Hús dagsins: Hríseyjargata 14

Haustið 1940 stóðu engin hús við Hríseyjargötu norðan Eiðsvallagötu, en þá fékk Bjarni Þorbergsson trésmiður lóðina norðan við hornlóð þessara tveggja gatna. Upphaflega sóttist hann eftir hornlóðinni en fékk ekki, einhverra hluta vegna. Þar byggði Stefán Snæbjörnsson hins vegar húsið Eiðsvallagötu 13 árið 1943.PB180852

En Bjarni fékk semsagt þessa lóð, og fékk að byggja þar járnvarið timburhús , 7x11m að stærð. Ekki fer frekari sögum af byggingum Bjarna í bókunum Byggingarnefndar.  Ein elsta heimild sem timarit.is finnur um Hríseyjargötu 14 er frá vorinu 1945, þar sem Bjarni Þorbergsson auglýsir til sölu nokkur hunduð r-steina. Því er ekki óvarlegt að áætla, að húsið sé reist úr r-steini. Bjarni byggði á lóðinni verkstæðisskúr þar sem hann vann að iðn sinni, og smíðaði hann flestallar trésmíðavélar sínar sjálfur frá grunni sem og handverkfæri. (Árið 1941 voru auðvitað hvorki til Verkfæralagerinn né Húsasmiðjan). Bjó hann hér alla tíð eftir að hann reisti húsið, en hann lést 1964. Ekkja Bjarna, Guðrún Guðmundsdóttir bjó hér einnig til æviloka eða 1984. Bjarni og Guðrún voru bæði að vestan, nánar tiltekið frá Arnarfirði.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og er líklega að mestu óbreytt frá upphafi þ.e. að ytra byrði.  Líkt og flest öll húsin við Hríseyjargötuna er húsið í góðri hirðu og til prýði, og hluti af þessari skemmtilegu heild einlyftra funkishúsa með valmaþökum sem finna má við nyrðri hluta Hríseyjargötu og Ægisgötu. Ekki þekki ég hvort húsakönnun hafi verið unnin fyrir þetta svæði þ.a. hugsanlegt varðveislugildi hússins liggur ekki fyrir, mér vitanlega. En svo sem fram kom í pistlinum um Hríseyjargötu 13 tel ég, sem áhugamaður sem leyfir sér að hafa á því skoðun, hiklaust að þessar umræddu heildir að Hríseyjargötu 14 meðtalinni, ættu að hafa varðveislugildi. Myndin er tekin þann 18. nóvember 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935 - 40. Fundur nr. 854, 6. sept. 1940. Fundur 858, 11. okt. 1940. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Hríseyjargata 13

Eftir að hafa haldið mig við neðri hluta Ytri brekku um all nokkurt skeið færi ég mig um set úr miðjum Bjarkarstíg. Þaðan er einmitt stórkostlegt útsýni niður á Oddeyri, en þangað skal einmitt haldið. Nánar tiltekið á Hríseyjargötu en við nyrsta hluta hennar, stendur skemmtileg heild tiltölulega smárra steinhúsa í funkisstíl frá fimmta áratug 20. aldar (1940-45). Er hún nokkuð áþekk húsaröðinni geðþekku við næstu götu vestan við, Ægisgötu, en sú röð er örlítið eldri (b. 1936-40) en Hríseyjargöturöðin. Hríseyjargata liggur til norðurs frá Strandgötu, en ysti hlutinn, sem er umfjöllunarefni næstu vikna er á milli Eiðsvallagötu í suðri og Eyrarvegar í norðri. 

Sumarið 1942 sækir Ásgeir Austfjörð um lóð og byggingarleyfi f.h.PB180851 Björns L. Jónssonar við Hríseyjargötu. Birni er heimilað að reisa íbúðarhús, eina hæð með valmaþaki með kjallara undir 2/3. Grunnflötur hússins 14,6x8,9m auk útskots að SA 1,2x6,1m. Ekki fylgir sögunni hver teiknaði en ef ég ætti að giska á mögulegan höfund hússins myndi ég veðja á Tryggva Jónatansson. Hríseyjargata 13 er nokkuð dæmigert einnar hæðar funkishús, með lágu valmaþaki og horngluggum. Í gluggum eru lóðréttir þverpóstar með opnanlegum þverfögum en bárujárn á þaki og veggir múrsléttaðir. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús og ýmsir búið hér í gegn um tíðina. Þarna bjó um árabil Jórunn Bjarnadóttir ljósmóðir, frá Geitabergi í Svínadal. Hún var um langt skeið, fyrir tíma Fjórðungssjúkrahússins, eina starfandi ljósmóðirin á Akureyri og tók þannig á móti allflestum börnum sem fæddust í bænum á þessum árum. Hún mun hafa ræktað garðinn við húsið og hefur mögulega gróðursett birkitrén sem prýða lóðina framanverða. Ein íbúð er í húsinu. Mér vitanlega hefur ekki verið gefin út Húsakönnun fyrir Oddeyrina norðan Eiðsvallagötu ( mögulega er hún þó til einhvers staðar) þannig að varðveislugildi húsanna við Hríseyjargötu norðanverða liggur ekki fyrir. Væri ég spurður álits myndi ég segja að Hríseyjargata 13 ætti hiklaust að hljóta varðveislugildi. Húsið er í góðu standi og lítið sem ekkert breytt frá upprunalegri gerð. Þá hefði ég sagt, að hinar heillegu þyrpingar einlyftu funkishúsanna við Ægisgötu og Hríseyjargötu ættu að hafa ótvírætt varðveislugildi, ef ekki friðaðar, sem merkar og skemmtileg heildir. Myndin er tekin þann 18. nóvember 2018.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Bjarkarstígur 6; Davíðshús (áður birtur pistill ásamt viðbótum)

Um Davíðshús skrifaði ég hér á þessa síðu snemma árs 2011. Ég hef  oftast nær þá stefnu, að láta þau skrif sem ég hef þegar birt standa, enda þótt ég komist að nýjum upplýsingum um viðkomandi hús. Ástæðan er einfaldlega sú, að ef ég ætlaði að bæta við pistla eða skrifa nýja í hvert skipti sem ég fengi að vita eitthvað nýtt um húsin gerði ég lítið annað. Á þessu eru vitaskuld undantekningar. Fái ég að vita, að eitthvað sem ég hef skrifað sé beinlínis rangt leiðrétti ég það auðvitað. Svo er sjálfsagt að endurbirta og minna á gamla pistla, einhverjir þeirra eru orðnir illaðgengilegir. Og nú ber þannig undir, að röðin er komin að Davíðshúsi í umfjöllun um Bjarkarstíg. Ég hyggst þannig endurbirta fyrri pistil, með „uppfærslum“. Árið 2011 skrifaði ég eftirfarandi um Davíðshús:

Það eru nokkur hús hér á Akureyri sem ég hef sett mér sem skylduviðfang, P2020112fyrst ég er að fjalla um skrautleg og/eða sögufræg hús hér í bæ. Eitt þeirra fór ég að ljósmynda ( ásamt fáeinum öðrum) í dag en þetta hús stendur við eina bröttustu götu bæjarins, Bjarkarstíg, nánar tiltekið Bjarkarstíg 6. En þetta er Davíðshús, kennt við Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) en húsið reisti hann árið 1944 og bjó þar til dánardags. Húsið er steinsteypt, einlyft á kjallara, grunnflötur nánast ferningslaga með valmaþaki; með nokkuð dæmigerðu lagi steinhúsa þess tíma en dálítið stærra og veglegra en almennt gekk og gerðist. Akureyrarbær erfði húsið eftir Davíð og er þar varðveitt mikið bókasafn hans og vistarverur eins og þær voru í hans tíð; í rauninni er engu líkara en að skáldið hafi bara brugðið sér frá í kaffi. Þar er einnig íbúð fyrir fræðimenn og rithöfunda sem leigð er út. Hér má finna nánari upplýsingar um Davíðshús. Myndin er tekin fyrr í dag, 2.2.2011.

Þetta er að sjálfsögðu gott og gilt, nema hvað húsið var líklega byggt á bilinu 1942-44, skv. Húsakönnun 2015 er byggingarárið 1943.PA090816 Um upprunasöguna er það að segja skv. bókunum Byggingarnefndar, að það var í árslok 1941 að Davíð Stefánsson sótti um að fá byggingarlóð við framlengingu á Krabbastíg, 3. Lóð neðan frá, beint suður af klöppinni. Bygginganefnd frestaði hins vegar að taka ákvörðun, þar eð óraðið var hvenær gatan yrði lögð. Leið og beið veturinn 1942, fram á vor og sumar og 5. júní ítrekaði Davíð beiðni sína um lóð og fékk en þó með þeim fyrirvara að gatan yrði mögulega ekki lögð það sumarið. Og það var loks í júlíbyrjun 1942 sem Davíð fékk byggingarleyfi, ásamt þeim Adam Magnússyni og Gaston Ásmundssyni. Þannig voru byggingarleyfin fyrir öll þrjú húsin við Bjarkarstíginn norðanverðan afgreidd á einum og sama fundi Byggingarnefndar 3. júlí 1942. En Davíð fékk að reisa íbúðarhús á lóð sinni, eina hæð með valmaþaki og kjallara undir 2/3 hluta hússins. Stæðri 14,6x8,9m auk útskots að NV, 1,2x6,1m. Teikningarnar gerði Hörður Bjarnason.  Davíð Stefánsson og hans verk þarf vart að kynna fyrir lesendum, en hann bjó hér allt til dánardægurs 1964. Davíðshús var friðlýst skv. Þjóðminjalögum af bæjarstjórn Akureyrar árið 1977, og friðað í A-flokki sem var alhliða friðun, að innan jafnt sem utan. Menningarsögulegt gildi hússins er auðvitað mikið og ótvírætt en húsið sjálft er einnig mjög skemmtilegt að gerð, sérstakt funkishús. Það sem e.t.v. setur helst svip sinn á húsið er sveigt valmaþakið, miklar tröppur með sveigðu handriði og stór gluggi með voldugri umgjörð á framhlið. Lóðin er einnig mjög smekkleg og gróin, og á Minjasafnið  heiður skilinn fyrir smekkvísi og afbragðs viðhald á Davíðshúsi. Í húsinu er sem áður segir, safn og fræðimannsíbúð. Færslunni fylgja tvær myndir, teknar 2. febrúar 2011 annars vegar og 9. okt. 2018 hins vegar.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 894, 29. des 1941. Fundur nr. 913, 5. júní 1942. Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Hús dagsins: Bjarkarstígur 5

Vorið 1943 fékk Sigurður Svanbergsson lóð við sunnanverðan KrabbastígPA090813 (sem hlaut nafnið Bjarkarstígur fáeinum vikum síðar), beint á móti húsi Davíðs Stefánssonar, sem þá var nýlega risið, og vestur af lóðum Friðjóns Axfjörð, þ.e. Bjarkarstíg 1 og 3, en þar risu ekki hús fyrr en nokkrum árum síðar. Húsið reisti Sigurður eftir eigin teikningum, fullbyggt var húsið 1946, en lýsingu virðist ekki að finna í fundargerðum Byggingarnefndum (að venju með fyrirvara um, að höfundur hafi ekki leitað til fulls).

 En Bjarkarstígur 5 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki þaki. Á norðurhlið eru steyptar tröppur á efri hæð og snúa þær til vesturs en á suðurhlið eru svalir. Einfaldir þverpóstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og veggir múrhúðaðir. Húsið hefur verið íbúðarhús með tveimur íbúðum, líklega frá upphafi og hefur lítið verið breytt að ytra byrði. Sigurður Svanbergsson, sem byggði þetta hús og bjó ásamt fjölskyldu sinni um árabil gegndi stöðu Vatnsveitustjóra um áratugaskeið, eða frá 1954 til 1990. Faðir hans, Svanberg Sigurgeirsson frá Lögmannshlíð hafði áður gegnt sama starfi á fyrri hluta 20. aldar, en Sigurður starfaði við Vatnsveituna frá barnsaldri og allt til sjötugs eða til ársins 1990. Á fimmta áratugnum bjó hér einnig Sigurður Eyvald,  sem afgreiddi blaðið Alþýðumanninn  héðan. Ritstjóri blaðsins, Bragi Sigurjónsson var einmitt búsettur í húsinu fyrir ofan, Bjarkarstíg 7.

En Bjarkarstígur 5 er glæsilegt funkishús í afbragðs góðri hirðu og lítur vel út. Í Húsakönnun 2015  er það sagt hluti af heild samstæðra en ólíkra húsa og hefur 1. stigs varðveislugildi. Á lóðarmörkum er steyptur kantur með stöplum og járnavirki. Veggurinn fylgir  landhallanum skemmtilega, en Bjarkarstígur er afar brattur þarna. Sá  veggur er upprunalegur og er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði líkt og húsið sjálft og lóðin. Lóðin er vel gróin og þar má m.a. finna nokkur gróskumikil birkitré. Sem er þó nokkuð viðeigandi, á Bjarkarstíg. Myndin er tekin þann 9. október 2018.

 Heimildir:  Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 943, 28. maí 1943. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Bjarkarstígur 4

Árið 1942 sótti Gaston Ásmundsson múrari um lóð við Krabbastíg, þá þriðju fráPA090814 Helgamagrastræti en fær ekki í fyrr en í annarri tilraun, og er þá tekið fram, að gatan verði ekki lögð þessa leið það sumarið (1942). Ári síðar fær hann lóðarleigu framlengda um eitt ár, en um sama leiti fékk þessi efri hluti Krabbastígs heitið Bjarkarstígur. Gaston fékk leyfi til að reisa hús úr steinsteypu með flötu steinþaki, 13,10x9,75m ásamt útskoti að austan 1x6,5m og útskoti að sunnan 1x4,6m, ein hæð á kjallara. Teikningarnar gerði Friðjón Axfjörð, sem einmitt byggði húsið á móti, Bjarkarstíg 3.

Bjarkarstígur 4 er einlyft steinsteypuhús með flötu þaki og á háum kjallara. Gluggar eru með einföldum lóðréttum póstum og horngluggar í anda funkisstefnunnar m.a. á NV horni. Útskot að framan er með ávölum brúnum og á SA horni hússins eru svalir í kverkinni milli suður- og austur útskota. Á vesturhlið eru steyptar tröppur upp að inngöngudyrum. Lítið þakhýsi stendur upp úr flötu þaki, líkt og brú á skipi og gefur húsinu sinn sérstaka og sérlega skemmtilega svip. Húsin númer 3 og 4 við Bjarkarstíg eru hvort um sig sérlega reisuleg og sérstök funkishús. Bæði eru þau reist eftir teikningum Friðjóns Axfjörð, en Gaston Ásmundsson gekk einmitt í félag við hann og saman stóðu þeir að hinum ýmsu stórbyggingum. Má þar nefna Hússtjórnarskólann á Laugalandi og Gagnfræðaskólann á Akureyri. Þeir samstarfsmennirnir bjuggu þó ekki í mörg ár hvor á móti öðrum, því árið 1948 eignaðist og fluttist í húsið  Jón G. Sólnes, bankastjóri og síðar alþingismaður, ásamt fjölskyldu sinni og bjó hann þarna til allt til æviloka 1986.

 En húsið, sem er allsérstætt og svipmikið er metið með 2. stigs varðveislugildi, sem „vel útfært funkishús emð vísun til erlendra fyrirmynda“. Ekki spillir fyrir, að húsið er í mjög góðu standi og hefur sjálfsagt alla tíð hlotið gott viðhald. Lóðin er einnig stór og vel gróin m.a. gróskumiklum reynitrjám. Á bakvið húsið er dálítill túnbleðill ásamt klöpp, semP5130723 löngum hefur nýst íbúum Bjarkarstígs, Helgamagrastrætis og Munkaþverárstrætis til leikja, útivistar, ánægju og yndisauka. Þaðan er gott útsýni yfir Oddeyri og yfir Pollinn, eins og sjá á meðfylgjandi mynd sem tekin er á fögrum vordegi, sunnudaginn 13. maí 2018 og horft til SA. Myndin af húsinu er tekin þ. 9. Okt. 2018, og þarna má sjá virðulegan Land Rover, árgerð líklega nærri 1970 í hlaðvarpanum. Sjálfsagt er saga hans ekki ómerkari en hins glæsta 75 ára gamla funkishúss á Bjarkarstíg 4.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.900, 28. feb 1942 . Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Fundur nr. 943, 11. júní 1943. Fundur nr. 955, 3. sept. 1943. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Hús dagsins: Bjarkarstígur 3

Bjarkarstíg 3 reisti Friðjón Axfjörð  múrarameistari árið 1945. PA090810Friðjón fékk árið 1942 leigðar tvær neðstu lóðir við Krabbastíg, en þær voru inni í trjágarði sem tilheyrðu húsi hans við Munkaþverárstræti 13.  Þremur árum síðar fékk hann að byggja hús eftir eigin teikningum úr steinsteypu, ein hæð á kjallara með steingólfi, 13,5x6,35m auk útskota til suðurs, 5,45x7,65m að stærð og til norðurs, 2,1x1,25m. Þess má geta, að í millitíðinni hafði gatan skipt um nafn, en árið 1943 var ákveðið að gatan, sem átti að vera framhald Krabbastígs héti Bjarkarstígur sem hún heitir og síðan.

En Bjarkarstígur 3 er nokkuð stórbrotið funkishús, einlyft á háum kjallara, gæti jafnvel talist tvílyft austanmegin þar sem lóð er lægst en hæðarmismunur er nokkur á lóðum á þessu svæði. Húsið er með flötu þaki og með lóðréttum póstum í gluggum. Þakklæðning er sögð óþekkt í Húsakönnun 2015, en þakdúkur er ekki óalgengur á flötum þökum sem þessum. Friðjón Axfjörð sem byggði húsið, nam múriðn af Tryggva Jónatanssyni og mun m.a. fyrstur manna á Eyjafjarðarsvæðinu lært hleðslu verksmiðjukatla. Átti hann heiðurinn af kötlum í Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, Skagaströnd og Raufarhöfn. Félagi hans í iðninni var Gaston Ásmundsson, en hann byggði einmitt húsið á móti, Bjarkarstíg 4 eftir teikningum Friðjóns. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en sjálfsagt eiga einhverjir erfitt með að  trúa því að í Bjarkarstíg 3 hafi verið rekin bílasala ! Enda er það svo, að bílasölur nútímans þekja oftar en ekki heilu hektarana af bílum. En það er nú engu að síður svo, að á 6. og 7. áratug 20. aldar rak Baldur Svanlaugsson bifreiðasölu sína þarna. En það var raunar ekki óalgengt að bílasölur væru inni í hverfum enda voru bílasölur þess tíma yfirleitt mun smærri í sniðum en bílasölur nútímans, þar sem fleiri hektarar eru þétt skipaðir bílum. Bjarkarstígur 3 er snyrtilegt og vel við haldið hús; virðist raunar sem nýtt að sjá og til mikillar prýði, eða eins og segir í Húsakönnun 2015: „Reisulegt og óvenjulegt funkishús sem sómir sér vel í götumyndinni [...]“ (Ak. Bær, Teiknistofa Arkitekta o.fl. 2015: 30) Lóðin er auk þess vel gróin, m.a. birki og reynitrjám. E.t.v. er þar að finna einhver tré sem Friðjón Axfjörð gróðursetti á fimmta áratug 20. aldar. Myndin er tekin þann 9. október 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Fundur nr. 1024, 20. júlí 1945. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2018
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 37
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 327
  • Frá upphafi: 420202

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 237
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband