Hús dagsins: Bjarkarstígur 7

Eftir að hafa dvalið sl. vikur við Hríseyjargötu auk viðkomu í Glerárþorpi bregðum við okkur aftur í Bjarkarstíginn á Brekkunni. 

Síðla vetrar  1944 fékk Bragi Sigurjónsson, síðar alþingismaður og landbúnaðar- og PA090815iðnaðarráðherra, lóð vestarlega í Bjarkarstíg, næstu lóð við hornlóð við Helgamagrastræti og Bjarkarstíg. Í kjölfarið fékk byggja íbúðarhús, eina hæð á kjallara úr steinsteypu með flötu steinþaki. 9,5x8,3m að stærð auk útskota: að sunnan, 1,9x5m og vestan 1,0x4,7m. Litlu síðar fékk Bragi að breyta þaki hússins úr flötu í járnklætt valmaþak með steyptri þakrennu. Teikningarnar gerði Adam Magnússon trésmiður, sem skömmu áður hafði reist hús við Bjarkarstíg 2.

Sú lýsing sem gefin er upp í bókunum Byggingarnefndar á að mestu leyti við húsið enn í dag, það er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara (raunar er kjallari það hár að sjálfsagt mætti kalla hann jarðhæð eða segja húsið tvílyft) með valmaþaki, útskoti til vesturs og steyptum tröppum og inngangi á efri hæð í kverkinni á milli álmanna. Steining er á veggjum og bárujárn á þaki en einfaldir póstar í gluggum.

Ein af helstu heimildum höfundum við ritun greinanna hér á síðunni er gagnagrunnurinn timarit.is. Það er ekki óalgengt, að sé íbúðarhúsi frá 5. áratugnum flett upp þar að um 50-70 niðurstöður komi upp. En sé Bjarkarstíg 7  flett upp á timarit.is birtast hvorki meira né minna en 514 niðurstöður og þar af 309 frá bilinu 1950-59. Ástæðan fyrir því er sú, að á þessum árum var Bragi Sigurjónsson ritstjóri Alþýðumannsins og var heimilisfangs hans getið í hverju einasta tölublaði. Bragi gegndi hinum ýmsu störfum gegn um tíðina, við kennslu og fulltrúi við almannatryggingar og útibústjóri Útvegsbankans og ritstjóri. Hann var kjörinn á Alþingi 1967 og sat þar til 1971, og sat sem landbúnaðar- og iðnaðarráðherra 1979-80 í ríkisstjórn Benedikts Gröndal. Bragi var auk þess rithöfundur og skáld. Meðal þekktustu rita Braga er líklega safnritið Göngur og réttir sem kom út á árunum 1948-53. Bækurnar hafa, eins og nafnið gefur til kynna, að geyma ýmsar frásagnir af göngum, gangasvæðum og gangna- og réttatilhögum, að ógleymdum svaðilförum og ævintýrum gangnamanna. Bragi bjó hér ásamt konu sinni Helgu Jónsdóttur allt til æviloka, 1995 en Helga lést ári síðar. Eins og gjarnt er þegar sömu eigendur eru að húsum frá upphafi og í áratugi – í þessu tilfelli ríflega hálfa öld- er húsið lítið breytt frá upphafi en að sama skapi í mjög góðri hirðu. Lóðin er einnig vel hirt og gróskumikil, þar eru m.a. mörg stæðileg birkitré, sérlega viðeigandi á Bjarkarstíg, sem Bragi og Helga hafa væntanlega gróðursett á sínum tíma. Á lóðarmörkum er einnig, eins og segir í Húsakönnun  2015 „upprunaleg vönduð girðing við götu“ (Ak. bær, Teiknistofa arkitekta 2015: 31) steyptir stöplar með járnavirki. Í sömu Húsakönnun er húsið metið með varðveislugildi sem hluti af þeirri samstæðu heild sem húsaröðin við Bjarkarstíg er. Meðfylgjandi mynd er tekinn í haustblíðunni þann 9. október 2018.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-57. Fundur nr. 969, 20. mars 1944. Fundur nr. 971, 14. Apríl  1944. Fundur nr. 983, 21. Júlí 1944. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 


Hús dagsins: Hríseyjargata 18

Það er óneitanlega dálítið skemmtileg tilviljun, að maður frá Hrísey byggi hús við PB180854Hríseyjargötu. En kannski var það enginn tilviljun að Hríseyingurinn Þorgils Baldvinsson, sjómaður og verkamaður, skyldi sækja um lóð og byggingarleyfi við Hríseyjargötu. En það var árið 1941, og skyldi hús Þorgils vera ein hæð á lágum grunni með lágu valmaþaki, byggt úr r-steini, 8,8x7,2m að stærð auk útskots við NA- horn, 1,8x3m. Húsið er þannig ekki ósvipað þeim húsum sem risu við götuna um þetta leyti. Það fylgir hins vegar ekki sögunni hver teiknaði húsið.

Hríseyjargata 18 er einlyft steinhús með háu valmaþaki. Í gluggum eru lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum en bárujárn á þaki. Horngluggar í anda funkisstefnunar eru á SV horni. Þorgils, sá er byggði húsið,  bjó líklega aðeins 2 – 3 ár hér, því 1944 selur hann húsið og flytur aftur til Hríseyjar þar sem hann bjó alla tíð síðan ( hann lést 1967) Ýmsir hafa búið í húsinu gegn um tíðina, en sé heimilisfanginu flett upp á timarit.is koma upp 16 niðurstöður, sú elsta frá haustinu 1952 þar sem Edda nokkur Scheving, hér búsett, auglýsir eftir nemendum í upplestrartíma. Húsið er í megindráttum óbreytt frá upphafi. Árið 2003 var byggður bílskúr eftir teikningum Árna Gunnars Kristjánssonar, steypt bygging með flötu þaki á norðausturhorni lóðar  sem tengist húsinu við útskotið að norðaustanverðu. Mjög vel hefur tekist til við frágang og tengingu viðbyggingar við eldra hús.

Hríseyjargata 18 er smekklegt og látlaust hús í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði. Lóð er einnig vel hirt og gróin, m.a. eru þar nokkur gróskumikil reynitré. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki, væntanlega upprunalegur. Eftir því sem sá sem þetta ritar kemst næst hefur ekki verið unnin húsakönnun fyrir þennan ytri hluta Hríseyjargötu þannig að varðveislugildi Hríseyjargötu 18 liggur ekki fyrir. Það er hins vegar álit þess sem þetta ritar, að Hríseyjargatan sem heild eigi öll að njóta varðveislugildis. Myndin er tekin þann 18. nóv. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 876, 6. júní 1941. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Hríseyjargata 17

Hríseyjargötu 17 reistu þau Þorvaldur Sveinn Guðjónsson PB180859og Helga Margrét Sigurjónsdóttir árið 1943. Þorvaldur fékk í desember 1942 lóðina um leið og Snorri Sigfússon, sem nýlega hafði reist hús á Hríseyjargötu 16, afsalaði sér henni. Ekki er getið um byggingarleyfi til handa Þorvaldi eða heldur lýsingu á húsi, en það virðist í upphafi hafa verið svipað Hríseyjargötu 15 sem Oddur Kristjánsson reisti 1942. Þ.e. með útskoti eða forstofubyggingu að framanverðu eftir hálfri hlið hússins, til NA. Fljótt á litið mætti áætla að Hríseyjargata 17 og 15 séu reist eftir sömu teikningu (Guðmundar Gunnarssonar), vegna mikilla líkinda t.d. varðandi útskotið að framan og gluggasetningu. Árið 1977 var byggt við húsið til suðurs, eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar, steinsteypt bygging 4,15x7,30m að stærð. Á sama tíma var einnig byggður bílskúr á NV horn lóðar.   

Hríseyjargata 17 er einlyft steinsteypuhús með valmaþaki og skiptist raunar í tvær álmur, annars vegar upprunalegt hús og hins vegar viðbyggingu til norðurs. Á milli viðbyggingar og útskots að framan er nokkurs konar port og þar eru inngöngudyr. Lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í flestu gluggum en á suðurálmu er stór og víður gluggi, sem höfundur myndi kalla „stofuglugga“.  Bárujárn er á þaki en veggir múrsléttaðir. Þess má geta, að húsið var innan sömu fjölskyldu í rúm 70 ár en þau Þorvaldur og Helga bjuggu hér fram yfir aldamótin, og raunar allt til síðustu daga en hann lést 2007 og hún 2015. Þorvaldur, sem var fæddur á Enni í Unadal í Skagafirði starfaði allan sinn starfsaldur við netagerð og stofnaði netagerðina Odda ásamt Sigfúsi Baldvinssyni. Hríseyjargata 17 er líkt og nærliggjandi hús, einfalt og látlaust og í góðri hirðu, gluggar og þak virðast t.d. nýleg. Viðbygging fellur vel að húsinu og gefur húsinu sérstakan og skemmtilegan svip. Þá er á lóðarmörkum steyptur kantur með járnavirki, sem er væntanlega upprunalegur en í afbragðs góðri hirðu. Myndin er tekin í einmuna haustblíðu sunnudaginn 18. nóvember 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 933, 11. des 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Hríseyjargata 16

Snemma árs 1942 fékk Snorri Sigfússon verkstjóri lóð og byggingarleyfi við Hríseyjargötu, næst sunnan við Þorgils Baldvinsson, þ.e. Hríseyjargötu 18. PB180853Fékk Snorri leyfi til að reisa steinsteypt íbúðarhús, eina hæð á lágum sökkli og með járnklæddu valmaþaki úr timbri, 11,3x9,1m að grunnfleti. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Hríseyjargata 16 er einlyft steinsteypuhús með valmaþaki og á lágum grunni, með hornglugga í anda funkisstefnunar til SV. Á NA horni er lítil bakbygging. Bárujárn er á þaki en lóðréttir þrískipti póstar með láréttu opnanlegu fagi fyrir miðju í gluggum.

Snorri Sigfússon virðist ekki hafa búið hér mörg ár en síðar sama ár og hann fékk leyfi til að byggja þetta hús, afsalar hann sér lóðinni gegnt þessari, þ.e. Hríseyjargötu 17.  Mögulega hugðist hann byggja þar annað hús. Árið 1948 búa í húsinu þau Magnús Jóhannsson skipstjóri og Ragnhildur Ólafsdóttir.  Ýmsir hafa átt húsið og búið hér þessi 76 ár en húsið hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald. Það er a.m.k. í góðri hirðu, þak virðist t.d. nýlegt. Ein íbúð er í húsinu og hefur verið svo alla tíð. Á lóðarmörkum er steypt girðing með járnavirki, svo sem tíðkaðist á þeim tíma sem húsið er byggt. Eftir því sem ég kemst næst, hefur ekki verið unnin formleg húsakönnun fyrir þennan nyrðri hluta Hríseyjargötu og því liggur varðveislugildi hússins ekki fyrir. En skoðun síðuhafa hefur þegar komið fram, að þessi funkishúsaröð við Hríseyjargötu ætti að hafa varðveislugildi, ásamt með sams konar röð við Ægisgötu. Myndin er tekin þann 18. nóv. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 896, 6. feb. 1942.  Fundur nr. 898, 20. Feb 1942. Fundur nr. 933, 11. des 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Hríseyjargata 15

Hríseyjargötu 15 reisti Oddur Kristjánsson frá Glæsibæ árið 1942.PB180850 Hann fékk leyfi til að reisa hús skv. „framlögðum uppdrætti“.  Húsið var byggt úr steinsteypu, 9x10m að grunnfleti auk útskots 6,9x2,0m að austan, með tvöföldum veggjum, þak valmaþak úr timbri, járnklætt. Teikningar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson. Sú lýsing, sem gefin er upp í bókun Byggingarnefndar á að mestu leyti við enn í dag, húsið er einlyft steinsteypuhús með bárujárnsklæddu valmaþaki og lóðréttum gluggapósti. Á framhlið hússins er útskot  og inngöngudyr í kverkinni á milli og framan við hana steyptur pallur með snotru handriði.  Suðvestan við húsið er bílskúr, og mun hann byggður 2006 eftir teikningum Hauks Haraldssonar.  

Oddur Kristjánsson og kona hans, Margrét Jóhannsdóttir frá Bragholti bjuggu hér um áratugaskeið, en hún lést 1968 og hann 1973, en Jóhann sonur þeirra bjó hér allt fram yfir aldamót. Þannig var húsið innan sömu fjölskyldu í yfir 60 ár og hafa þannig ekki verið margir eigendur að þessu 76 ára gamla húsi. Oddur, sem var valinkunnur söngmaður og söng með Karlakórnum Geysi og fyrirrennara hans sem stofnaður var upp úr aldamótum. Oddur, sem fæddur var árið 1883 á Dagverðareyri, segir frá endurminningum í örðu bindi bókaflokksins „Aldnir hafa orðið“. Lýsir hann m.a. byggingu Hríseyjargötu 15, „[...] þá lagði ég hart að mér, var vaktmaður á nóttunni en byggði á daginn, og eiginlega var enginn tími til að sofa fyrr en byggingu var lokið [...] „ (Oddur Kristjánsson (Erlingur Davíðsson) 1973: 74)  Líklega hefur húsinu alla tíð verið vel við haldið en það er sem nýtt að sjá og hefur greinilega nokkuð nýlega hlotið endurbætur s.s. nýtt þak og glugga. Húsið mun að mestu óbreytt frá fyrstu gerð (ytra útlit) og frágangur hússins allur hinn snyrtilegasti og glæstasti. Lóð er gróin og vel hirt og er hún innrömmuð af smekklegri timburgirðingu, sem er í stíl við handrið á palli við inngöngudyr. Ég hef þegar líst því áliti, að ég tel að funkishúsaröðin við norðanverða Hríeyjargötu ætti að hafa varðveislugildi og þar er Hríseyjargata 15 svo sannarlega ekki undanskilin. Myndin er tekin þann 18. nóv. 2018.

 

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 927, 2. okt. 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Erlingur Davíðsson. 1973. Aldnir hafa orðið II bindi: Oddur Kristjánsson frá Glæsibæ. Akureyri: Skjaldborg.


Hús dagsins: Viðarholt í Glerárþorpi; Sunnuhlíð 17.

Gleðilega hátíð kæru lesendur, og til hamingju með 100 ára Fullveldi Íslands. Í tilefni dagsins, þótti mér rétt að taka fyrir hús sem byggt er á Fullveldisárinu 1918. Á Akureyri eru þau ekki mörg en þó má finna eitt í Glerárþorpi. Varðandi byggingarárið treysti ég á grein sem Lárus Zophoníasson bókavörður birti í tímaritinu Súlum árið 1980, en á húsinu sjálfu stendur reyndar 1916. Viðarholt tók  ég raunar fyrir stuttlega árið 2012, en hér er ítarlegri grein: 


Býlið Viðarholt í Glerárþorpi, P6180034sem stendur í krika á milli gatnanna Sunnuhlíðar að sunnan og Steinahlíðar að norðan, og telst nr. 17 við fyrrgreinda götu reistu þau Kristján Þorláksson og Indíana Jóhannsdóttir. Heimildum ber ekki alveg saman um byggingarár, en Lárus Zophoníasson (1980) segir það byggt 1918, en engu að síður stendur 1916 á skilti utan á húsinu. Helsta heimildarit síðuhöfundar, fundargerðir Byggingarnefndar Akureyrar gagnast ekki við upplýsingaöflun um býlin í Glerárþorpi. Þorpið tilheyrði nefnilega Glæsibæjarhreppi til ársins 1954 og komu byggingar þar þ.a.l. ekki inn á borð Byggingarnefndar Akureyrar. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið.

Viðarholt er einlyft  timburhús, ýmist múrhúðað eða klætt bárustáli með lágu risi og á lágum grunni. Á framhlið er lítill inngönguskúr með áföstum tröppum, en hann var byggður við húsið árið 1997 eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar.  Bárujárn er á þaki en einfaldir þverpóstar í gluggum.

Elsta heimildin sem gagnasafnið timarit.is finnur um Viðarholt er frá janúar 1920. Þar eru þau Indíana og Kristján í Viðarholti á lista  „ yfir nöfn þeirra, sem hafa gefið til berklahælis hjer norðanlands og geisla-  lækningastofu í sambandi við sjúkrahús Akureyrar.“ (Íslendingur 6.árg. Fylgiblað 30. jan 1920)

Fjölmargir lögðu þessari söfnun lið, en umrætt berklahæli er að sjálfsögðu Kristneshæli, sem reis af grunni sjö árum síðar. Ýmsir hafa búið á Viðarholt þessa öld (a.m.k.) sem það hefur staðið, en húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús. Í manntali 1920 búa sjö manns á Viðarholti, auk Indíönu og Kristjáns synir hennar, Sigþór og Hannes Júlíus Jóhannssynir, sonur þeirra hjóna Jóhann Valdimar auk Jóhönnu Margrétar Þorsteinsdóttur sem skráð er sem hjú. Þá virðist annar Kristján og sá var Jónsson, hafa búið þarna snemma  á 3. áratugnum en hann lést 1924 og var þá sagður bóndi í Viðarholt. Þannig að mögulega hefur þarna verið tvíbýlt og sjálfsagt hafa búið þarna tvær eða fleiri fjölskyldur samtímis á fyrri hluta 20. aldar. Indíana var mjög virk í störfum kvenfélagsins Baldursbrár, sem stofnað var í Glerárþorpi 1919. Hún var mjög sennilega stofnfélagi þess, þó ekki hafi hún komist á blað þar (sbr. Guðrún Sigurðardóttir 2004: 27) og var virk í félaginu uns þau Kristján fluttust til Akureyrar, en það mun hafa verið 1931. Hann lést langt fyrir aldur fram árið 1935, en Indíana lést daginn eftir 99 ára afmæli sitt, 28. apríl 1968. Árið 1932 auglýsir Steingrímur Sigvaldason býlið til leigu í Íslendingi.  

Á Viðarholti var stundaður búskapur í einhverri mynd áratugum saman en útihús eru þó öll horfin og túnin komin undir byggð. Líklega hafa Viðarholtsbændur gegn um tíðina að mestu stundað fjárbúskap, þeirra á meðal þau Kjartan Sumarliðason og Stella Jónsdóttir, sem hér bjuggu um áratugaskeið, fram yfir aldamót. Bústofn þeirra rataði stundum í Búnaðarritið, svo sem tveggja vetra hrúturinn Nökkvi sem taldist meðal þeirra bestu á Hrútasýningu 1974. Hér segir einnig frá móður Nökkva, Skessu 69-057 á afkvæmasýningu tveimur árum síðar. Þéttbýli tók að byggjast upp í Glerárþorpi fljótlega eftir að þorpið var lagt undir Akureyri 1955 en hverfið sem Viðarholt er nú hluti af byggðist að mestu á 8. og 9. áratug 20. aldar. Hefur þá búskap á Viðarholti væntanlega verið sjálfhætt eftir því sem þéttbýlið nálgaðist. Á síðari hluta níunda áratugarins  var starfrækt þarna trésmiðjan SMK.    Nú er Viðarholt við efri mörk Hlíðahverfis, steinsnar neðan við Hlíðarbraut sem skilur einmitt að Hlíða og Síðuhverfi og telst, sem áður segir standa við Sunnuhlíð 17.

Húsið, sem er einfalt og látlaust, er í mjög góðri hirðu og lítið breytt frá upphafi að ytra byrði. Þá er umhverfi hússins mjög skemmtilegt, lóð stór og gróin og aðkoman að lega hússins ber þess greinilega merki að um fyrrum sveitabæ sé að ræða. Er húsið og umhverfi þess til mikillar prýði í umhverfi sínu. Þegar rætt er um varðveislugildi húsa er það oft sett í samhengi við götumyndir og heildir en í tilfelli Viðarholts, og býla Glerárþorps horfir málið öðruvísi við. Þau mynda auðvitað ekki götumynd hvert með öðru en eru flest öll til mikillar prýði og setja mjög skemmtilegan svip á hverfin þar sem þau standa. Þar er hið aldargamla Viðarholt svo sannarlega engin undantekning.  Ég hef lýst yfir þeirri skoðun að gömlu býlin í Glerárþorpi ætti öll að friða eða að þau hljóti hátt varðveislugildi.  Almennt þykja mér gömul býli í nýrri hverfum stórmerkileg. Myndin af Viðarholti er tekin þann 18. júní 2012.

 

Heimildir: Lárus Zophoníasson. Um upphaf byggðar í Glerárþorpi. Súlur X. Ár (1980). bls. 3-33.

Guðrún Sigurðardóttir (2004). Kvenfélagið Baldursbrá 1919-1999. Akureyri: Kvenfélagið Baldursbrá.

Manntal 1920

Ýmsar heimildir af timarit.is, sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Hríseyjargata 14

Haustið 1940 stóðu engin hús við Hríseyjargötu norðan Eiðsvallagötu, en þá fékk Bjarni Þorbergsson trésmiður lóðina norðan við hornlóð þessara tveggja gatna. Upphaflega sóttist hann eftir hornlóðinni en fékk ekki, einhverra hluta vegna. Þar byggði Stefán Snæbjörnsson hins vegar húsið Eiðsvallagötu 13 árið 1943.PB180852

En Bjarni fékk semsagt þessa lóð, og fékk að byggja þar járnvarið timburhús , 7x11m að stærð. Ekki fer frekari sögum af byggingum Bjarna í bókunum Byggingarnefndar.  Ein elsta heimild sem timarit.is finnur um Hríseyjargötu 14 er frá vorinu 1945, þar sem Bjarni Þorbergsson auglýsir til sölu nokkur hunduð r-steina. Því er ekki óvarlegt að áætla, að húsið sé reist úr r-steini. Bjarni byggði á lóðinni verkstæðisskúr þar sem hann vann að iðn sinni, og smíðaði hann flestallar trésmíðavélar sínar sjálfur frá grunni sem og handverkfæri. (Árið 1941 voru auðvitað hvorki til Verkfæralagerinn né Húsasmiðjan). Bjó hann hér alla tíð eftir að hann reisti húsið, en hann lést 1964. Ekkja Bjarna, Guðrún Guðmundsdóttir bjó hér einnig til æviloka eða 1984. Bjarni og Guðrún voru bæði að vestan, nánar tiltekið frá Arnarfirði.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og er líklega að mestu óbreytt frá upphafi þ.e. að ytra byrði.  Líkt og flest öll húsin við Hríseyjargötuna er húsið í góðri hirðu og til prýði, og hluti af þessari skemmtilegu heild einlyftra funkishúsa með valmaþökum sem finna má við nyrðri hluta Hríseyjargötu og Ægisgötu. Ekki þekki ég hvort húsakönnun hafi verið unnin fyrir þetta svæði þ.a. hugsanlegt varðveislugildi hússins liggur ekki fyrir, mér vitanlega. En svo sem fram kom í pistlinum um Hríseyjargötu 13 tel ég, sem áhugamaður sem leyfir sér að hafa á því skoðun, hiklaust að þessar umræddu heildir að Hríseyjargötu 14 meðtalinni, ættu að hafa varðveislugildi. Myndin er tekin þann 18. nóvember 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935 - 40. Fundur nr. 854, 6. sept. 1940. Fundur 858, 11. okt. 1940. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Hríseyjargata 13

Eftir að hafa haldið mig við neðri hluta Ytri brekku um all nokkurt skeið færi ég mig um set úr miðjum Bjarkarstíg. Þaðan er einmitt stórkostlegt útsýni niður á Oddeyri, en þangað skal einmitt haldið. Nánar tiltekið á Hríseyjargötu en við nyrsta hluta hennar, stendur skemmtileg heild tiltölulega smárra steinhúsa í funkisstíl frá fimmta áratug 20. aldar (1940-45). Er hún nokkuð áþekk húsaröðinni geðþekku við næstu götu vestan við, Ægisgötu, en sú röð er örlítið eldri (b. 1936-40) en Hríseyjargöturöðin. Hríseyjargata liggur til norðurs frá Strandgötu, en ysti hlutinn, sem er umfjöllunarefni næstu vikna er á milli Eiðsvallagötu í suðri og Eyrarvegar í norðri. 

Sumarið 1942 sækir Ásgeir Austfjörð um lóð og byggingarleyfi f.h.PB180851 Björns L. Jónssonar við Hríseyjargötu. Birni er heimilað að reisa íbúðarhús, eina hæð með valmaþaki með kjallara undir 2/3. Grunnflötur hússins 14,6x8,9m auk útskots að SA 1,2x6,1m. Ekki fylgir sögunni hver teiknaði en ef ég ætti að giska á mögulegan höfund hússins myndi ég veðja á Tryggva Jónatansson. Hríseyjargata 13 er nokkuð dæmigert einnar hæðar funkishús, með lágu valmaþaki og horngluggum. Í gluggum eru lóðréttir þverpóstar með opnanlegum þverfögum en bárujárn á þaki og veggir múrsléttaðir. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús og ýmsir búið hér í gegn um tíðina. Þarna bjó um árabil Jórunn Bjarnadóttir ljósmóðir, frá Geitabergi í Svínadal. Hún var um langt skeið, fyrir tíma Fjórðungssjúkrahússins, eina starfandi ljósmóðirin á Akureyri og tók þannig á móti allflestum börnum sem fæddust í bænum á þessum árum. Hún mun hafa ræktað garðinn við húsið og hefur mögulega gróðursett birkitrén sem prýða lóðina framanverða. Ein íbúð er í húsinu. Mér vitanlega hefur ekki verið gefin út Húsakönnun fyrir Oddeyrina norðan Eiðsvallagötu ( mögulega er hún þó til einhvers staðar) þannig að varðveislugildi húsanna við Hríseyjargötu norðanverða liggur ekki fyrir. Væri ég spurður álits myndi ég segja að Hríseyjargata 13 ætti hiklaust að hljóta varðveislugildi. Húsið er í góðu standi og lítið sem ekkert breytt frá upprunalegri gerð. Þá hefði ég sagt, að hinar heillegu þyrpingar einlyftu funkishúsanna við Ægisgötu og Hríseyjargötu ættu að hafa ótvírætt varðveislugildi, ef ekki friðaðar, sem merkar og skemmtileg heildir. Myndin er tekin þann 18. nóvember 2018.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Bjarkarstígur 6; Davíðshús (áður birtur pistill ásamt viðbótum)

Um Davíðshús skrifaði ég hér á þessa síðu snemma árs 2011. Ég hef  oftast nær þá stefnu, að láta þau skrif sem ég hef þegar birt standa, enda þótt ég komist að nýjum upplýsingum um viðkomandi hús. Ástæðan er einfaldlega sú, að ef ég ætlaði að bæta við pistla eða skrifa nýja í hvert skipti sem ég fengi að vita eitthvað nýtt um húsin gerði ég lítið annað. Á þessu eru vitaskuld undantekningar. Fái ég að vita, að eitthvað sem ég hef skrifað sé beinlínis rangt leiðrétti ég það auðvitað. Svo er sjálfsagt að endurbirta og minna á gamla pistla, einhverjir þeirra eru orðnir illaðgengilegir. Og nú ber þannig undir, að röðin er komin að Davíðshúsi í umfjöllun um Bjarkarstíg. Ég hyggst þannig endurbirta fyrri pistil, með „uppfærslum“. Árið 2011 skrifaði ég eftirfarandi um Davíðshús:

Það eru nokkur hús hér á Akureyri sem ég hef sett mér sem skylduviðfang, P2020112fyrst ég er að fjalla um skrautleg og/eða sögufræg hús hér í bæ. Eitt þeirra fór ég að ljósmynda ( ásamt fáeinum öðrum) í dag en þetta hús stendur við eina bröttustu götu bæjarins, Bjarkarstíg, nánar tiltekið Bjarkarstíg 6. En þetta er Davíðshús, kennt við Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) en húsið reisti hann árið 1944 og bjó þar til dánardags. Húsið er steinsteypt, einlyft á kjallara, grunnflötur nánast ferningslaga með valmaþaki; með nokkuð dæmigerðu lagi steinhúsa þess tíma en dálítið stærra og veglegra en almennt gekk og gerðist. Akureyrarbær erfði húsið eftir Davíð og er þar varðveitt mikið bókasafn hans og vistarverur eins og þær voru í hans tíð; í rauninni er engu líkara en að skáldið hafi bara brugðið sér frá í kaffi. Þar er einnig íbúð fyrir fræðimenn og rithöfunda sem leigð er út. Hér má finna nánari upplýsingar um Davíðshús. Myndin er tekin fyrr í dag, 2.2.2011.

Þetta er að sjálfsögðu gott og gilt, nema hvað húsið var líklega byggt á bilinu 1942-44, skv. Húsakönnun 2015 er byggingarárið 1943.PA090816 Um upprunasöguna er það að segja skv. bókunum Byggingarnefndar, að það var í árslok 1941 að Davíð Stefánsson sótti um að fá byggingarlóð við framlengingu á Krabbastíg, 3. Lóð neðan frá, beint suður af klöppinni. Bygginganefnd frestaði hins vegar að taka ákvörðun, þar eð óraðið var hvenær gatan yrði lögð. Leið og beið veturinn 1942, fram á vor og sumar og 5. júní ítrekaði Davíð beiðni sína um lóð og fékk en þó með þeim fyrirvara að gatan yrði mögulega ekki lögð það sumarið. Og það var loks í júlíbyrjun 1942 sem Davíð fékk byggingarleyfi, ásamt þeim Adam Magnússyni og Gaston Ásmundssyni. Þannig voru byggingarleyfin fyrir öll þrjú húsin við Bjarkarstíginn norðanverðan afgreidd á einum og sama fundi Byggingarnefndar 3. júlí 1942. En Davíð fékk að reisa íbúðarhús á lóð sinni, eina hæð með valmaþaki og kjallara undir 2/3 hluta hússins. Stæðri 14,6x8,9m auk útskots að NV, 1,2x6,1m. Teikningarnar gerði Hörður Bjarnason.  Davíð Stefánsson og hans verk þarf vart að kynna fyrir lesendum, en hann bjó hér allt til dánardægurs 1964. Davíðshús var friðlýst skv. Þjóðminjalögum af bæjarstjórn Akureyrar árið 1977, og friðað í A-flokki sem var alhliða friðun, að innan jafnt sem utan. Menningarsögulegt gildi hússins er auðvitað mikið og ótvírætt en húsið sjálft er einnig mjög skemmtilegt að gerð, sérstakt funkishús. Það sem e.t.v. setur helst svip sinn á húsið er sveigt valmaþakið, miklar tröppur með sveigðu handriði og stór gluggi með voldugri umgjörð á framhlið. Lóðin er einnig mjög smekkleg og gróin, og á Minjasafnið  heiður skilinn fyrir smekkvísi og afbragðs viðhald á Davíðshúsi. Í húsinu er sem áður segir, safn og fræðimannsíbúð. Færslunni fylgja tvær myndir, teknar 2. febrúar 2011 annars vegar og 9. okt. 2018 hins vegar.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 894, 29. des 1941. Fundur nr. 913, 5. júní 1942. Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Hús dagsins: Bjarkarstígur 5

Vorið 1943 fékk Sigurður Svanbergsson lóð við sunnanverðan KrabbastígPA090813 (sem hlaut nafnið Bjarkarstígur fáeinum vikum síðar), beint á móti húsi Davíðs Stefánssonar, sem þá var nýlega risið, og vestur af lóðum Friðjóns Axfjörð, þ.e. Bjarkarstíg 1 og 3, en þar risu ekki hús fyrr en nokkrum árum síðar. Húsið reisti Sigurður eftir eigin teikningum, fullbyggt var húsið 1946, en lýsingu virðist ekki að finna í fundargerðum Byggingarnefndum (að venju með fyrirvara um, að höfundur hafi ekki leitað til fulls).

 En Bjarkarstígur 5 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki þaki. Á norðurhlið eru steyptar tröppur á efri hæð og snúa þær til vesturs en á suðurhlið eru svalir. Einfaldir þverpóstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og veggir múrhúðaðir. Húsið hefur verið íbúðarhús með tveimur íbúðum, líklega frá upphafi og hefur lítið verið breytt að ytra byrði. Sigurður Svanbergsson, sem byggði þetta hús og bjó ásamt fjölskyldu sinni um árabil gegndi stöðu Vatnsveitustjóra um áratugaskeið, eða frá 1954 til 1990. Faðir hans, Svanberg Sigurgeirsson frá Lögmannshlíð hafði áður gegnt sama starfi á fyrri hluta 20. aldar, en Sigurður starfaði við Vatnsveituna frá barnsaldri og allt til sjötugs eða til ársins 1990. Á fimmta áratugnum bjó hér einnig Sigurður Eyvald,  sem afgreiddi blaðið Alþýðumanninn  héðan. Ritstjóri blaðsins, Bragi Sigurjónsson var einmitt búsettur í húsinu fyrir ofan, Bjarkarstíg 7.

En Bjarkarstígur 5 er glæsilegt funkishús í afbragðs góðri hirðu og lítur vel út. Í Húsakönnun 2015  er það sagt hluti af heild samstæðra en ólíkra húsa og hefur 1. stigs varðveislugildi. Á lóðarmörkum er steyptur kantur með stöplum og járnavirki. Veggurinn fylgir  landhallanum skemmtilega, en Bjarkarstígur er afar brattur þarna. Sá  veggur er upprunalegur og er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði líkt og húsið sjálft og lóðin. Lóðin er vel gróin og þar má m.a. finna nokkur gróskumikil birkitré. Sem er þó nokkuð viðeigandi, á Bjarkarstíg. Myndin er tekin þann 9. október 2018.

 Heimildir:  Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 943, 28. maí 1943. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 22
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 256
  • Frá upphafi: 446798

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 178
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband