22.12.2019 | 12:38
Hús dagsins: Möðruvallastræti 4
Þann 1. september 1939 réðust herir Þjóðverja inn í Pólland, og er sú dagsetning sögð marka upphaf Seinni Heimstyrjaldar í Evrópu. En það var nákvæmlega ári fyrr, 1. sept. 1938, sem Marinó L. Stefánsson kennari fékk úthlutaða lóð við Möðruvallastræti, næst sunnan við Helga Skúlason. Það var hins vegar ekki fyrr en vorið eftir, eða í maí 1939 sem honum var leyft að reisa hús samkvæmt meðfylgjandi teikningu og lýsingu. Ekki er að finna frekari útlistun á málum eða byggingarefni eða byggingargerð hússins í bókunum Bygginganefndar. En teikningar Halldórs Halldórssonar frá maí 1939 lýsa húsinu nokkuð ágætlega, þar sést m.a. að húsið er 8,20x9,00m að grunnfleti og undir hálfu húsinu kjallari, þar sem voru geymsla og þvottahús. Og að sjálfsögðu miðstöðvarklefi, því á þessum tíma voru flest hús kynt með kolum.
Möðruvallastræti 4 er einlyft steinsteypuhús á lágum grunni með einhalla, aflíðandi þaki (skúrþaki). Á bakhlið, eða til vesturs, er einlyft viðbygging sem einnig er steinsteypt. Pappi er á þaki og veggir með steiningarmúr og einfaldir lóðréttir póstar í gluggum.
Marinó Laxdal Stefánsson, sem byggði húsið, var fæddur að Refsstöðum í Laxárdal en uppalin á Skógum á Þelamörk. Hann var búfræðingur og kennari að mennt, og starfaði við kennslu allan sinn starfsaldur og raunar vel það, því hann mun hafa tekið einstaka börn í heimakennslu í rúman áratug eftir starfslok. Marinó bjó ekki í mörg ár hér, en hann fluttist suður 1945. Þar kenndi hann m.a. í Laugarnesskóla lengst af við Breiðagerðisskóla. Í um hálfa öld bjó hér Eðvarð Sigurgeirsson ljósmyndari og frá 1978 starfrækti hann ljósmyndastofu sína hér. Hann var í hópi ötulustu og þekktustu ljósmyndara landsins á 20. öld og var auk þess brautryðjandi í kvikmyndagerð. Hann kvikmyndaði m.a. leiðangra um hreindýraslóðir um 1940, og þá tók hann þátt í björgunarleiðangrinum sem sótti áhöfn Geysis á Bárðarbungu haustið 1950. Kvikmyndaði hann þar hið einstæða björgunarafrek. Eðvarð nam ljósmyndun hjá bróður sínum Vigfúsi, og tók við rekstri ljósmyndastofu hans á fjórða áratugnum. Margar ljósmyndir þeirra bræðra hafa birst t.d. í bókum og víðar og sýna margar hverjar Akureyri, hús og mannlíf á fyrri helmingi síðustu aldar og hafa ómetanlegt heimildagildi. Eðvarð bjó hér til æviloka, 1999 en hann var fæddur 1907.
Húsið hefur tekið nokkrum breytingum gegn um tíðina, en þó langt frá því að upprunalegt útlit hafi raskast mikið. Árið 1953 var byggt við húsið eftir teikningum Bjarna St. Konráðssonar og 1964 var þaki breytt úr flötu í einhalla, eftir teikningum Tómasar Böðvarssonar. Fékk húsið þá það lag sem það nú hefur. Í Húsakönnun 2016 hlýtur húsið 5. Stigs (af 8-9) eða miðlungs varðveislugildi sem hluti götumyndar, og þar segir að [...]saman mynda húsin við Möðruvallastræti 4, 6 og 8 áhugaverða húsaröð og götumynd fremur áþekkra húsa sem byggð eru undir áhrifum funksjónalisma. (Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2016: 89). Húsið er einfalt og látlaust funkishús og er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði og sama er að segja um gróðri prýdda lóðina, sem römmuð er inn með steyptum stöplum og járnavirki. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 27. október 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 822, 1. sept. 1938. Fundur nr. 833, 5. maí 1939. Fundur nr. 904, 27. mars 1942 Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2019 | 13:05
Hús dagsins: Möðruvallastræti 3
Möðruvallastræti 3 byggði Sveinn Frímannsson árið 1942. Hann fékk síðla árs 1941 lóð við hlið Þórðar Jóhannssonar, sem þá hafði nýlega reist hús sitt við Möðruvallastræti 1. Það er nokkuð einkennandi, þegar skoðaðar eru bókanir Bygginganefndar frá fyrri hluta 20. aldar, að staðsetningu lóða er lýst eftir afstöðu miðað við næstu lóðir og hús og númer þar sjaldséð. En Sveinn fékk byggingarleyfi fyrir húsi úr steinsteypu með steinlofti og steinþaki, ein hæð á kjallara. Stærð hússins að grunnfleti 11,20x9,80m. Teikningarnar að húsinu gerði Adam Magnússon (ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfi).
Möðruvallastræti 3 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Nyrsti hluti framhliðar, sem snýr mót vestri, skagar eilítið fram og í kverkinni á milli eru inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim. Krosspóstar eru í gluggum og horngluggar í anda funkisstefnunnar til suðurs. Bárujárn er á þaki en veggir múrsléttaðir.
Sveinn Frímannsson, sem byggði húsið, mun hafa búið hér til æviloka en hann lést aðeins 55 ára árið 1953, en hann var Skagfirðingur, er skráður á Lundi í Knappsstaðasókn í Manntali 1901. Síðar, eða á 6. og 7. áratugnum bjuggu hér þau Jenna og Hreiðar. Þau heiðurshjón, Jennu Jensdóttur og Hreiðar Stefánsson þarf sjálfsagt vart að kynna, en þau voru kennarar og rithöfundar, og starfræktu Smábarnaskóla á Eyrinni í tvo áratugi, eða frá 1942 til 1963 að þau fluttu til Reykjavíkur. Skóli þeirra var lengi vel starfræktur í Verslunarmannahúsinu við Gránufélagsgötu 9, sem var rifið fyrir áratugum. Bókaflokkur þeirra Jennu og Hreiðars um Öddu, einfaldlega kallaðar Öddubækurnar eru fyrir löngu orðnar sígildar en einnig sendu þau frá sér fjölmargar aðrar bækur fyrir börn og unglinga. E.t.v. voru einhverjar þeirra skrifaðar á Möðruvallastræti 3.
Í húsinu voru lengst af tvær íbúðir en sl. áratug hefur Möðruvallastræti 3 verið einbýlihús. Þá var húsið upprunalega með flötu þaki, en hefur einhvern tíma fengið valmaþak. Húsið er í mjög góðri hirðu, hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald og fengið ýmsa yfirhalningu, m.a. nýja glugga. Frágangur er allur hinn snyrtilegasti og tæplega áttrætt húsið sem nýtt að sjá. Í Húsakönnun 2016 hlýtur húsið 4. stigs varðveislugildi eða miðlungs, ekki talið hafa varðveislugildi umfram önnur hús við austanvert Möðruvallastrætið. (Í umræddri Húsakönnun eru varðveislugildisstigin 8, þar sem friðuð hús og friðlýst hljóta 8. Stigið). Myndin er tekin þann 27. október 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 892, 28. nóv 1941. Fundur nr. 892, 5. des 1941. Fundur nr. 904, 27. mars 1942 Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2019 | 12:15
Hús dagsins: Möðruvallastræti 1
Frá Helgamagrastrætinu færum við okkur yfir Grófargilið á Syðri Brekkuna...
Möðruvallastræti er gata á Syðri Brekkunni, skammt ofan og sunnan Grófargils. Liggur hún vestan við og samsíða Eyrarlandsvegi, þ.e.a.s í norður-suður á milli gatnanna Skólastígs og Hrafnagilsstrætis. Hún er að mestu leyti byggð á fjórða og fimmta áratug 20. aldar, ef undan er skilið hús nr. 1a sem byggt er 1919. (Taldist það hús lengi vel Eyrarlandsvegur 14b). Möðruvallastræti er um 140m að lengd.
Síðla vetrar og um vorið 1941 fékk Þórður Jóhannsson lóð við Möðruvallastrætið, beint á móti Helga Skúlasyni [Möðruvallastræti 2], og byggingaleyfi. Fékk Þórður að reisa íbúðarhús, eina hæð á kjallara, byggt úr járnbentri steinsteypu með flötu steinþaki. Teikningarnar að húsinu gerði Adam Magnússon, en talið er að Halldór Halldórsson hafi teiknað viðbyggingu til norðurs sem byggð var 1947. Þá gerði Jón Geir Ágústsson teikningar af efri hæð eða þakhæð hússins árið 1957.
Möðruvallastræti er steinsteypuhús, ein hæð með háu uppbyggðu valmaþaki og á háum kjallara. Þessi þakgerð er nokkuð sérstæð en nokkur dæmi eru um svona viðbætur á funkishús frá fimmta áratugnum hér í bæ; þ.e. mansard valmaþaki. Mjótt útskot er á framhlið og inngöngudyr og tröppur upp að þeim Á norðurhlið er útskot og svalir á efri hæð í kverkinni en einnig eru svalir til suðurs. Veggir eru með steiningarmúr en bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í gluggum.
Þegar Möðruvallastræti 1 er flett upp á timarit.is birtast einar 76 niðurstöður. Sú elsta er frá maí 1955, en þá tilkynnir María Ragnarsdóttir saumakona, að þangað sé hún flutt. En Þórður A. Jóhannsson, sem byggði húsið, starfaði sem húsgagnasmiður. Hann var uppalin á Hnjúki í Svarfaðardal. Hann byggði einnig hús í Eiðsvallagötu um 1930 og síðar í Hamragerði ofar á Brekkunni. Kona Þórðar var Signý Stefánsdóttir frá Fallandastöðum í Hrútafirði. Hún lést árið 2007, 101 árs að aldri en hún var fædd 1905. Bjuggu þau í Möðruvallastræti 1 um árabil, en ýmsir hafa þarna búið gegn um tíðina. Í tíð þeirra Þórðar og Signýjar var byggt við húsið til norðurs, 1947, og um 1958 var byggð hæð ofan á húsið eftir teikningum Jóns Geirs Ágústssonar. Þakhæðir, sambærilegar þeirri sem byggð var á Möðruvallastræti 1 má sjá á nokkrum funkishúsum frá fjórða og fimmta áratugnum, m.a. á Munkaþverárstræti 12, Helgamagrastræti 26 og Fjólugötu 18 á Oddeyri. Voru þær flestar byggðar um 1960. Húsið er þannig tekið þó nokkrum breytingum frá upphaflegri gerð, en er í góðu standi og lítur vel út.
Möðruvallastræti 1 er reisulegt hús í góðri hirðu og gefur þakhæðin húsinu óneitanlega sterkan og einkennandi svip. Segja má, að húsið sé stórbrotið og er það til mikillar prýði í götumynd sem lúrir undir háum stafni fyrrum Barnaskóla Akureyrar, eða Rósenborgar. Á lóðarmörkum er steypt girðing með stöplum og járnavirki. Húsakönnun 2016 metur Möðruvallastræti 1 með 3. stigs (af 7) varðveislugildi. Þrjár íbúðir eru í húsinu, hver á sinni hæð. Myndin er tekin þann 27. október 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 868, 7. mars 1941. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 871, 14. Apríl 1941. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Breytt 14.7.2023 kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2019 | 18:40
Hús við Helgamagrastræti
Hér eru greinar um húsin við Helgamagrastrætið, allar á einu bretti. Hús nr. 6 og 17 hafði ég tekið fyrir árið 2011 en annars hef ég tekið fyrir alla götuna, sem telur alls 43 hús frá 1-53. Vegferð þessi hófst um miðjan maí, og hefur þannig tekið um sjö mánuði, að frátöldu nokkurra vikna hléi þar sem ég tók fyrir hús á Oddeyrinni. En hér eru Helgamagrastrætishús:
Helgamagrastræti 1 1936
Helgamagrastræti 2 1937
Helgamagrastræti 3 1936
Helgamagrastræti 4 1936
Helgamagrastræti 5 1936
Helgamagrastræti 6 1937
Helgamagrastræti 7 1936
Helgamagrastræti 9 1936
Helgamagrastræti 10 1985
Helgamagrastræti 11 1937
Helgamagrastræti 12 1946
Helgamagrastræti 13 1937
Helgamagrastræti 15 1946
Helgamagrastræti 17 1945
Helgamagrastræti 19 1944
Helgamagrastræti 20 1946
Helgamagrastræti 21 1946
Helgamagrastræti 22 1945
Helgamagrastræti 23 1944
Helgamagrastræti 24 1946
Helgamagrastræti 25 1945
Helgamagrastræti 26 1949
Helgamagrastræti 27 1946
Helgamagrastræti 28 1945
Helgamagrastræti 30 1943
Helgamagrastræti 32 1943
Helgamagrastræti 34 1942
Helgamagrastræti 36 1945
Helgamagrastræti 38 1943
Helgamagrastræti 40 1947
Helgamagrastræti 42 1942
Helgamagrastræti 43 1949
Helgamagrastræti 44 1944
Helgamagrastræti 45 1945
Helgamagrastræti 46 1943
Helgamagrastræti 47 1942
Helgamagrastræti 48 1945
Helgamagrastræti 49 1942
Helgamagrastræti 50 1943
Helgamagrastræti 51 1945
Leikskólinn Hólmasól 2005
Meðaltal byggingarára húsa við Helgamagrastrætið er 1946,19, þ.a. meðalaldur húsa við götuna árið 2019 er um 73 ár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2019 | 18:27
Hús dagsins: Helgamagrastræti 53
Við Helgamagrastræti standa aðeins þrjú hús, sem byggð eru eftir 1950. Eru það Leikskólinn Hólmasól sem byggður er 2005, Helgamagrastræti 10 sem byggt er 1985 og Helgamagrastræti 53, sem jafnframt er nyrsta og lang-langstærsta hús götunnar. Helgamagrastræti er fimm hæða fjölbýlishús byggt 1990 eftir teikningum Hauks Haraldssonar. Að byggingunni, sem hófst 1988, stóð Híbýli hf. En ekki vildi betur til en svo haustið 1989 varð félagið gjaldþrota og kom Akureyrarbær að því að ljúka við bygginguna. Um innréttingu íbúða sáu SJS verktakar. Efsta hæðin er svokölluð penthouse nokkurs konar hús ofan á húsi, eða einbýli ofan á fjölbýli. Hún er minni að grunnfleti en húsið sjálft en þar eru tvær íbúðir. Annars eru fimm íbúðir á hverri af fjórum hæðum hússins, alls 22 íbúðir í öllu húsinu. Lesendur hafa eflaust veitt því athygli, að sá sem þetta ritar, minnist á það í hverri einustu húsagrein, að margir hafa búið eða ýmsir hafi búið í húsunum gegn um tíðina. Og enda þótt þetta hús sé miklum mun yngra en flest þau hús sem fjallað hefur verið um hér á það svo sannarlega við hér.
Helgamagrastræti 53 liggur raunar að þremur götum, norðurhlið snýr að Munkaþverárstræti sem tengist Þórunnarstræti og þverar Helgamagrastrætið, sem liggur áfram til norðurs og tengist Brekkugötu við Hamarkotsklöpp (Myllunef). Þar snýr húsið mót Lögreglustöðinni, sem stendur við Þórunnarstrætið. Og að þeirri götu snýr einmitt vesturhlið Helgamagrastrætis 53. Aðkoman að húsinu og bílastæði hússins austanmegin er hins vegar við Helgamagrastrætið og telst húsið því standa við þá götu. Helgamagrastræti 53 er eitt stærsta húsið á Ytri Brekkunni, hvað varðar hæð og rúmtak og er áberandi kennileiti. Hærri eru þó blokkirnar Baldurshagi og Myllan við neðst við Brekkugötu. En þó má halda því til haga, að enda þótt Helgamagrastræti 53 sé gjörólíkt nærliggjandi húsum að stærð og gerð, er húsið með valmaþaki líkt og funkishúsaröðin næst sunnan og ofan við. Húsakönnun 2015 telur ekki tímabært að meta varðveislugildi hússins, enda tiltölulega nýlegt til þess að gera. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.
Helgamagrastræti 53 er eitt þriggja húsa af 43 við Helgamagrastræti, sem byggð eru eftir 1950. Yngsta húsið er Leikskólinn Hólmasól, sem byggður er 2005 og liggur á milli húsa nr. 27 og 45 við götuna. Enda þótt leikskólinn og lóð hans sé þetta nýlegur má segja að hann standi á gömlum merg, því á þessari lóð var leikvöllur frá því um miðja 20. öld, að Helgamagrastrætið var að byggjast. Myndin af Hólmasól er tekin þann 7.desember 2019; og þarna má sjá græn lauf á trjám og runnum.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2019 | 17:28
Svipmyndir af vetrarveðri
Ekki þarf að fjölyrða um illviðrið sem gengið hefur yfir gjörvallt landið síðasta sólarhring. Rafmagns- og fjarskiptatruflanir, ófærð, rauðar viðvaranir og stórfellt eignatjón víða. Og ekki sér fyrir endann á hvellinum þegar þetta er ritað. Akureyri virðist hafa sloppið nokkuð vel miðað við önnur svæði, enda nokkuð gott var fyrir botni Eyjafjarðar undir háum Hlíðarfjöllum. Fannfergi er hins vegar nokkuð og svona var útlitið á Oddeyrinni á þriðja tímanum í dag, 11. desember. Þessar myndir eru teknar í Norðurgötunni, á þeirri efstu er horft austur Eyrarveg.
Þetta er svosem ekki fyrsti snjór vetrarins. Svona var umhorfs á fyrsta vetrardag, 26. október
Daginn eftir, 27. október, var ég á vappi um Syðri Brekkuna og ljósmyndaði m.a. Möðruvallastrætið. Hér er hús nr. 1 við þá götu, (sem verður einmitt "Hús dagsins" innan skamms).
Þennan fyrsta snjó tók raunar fljótt upp að mestu...svo sem þessar myndir, teknar hvern sinn sunnudaginn í nóvember bera með sér.
Á Svalbarðsströnd, 3. nóvember.
Horft fram Eyjafjörð, neðan við Hvamm þ. 17. nóv. Staðarbyggðarfjall og Tungnafjall böðuð í nóvembersólinni.
Hér er horft út Kræklingahlíðina frá veginum skammt norðan og neðan Lögmannshlíðar 24. nóvember.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2019 | 13:57
Hús dagsins: Helgamagrastræti 51
Helgamagrastræti 51, sem um áratugaskeið var nyrsta húsið við Helgamagrastræti vestanvert, reisti Hjörtur Björnsson. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1945 en árið 1943 fékk Hjörtur lóðina og byggingaleyfi fyrir steinsteyptu húsi á einni hæð með kjallara og með járnklæddu valmaþaki úr timbri. Stærð að grunnfleti 8,0x8,3m auk útskots að austan 1,4x4m. Teikningar gerði Tryggvi Jónatansson.
Húsið er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Slétt múrhúð er á veggjum og bárujárn á þaki, en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Horngluggar eru til suðurs og útskot á norðurhluta framhlið og inngöngudyr í kverkinni á milli, og steyptar tröppur að þeim.
Helgamagrastræti 51 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Hjörtur Björnsson búfræðingur og iðnverkamaður og kona hans, Þóra Haraldsdóttir munu hafa búið hér í ríflega áratug, en árið 1957 eru þau flutt að Vökuvöllum. Kenndi Hjörtur sig þann bæ æ síðan. Vökuvellir stóðu skammt norðan Naustabæja, þar sem nú eru göturnar Vaðlatún og Lækjartún í Naustahverfi. Hjörtur hefur líklega stundað einhvern búskap meðan hann bjó hér, en hann átti Hamarkotstúnið og gripahús þar, sem hann seldi árið 1954. Síðar voru lagðir stígar og trjám plantað á Hamarkotstúni, sem nú er eitt helsta græna svæði ytri Brekkunnar, en túnið liggur á milli Þórunnarstrætis og Byggðavegar norðan og ofan Sundlaugar. Margir hafa búið í Helgamagrastræti 51 eftir tíð þeirra Hjartar og Þóru. Húsið mun óbreytt frá upphafi, virðist traustlegt og í góðri hirðu og er til mikillar prýði í glæstri götumynd. Garðurinn er mjög gróskumikill, þar eru stæðileg tré af ýmsum gerðum, greni, reyni og birki og margt runnagróðurs. Á lóðarmörkum er einnig steyptur veggur með stöplum, eins og svo víða á ytri Brekkunni og er honum haldið vel við. Ein íbúð er í húsinu. Helgamagrastræti 51 hlýtur varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015 sem hluti hinnar áhugaverðu heildar sem funkishúsaröðin við Helgamagrastrætið er.
Helgamagrastrætið er líklega ein lengsta og heildstæðasta funkishúsaröð sem finna má á Akureyri.Efst og syðst eru Samvinnubyggingafélagshúsin, tveggja hæða með flötum þökum byggð fyrir 1940 en sunnar og neðar eru húsin stærri að grunnfleti og flestöll með valmaþökum. Þau hús eru flest byggð árin 1940-1945. Að undanskildum Helgamagrastræti 10 (1985), leikskólanum Hólmasól (2005) og fjölbýlishúsinu við nr. 53 (1990) er gatan öll byggð á árunum 1936-50. Sammerkt með lang flestum þessara húsa eru grónar lóðir með miklum trjágróðri, steyptir veggir, oft með járnavirki við lóðarmörk sem einnig mynda skemmtilega heild ásamt húsunum. Myndin af Helgamagrastræti 51 er tekin þann 3. maí 2019.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 945, 11. júní 1943. Fundur nr. 955, 3.sept. 1944. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 11.12.2019 kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2019 | 17:41
Hús dagsins: Helgamagrastræti 50
Guðmundur Tómasson byggingameistari hefur e.t.v. haft stórhuga áform um uppbyggingu nyrst og neðst við Helgamagrastrætið haustið 1941. Hann sótti um þrjár lóðir, þá nyrstu að vestan og tvær hinar á móti austan, en þær höfðu þá ekki fengið númer. Það var síðan á fundi Bygginganefndar þann 3. október 1941 sem Guðmundi var úthlutað lóðunum, sem fengu númerin 45, 47 og 50. Guðmundur byggði á tveimur þessara lóða, en syðri lóðina vestan megin, 45, fékk Páll Friðfinnsson síðar og byggði þar. En rúmu ári eftir að Guðmundur fékk lóðina Helgamagrastræti 50, nánar til tekið þann 23. október 1942 var honum leyft að byggja þarna hús; eina hæð á kjallara og með lágu valmaþaki. Húsið byggt úr steinsteypu, þak úr timbri og járnklætt og stærð hússins 9,22x7,82m auk útskota; 4,5x1,5m að vestan og 4,7x1,2m að sunnan. Ekki mun vitað hver teiknaði húsið. Mögulega hefur Guðmundur Tómasson bæði teiknað húsið og byggt.
Helgamagrastræti 50 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Steiningarmúr er á veggjum og bárujárn á þaki, en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Horngluggar eru til suðurs og útskot á norðurhluta framhlið. Í kverkinni á milli er inngangur á efri hæð og steyptar tröppur. Þak slúttir yfir inngang og myndar dyraskýli.
Guðmundur Tómasson mun ekki hafa búið þarna, heldur hefur líklega byggt þetta hús sem verktaki til sölu. Fyrstu eigendur hússins munu hafa verið þau Karl Arngrímsson og Karitas Sigurðardóttir, en þau keyptu húsið árið 1943, en það er einmitt skráð byggingarár hússins. Höfðu þau áður stundað búskap að Veisu í Fnjóskadal um árabil, en bæði voru þau fædd 1883 og stóðu því á sextugu þegar þau fluttu hingað. Voru þau bæði úr Fnjóskadal, Karl uppalin á Halldórsstöðum en Karitas á Draflastöðum. Hér bjuggu einnig synir þeirra, Arnór og Þórður og tengdadóttir, Steinunn Jónasdóttir, kona Þórðar. Eftir lát Karitasar, 1955, fluttist Karl ofar í Helgamagrastræti, nánar tiltekið í Helgamagrastræti 26 þar sem bjuggu dóttir hans Guðrún Karitas og tengdasonur, Sigurður Guðmundsson (Siggi Gúmm). Arnór og Þórður Karlssynir hlutu árið 1955 verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar fyrir garðinn en verðlaunin voru veitt eftir hverfum og hlaut garðurinn hér verðlaun Norðurbrekku. (Í greininni er talað um Norðurbrekkur í fleirtölu, en það mun hafa tíðkast ásamt heitinu Norðurbrekku í et. Og Ytri Brekku. Það síðast talda var líklega tamast en nú er oftar talað um Norðurbrekku, sbr. Húsakönnun 2015). Ræktun lá auðvitað vel fyrir Arnóri, en umræddur nafni síðuhafa var að sjálfsögðu þekktur sem Arnór í Blómabúðinni. Hann stundaði blómasölu í meira en hálfa öld. Eftir að þau Karl og Karitas fluttu hingað stunduðu þau ræktun á jörðinni Végeirsstöðum í Fnjóskadal, sem börn þeirra héldu svo ræktunarstarfinu áfram eftir þeirra dag. Löngu síðar, eða 1995, færði Arnór jörðina Háskólanum á Akureyri að gjöf, í minningu móður sinnar, og er þar síðan ræktunarstöð Háskólans. Þess má að sjálfsögðu geta, að Arnór arfleiddi Háskólann einnig að afrakstri langs ævistarfs síns til uppbyggingar að Végeirsstöðum. Aðdáunarverður rausnarskapur.
Helgamagrastræti 50 er traustlegt og glæsilegt hús og í mjög góðri hirðu. Lóðin er líklega nokkuð breytt frá tíð þeirra bræðra Arnórs og Þórðar en engu að síður vel gróin og í góðri hirðu, eins og flestar lóðir við Helgamagrastrætið. Húsið er í góðri hirðu, nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 886. 3. okt. 1941. Fundur nr. 930, 23. okt. 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2019 | 11:41
Hús dagsins: Helgamagrastræti 49
Helgamagrastræti 49 byggði Böðvar Tómasson byggingameistari eftir eigin teikningum. Hann fékk lóðina og byggingaleyfi vorið 1942. Böðvar fékk að byggja hús úr steinsteypu, eina hæð með kjallara undir hálfu húsinu, að stærð 10x7,72m auk útskots að stærð 1,25x4,40m. Byggingaleyfið var veitt með því skilyrði, að húsið yrði byggt með valmaþaki en Böðvar sóttist eftir því að hafa þakið með skúrlagi líklega einhalla aflíðandi. Þannig má telja ljóst, að bygginganefnd hefur lagt áherslu á, að húsin við götuna bæru sama svipmót þ.e. öll með valmaþaki.
Húsið er einlyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með lágu valmaþaki. Steiningarmúr er á veggjum og bárujárn á þaki, en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Horngluggar eru til suðurs og útskot á norðurhluta framhlið. Í kverkinni á milli er inngangur og slútir þak yfir. Áfast suðurhlið hússins er sólpallur úr timbri.
Böðvar Tómasson byggingameistari og kona hans, Kristín Jóhannesdóttir, sem byggðu Helgamagrastræti 49 bjuggu hér allt til dánardægra, en hún lést árið 1981 og hann tíu árum síðar (hafði þá dvalið á Dvalarheimilinu Hlíð um nokkurt skeið). Böðvar var frá Bústöðum í Austurdal í Skagafirði en hún frá Syðra Hvarfi í Skíðadal. Bróðir Böðvars var Eyþór Tómasson framkvæmdastjóri, sem Akureyringar þekktu og þekkja auðvitað enn sem Eyþór í Lindu. Böðvar og Kristín voru metnaðarfull og vandvirkt garðyrkjufólk og byggðu gróðurhús á lóðinni. Þar mun Kristín hafa unað löngum stundum við ræktun rósa og annarra skrautblóma. Kristín Jóhannesdóttir, sem kenndi sig við Syðra Hvarf var skáld og sendi frá sér ljóðabækur, Liljur í lundi (1962) og Rósir í runni (1965). Eflaust hefur garðræktin í gróðurhúsinu og garðinum við Helgamagrastræti 49 veitt henni innblástur, svo sem ráða má af titilljóði síðarnefndu bókarinnar; Rósir í runni:
Ég vil rækta rósir
i runni við mitt hús.
Það eykur yndi og gleði,
ég er til þess svo fús.
A sælu sumarkveldi
ég sit og horfi á þær.
Ein er hvítust allra,
hún er svo fin og skær.
Hér er rauða rósin,
sem regnið vætti i dag.
Hun breiðir út blöðin fögru
svo blítt um sólarlag.
Og rósin gula gleður,
með grænu blöðin sin.
Það hlýjar mér um hjarta
að hugsa um blómin mín.
Nú moldin milda angar,
svo mjúk við foldarbarm.
Og nóttin, þýð og þögul,
þreyttan hvílir arm.
Kristín Jóhannesdóttir frá Syðra Hvarfi.
Sjálfsagt heyrir margt af rósum og runnum Kristínar og Böðvars sögunni til, en engu að síður er lóðin enn þann í dag mjög gróskumikil. Þar standa nokkur stæðileg lerkitré og fleiri tré, sem þau heiðurshjón hafa eflaust gróðursett á sínum tíma. Húsið er nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og í góðri hirðu. Ein íbúð er í húsinu og hefur verið svo alla tíð.
Helgamagrastræti 49 er næst nyrsta húsið í langri funkishúsaröð við Helgamagrastrætið og hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af þeirri áhugaverðri heild. Frá upphafi virðist einmitt hafa verið lögð áhersla á, að götumyndin væri samstæð og heildstæð, sbr. þá staðreynd, að Böðvari var uppálagt að byggja hús sitt með valmaþaki en ekki skúrþaki. Enda er það svo, að öll íbúðarhúsin, hvert og einasta við Helgamagrastrætið frá nr. 32-51 eru með valmaþaki. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 30. apríl 1942. Fundur nr. 8. maí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Kristín Jóhannesdóttir. (1965). Rósir í runni. Selfoss; Prentsmiðja Suðurlands.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2019 | 10:56
Hús dagsins: Helgamagrastræti 48
Helgamagrastræti 48 reistu þeir feðgar Kolbeinn Ögmundsson og Ögmundur Ólafsson árið 1945, eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Kolbeinn fór fyrir þeim feðgum í samskiptum við Bygginganefnd og var honum úthlutuð lóðin á útmánuðum 1944 og fékk á henni byggingarleyfi . Kolbeini var heimilað að byggja hús úr steinsteypu, eina hæð á kjallara og með valmaþaki. Stærð að grunnfleti 9,15x7,3m auk útskots að stærð 3,8x1,4m að vestan.
Helgamagrastræti 48 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki (kjallari raunar svo hár, að segja mætti húsið tvílyft). Í gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum, og horngluggar til SA. Útskot er nyrst á framhlið (vesturhlið) og í kverkinni á milli inngöngudyr á efri hæð og steyptar tröppur upp að þeim.
Kolbeinn Ögmundsson sem reisti húsið, var fæddur í Hafnarfirði. Hann var búfræðingur að mennt en gegndi lengst af stöðu framkvæmdastjóra hjá Kassagerð KEA. Kona hans var Guðfinna Sigurgeirsdóttir frá Flatey á Skjálfanda. Þau bjuggu hér um áratugaskeið en þau fluttu til Hafnarfjarðar árið 1981. Faðir Kolbeins, Ögmundur Ólafsson og seinni kona hans Oddný Sigurgeirsdóttir bjuggu einnig hér, en húsið er tvíbýli frá upphafi, eins og svo mörg tveggja hæða húsin við Helgamagrastræti. Húsið hefur líklega alla tíð hlotið gott viðhald og er til mikillar prýði í glæstri götumynd. Það er nánast óbreytt frá upphafi, gluggapóstar í samræmi við upprunalegar teikningar og ekki hefur verið byggt við það, svo fátt eitt sé nefnt. Á lóðarmörkum er girðing með steyptum stöplum með steiningarmúr og járnavirki og er henni vel við haldið. Aðdáunarvert má heita, hversu margar stein- og járnavirkisgirðingar standa enn við Helgamagrastrætið (og margar aðrar götur frá miðbiki 20. aldar) og hafa verið haldið vel við.
Helgamagrastræti 48 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 968, 17. mars 1944. Fundur nr. 986, 18. ágúst 1944. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.5.): 4
- Sl. sólarhring: 28
- Sl. viku: 332
- Frá upphafi: 446694
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 174
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar