31.1.2021 | 10:22
Hús dagsins: Klettaborg 4
Klettaborg 4 reistu þeir Arnór Einarsson og Herbert Tryggvason árið 1947. Það var á sumarsólstöðum 1946 að þeir fengu byggingarleyfi á lóð, sem þeir höfðu nýlega fengið á leigu. Teikning og lýsing voru sagðar fylgja, en ekki er farið nánar út í lýsingu á húsinu, að öðru leyti en því, að það var steinsteypt. Teikningarnar að húsinu gerði Sigurður Hannesson.
Klettaborg 4 er einlyft steinhús á háum kjallara (eða jarðhæð) og með lágu valmaþaki. Húsið er byggt sem parhús, því sem næst samhverft og skiptist í austur og vesturhluta. Í flestum gluggum hússins eru einfaldir, lóðréttir póstar, bárujárn á þaki og veggir múrsléttaðir. Á stöfnum hússins, sem snúa mót austri og vestri eru steyptar tröppur og inngöngudyr á hæð.
Klettaborg 4 var um áratugaskeið efsta og vestasta húsið við Klettaborg. Þar sem lóðarmörkum sleppti tók raunar sveitin við með grænum túnum. Þéttbýli tók að rísa, skammt ofan við Klettaborg, við Kringlumýri á 6. og 7. áratugnum og enn ofar og vestar, í Gerðahverfi á þeim áttunda. Það var hins vegar ekki fyrr en um og uppúr aldamótum að hverfi tók að rísa við vestar við Klettaborgina. Líkt og flestir sem byggðu og bjuggu í húsunum við Klettaborgina unnu þeir Herbert Tryggvason og Arnór Einarsson á Gefjuni. Það var ekki óalgengt að menn ynnu á verksmiðjunum á Gleráreyrum svo áratugum skipti. Herbert náði þeim áfanga árið 1984, að hafa unnið í 50 ár á Gefjuni. Fyrst sem afgreiðslumaður en síðar, og um áratugaskeið, sem afgreiðslustjóri heildsölu fyrirtækisins. Margir hafa átt heima í Klettaborg 4 eftir þeirra tíð, og alla tíð hefur það verið parhús. Húsið er að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð, en þó hafa verið gerðar smávægilegar breytingar á gluggaskipan.
Klettaborg 4 er glæst og vel hirt hús, sem og umhverfi þess og lóð. Það er mjög svipað næstu húsum að gerð, en eina parhúsið í þyrpingunni og því ívið stærra en t.d. Klettaborg 1-3. Á lóðinni eru nýlegir pallar og verandir úr timbri og frágangur allur hinn snyrtilegasti. Húsið er umvafið gróskumiklum trjágróðri, líkt og nærliggjandi. Ekki er höfundi kunnugt um, hvort Klettaborg 4 hafi varðveislugildi. Ætti síðuhafi hins vegar að úrskurða um, hvort þessi litla þyrping steinhúsa frá miðri 20. öld við Klettaborg, ætti að hafa eitthvert varðveislugildi, væri svarið að sjálfsögðu aðeins á einn veg. Þá er grænt og geðþekkt umhverfi Klettaborgarinnar einstaklega aðlaðandi. Sem áður segir, er Klettaborg 4 parhús með tveimur íbúðum. Myndin er tekin þann 20. september 2020.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1056, 21. júní 1946. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.1.2021 | 16:13
Hús dagsins: Klettaborg 3
Klettaborg 3 reisti Konráð Vilhjálmsson árið 1946. Landið átti hann á erfðafestu en lóðina fékk hann haustið 1941, fékk fyrst næstu lóð neðan við, nr. 2, en fékk þessa eftir makaskipti við Einar Guðmundsson. Í september 1945 fékk Konráð byggingarleyfi fyrir steinsteyptu húsi, með útveggjum hæðar úr r-steini, að stærð 9,5x9m á erfðafestulandi sínu við þjóðveginn gegnt Gefjuni. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Magnússon. Upprunalegar teikningar hússins eru ekki fyrirliggjandi á korta-og landupplýsingavef Akureyrarbæjar, en þar má finna járnateikningar Halldórs Halldórssonar frá mars 1946, sem sýnir nokkurn veginn herbergjaskipan hússins.
Klettaborg 3 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki, af algengri gerð íbúðarhúsa frá fimmta áratugnum. Á norðausturhlið hússins er útskot og þar eru steyptar tröppur að austanverðu og svölum að sunnanverðu. Krosspóstar eru í gluggum, sem flestir eru ferningslaga, bæði gluggar og póstar. Bárujárn er á þaki en veggir eru múrsléttaðir.
Konráð Vilhjálmsson, sem byggði Klettaborg 3 og átti landið umhverfið Klettaborg á erfðafestu var kennari, fræðimaður og rithöfundur. Hann var jafnan kenndur við bæinn Hafralæk í Aðaldal, þar sem hann var bóndi um árabil, en fæddur var hann á Sílalæk í sömu sveit árið 1885. Hann kenndi m.a. við Gagnfræðaskólann og var þekktur fyrir hin ýmsu fræðistörf, m.a. mikla skrá yfir Þingeyinga á 19. öld, en einnig sendi hann frá sér ljóð og kveðskap. Líklega hefur Konráð ekki búið í Klettaborg 3 í langan tíma, ef nokkuð, en mögulega leigt húsið út til annarra, eða selt nýbyggt. Um það verður ekki fullyrt hér. Lengst af bjó Konráð og kona hans, Þórhalla Jónsdóttir frá Brekknakoti í Reykjahverfi, í húsinu Norðurpól, sem stóð neðarlega á Oddeyrartanga, við Gránufélagsgötu. Á meðal fyrstu íbúa hússins voru þau Þuríður María Jónsdóttir og Guðmundur Þorsteinsson, en elsta heimild, sem timarit.is finnur um húsið er tilkynning um brúðkaup þeirra í mars 1949. Alls finnur sá ágæti gagnagrunnur 53 heimildir um Klettaborg 3 í prentmiðlum. Margir hafa átt og búið í Klettaborg í þá þrjá aldarfjórðunga, sem húsið hefur staðið og öllum auðnast að halda því við í hvívetna. Árið 1999 var húsinu breytt örlítið, eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarsonar, en að ytra byrði mun húsið að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð.
Klettaborg 3 er reisulegt og snyrtilegt hús í mjög góðri hirðu; virðist nýlega hafa hlotið ýmsar endurbætur s.s. glugga. Þá er lóðin gróskumikil, vel hirt og öll hin snyrtilegasta. Umhverfi þessara austustu og elstu húsa við Klettaborg er einmitt sérstaklega skemmtilegt, þau standa raunar í jaðri lítils skógarlundar í brekkunni neðan Hamarkots- og Skipaklappar en þar hefur töluvert vaxið upp á síðustu árum og áratugum. Á lóð Klettaborgar er einnig margt gróskumikilla trjáa. Ekki er höfundi kunnugt um, hvort Klettaborg 3 hafi varðveislugildi. Ætti síðuhafi hins vegar að úrskurða um, hvort þessi litla þyrping steinhúsa frá miðri 20. öld við Klettaborg, ætti að hafa eitthvert varðveislugildi, yrði svarið að sjálfsögðu já (kemur lesendur e.t.v. ekki á óvart). Þá er grænt og geðþekkt umhverfi Klettaborgarinnar einstaklega aðlaðandi. Í húsinu eru tvær íbúðir, ein á hvorri hæð. Myndin er tekin þann 20. september 2020.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 883, 5. sept. 1941. Fundur nr. 843, 3. okt. 1941. Fundur nr. 1031, 14. sept. 1945. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2021 | 17:22
Hús dagsins: Klettaborg 2
Klettaborg 2 stendur á horni, þar sem gatan liggur í vinkilbeygju til suðurs í átt að Byggðavegi, ef ekið er til austurs frá Dalsbraut. Húsið reisti Einar Guðmundsson árið 1945. Á fundi byggingarnefndar Akureyrar 5. sept. 1941 fengu tveir menn lóðir við þjóðveginn ofan Gefjunar. Var þá risið eitt hús, Aðalsteins Tryggvasonar, og var það notað sem viðmið við útvísun lóðanna, líkt og tíðkaðist. Fékk Einar Guðmundsson aðra lóð norðan við Aðalstein (þ.e. Klettaborg 3), en Konráð Vilhjálmsson næstu lóð norðan við Aðalstein (Klettaborg 2). Páll Friðfinnsson sótti ennfremur, fyrir hönd Einars, um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi, á einni hæð úr steinsteypu með skúrþaki, 12x9,5m að grunnfleti. Fjórum vikum síðar, þann 3. október, höfðu þeir Konráð og Einar síðan makaskipti á lóðum, þannig að Konráð fékk lóð nr. 3 og Einar nr. 2. Einar hélt væntanlega byggingarleyfinu á nýju lóðinni, en alltént var húsið risið þar tæpum fjórum árum síðar. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson.
Klettaborg 2 er einlyft steinhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Grunnflötur er nánast rétthyrningslaga, en þó er vestasti hluti hússins (bakhlið) eilítið inndreginn til norðurs og í kverkinni á milli, svalir til SV. Á framhlið eru inngöngudyr og steyptar tröppur með steyptu skýli yfir tröppunum, lokað til norðurs. Lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í gluggum. Steiningarmúr er á veggjum en bárujárn á þaki.
Klettaborg 2 hefur ekki skipt oft um eigendur eða íbúa en Einar Guðmundsson og kona hans, Elísabet Jóhanna Sigurðardóttir bjuggu í Klettaborg 2 í um 60 ár. Hann var fæddur á Húsavík en hún úr Skagafirði. Einar stundaði sjómennsku og vélaviðgerðir. Þau Einar og Elísabet hafa eflaust ræktað garðinn af alúð og natni og gróðursett fjölda trjáa. Um 1968 byggðu þau bílskúr við norðurmörk lóðarinnar, áfastan húsinu, eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarsson. Bílskúrinn snýr að götustubbi eða heimreið sem liggur frá götunni upp í brekkuna. Þar standa hús nr. 2, 3 og 4 í röð. Líklega er þetta eina húsaröðin í bænum, þar sem odda- og sléttar tölur standa hlið við hlið.
Klettaborg 2 er traustlegt og reisulegt steinhús í funkisstíl, nokkuð dæmigert fyrir byggingartíma, skömmu fyrir miðja síðustu öld. Það er næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð en virðist þó í góðri hirðu. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús. Ekki er síðuhafa kunnugt um, hvort húsið hafi varðveislugildi eður ei. Lóðin er vel gróin og þar er mikill trjágróður og ber þar mikið á gróskumiklum birki- og reynitrjám. Húsið stendur á nokkuð áberandi stað, ofan götu nærri fjölförnum slóðum. Það nýtur sín vitaskuld betur á veturna og vorin en á sumrin er það laufskrúð trjánna, sem er í algleymingi við Klettaborg 2. Myndin er tekin þann 20. september 2020.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 883, 5. sept. 1941. Fundur nr. 843, 3. okt. 1941. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2021 | 20:41
Hús dagsins: Klettaborg 1
Sumarið 1939 mun hafa verið annálað góðviðrissumar um allt land, sólríkt og veðursælt. Í júní það ár mældist rúmlega 30 stiga hiti á Teigarhorni í Berufirði mesti hiti sem mælst hefur hérlendis- og stendur það hitamet enn. En það var einmitt í lok sama mánaðar, júní 1939, að Aðalsteinn Tryggvason sótti um að byggja íbúðarhús, 9x10m á erfðafestulandi Konráðs Vilhjálmssonar. Ekki reyndist unnt að heimila nema bráðabirgðabyggingu á þessum stað, þar eð hann var utan skipulagðs svæðis. Það var síðan um haustið, að skipulagsnefnd heimilaði, að byggja mætti lág íbúðarhús í brekkunni ofan framhalds Brekkugötu ofan við Gefjun (þar sem Aðalsteinn var verkstjóri). Þar með lá fyrir byggingarleyfið fyrir. Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín.
Klettaborg 1 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og flötu þaki. Horngluggar eru til suðurs, í anda funkisstefnunar. Krosspóstar eru í gluggum og veggir múrsléttaðir. Norðurhlið framhlið skagar eilítið fram og í kverkinni á milli eru inngöngudyr og þá er einnig útskot til suðurs. Miklar og veglegar steyptar tröppur liggja frá götubrún upp að húsi, sem stendur ívið hærra en gatan. Við götubrún, nyrst og austast á lóðinni stendur steinsteyptur bílskúr, byggður 1977 eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarssonar.
Aðalsteinn Tryggvason, sem fæddur var á Akureyri árið 1908 starfaði allan sinn starfsaldur á Ullarverksmiðjunni Gefjun en faðir hans, Tryggvi Jónsson, var þar verkstjóri. Á Gleráreyrum var sem kunnugt er, vagga Akureyrsk iðnaðar í hartnær heila öld allt frá stofnun Tóvélanna árið 1897. Um og eftir miðja síðustu hluta öld risu þarna miklar verksmiðjubyggingar, sumar þeirra þær stærstu og veglegustu á landinu. Atvinna var þar trygg og algengt að fólk ynni þarna áratugum saman og margir ættliðir innan sömu fjölskyldna. Aðalsteinn vann á Gefjun í 40 ár, en hann lést í árslok 1966. Hann var kvæntur Kristínu Konráðsdóttur, frá Hafralæk í Aðaldal. Bjuggu þau hér í hartnær þrjá áratugi, hann til æviloka. Ekki hefur verið langt fyrir Aðalstein í vinnuna, því Gefjun var beint neðan við Klettaborg Stóð, því í ársbyrjun 2007 voru öll fyrrum verksmiðjuhúsin jöfnuð við jörðu, vegna stækkunar verslanamiðstöðvarinnar Glerártorgs.
Klettaborg 1, sem er einbýlishús, mun að ytra byrði að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð. Er það í mjög góðri hirðu og hefur líkast til alla til hlotið hið besta viðhald. Þá er lóðin bæði vel gróin og vel hirt og stendur húsið skemmtilega á háum kanti. Liggja að því mjög veglegar og reisulegar steyptar tröppur frá götu. Þá er bílaplan fremst á lóð innrammað af miklum tilhöggnum björgum. Allur er frágangur hinn snyrtilegasti og húsið og umhverfi þess til mikillar prýði. Sunnan við húsið, í brattri brekku, er dálítill trjálundur þar sem mikið ber m.a. á birki- og grenitrjám. Er þarna um að ræða einstaklega skemmtilegt og aðlaðandi umhverfi. Ekki hefur verið unnin húsakönnun fyrir Klettaborg svo höfundur viti til og því ekki kunnugt um hugsanlegt varðveislugildi. Hins vegar er ljóst, að þessi elsti hluti Klettaborgar er sannarlega áhugaverð og skemmtileg heild. Myndin er tekin þann 20. september 2020.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 838, 30. júní 1939. Fundur nr. 843, 6. okt. 1939. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2021 | 20:08
Klettaborg í máli og myndum
Á næstu vikum mun ég fjalla um elstu húsin við götuna Klettaborg ofan Gleráreyra. Formálinn að færslunni nr. 1 var orðinn heldur langur, enda má segja að ég hafi farið örlítið framúr mér í staðháttalýsingum, svo ég ákvað að þessi formáli yrði einfaldlega að sjálfstæðri færslu, þar sem myndir töluðu einnig sínu máli.
Brekkunni á Akureyri mætti lýsa sem breiðum og víðlendum hjalla, sem skagar til austurs undan Eyrarlandshálsinum. Víða á Brekkunni má finna hin ýmsu gil og skorninga, sem og klappir og klettaborgir. Nyrst og austast , næst Glerá má t.d. nefna Hamarkotsklappir, Lækjardal (þar sem Dalsbraut liggur) og Kotárborgir (við Sólborg). Vestasti og efsti hluti Hamarkotsklappa trónir hátt yfir Gleráreyrum, og þar suður af eru ystu götur Mýrahverfis. Neðan fyrrgreindrar klappar að austan er þéttingsbrött hlíð upp af Gleráreyrum en öll er hún meira aflíðandi norðanmegin. Umrædda hlíð þræðir gatan Klettaborg, en hún er að stofni til fyrrum þjóðvegur úr bænum, sem löngum lá um Brekkugötu og yfir Glerá ofan Gleráreyra.
Klettaborg er nokkuð löng gata sem liggur í nokkrum víðum bogum frá SA í NV frá Byggðavegi að Dalsbraut. Stundum er rætt um götuna sem sérstakt hverfi, en við hana standa fjölmörg hús, einbýlishús og raðhús, flest byggð á 1. áratug 21. aldar, og töluverður spölur í næstu íbúðagötur. Þar er um að ræða ytri hluta götunnar, sem tengist Dalsbraut í norðri, en segja má að gatan skiptist í tvær aðskildar húsaþyrpingar, norðvestantil (ytri) og suðaustan. Yngri byggðin er norðvestanmegin en austar og sunnar, á horni hlíðarinnar bröttu upp af Gleráreyrum, standa fjögur hús sem byggð eru á árunum 1939-46. Þau voru í upphafi úti í sveit á mörkum Akureyrarkaupstaðar, en á þeim tíma náði lögsagnarumdæmi bæjarins að Glerá, sem er u.þ.b. 150 metra frá þessum slóðum.
Klettaborg, eða öllu heldur eldri hlutinn, hefur athygliverða sérstöðu hvað varðar númerakerfi. Það er, að númerin 1-4 standa öll í röð sömu megin götunnar, þ.e. sléttar og oddatölur eru ekki mótstæðar. Klettaborg er rúmlega 700m löng.
Efst: Horft til vesturs að yngri húsaþyrpingu Klettaborgar, 20. sept.
Önnur: Horft yfir norðvesturhluta Klettaborgar, af Skipaklöpp, norðan Mýrarvegar. Fjær er Glerárþorp, en vinstra megin sjást byggingar Háskólans á Akureyri á Sólborg.
Þriðja (hér vinstri): Mót Klettaborgar og Byggðavegur haustið 2020. Dágóður trjálundur er í brekkunni ofan götunnar, þarna í haustlitum, myndin enda tekin 20. september.
Til vinstri (neðsta mynd): Horft til vesturs að klettinum ofan Gleráreyra þann 22. janúar 2021. Bílastæði Glerártorgs í forgrunni og vestasta horn verslunarmiðstöðvarinnar í hægri jaðri myndar. Suðausturhluti Klettaborgar sést skera hlíðina fyrir miðri mynd og hægra megin sér í Klettaborg 1 og 2. Skíðamaðurinn til vinstri er síðuhafi (en ekki hver)
Bloggar | Breytt 10.4.2022 kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.1.2021 | 09:09
Hús dagsins: Þrastalundur v. Mýrarveg
Mýrarvegur er ein af aðalbrautum Brekkunnar og sunnan Þingvallastrætis skiptist byggðin í Byggðir og Lundi um veginn. Síðarnefnda hverfið er yngra og stendur vestan og ofan Mýrarvegar. Á horni Mýrarvegar og Skógarlundur stendur húsið Þrastalundur en það hús er töluvert eldra en nærliggjandi byggð. Stutt gata að húsinu frá Mýrarvegi nefnist Þrastarlundur.
Þrastalund reisti Grímur Sigurðsson árið 1942. Hann fékk í apríl það ár byggingarlóð sunnan við Vesturgötu, í erfðafestulandi Júníusar Jónssonar. Fékk hann að reisa íbúðarhús, eina hæð á kjallara úr járnbentri steinsteypu, með járnklæddu timburþaki. Bygginganefnd ítrekaði í bókun sinni um byggingarleyfi til handa Grími, að húsið skyldi sett niður í samráði við byggingarfulltrúa, með forhlið að götu. (Bygg.nefnd. Ak, 1942:Þá var tekið fram. að á þessum stað væri hvorki aðgangur að skólpveitu né vatnsveitu bæjarins. Þannig yrði húsbyggjandi að gera safnþró og kosta vatnsleiðslu heim að húsi. Árið 1942 var þessi staður nefnilega töluvert ofan við þéttbýlismörk Akureyrar; upp í sveit. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið, en á kortasjá Akureyrarkaupstaðar má finna járnateikningar af húsinu eftir H. Halldórsson, dagsettar í júlí 1942. Giskar höfundur á, að þarna sé um að ræða Halldór Halldórsson byggingafræðing.
Rétt er að geta þess, áður en lengra er haldið, að húsið virðist ýmist nefnt Þrastalundur eða Þrastarlundur. Í eldri heimildum kemur heitið fyrir án r-s, m.a. í viðtali við Grím Sigurðsson árið 1956, sem og í afmælisgrein um hann árið 1962. Hvort ÞrastAlundur eða ÞrastaRlundur sé réttara, eða jafnvel hvort tveggja rétt; Þrastarlundur er kenndur við einn þröst (eða mann að nafni Þröstur, en Þrastalundur er kenndur við marga þresti. Höfundur bar þetta undir Facebook-hópinn Brekkan fyrr og nú og af svörum þar mátti ráða, að Þrastarlundur sé útbreiddara a.m.k. í seinni tíð. Hins vegar kom þar fram með óyggjandi hætti, að heitið Þrastalundur sé í raun hið upprunalega og Grímur Sigurðsson og er sá ritháttur í samræmi við vilja Gríms Sigurðsson og fjölskyldu hans. Í samræmi við upprunan kýs höfundur að nota heitið Þrastalundur. Hins vegar kemur ÞrastaRlundur oftar fyrir í Akureyrarmiðlum á timarit.is og er á öllum opinberum gögnum varðandi húsið, auk þess sem samnefnd stutt gata að húsinu heitir Þrastarlundur. Þá ber íbúðakjarninn í byggingunni óumdeilanlega nafnið Þrastarlundur.
Húsið Þrastalundur er í raun tvær álmur, sú vestari er upprunalegt hús, einlyft steinhús á háum kjallara með lágu valmaþaki. Á norðurhlið er einlyft viðbygging með valmaþaki. Vestur úr þeirri byggingu er tengibygging yfir í vesturálmu. Er hún einlyft með flötu þaki. Veggir eru flestir múrsléttaðir, bárujárn á vestra húsi en væntanlega dúkur á flötu þaki vesturálmu. Gluggasetning hússins er ýmis konar, en á elsta hlutanum eru horngluggar í anda funkisstefnunnar, sem mjög var ríkjandi hérlendis á 4. og 5. áratugnum.
Grímur Sigurðsson útvarpsvirki, sem byggði Þrastalund, bjó þar hartnær þrjá áratugi, var Skagfirðingur og ólst m.a. upp í Málmey. Hann starfaði við útvarpsvirkjun í upp undir hálfa öld, á útvarpsverkstæði KEA frá 1938 til 1960 en stofnsetti þá eigið útvarpsverkstæði. Um tíma sinnti hann útvarpsviðgerðum um nánast allt land. Grímur annaðist upptökur á öllu útvarpsefni frá Akureyri um árabil, m.a. í upptökuveri á heimili sínu í Þrastalundi. Grímur var kvæntur Soffíu Sigurðardóttur, sem var Akureyringur. Plöntuðu þau mörgum trjám og ræktuðu glæstan skrúðgarð á víðlendri lóð Þrastalunds. Hlutu þau m.a. verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar fyrir skrúðgarð árið 1958. Var húsið alla tíð einbýli. Árið 1995 fékk Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra húsið til afnota. Í kjölfarið var ráðist í miklar endurbætur á húsinu, m.a. reist viðbygging til norðurs, og húsið innréttað sem sambýli. Árið 2011 var vesturálma reist, eftir teikningum Fanneyjar Hauksdóttur og nú mun aðstaðan í þjónustukjarnanum Þrastarlundi vera öll með besta móti.
Þrastalundur er reisulegt og glæst hús og er frágangur á viðbyggingum og tenging milli eldra og yngra húss einstaklega vel útfærð, svo funkishúsið frá 5. Áratugnum nýtur sín eftir sem áður þrátt fyrir miklar breytingar og viðbyggingar. Húsið er vissulega sem nýtt á allan hátt og í mjög góðri hirðu. Ekki liggur fyrir húsið hefur varðveislugildi, en það er álit síðuhafa, að hús á borð við Þrastalund, sem reist eru áratugum á undan umlykjandi byggð og hafa þannig verið í dreifbýli, eigi að hafa varðveislugildi. Húsið og umhverfi þess mjög snyrtilegt og í frábærri hirðu og trjálundurinn, þar sem nokkuð ber á birki-, reyni og grenitrjám sannkölluð græn perla og er eflaust til mikillar ánægju og yndisauka. Í Þrastalundir er, sem áður segir, rekinn þjónustukjarni eða sambýli og eru þar nokkrar þjónustuíbúðir. Hefur þetta ágæta hús gegnt því hlutverki í um aldarfjórðung. Myndirnar eru teknar þann 3. nóvember 2020. Á efri myndinni er húsið séð frá Mýrarvegi (austurhlið) en neðri myndin er tekin við Skógarlund og sýnir vesturálmu hússins.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1951-58. Fundur nr. 905, 10. apríl 1942. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Þakka skjót, góð og umfram allt, fræðandi og áhugaverð viðbrögð á Facebook-hópnum Brekkan fyrr og nú
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2021 | 15:28
Hús dagsins: Háteigur v. Eyjafjarðarbraut
Þá er komið að fyrsta "Húsi dagsins" árið 2021. En það hús stendur á lágum hól syðst í horni skógarreitsins við gömlu Gróðrarstöðina á Krókeyri, sunnarlega í Innbænum, og nefnist Háteigur.
Haustið 1946 fluttust tvær fjölskyldur samtímis til Akureyrar frá Þórshöfn á Langanesi. Annars vegar Karl Ásgrímur Ágústsson og Þórhalla Steinsdóttir og hins vegar Helga Ágústsdóttir, systir Karls og maður hennar Ágúst Georg Steinsson. (Þórhalla og Ágúst voru ekki systkin, ef lesendur velta því fyrir sér). Þau síðarnefndu fluttu að Litla-Garði en Ágúst og Helga fluttust að Vökuvöllum, skammt frá Naustum. En um sumarið hafði Ágúst fengið leyfi til að [...]byggja hús á fyrir túnhorninu sunnan við Gróðrarstöðina, samkvæmt meðfylgjandi teikningu.[...] (Bygg.nefnd. Ak. 1946: 1056) Húsið var sagt einlyft með timburlofti, en ekki tekið fram sérstaklega, að húsið sé steinhús. Umræddar meðfylgjandi teikningar eru ekki aðgengilegar á landupplýsingakorti Akureyrar, og ekki heldur upplýsingar um hver teiknaði. (E.t.v. Tryggvi Jónatansson ?) Þar liggja hins vegar fyrir upprunalegar raflagnateikningar af Háteigi, undirritun orðin ógreinileg, en dagsetningin er 22. júlí 1946.
Háteigur er einlyft steinhús í funkisstíl, með lágu valmaþaki og smáum útskotum til austurs og norðurs. Veggir eru múrhúðaðir og bárujárn á þaki og krosspóstar í flestum gluggum. Þá er einnig stærra útskot til suðurs og er þar um að ræða viðbyggingu.
Fullbyggður mun Háteigur hafa verið 1947 og urðu fjölskyldurnar fyrrnefndu þar með nágrannar við Eyjafjarðarbrautina, því Litli- Garður stendur aðeins um 150 metra sunnan Háteigs. Eru húsin byggð úr landi Nausta, líkt og drjúgur hluti sunnanverðs bæjarlands Akureyrar. Í Byggðum Eyjafjarðar fer ekki miklum sögum af búskap á Háteigi og líkast til var hann í öllu falli fremur smár í sniðum. En ekki skiptir öllu magnið heldur gæðin. Ágúst Steinsson og Helga Ágústsdóttir bjuggu ekki lengi í Háteigi, því árið 1952 keypti Tilraunaráð ríkisins húsið og varð það íbúðarhús forstöðumannsins, Árna Jónssonar. Árni, sem fæddur var og uppalinn í Sandfellshaga í Öxarfirði, hafði unnið að ýmsum ræktunar- og búvísindastörfum á Suðurlandi, m.a. í Ölfusi og Fljótshlíð. Árni var ráðinn forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar á Akureyri árið 1949 og bjó fyrstu árin í Gróðrarstöðvarhúsinu. Á þeim árum stóðu til miklar byggingarframkvæmdir við Gróðrarstöðina, en kaup Tilraunaráðsins á Háteigi kom í stað þeirra áforma. Bjó Árni í Háteigi ásamt fjölskyldu sinni í ríflega hálfan annan áratug, eða til 1969. Eiginkona Árna Jónssonar var Ingibjörg Rist Lárusdóttir. Hafa síðan ýmsir átt og búið í Háteigi. Um 1978 var byggt við húsið til suðurs, eftir teikningum Aðalsteins V. Júlíussonar, og á sama tíma byggður bílskúr norðan við húsið.
Háteigur er sérlega snyrtilegt og reisulegt hús og umhverfi þess til mikillar prýði. Stendur það innan um sérlega gróskumikinn skógarreit og ber þar mikið á t.d. öspum og greni. Yfir sumarið er húsið nánast hulið vegfarendum Eyjafjarðarbrautar. Háteigur hefur ekki verið tekinn fyrir í neinni húsakönnun svo síðuhafi viti til og þar af leiðandi ekki kunnugt um varðveislugildi hússins. Byggingargerð hússins er nokkuð dæmigerð fyrir fimmta áratuginn, einlyft og látlaust funkishús. Háteigur er vitaskuld ekki hluti neinnar götumyndar en segja má, að hann sé þátttakandi í skemmtilegri heild dreifbýlis við syðri mörk Akureyrarkaupstaðar (gegnt Flugvellinum) og auðvitað ætti sú torfa að njóta einhvers varðveislugildis. A.m.k. að áliti síðuhafa. Húsið er einbýli og hefur alla tíð verið svo. Myndirnar af Háteigi eru teknar þann 26. apríl 2020, þar sem horft er til vesturs frá Drottningabrautinni, en önnur í ljósaskiptunum þann 3. janúar 2021, og sýnir hún norðurhlið Háteigs.
Í brekkunum ofan Háteigs eru matjurtagarðar Akureyringa, en frá árinu 2009 hefur bæjarbúum boðist að leigja um 15 fermetra skika til ræktunar. Er um að ræða mjög vinsæla þjónustu og oftar en ekki komast færri að en vilja. Verður það enda æ fleirum ljóst, hversu dýrðlegt og gefandi það er, að rækta eigið grænmeti. Ávinningurinn er raunar margfaldur, fjárhagslegur og umhverfislega - auk þess hlýtur það ætíð að bragðast best, sem maður hefur ræktað sjálf/ur. Síðuhafi veltir því raunar stundum fyrir sér, hvort húsfélög eða einstaka íbúar fjölbýlishúsa, sem mörg hver standa á nokkuð víðlendum lóðum, hugkvæmist aldrei, að koma upp matjurtagörðum fyrir íbúa sem það vilja. Myndin til hliðar er tekin 24. september 2017.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1056, 21. júní 1946. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Bloggar | Breytt 17.1.2021 kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2021 | 23:13
Húsaannáll 2020
Hér gefur að líta, á einu bretti, "Hús dagsins" færslur ársins 2020. Á nýliðnu ári var ég fyrst og fremst staddur á syðri Brekkunni, Oddeyri, Miðbænum og fáein hús tók ég fyrir í Innbænum. Að mörgu leyti var þarna um að ræða hús við götur, sem ég hafði fjallað um að hluta til á árum áður en þótti upplagt, að bæta við. En hér eru "Hús dagsins" ársins 2020.
JANÚAR | ||
6. jan. | 1940 | |
11. jan. | 1942 | |
16. jan. | 1943 | |
21. jan. | 1946 | |
25. jan. | 1938 | |
29. jan. | 1944 | |
FEBRÚAR | ||
3. feb. | 1947 | |
7. feb. | 1944 | |
10. feb. | 1935 | |
15. feb. | 1938 | |
19. feb. | ||
27. feb. | 1943 | |
MARS |
| |
4. mars | 1946 | |
7. mars | 1943 | |
12. mars | 1949 | |
17. mars | 1947 | |
21. mars | 1948 | |
25. mars | 1935 | |
29. mars | 1935 | |
APRÍL | ||
1. apríl | 1931 | |
5. apríl | 1930 | |
11. apríl | 1931 | |
17. apríl | 1930 | |
28. apríl | 1931 | |
MAÍ | ||
1. maí | 1944 | |
6. maí | 1944 | |
14. maí | 1944 | |
21. maí | 1947 | |
28. maí | 1945 | |
JÚNÍ | ||
3. júní | 1933 | |
10. júní | 1942 | |
15. júní | 1942 | |
19. júní | 1939 | |
23. júní | 1996 | |
JÚLÍ | ||
3. júlí | 1949 | |
15. júlí | 1952 | |
20. júlí | 1992 | |
25. júlí | 1943 | |
31. júlí. | 1986 | |
ÁGÚST | ||
4. ágúst | 1943 | |
13. ágúst | 1953 | |
23. ágúst | 1954 | |
29. ágúst | 1946 | |
SEPTEMBER | ||
6. sept. | 1946 | |
18. sept. | 1952 | |
27. sept. | 1946 | |
" | Grænagata 6* (sama grein og Grænagata 4) | 1946 |
OKTÓBER | ||
3. okt. | 1946 | |
" | Grænagata 10* (sama grein og Grænagata 8) | 1946 |
5. okt. | 1962 | |
16. okt. | 1945 | |
24. okt. | 1946 | |
NÓVEMBER | ||
3. nóv. | 1942 | |
9. nóv. | 1947 | |
12. nóv. | 1951 | |
18. nóv. | 1952 | |
25. nóv. | 1947 | |
DESEMBER | ||
1. des. | 1948 | |
6. des. | 1945 | |
9. des. | 1957 | |
10. des. | 1926 | |
12. des. | 1941 | |
17. des. | 1933 | |
21. des. | 1971 | |
22. des. | 1992 | |
27. des. | 1954 | |
29. des. | 1942 | |
Meðaltal byggingarára | 1946,791 |
Á árinu 2020 tók ég fyrir alls 67 hús. Elsta húsið, Hafnarstræti 23b, er 94 ára, en það yngsta, Skipagata 9, er 24 ára. Eins og sjá er meðaltal byggingarára "Húsa dagsins" u.þ.b. 1946,8, þannig að meðalaldurinn er um 74 ár.
Í fyrsta skipti frá upphafi þessarar vegferðar, fjallaði ég, á árinu 2020, eingöngu um hús sem byggð voru á 20. öld. Það kemur e.t.v. ekki á óvart, að ég er einfaldlega löngu búinn að fjalla um flest þau hús á Akureyri, sem byggð eru fyrir 1900, en þau munu vera ríflega 70 talsins, eftir því sem ég kemst næst. (Hér er sá fyrirvari, að ég þekki minna til í Hrísey og Grímsey- en mögulega bæti ég einhvern tíma úr því).
En hvaða hús munu birtast hér á árinu 2021 ? Því er fljótsvarað- það er óákveðið. Fyrsta hús dagsins á árinu 2021 birtist á næstu dögum, þá eru nokkur hús frá 5. áratugnum við götu eina, sem ég ljósmyndaði sl. haust og tek fyrir núna í janúar. Þá er mögulegt, að ég birti einhverja ítarlegri pistla um gömlu býli Glerárþorps. Í einhverjum tilfellum voru þau aðeins "afgreidd" hér með fáeinum setningum- þá vegna skorts á heimildum- sem ég hef komist yfir í millitíðinni. Sjáum bara til .
Bloggar | Breytt 17.1.2021 kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2021 | 15:09
Nýárskveðja
Óska lesendum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna.
Megi sem flestir landsmenn- og jarðarbúar allir- verða bólusettir gegn veiruófétinu skæða á nýju ári og heimsbyggðin öðlast hjarðónæmi.
(Nýársmyndin sýnir héluð strá við Suðurbraut á Ásbrú og er myndin tekin laust fyrir hádegi í dag, 1. jan. 2021).
Bloggar | Breytt 2.1.2021 kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.7.): 34
- Sl. sólarhring: 34
- Sl. viku: 283
- Frá upphafi: 451255
Annað
- Innlit í dag: 27
- Innlit sl. viku: 222
- Gestir í dag: 26
- IP-tölur í dag: 26
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar