnig  að byggingu Akureyrarkirkju. Hann kemur fyrir nokkrum sinnum í bókunum Bygginganefndar frá því um 1940 þar sem hann sækir um byggingarleyfi fyrir hönd annarra. Ásgeir bjó hér til æviloka, en hann lést langt fyrir aldur fram snemma árs 1952. Ásgeir var kvæntur Svanhildi Baldvinsdóttur frá Ólafsfirði. Síðar bjuggu hér, á efri árum, Zophonías Árnason, lengi vel yfirtollvörður, og Sigríður Davíðsdóttir. Þau heiðurshjónin gáfu   Zontaklúbbnum á Akureyri Aðalstræti 54  árið 1951, auk ýmissa annarra muna, þar sem klúbburinn setti á fót safn um Nonna. Téð Aðalstræti 54 er að sjálfsögðu Nonnahús, en húsið höfðu foreldrar Sigríðar átt. Sjálfsagt er mörgum ekki kunnugt um þessa sögu um uppruna safnsins um Nonna og sjálfsagt að halda henni til haga, sem og rausnarskap þeirra Sigríðar og Zophoníasar.

Húsið hefur líkast til alla tíð verið einbýlishús og margir átt hér heima. Það er í megindráttum leyti óbreytt frá upprunalegri gerð, nema hvað árið 1967 var þaki breytt og sett á það kantur, eftir teikningum Snorra Guðmundssonar og timburverönd á suðurhlið er tiltölulega nýleg. Húsið og lóð eru í góðri hirðu og til mikillar prýði, á lóðinni eru m.a. gróskumikil reynitré. Tröppurnar bogadregnu og steypt handrið í stíl setja að vissu leyti nokkuð skemmtilegan svip á húsið. Möðruvallastræti 6 hlýtur í Húsakönnun 2016 miðlungs eða 5. stigs varðveislugildi sem hluti hinnar heilsteyptu þrenningar funkishúsa nr. 4-8 við Möðruvallastræti. Myndin er tekin þann 27. október 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 825, 17. okt 1938.  Fundur nr. 844, 31. okt 1939. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

 

 


Húsaannáll 2019

Að venju birti ég hér, í upphafi nýs árs, yfirlit yfir greinar síðasta árs í tímaröð. Að mestu leyti var umfjöllunin um götur á Ytri Brekkunni, og ber þar e.t.v. hæst yfirferð yfir Helgamagrastrætið, sem tók um hálft árið frá maí til desember (gerði mánaðarhlé í september og brá mér þá Oddeyrartangann). Þá varð þessi vefur 10 ára á liðnu ári, og fór það vart fram hjá lesendum þessarar síðu. En hér eru pistlar ársins 2019 og tenglar á þá, sem vonandi vísa á rétta staði: 

JANÚAR

  1. janúar Hlíðargata 1    1939  
  1. janúar  Hlíðargata 3    1944  
  1. janúar Hlíðargata 4     1942
  1. janúar Hlíðargata 5     1942
  1. janúar Hlíðargata 6    1948  
  1. janúar Hlíðargata 7     1939 

FEBRÚAR

  1. febrúar Hlíðargata 8     1939    
  1. febrúar Hlíðargata 9    1939  
  1. febrúar Hlíðargata 10  1944  
  1. febrúar Hlíðargata 11 1946    
  1. febrúar Hús Hákarla Jörundar  1885
  1. febrúar Holtagata 1    1938 

MARS  

  1. mars Holtagata 2        1938
  1. mars Holtagata 3       1941
  1. mars Holtagata 4       1943 
  1. mars Holtagata 5       1939
  1. mars Holtagata 6       1942
  1. mars Holtagata 7       1941

APRÍL

  1. apríl Holtagata 8         1942
  1. apríl Holtagata 9         1939
  1. apríl Holtagata 10       1947
  1. apríl Holtagata 11       1939
  1. apríl Holtagata 12       1949
  1. apríl Nótastöðin, Norðurtanga  1945
  1. apríl Lögbergsgata 1   1939
  1. apríl Lögbergsgata 3   1938
  1. apríl Lögbergsgata 5    1939
  1. apríl Lögbergsgata 7    1946
  1. apríl Lögbergsgata 9   1938

MAÍ

  1. maí  Lögmannshlíðarkirkja    1860
  1. maí Þingvallastræti 16       1935
  1. maí Helgamagrastræti 1       1936
  1. maí Helgamagrastræti 2       1937
  1. maí Helgamagrastræti 3       1936
  1. maí Helgamagrastræti 4       1936

 

JÚNÍ

  1. júní Helgamagrastræti 5       1936

(5. júní Helgamagrastræti 6 ; grein frá 2011, með viðbótum)

  1. júní Helgamagrastræti 7      1936
  1. júní Helgamagrastræti 9      1937
  1. júní Helgamagrastræti 10 1985
  1. júní Helgamagrastræti 11 1937 
  1. júní Helgamagrastræti 12      1946

 

JÚLÍ

  1. júlí Helgamagrastræti 13      1937
  1. júlí Helgamagrastræti 15      1946
  1. júlí Hamarstígur 10                1938

( 13. júlí Helgamagrastræti 17  pistill frá 2011, með viðbótum)

  1. júlí Helgamagrastræti 19      1944
  1. júlí Helgamagrastræti 20      1946 
  1. júlí Helgamagrastræti 21      1946
  1. júlí Helgamagrastræti 22 1945

 

ÁGÚST

  1. ágúst Helgamagrastræti 23      1944
  1. ágúst Helgamagrastræti 24      1946
  1. ágúst Helgamagrastræti 25     1945
  1. ágúst Helgamagrastræti 26     1949
  1. ágúst Helgamagrastræti 27      1946
  1. ágúst Helgamagrastræti 28      1945

 

SEPTEMBER

  1. september Strandgata 13b        1926
  1. september Strandgata 6          1929 
  1. september Strandgata 51       1931 
  1. september Strandgata 53       1936

 

OKTÓBER

  1. október Gránufélagsgata 48       1943                  
  1. október Helgamagrastræti 30      1943
  1. október Helgamagrastræti 32     1943
  1. október Helgamagrastræti 34     1942
  1. október Helgamagrastræti 36     1945 

 

NÓVEMBER

  1. nóvember Helgamagrastræti 38   1943
  1. nóvember Helgamagrastræti 40    1947
  1. nóvember Helgamagrastræti 42     1942
  1. nóvember Helgamagrastræti 43     1949
  1. nóvember Helgamagrastræti 44     1944
  1. nóvember Helgamagrastræti 45     1945

 

DESEMBER

  1. desember Helgamagrastræti 46      1943
  1. desember Helgamagrastræti 47      1942
  1. desember Helgamagrastræti 48 1945
  1. desember  Helgamagrastræti 49      1942
  1. desember Helgamagrastræti 50      1943
  1. desember Helgamagrastræti 51    1945
  1. desember Helgamagrastræti 53    1990   
  1. desember  Möðruvallastræti 1        1941
  1. desember Möðruvallastræti 3  1942
  1. desember Möðruvallastræti 4  1939
  1. desember Möðruvallastræti 5  1946

 

Örlítil tölfræði:

Á árinu 2019 tók ég fyrir 79 hús hér á síðunni (ath. tel endurbirtar umfjallanir frá 2011 ekki með í þeirri tölu). (Lang)elst var Lögmannshlíðarkirkja, sem á 160 ára vígsluafmæli seint á þessu ári en yngst var fjölbýlishúsið Helgamagrastræti 53, sem verður þrítugt á hinu nýja ári. Langflest "Húsa dagsins" á árinu 2019 eru hús frá 1930-49, eða 73. Það rímar auðvitað ágætlega við það, að á árinu voru það hús við Lögbergsgötu, Hlíðar- og Holtagötu sem voru til umfjöllunar og þær byggðust að mestu á þessu tímabili. Svona lítur fjöldi "Húsa dagsins" eftir byggingarárum á súluriti: 

Húsdagsins2019tolfr

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Byggð fyrir 1900: 2 hús

Byggð 1920-29: 2 hús 

Byggð 1930-39: 27 hús

Byggð 1940-49: 46 hús

Byggð eftir 1950: 2 hús

(Endurtek þessar upplýsingar hér; ef ske kynni, að það sem fram kemur hér á súluritinu sé torlæsilegt, veit ekki hvernig það kemur út).

Þess má geta til gamans, að samkvæmt minni talningu eru 9 af 72 "Húsum dagsins" sl. árs byggð 1942, önnur 9 voru byggð 1939, 8 voru byggð 1945 og önnur 8 byggð 1946. 

Meðaltal byggingarára "Húsa dagsins" árið 2019 er 1940,98 eða 1941 og meðalaldur "Húsa dagsins" ársins 2019 því 78 ár

Hér fann ég það út, að í lok árs 2018 væru pistlarnir orðnir 532. Samkvæmt því eru "Hús dagsins greinarnar" orðnar 611 þegar þetta er ritað. Næsti pistill, sem birtist á allra næstu dögum er þannig nr. 612. 

Umfjallanir á árinu 2020: 

Næstu vikur er Syðri Brekkan í deiglunni hjá mér, nánar tiltekið göturnar Möðruvallastræti, Laugargata og Skólastígur. Þá er röðin væntanlega komin að húsum í Miðbænum, við m.a. við Skipagötu. Nóg er af húsum til að taka fyrir; og það jafnvel þó ég einskorði umfjöllun að mestu við hús frá fyrri hluta 20. aldar.

 

 

 


Nýárskveðja

Óska lesendum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna.laughingcool

 

Þakka innlit, athugasemdir og allt slíkt á liðnu ári- og raunar áratug en á liðnu ári voru einmitt liðin 10 ár síðan ég hóf skrif á þennan vef. 

Nýársmyndirnar að þessu sinni eru teknar á þriðja tímanum í dag á Ásbrú á Miðnesheiði og sýna glögglega nýárssólina- og nýársslydduna en sú fyrrnefnda kaus að mestu að halda sig á bakvið skýjaþykknið. 

P1010963

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P1010965

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P1010966


Hús dagsins: Möðruvallastræti 5

Árið 1945 fengu þeir Bjarni Kristjánsson og Jónas Snæbjörnsson lóð og byggingarleyfi við Möðruvallastræti 5. Fengu þeir að reisa hús á tveimur hæðum með kjallara undir hálfu húsi, byggt úr steinsteypu með steingólfum og valmaþaki úr timbri. Stærð húss 11x8,5m. Teikningarnar að húsinu gerði Jónas Snæbjörnsson.PA270985

Möðruvallastræti 5 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Norðanmegin á framhlið er útskot og inngöngudyr ásamt tröppum í kverkinni á milli. Bárujárn er á þaki, veggir múrsléttaðir og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í gluggum.

Jónas Snæbjörnsson menntaskólakennari og brúarsmiður, sem byggði Möðruvallastræti 5 var fæddur var á Svefneyjum á Breiðafirði. Hann kenndi teikningu og smíði við Menntaskólann á Akureyri í ein 46 ár, frá 1914 til 1960 og mun það vera starfsaldursmet við þá ágætu stofnun. Jónas var trésmiður og stundaði auk kennslunnar, brúarsmíði á sumrin og kom auk þess að byggingu margra vita og kirkna. Á löngum starfsferli sem brúarsmiður kom Jónas að byggingu hengibrúa yfir Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum og brúnna yfir Eyjafjarðará á Hólmunum (Þverbrautinni). Sem áður segir kenndi hann til ársins 1960, eða til sjötugs. Um það leyti auglýsti hann hæðina í Möðruvallastræti 5 til sölu og tilgreindi að þar væri „fagurt útsýni“. En hann settist aldeilis ekki alfarið í helgan stein eftir tæplega hálfrar aldar kennslu, því árið 1963 var hann enn starfandi við brúarsmíðar. Þá var hann starfandi við 100. brúna á starfsferlinum,  Hofsárbrú í Vesturdal í Skagafirði. Jónas lést árið 1966.  Jónas var kvæntur Herdísi Símonardóttur frá Iðunnarstöðum í Lundarreykjadal.

 Margir hafa átt heima í Möðruvallastræti 5 eftir tíð þeirra heiðurshjóna, Jónasar og Herdísar, en húsið hefur alla tíð verið tvíbýli. Húsið er lítið breytt frá upphaflegri gerð, en árið 2005 var glugga á neðri hæð breytt í dyr ásamt lítils háttar breytingum, eftir teikningum Loga Más Einarssonar. Líkt og flestöll húsin við Möðruvallastræti er húsið er í mjög góðri hirðu eiginlega sem nýtt að sjá, sem og lóðin sem er vel gróin og hirt og til mikillar prýði í umhverfinu. Möðruvallastræti 5 hlýtur í Húsakönnun 2016 miðlungs, eða 4. stigs varðveislugildi og er talið hafa gildi sem hluti þeirrar heildar sem götumyndin er. Myndin er tekin sunnudaginn 27. október 2019.

p8090017.jpg

Hér er ein þeirra rúmlega 100 brúa sem Jónas Snæbjörnsson tók þátt í að reisa: Vestasta brúin af þremur á svokallaðri Þverbraut yfir óshólma Eyjafjarðarár. Voru þær byggðar 1923 og voru mikil samgöngubót, og voru hluti þjóðvegakerfisins í rúm 60 ár. Þessari tilteknu brú hefur reyndar verið lokað fyrir umferð þar eð hún lendir inn á öryggissvæði Akureyrarflugvallar. Myndin er tekin á góðviðrisdegi í ágúst 2010.  

 

 

 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1009, 6. apríl 1945.  Fundur nr. 1018, 26. maí 1945. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf


Jólakveðja

Óska ykkur öllum, nær og fjær gleðilegra jóla og góðs nýs árs.laughing

jólakveðja

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Jólamyndin þetta árið er tekin á nýársdag 2019, horft fram Eyjafjörð frá Torfunefi.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 31
  • Sl. sólarhring: 32
  • Sl. viku: 374
  • Frá upphafi: 446690

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 202
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband