Hús dagsins: Bjarkarstígur 4

Árið 1942 sótti Gaston Ásmundsson múrari um lóð við Krabbastíg, þá þriðju fráPA090814 Helgamagrastræti en fær ekki í fyrr en í annarri tilraun, og er þá tekið fram, að gatan verði ekki lögð þessa leið það sumarið (1942). Ári síðar fær hann lóðarleigu framlengda um eitt ár, en um sama leiti fékk þessi efri hluti Krabbastígs heitið Bjarkarstígur. Gaston fékk leyfi til að reisa hús úr steinsteypu með flötu steinþaki, 13,10x9,75m ásamt útskoti að austan 1x6,5m og útskoti að sunnan 1x4,6m, ein hæð á kjallara. Teikningarnar gerði Friðjón Axfjörð, sem einmitt byggði húsið á móti, Bjarkarstíg 3.

Bjarkarstígur 4 er einlyft steinsteypuhús með flötu þaki og á háum kjallara. Gluggar eru með einföldum lóðréttum póstum og horngluggar í anda funkisstefnunnar m.a. á NV horni. Útskot að framan er með ávölum brúnum og á SA horni hússins eru svalir í kverkinni milli suður- og austur útskota. Á vesturhlið eru steyptar tröppur upp að inngöngudyrum. Lítið þakhýsi stendur upp úr flötu þaki, líkt og brú á skipi og gefur húsinu sinn sérstaka og sérlega skemmtilega svip. Húsin númer 3 og 4 við Bjarkarstíg eru hvort um sig sérlega reisuleg og sérstök funkishús. Bæði eru þau reist eftir teikningum Friðjóns Axfjörð, en Gaston Ásmundsson gekk einmitt í félag við hann og saman stóðu þeir að hinum ýmsu stórbyggingum. Má þar nefna Hússtjórnarskólann á Laugalandi og Gagnfræðaskólann á Akureyri. Þeir samstarfsmennirnir bjuggu þó ekki í mörg ár hvor á móti öðrum, því árið 1948 eignaðist og fluttist í húsið  Jón G. Sólnes, bankastjóri og síðar alþingismaður, ásamt fjölskyldu sinni og bjó hann þarna til allt til æviloka 1986.

 En húsið, sem er allsérstætt og svipmikið er metið með 2. stigs varðveislugildi, sem „vel útfært funkishús emð vísun til erlendra fyrirmynda“. Ekki spillir fyrir, að húsið er í mjög góðu standi og hefur sjálfsagt alla tíð hlotið gott viðhald. Lóðin er einnig stór og vel gróin m.a. gróskumiklum reynitrjám. Á bakvið húsið er dálítill túnbleðill ásamt klöpp, semP5130723 löngum hefur nýst íbúum Bjarkarstígs, Helgamagrastrætis og Munkaþverárstrætis til leikja, útivistar, ánægju og yndisauka. Þaðan er gott útsýni yfir Oddeyri og yfir Pollinn, eins og sjá á meðfylgjandi mynd sem tekin er á fögrum vordegi, sunnudaginn 13. maí 2018 og horft til SA. Myndin af húsinu er tekin þ. 9. Okt. 2018, og þarna má sjá virðulegan Land Rover, árgerð líklega nærri 1970 í hlaðvarpanum. Sjálfsagt er saga hans ekki ómerkari en hins glæsta 75 ára gamla funkishúss á Bjarkarstíg 4.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.900, 28. feb 1942 . Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Fundur nr. 943, 11. júní 1943. Fundur nr. 955, 3. sept. 1943. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Hús dagsins: Bjarkarstígur 3

Bjarkarstíg 3 reisti Friðjón Axfjörð  múrarameistari árið 1945. PA090810Friðjón fékk árið 1942 leigðar tvær neðstu lóðir við Krabbastíg, en þær voru inni í trjágarði sem tilheyrðu húsi hans við Munkaþverárstræti 13.  Þremur árum síðar fékk hann að byggja hús eftir eigin teikningum úr steinsteypu, ein hæð á kjallara með steingólfi, 13,5x6,35m auk útskota til suðurs, 5,45x7,65m að stærð og til norðurs, 2,1x1,25m. Þess má geta, að í millitíðinni hafði gatan skipt um nafn, en árið 1943 var ákveðið að gatan, sem átti að vera framhald Krabbastígs héti Bjarkarstígur sem hún heitir og síðan.

En Bjarkarstígur 3 er nokkuð stórbrotið funkishús, einlyft á háum kjallara, gæti jafnvel talist tvílyft austanmegin þar sem lóð er lægst en hæðarmismunur er nokkur á lóðum á þessu svæði. Húsið er með flötu þaki og með lóðréttum póstum í gluggum. Þakklæðning er sögð óþekkt í Húsakönnun 2015, en þakdúkur er ekki óalgengur á flötum þökum sem þessum. Friðjón Axfjörð sem byggði húsið, nam múriðn af Tryggva Jónatanssyni og mun m.a. fyrstur manna á Eyjafjarðarsvæðinu lært hleðslu verksmiðjukatla. Átti hann heiðurinn af kötlum í Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, Skagaströnd og Raufarhöfn. Félagi hans í iðninni var Gaston Ásmundsson, en hann byggði einmitt húsið á móti, Bjarkarstíg 4 eftir teikningum Friðjóns. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en sjálfsagt eiga einhverjir erfitt með að  trúa því að í Bjarkarstíg 3 hafi verið rekin bílasala ! Enda er það svo, að bílasölur nútímans þekja oftar en ekki heilu hektarana af bílum. En það er nú engu að síður svo, að á 6. og 7. áratug 20. aldar rak Baldur Svanlaugsson bifreiðasölu sína þarna. En það var raunar ekki óalgengt að bílasölur væru inni í hverfum enda voru bílasölur þess tíma yfirleitt mun smærri í sniðum en bílasölur nútímans, þar sem fleiri hektarar eru þétt skipaðir bílum. Bjarkarstígur 3 er snyrtilegt og vel við haldið hús; virðist raunar sem nýtt að sjá og til mikillar prýði, eða eins og segir í Húsakönnun 2015: „Reisulegt og óvenjulegt funkishús sem sómir sér vel í götumyndinni [...]“ (Ak. Bær, Teiknistofa Arkitekta o.fl. 2015: 30) Lóðin er auk þess vel gróin, m.a. birki og reynitrjám. E.t.v. er þar að finna einhver tré sem Friðjón Axfjörð gróðursetti á fimmta áratug 20. aldar. Myndin er tekin þann 9. október 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Fundur nr. 1024, 20. júlí 1945. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Hús dagsins: Bjarkarstígur 2

Adam Magnússon trésmíðameistari sóttist snemma árs 1942 eftir PA090811lóð við Krabbastíg og fékk næstu lóð vestan við Pál Pálsson, þ.e. Munkaþverárstræti 17. Þegar honum var úthlutað lóðin var jafnframt tekið fram, að gatan yrði ekki lögð að Helgamagrastræti það sumarið [1942]. En Adam fékk að byggja  íbúðarhús, eftir eigin teikningu, úr steinsteypu með steinlofti og valmaþaki úr timbri, 10,0x9,0m auk útskots 4,1x1,0m. Skömmu eftir að húsið reis, eða þann 18. júní 1943 ákvað Byggingarnefnd Akureyrar að gatan, sem átti að vera hluti Krabbastígs á milli Munkaþverárstrætis og Helgamagrastrætis skyldi heita Bjarkarstígur.

Bjarkarstígur 2 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með valmaþaki, steiningu á veggjum og bárujárni á þaki, lóðréttum póstum í gluggum og horngluggum í anda funkisstefnunnar til SA. Vestari hluti framhlið skagar eilítið fram (umrætt útskot í bókun Byggingarnefndar) og í kverkinni á milli eru inngöngudyr ásamt svölum. Svalir þessar gefa húsinu ákveðinn svip, bogadregnar við horn hússins og með járnavirki ofan á steyptu handriði. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en auk þess starfrækti Adam trésmíðaverkstæði þarna. Hann á einnig heiðurinn af húsinu Munkaþverárstræti 8 en það byggði hann árið 1932, auk þess sem hann teiknaði húsið Bjarkarstíg 7, sem byggt var 1944. Bjarkarstígur 2 er traustlegt og reisulegt funkishús í góðri hirðu og lóð er einnig vel gróin og í góðri hirðu. Þar eru m.a. býsna gróskumikil reynitré.  Í húsinu er ein íbúð. Myndin er tekin þ. 9. október 2018

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.900, 28. feb 1942 . Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Fundur nr. 920, 7. ágúst 1942. Fundur nr. 946, 18. júní 1943. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Bjarkarstígur 1

Bjarkarstígur  nefnist gata á norðanverðri Brekkunni. Gatan liggur á milli Munkaþverárstrætis og Þórunnarstrætis og þverar Helgamagrastræti. Er hún í beinu framhaldi af Krabbastíg og var raunar ætlað að vera framhald af þeirri götu, en fyrstu lóðunum sem úthlutað var við götuna, árið 1942, töldust við Krabbastíg. Við Bjarkarstíg stendur hið valinkunna Davíðshús, hús Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, og segir sagan, að Davíð hafi ekki viljað búa við götu kennda við krabba og nafninu því breytt. (Sbr. Ak. Bær, Teiknistofa Arkitekta, 2015: 26) Gatan liggur nánast beint upp brekkuna og er afar brött á neðri kaflanum milli Helgamagrastrætis og Munkaþverárstrætis og getur orðið heldur óskemmtileg yfirferðar í hálku. En útsýnið yfir Oddeyrina og yfir pollinn á Vaðlaheiðina er alls ekki óskemmtilegt, og mikill trjágróður við götuna rammar það skemmtilega inn. Við Bjarkarstíg standa 9 hús, byggð árin 1942-1952. Bjarkarstígur er um 200 m langur.

Árið 1950 sótti Svavar Jóhannsson, PA090808forstöðumaður Bifreiðaeftirlitsins um árabil, um lóð og byggingarleyfi neðst við sunnanverðan Bjarkarstíg. Á þessum tíma var nokkur trjálundur á þessum slóðum, sem líklega tilheyrði Munkaþverárstræti 13, en það hús er á SV horni Munkaþverárstrætis og Bjarkarstígs. En í bókun Byggingarnefndar segir svo um byggingaleyfi Svavars: „Eiganda skógargróðurs verður gefin kostur á að bjarga honum og 2m breiður stígur leyfður austast á lóð, suður á reit bæjarins milli Bjarkarstígs og Hamarstígs“. Með björgun skógargróðurs er líklega átt við flutning trjáplantna, sem þarna hafa líklega ekki verið orðnar mjög gamlar eða stórar. En Svavar fékk að byggja hús skv. uppdrætti og lýsingu, en þeirrar lýsingar er ekki getið í bókun Byggingarnefndar. En uppdráttinn að húsinu gerði Tryggvi Sæmundsson.

Bjarkarstígur 1 er tvílyft steinsteypuhús í funkisstíl, með lágu valmaþaki og skiptist í tvær álmur, suður og norður og stendur sú nyrðri nokkuð hærra. Veggir eru múrsléttaðir en einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum. Sambyggður húsinu að suðaustanverðu er bílskúr, byggður 1990 eftir teikningum Birgis Ágústssonar. Húsið, sem fullbyggt var árið 1952 og er yngst húsa við Bjarkarstíg hefur alla tíð verið íbúðarhús en þarna var um tíma umboð Styrktarfélags vangefinna, sem en frú Björg Benediktsdóttir, eiginkona áðurnefnds Svavars starfrækti það. Bjarkarstígur 1 er í fyrirtaks hirðu og hefur líkast til alla tíð hlotið afbragðs viðhald. Á lóðarmörkum er steyptur veggur og allur frágangur lóðar og húss er til mikillar prýði. Húsakönnun 2015 metur húsið með varðveislugildi sem hluti af þeirri heild sem götumynd Bjarkarstígs er. Ein íbúð mun í húsinu.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1124, 21. júlí 1950. Fundur nr. 1127, 1. sept. 1950. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Sniðgata 3

Efsta húsið, eða öllu heldur efra húsið við sunnanverða Sniðgötu er hús nr. 3, en það reistu þau Kristófer Vilhjálmsson  árið 1942. Hann fékk leyfi til að reisa hús, eina hæð á háum kjallara úr steinsteypu með steyptu gólfi og þaki.P2180716 Stærð á grunnfleti 10,4x8,5 auk útskots að vestan, 1x3,6m. Teikningarnar að húsinu gerði Halldór Halldórsson. Á þessum tíma voru steyptar plötur undir þökum og milli hæða að ryðja sér til rúms, en á fyrstu áratugum steinsteypunnar var algengast að aðeins útveggir væru steyptir en innveggir og milliloft úr timbri. En svo er semsagt ekki í tilfelli Sniðgötu 3. 

Sniðgata 3 er í Húsakönnun 2015 sagt „nokkuð sérstakt funkishús“, einlyft steinsteypuhús með flötu þaki og á háum kjallara með steiningarmúr og líklega með þakpappa á þaki. Einfaldir þverpóstar með tvískiptum efri fögum eru í flestum gluggum og horngluggar á þremur hornum, en NA horn  gluggalaust. Þar er steyptar tröppur upp að inngöngudyrum, með stölluðu (tröppulaga) steyptu handriði. Kristófer Vilhjálmsson bjó hér alla sína tíð frá því hann byggði húsið, en hann lést 2006.  Hann var verslunarmaður og gegndi hinum ýmsu embættisstörfum, m.a. formaður Félags Verslunar og skrifstofufólks á Akureyri. Líklega er húsið, sem alla tíð hefur verið íbúðarhús að mestu óbreytt frá upphafi að yrta byrði, það hefur t.d. ekki verið byggt við húsið. Við götu er einnig vegleg girðing með steyptum stöplum og járnavirki sem er væntanlega frá svipuðum tíma og húsið var byggt. Lóð hússins liggur að lóð Amtsbókasafnsins, og á meðfylgjandi mynd má sjá hluta af bakhlið þess nærri vinstra horni. Þannig má segja, að íbúar Sniðgötu 3 búi svo vel, að hafa Amtsbókasafnið „í bakgarðinum“. Myndin er tekin sunnudaginn 18. febrúar 2018.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48.  Fundur nr. 909, 8. maí 1942. Fundur nr. 910, 15. maí 1942

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Sniðgata 2

Þrjú hús standa við Sniðgötu, tvö sunnanmegin og eitt norðanmegin,P2180714 þ.e. nr. 2. Húsið reisti Baldur Svanlaugsson árið 1935 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar en hann fékk lóðina vorið 1934, var það fyrsta lóðin sem úthlutað var við Sniðgötu. Nokkru síðar, eða í lok september sama ár fékk Baldur leyfi til að reisa hús á lóðinni, steinsteypt 10,8x8,5m að stærð og kjallari undir hálfu húsinu (þ.e. eystri hluta).

Sniðgata 2 er steinsteypt funkishús með aflíðandi einhalla þaki undir flötum þakkanti. Undri eystri hluta hússins er hár kjallari en lágur grunnur undir þeim vestari; húsið myndi líklega kallast byggt á pöllum.  Krosspóstar eru í gluggum og þakpappi á þaki, og á suðvesturhorni er horngluggi. Eystri hluti hússins stendur eilítið framar en sá vestari, og eru inngöngudyr í kverkinni á milli álmanna. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús. Baldur Svanlaugsson bjó ekki í mörg ár á Sniðgötu, en 1939 reisir hann hús við Bjarmastíg 3. Árið 1940 eru íbúar hússins þau Sigtryggur Júlíusson og Jóhanna Jóhannesdóttir en þau sem lengst bjuggu í Sniðgötu 2 eða frá um 1950 og fram yfir aldamót voru þau Benedikt Sæmundsson skipstjóri og Rebekka Jónsdóttir.

Sniðgata 2 er sögð í upprunalegri mynd í Húsakönnun 2015 en húsið er í mjög góðu standi, gluggapóstar t.a.m. nýlegir og raunar allur frágangur húss og umhverfis sem um nýlegt hús væri að ræða, húsið hefur greinilega hlotið vandaðar endurbætur á allra síðustu árum. Lóðin er snyrtileg og vel gróin, þar má m.a. finna steypta tjörn. Við götu er steyptur, upprunalegur kantur og myndar hann skemmtilega heild, til mikillar prýði í umhverfinu. Myndin er tekin þ. 18. feb 2018.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 721, 17. maí 1934. Fundur nr. 734, 29. Sept 1934.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Sniðgata 1

Sniðgata er ein af styttri og brattari götum bæjarins og liggur á milli Brekkugötu og Munkaþverárstrætis og skásker hallan til suðvesturs, uppfrá norðurgafli Brekkugötu 25. Við götuna standa einungis þrjú hús, byggð árin 1935- 40. Sniðgata er einungis um 80 metra löng.

Neðsta, eða öllu heldur neðra þar eð húsin eru einungis tvö,P2180715 húsið við Sniðgötu sunnanverða er hús nr. 1, tvílyft steinsteypuhús í Funkisstíl. Húsið byggði Júlíus Davíðsson um 1936-37, en hann fékk lóð og  byggingarleyfi haustið 1935 og fékk að reisa íbúðarhús úr steinsteypu, 8x9m eina hæð á kjallara. Gerð var krafa um, að burðarveggir kjallara væru 20 cm þykkir. Ári síðar er Júlíusi leyft að hafa steinloft á húsinu (hefur líklega verið gert ráð fyrir timburlofti í upphafi) og r-stein í útveggjum og loks fékk hann að breyta þaki úr skúrþaki í valmaþak. Húsakönnun 2015 segir Stefán Reykjalín hafa teiknað húsið, en upprunalegar teikningar er ekki að finna á Landupplýsingakerfisvefnum, en þar má sjá nýlegar útlits- og uppmælingarteikningar Aðalsteins V. Júlíussonar og þar kemur fram, að þær séu unnar út frá teikningum Gunnars Pálsson frá 23.9.1935. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1940, það er alltént skráð byggingarár hússins. Húsið hefur hins vegar verið risið vorið 1939, en þann 5. apríl það ár auglýsir Júlíus Davíðsson stofu til leigu í húsinu.

Sniðgata 1 er einlyft steinhús á háum kjallara, sem er að hluta óniðurgrafinn vegna mishæðar á lóð, og með einhalla aflíðandi þaki; sk. skúrþaki. Veggir eru múrhúðaðir, bárujárn á þaki og gluggapósta mætti kannski kalla H-pósta, þar eð þeir mynda nokkurs konar H, tvö lóðrétt fög nærri jöðrum og eitt lárétt opnanlegt fag á milli þeirra. Á austurhlið er útskot eða forstofubygging með steyptum tröppum að götu en og viðbygging til austurs.

Árið 1956 var byggður bílskúr á lóðinni eftir teikningum Stefáns Reykjalín og byggt við húsið til austurs, einnig eftir teikningum Stefáns en ekki er vitað hvenær þaki var breytt úr valmaþaki í einhalla aflíðandi þak; mögulega hefur það verið á sama tíma. En Sniðgata 1 er ekki eina húsið á þessum slóðum sem Júlíus Davíðsson byggði, því skömmu áður hafði hann reist Hamarstíg 1 og nokkrum árum fyrr Oddeyrargötu 22 ásamt Ásgeiri Kristjánssyni. Síðar byggði hann Munkaþverárstræti 33. Sniðgata 1 hefur alla tíð verið íbúðarhús og margir þar átt heima gegn um tíðina. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð og líklega hefur sú íbúðaskipan verið mest alla tíð. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út, og segir í Húsakönnun 2015 að það sé „talsvert breytt frá upprunalegri mynd en stendur ágætlega með þeim breytingum“ (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 214). Það er nefnilega vel hægt að bæta við og breyta eldri húsum án þess að það lýti þau, sem sannast m.a. á Sniðgötu 1. Myndin er tekin þann 18. febrúar 2018.

Heimildir:Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf  

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 757, 16. sept. 1935. Fundur nr. 3. Okt. 1935. Fundur nr. 773, 27. apríl 1936. Fundur nr. 778, 7. ágúst 1936.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Svipmyndir héðan og þaðan frá Akureyri og nágrenni

Oft fer ég út að viðra mig, og oftar en ekki er myndavélin með í för. Hér eru nokkur skemmtileg sjónarhorn frá síðustu mánuðum og misserum.

P5210747Samkomubrú nefnist ný göngubrú á stígnum sem liggur meðfram Drottningarbraut. Um er að ræða kærkomna og skemmtilega viðbót við þennan ágæta stíg, þó sitt sýnist hverjum um þessa framkvæmd og nauðsyn hennar. Brúin var vígð við hátíðlega athöfn þ. 23. ágúst sl. og tilkynnt um nafnið um leið- en auglýst var eftir tillögum um nafn. Myndirnar eru teknar annars vegar 21. maí og 19. ágúst hins vegar. Á seinni myndinni sést Samkomuhúsið í baksýn, en nafn brúarinnar vísar væntanlega til þess.

 

 

 

 

P8190799

 

   

 

 

 

 

 

 

 

Á dögunum var lokið við malbikun göngu- og hjólreiðastígs, sem liggur í beinu framhaldi af umræddum stíg meðfram Drottningarbraut og alveg suður að Hrafnagil, um 13 km frá Miðbænum. Um er að ræða mikla samgöngubót fyrir gangandi og hlaupandi og kannski sérstaklega hjólandi. Að ekki sé minnst á akandi, en það er ekkert sérlega þægilegt fyrir ökumenn að þurfa að sveigja og hægja á sér vegna umferðar gangandi og hjólandi. Þessi mynd er tekin skammt frá Hvammi, sem er ysta býlið í Eyjafjarðarsveit vestan ár, um kílómetra frá sveitarfélagamörkunum við Akureyri. Skiltið mætti e.t.v. flokka sem samgönguminjar en stígurinn liggur að hluta til á gamla veginum fram í fjörð, þjóðvegi 821. Fyrir miðri mynd er Staðarbyggðarfjall.

P9230802

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er myndatökumaður staddur um 2km sunnar, eða framar, og horfir annars vegar til norðurs að Ytra Gili og hins vegar til fjalls, að Syðra Gili, sem hefur verið í eyði í áratugi. Eins og sjá má, er stígurinn ómalbikaður enda myndin tekin þann 27. júní, en malbikun fór fram um miðjan sept. 

P6270778   P6270781

Ekki þarf endilega mikla hæð yfir sjó til að skapa góða og skemmtilega útsýnisstaði. Á höfðanum norðan Kirkjugarðs Akureyrar, á suðurbakka Búðargils er skemmtilegt sjónarhorn til norðurs yfir Oddeyrina og út Svalabarðsströndina handan fjarðar og Kaldbakur við sjóndeildarhring. Vinsælt er að staldra þarna við og virða fyrir sér útsýnið og sjálfsagt er þetta sjónarhorn oft ljósmyndað, enda flestallir með myndavél við höndina í símum sínum. Þessi mynd er tekin á sunnudagshjóltúr 9. sept. sl. P9090799

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Höfðinn er vinsæll útsýnisstaður, en líklega eru þeir eilítið færri sem leggja leið sína á Háuklöpp norðan Gerðahverfis ofarlega á Brekkunni. Þaðan er býsna skemmtilegt útsýni til allra átta svo sem þessar myndir bera með sér. Sl. sunnudag, 23.sept. ákvað ég nefnilega að leggja smáræðis lykkju á hjóltúrinn frameftir, út í Þorp og þaðan á Brekkuna. Á efri mynd er horft til vesturs, gjörvallt Hlíðarfjallið blasir við ásamt syðstu og efstu byggðum Giljahverfis. Á neðri mynd er horft til norðurs út yfir Glerárþorp, í forgrunni eru Borgir, rannsóknarhús Háskólans á Akureyri og fjölnotaíþróttahúsið Boginn við Þórssvæðið hittir sjálfsagt nákvæmlega á miðpunkt myndarinnar. Oftast nær nota ég aðdrátt við landslagsmyndatökur en ekki í þetta skipti. Þá notaði ég stillingu á myndavélinni (Olympus VG-170, 14Mpixl.) sem kallast Magic 1. Ég er ekki frá því, að hún fari nærri þeim litbrigðum sem mannsaugun (a.m.k. augu þess sem þetta ritar) greina heldur en hefðbundna stillingin.

P9230807

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P9230806

 

 

 


Munkaþverárstrætið eins og það leggur sig

Hér eru færslur um húsin við Munkaþverárstrætið. Syðri og eldri hlutann tók ég fyrir að mestu í fyrrasumar, en sunnudaginn 18. febrúar arkaði ég um nyrðri hluta götunnar og ljósmyndaði hús nr. 17 - 44. Ásamt Sniðgötu, milli Munkaþverárstrætis og Brekkugötu. Þ.a. þau hús (sem eru einungis þrjú) tek ég fyrir á næstunni. Enda þótt þessi vefur verði 10 ára næsta sumar og aldrei hafi liðið meira en 3 vikur milli pistla,eru enn fjölmörg Akureyrsk hús við þó nokkrar götur sem ég gæti tekið fyrir hér. Og það jafnvel þótt ég haldi við að öllu jöfnu við byggingaráraviðmiðið 1940-50. 

 

Munkaþverárstrætið er um 500 metra langt og við götuna standa 40 hús, byggð árin 1930- 60, langflest húsin eða öll nema tvö fyrir 1950. Þess má geta, að 15 þeirra teiknaði Tryggvi Jónatansson. Við eldri hluta götunnar standa hús í steinsteypuklassískum stíl, mörg með háu risi en norðan Krabbastígs/Bjarkarstíg eru funkisáhrifin alls ráðandi. En hér eru tenglar á greinarnar mínar um Munkaþverárstrætishúsin. Endilega látið mig vita, ef tenglarnir vísa annað á rangar færslur - eða ekki neitt ;) 

 

Munkaþverárstræti 1 (1934)

Munkaþverárstræti 2 (1960)

Munkaþverárstræti 3 (1930)

Munkaþverárstræti 4 (1934)

Munkaþverárstræti 5 (1930)

Munkaþverárstræti 6 (1934)

Munkaþverárstræti 7 (1931)

Munkaþverárstræti 8 (1931)

Munkaþverárstræti 9 (1932)

Munkaþverárstræti 10 (1931)

Munkaþverárstræti 11 (1932)

Munkaþverárstræti 12 (1935)

Munkaþverárstræti 13 (1930)

Munkaþverárstræti 14 (1942)

Munkaþverárstræti 15 (1935)

Munkaþverárstræti 16 (1930)

Munkaþverárstræti 17  (1937)

Munkaþverárstræti 18  (1937)

Munkaþverárstræti 19  (1937)

Munkaþverárstræti 20  (1936)

Munkaþverárstræti 21  (1938)

Munkaþverárstræti 22  (1936

Munkaþverárstræti 23  (1937)

Munkaþverárstræti 24  (1938)

Munkaþverárstræti 25  (1937)

Munkaþverárstræti 26  (1936)

Munkaþverárstræti 27  (1940)

Munkaþverárstræti 28  (1944)

Munkaþverárstræti 29  (1951)

Munkaþverárstræti 30  (1942)

Munkaþverárstræti 31  (1942)

Munkaþverárstræti 32  (1947)

Munkaþverárstræti 33  (1948)

Munkaþverárstræti 34  (1943)

Munkaþverárstræti 35  (1941)

Munkaþverárstræti 37  (1941)

Munkaþverárstræti 38  (1942)

Munkaþverárstræti 40  (1942)

Munkaþverárstræti 42  (1942)

Munkaþverárstræti 44  (1943)

Ef tekið er meðaltal af byggingarárum er niðurstaðan u.þ.b. 1938, þ.a. árið 2018 er meðalaldur húsa við Munkaþverárstrætið 80 ár.

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 29

Munkaþverárstræti 29 mun vera byggt árið 1951, en ekki gat höfundur fundið neinar heimildir um húsið í fundargerðarbókum Bygginganefndar frá árunum 1948 – 57. P2180731Alltént kemur Munkaþverárstræti 29 hvergi fyrir í „registrum“ í fundargerðunum, og ekki gat höfundur séð það í neinum fundargerðum áranna 1950 og 1951. Nöfn þeirra sem skráð eru til heimilis þarna fyrstu ár eftir byggingu er heldur ekki þar að finna. (Að sjálfsögu er sá fyrirvari, að höfundi hafi einfaldlega yfirsést eða hreinlega ekki leitað nógu vel). Teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson og vera má, að hann hafi stýrt byggingu hússins.

 Árið 1954 búa þarna skv. Íbúaskrá þau Agnar Tómasson og Sigurlaug Óskarsdóttir,en þar kemur fram að þau hafi flutt út það ár. Þá fluttu í húsið þau Friðrik Adolfsson og Jenný Lind Valdimarsdóttir og leigðu þau húsið af Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Elsta heimildin sem finna má á timarit.is er frá september 1953 þar sem Jóna Kjartansdóttir óskar eftir stúlku til innanhússtarfa.  Árið 1962 keyptu húsið þau Stefán Stefánsson verslunarstjóri hjá KEA og María Jónína Adolfsdóttir og bjuggu þau þarna um árabil.  Byggðu þau við húsið um 1967, álmu til austurs en teikningarnar að henni gerði Birgir Ágústsson. Húsið er einlyft steinsteypuhús með einhalla þaki til tveggja átta, þ.e. þak eystri hluta hallar til vesturs en þak vestri hluta, viðbyggingar hallar til austurs. Gluggar eru með einföldum póstum og þakdúkur eða pappi á þaki. Á miðri suðurhlið er sólskáli og á lóðarmörkum er upprunaleg girðing, steyptir stöplar með járnavirki. Á framhlið er mjótt útskot eftir hálfri hlið og inngöngudyr í kverkinni á milli. Meðalaldur húsa við Munkaþverárstræti árið 2018 er 80 ár, og er Munkaþverárstræti 29, byggt 1951, annað yngsta húsið við götuna. Það er engu að síður í góðu samræmi við heildarmynd götunnar, enda er aldursmunur hússins og nærliggjandi húsa svosem ekki sláandi. Húsið er hluti hinnar löngu og samstæðu heildar funkishúsa við götuna, og viðbygging þykir vera lítt áberandi, skv. Húsakönnun 2015, sem metur húsið með 1. stigs varðveislugildis, líkt og langflest húsin við Munkaþverárstræti. Á lóðarmörkum er upprunaleg girðing, steyptir stöplar með járnavirki og lóðin vel gróin og í góðri hirðu. Myndin er tekin sunnudaginn 18. febrúar 2018 en þann dag brá sá sem þetta ritar sér í ljósmyndaleiðangur um nyrðri hluta Munkaþverárstrætið.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Íbúaskrá Akureyrar 1954. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Spjaldskrármanntal á Akureyri 1951- 60. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P6220002
  • IMG_3739
  • IMG_3753
  • IMG_3712
  • IMG_3713

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 688
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 481
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband